Kjarnastefna velferðar
Málsnúmer: | 16/2018 |
---|---|
Tillaga: | Kjarnastefna velferðar |
Höfundur: | epli |
Í málaflokkum: | Velferðar- og forvarnamál |
Upphafstími: | 05/04/2018 15:45:03 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 10/04/2018 15:45:03 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 15/04/2018 15:45:03 (0 minutes) |
Atkvæði: | 16 |
Já: | 15 (93,75%) |
Nei: | 1 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Kjarnastefna velferðar
Hluti af velferðarstefnu Pírata í Reykjavík
Með tilvísun í:
Grein §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
Upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar
(https://reykjavik.is/sites/default/files/upplysingastefna-samthykkt.pdf](https://reykjavik.is/sites/default/files/upplysingastefna-samthykkt.pdf) )
Þjónustustefnu Reykjavíkurborgar (https://reykjavik.is/sites/default/files/thjonustustefnareykjavikurborgar.pdf](https://reykjavik.is/sites/default/files/thjonustustefnareykjavikurborgar.pdf) )
Sveitarstjórnarlaga (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011138.html](https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011138.html) )
Laga um félagsþjónustu sveitarfélaga
(https://www.althingi.is/lagas/nuna/1991040.html](https://www.althingi.is/lagas/nuna/1991040.html) )
álykta Píratar í Reykjavík að:
Grunnforsenda velferðar
Grunnforsenda þess að fólk geti nýtt borgaraleg og lýðræðisleg réttindi sín er að það hafi fullt aðgengi að samfélaginu.
Reykjavíkurborg ber að veita fólki þá aðstoð sem nauðsynleg er til að jafna aðgengi þess að samfélaginu og styðja það til valdeflingar.
Í upplýsingum felast völd og því á að deila þeim með borgarbúum.
Reykjavíkurborg ber að tryggja félagslegt öryggisnet fyrir íbúa þannig að þeir geti séð fyrir sér og sínum.
Enginn á að þurfa að vera heimilislaus í Reykjavík.
Forvarnarstarf gagnvart félagslegum og geðrænum erfiðleikum þarf að efla í grunnskólum, heilsugæslu og tómstundastarfi barna og unglinga.
Þétt þjónustunet
Reykjavíkurborg bjóði upp á þétt öryggisnet sem grípur fólk sem þarf á aðstoð að halda og mætir því á þeirra forsendum, í stað þess að hólfa það niður í fyrirfram skilgreinda kassa.
Þjónustukeðjan sé skilgreind út frá notendamiðuðu sjónarhorni og áhersla sé lögð á samfellda þjónustu og forvarnarstarf.
Reykjavíkurborg bjóði upp á og styðji við valdeflandi félagsleg úrræði í nærsamfélaginu, þar sem fólk er stutt til sjálfshjálpar og fær að vinna úr sínum málum á sínum forsendum.
Unnið sé að því í samstarfi við ríkið að félagsleg úrræði borgarinnar séu fyrsti snertiflötur borgarbúa sem þurfa á stuðningi að halda.
Viðmót velferðarþjónustu Reykjavíkuborgar í rafrænum þjónustugáttum og þjónustu verði endurskoðað með aðgengi að leiðarljósi.
Samráð sé haft við notendur velferðarþjónustu við mótun og þróun þjónustunnar á öllum stigum..
Stefna skuli að því að þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar séu reknar þvert á öll svið borgarinnar.
Áhersla skal lögð á úrræði sem valdefla þá sem farið hafa af vinnumarkaði, með það að markmiði að auka starfsfærni þeirra og aðstoða þá við að komast aftur til virkni.
Tryggt aðgengi að upplýsingum
Notendur þjónustu eigi að hafa fullan aðgang að öllum upplýsingum er varða hagi þeirra og réttindi.
Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að upplýsa íbúa um félagsleg réttindi sín og þá þjónustu sem þeim kann að standa til boða hverju sinni.
Þjónustunotendur skulu hafa greitt aðgengi að upplýsingum um hvar mál þeirra eru stödd hverju sinni.
Reykjavíkurborg skuli upplýsa þjónustunotendur tímanlega um breytingar sem kunna að hafa áhrif á þjónustu til þeirra. Upplýsa skuli fyrirfram um breytingar sem áætlaðar eru, og aftur um leið og þær hafa átt sér stað.
Starfsfólk borgarinnar skuli vera vel upplýst um og þjálfað í ofangreindum áherslum.
Embætti umboðsmanns borgarbúa skuli styrkja í því hlutverki sínu að fræða starfsfólk og íbúa Reykjavíkurborgar um þjónustu borgarinnar. Sérstök áhersla verði lögð á frumkvæðis- og fræðsluskyldu borgaryfirvalda.
Stoppað í kerfisgötin
Reykjavíkurborg tryggi að fólk sem fellur á milli kerfa sé gripið og málum þeirra komið í réttan farveg.
Velferðarkerfi borgarinnar sé nægjanlega sveigjanlegt til að hægt sé að taka ákvarðanir til að koma til móts við þarfir fólks sem strangt til tekið passar ekki í fyrirfram mótaða þjónustukassa.
Einnig skal leitast við að útvíkka kassana þannig að svigrúm til einstaklingsmiðaðra úrræða sé aukið.
Embætti umboðsmanns borgarbúa greini hvar þjónusta velferðarsviðs við íbúa skerðist og bæti þar úr. Umboðsmaður fái aukið svigrúm til að hafa úrskurðarvald í slíkum málum.
Innheimta skulda einstaklinga við Reykjavíkurborg verði mannúðlegri og valkostir til endurgreiðslu verði fjölbreyttari.
Samvinna og samábyrgð sveitarfélaga
Reykjavíkurborg leitist eftir auknu samstarfi við önnur sveitarfélög um félagslega þjónustu til að tryggja samfellu milli sveitarfélaga.
Fólk geti í auknum mæli haldið áunnum réttindum úr öðrum sveitarfélögum þegar það flytur til Reykjavíkur. Dregið sé úr kröfum um langa samfellda búsetu í Reykjavík til að fólk öðlist réttindi á félagslegri aðstoð.
Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að samningum við önnur sveitarfélög um kostnaðarhlutdeild þeirra þegar Reykjavíkurborg þjónustar íbúa frá öðrum sveitarfélögum.
Tryggir tekjustofnar
Reykjavíkurborg séu tryggðir tekjustofnar til að standa undir velferðarskyldum sínum.
Reykjavíkurborg fari yfir kostnað við velferðarverkefni á sínu forsvari. Í þeim málaflokkum sem þess gerist þörf skuli leitast við að endursemja við ríkið um kostnaðarþátttöku.
Skoðað verði til hlítar að nýta jöfnunarsjóð sveitarfélaga til jöfnunar á útgjöldum vegna velferðar.
Greinargerð:
Reykjavíkurborg veitir umfangsmikla velferðarþjónustu sem töluverður metnaður er lagður í. Engu að síður eru ennþá mörg sóknarfæri þegar kemur að því að gera velferðarkerfi borgarinnar aðgengilegra íbúum og nútímavæða ferla. Þótt notendasamráð (en síður notendastýring) eigi sér þó nokkuð langan aðdraganda sem meðvituð hugmyndafræði innan kerfsins hefur það ekki komist til framkvæmda nema að litlu leyti. Mikil þróun hefur átt sér stað í þjónustu við íbúa en ekki hefur verið gert ráð fyrir margbreytileika allra íbúa Reykjavíkur. Hér þurfa kjörnir fulltrúar að vera leiðandi í að móta stefnu og skapa svigrúm fyrir starfsfólk til að opna kerfin. Íbúar hafa mismunandi þarfir og þeim þarf að mæta þar sem þeir eru staddir. Fyrirfram skilgreinda “kassa” þarf að brjóta upp og bjóða starfsfólki frekar upp á að geta komið beint til móts við þarfir einstaklingsins hverju sinni. Kassar eru hér notaðir til að lýsa þeim skilgreiningum sem notaðar eru til að útlista þarfir og réttindi notenda.
Þjónustumiðstöðvar þurfa að auka samræmi í þjónustunni sem þær veita. Íbúar hafa ekki fullt aðgengi að upplýsingum um réttindi sín eða hvert skuli leita eftir þjónustu. Mikilvægt er að fylgja eftir nýjum stefnum og stuðla að þróun nýrra úrræða og ferla. Sem dæmi má nefna áhugaverða þróun í Árósum með tilkomu borgaraskrifstofu sem deilir húsnæði með bókasafni í lýðræðismiðstöð. Þar tókst að stytta tímann frá því sótt er um fjárhagsaðstoð þar til hún er veitt í um sólarhring. Hér getur upplýsingatæknin opnað ferla algjörlega upp á gátt og stórbætt aðgengi fólks að upplýsingum, ef hún er virkjuð rétt.
Það háir notendum að úrræði eru nokkuð föst og ósveigjanleg. Þjónustan þarf að byrja hjá notendum og vera einstaklingsmiðuð. Barn sem er einmana og kvíðið getur til að mynda, ef vel tekst til, fengið stuðning með félagslegri liðveislu og farið með viðkomandi í bíó, en það er engu að siður mjög takmarkað úrræði. Leggja þarf áherslu á nána samvinnu fjölskyldna, velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs og þeirra sem við á þar sem barnið sjálft og þarfir þess eru í forgrunni. Borgin þarf að ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að innheimtu skulda og viðhafa sveigjanleika. Einnig mætti skoða það af alvöru að bjóða fólki að greiða skuldir á öðru formi en með beinhörðum peningum, til dæmis með vinnuframlagi. Það getur verið valdeflandi að fá kost á því að leggja sitt af mörkum til borgarinnar.
Forvarnarstarf er áhrifarík aðferð til skaðaminnkunar og mikilvægur liður í því að auka lífsgæði fólks og koma í veg fyrir þær afleiðingar sem geta orðið á félagslegar aðstæður og heilsu, þá sérstaklega geðheilsu. Meðal þeirra leiða sem hægt er að fara í þessu samhengi er ábending sem Pírötum hefur borist frá Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ), þar sem þau leggja til að farið sé í samstarfsverkefni sveitarfélaga, heilsugæslu, grunnskóla og ÖBÍ um skimunarverkefni í grunnskólum og heilsugæslu.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er er oftast fyrsti viðkomustaður einstaklinga og sinnir forvarnarstarfi íbúa þess og skólaheilsugæslu. Með breiðari aðkomu fleiri aðila að forvarnarstarfinu er hægt að aðlaga forvarnarstarf að ólíkum þörfum einstaklinga.