Málefni aldraðra
Málsnúmer: | 17/2018 |
---|---|
Tillaga: | Málefni aldraðra |
Höfundur: | epli |
Í málaflokkum: | Velferðar- og forvarnamál |
Upphafstími: | 05/04/2018 15:45:24 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 10/04/2018 15:45:24 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 15/04/2018 15:45:24 (0 minutes) |
Atkvæði: | 15 |
Já: | 15 (100,00%) |
Nei: | 0 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Málefni aldraðra
Hluti af velferðarstefnu Pírata í Reykjavík
Með vísan í:
Grein §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
Og með til hliðsjónar:
Álykta Píratar í Reykjavík að:
Markmið stefnunnar er:
Að endurskoða stefnu um þjónustuíbúðir með það að markmiði að bjóða víðari hóp upp á aðgengi að þjónustuíbúðum.
Að auka félagslega virkni aldraðs fólks til að vinna gegn einangrun, lengja opnunartíma félagsmiðstöðva og færa frumkvæði að meiru leyti til borgarinnar.
Leiðir:
Endurhugsa skal hugmyndafræðina á bak við þjónustuíbúðir og víkka þann hóp sem megi sækja um að komast í þess konar húsnæði
Draga skuli úr miðstýringu á framreiðslu eldhúsanna og þau hafi vald til að ákveða sjálf hvort eldað sé á staðnum eða pantað frá Vitatorgi.
Taka skuli aftur upp þá stefnu að ráða leiðbeinendur í vinnustofur á vegum borgarinnar. Gera skuli úttekt á árangri sjálfbærs félagsstarfs og endurskoða kerfið í samræmi við niðurstöður.
Lengja skuli opnunartíma félagsmiðstöðva borgarinnar og bjóða upp á helgaropnun.
Borgin sé hvetjandi hvað varðar kynslóðablöndun í sínu starfi, bæði félagsstarfi eldri borgara og leik- og grunnskólastarfi.
Að hægt verði að nýta akstursþjónustuna til að koma gögnum frá heimilum fólks yfir til þeirra aðila sem eiga taka við þeim. Einnig skal veita aðstoð við að skila gögnum rafrænt.
Farið verði í átak í því skyni að því að veita aðstoð og kennslu í raf- og snjalltækjavæðingu eldri borgara.
Bæta skal gæði heimaþjónustunnar og leggja aukna áherslu á forvarnir í þeirri þjónustu.
Farið verði í átak þess efnis að skoða hvort og hvernig sé hægt að mæta eldri borgurum sem eru að eiga við kvíða að stríða.
Endurskoða skuli hvort borgin eigi að útvíkka dagdvöl eldri borgara í félagsmiðstöðvum borgarinnar.
Greinargerð:
Það ætti að vera markmið með þjónustu borgarinnar við fólk á efri árum að allir geti búið mannsæmandi lífi þar sem þörfum þeirra er mætt. Hvort sem það er í séreign, í þjónustuíbúð eða á hjúkrunarheimili og sérstakt markmið ætti að vera að ganga úr skugga um að fólk festist ekki í búsetu sem hentar því ekki eða það vill ekki. Efla þarf heimaþjónustu og ganga þarf úr skugga um að fjöldi hjúkrunarrýma anni eftirspurn. Einnig skal gæta þess að heimaþjónustan geti sinnt þörfum aðstandenda, en þeir þurfa oft á stuðningi eða fræðslu að halda, t.d. forvarnarfræðslu, en þetta er eðlilegt að sé á verksviði félagsþjónustunnar en lendi ekki um of á aðstandendum, enda mjög misjafnt hve mikið bakland hver og einn getur leitað til og það býr til vissa skiptingu. Þær stundir sem aðstandendur geta veitt sínu fólki eiga að vera gæðastundir en ekki þjónustustundir, sem auka álag á sambönd þeirra.
Forvarnarfræðsla fyrir eldri borgara og aðstandendur þeirra er varðar líkamshirðu og breyttar þarfir líkamans eftir því sem hann eldist, eykur lífsgæði og þekkingu á eigin getu. Eins er mikilvægt að veita fræðslu um þá þjónustu og þau tæki og tól sem í boði eru til að viðhalda sjálfstæði sínu.
Fara skuli í átak þess efnis að finna hverjir þurfa á þjónustu að halda. Þjónustumiðstöðvarnar taki hver og ein fyrir sín hverfi og leiti uppi alla eldri borgara og skilgreini hvaða þjónustu hver þeirra þarfnist og aðstoði forvirkt við að sækja þá þjónustu.
Hægt sé að bregðast við hræðslu/kvíðaköstum eldri borgara með öðrum hætti en að senda þau á bráðamóttökuna. Það gæti þá verið teymi sem kæmi heim þegar slíkt gerist og félagsþjónustan gæti minnt á einkenni kvíða og boðið upp á ráðgjöf eða úrræði. T.d. er Rauði krossinn með símalínu sem er hægt að hringja í.
Auka þarf dagvistunarúrræði eða dagdvöl innan borgarinnar. Þorrasel og Vitatorg eru einu staðirnir sem bjóða upp á dagvist. Áður voru dagvistunarúrræðin á fleiri stöðum en þeim hefur fækkað verulega og þjónusta verið skert.
Lykilatriði í málefnum eldri borgara er að viðhalda virkni og samfélagsþátttöku. Lenging opnunartíma félagsmiðstöðva og helgaropnun, ásamt auknu frumkvæði félagsþjónustunnar í að viðhalda félagslífi myndu vera til mikilla lífskjarabóta fyrir þennan samfélagshóp, en margir samverkandi þættir sem koma með aldrinum stuðla að minnkandi þátttöku og því þarf að sporna virkt gegn.
Yfir vetrartímann eru margir innilokaðir heima hjá sér og þora ekki út, þá kæmi sér vel að búa í kjarna þar sem ekki þarf að fara út til að koma og taka þátt í félagsstarfi. Áhersla þarf að vera á að aðgengi eldri borgara, að félagsstarfi og annarri þjónustu, sé í lagi. Félagsleg þátttaka lengir líf og bætir lífsgæði. Tengja þarf betur séreignaríbúðir við félagsmiðstöðvar borgarinnar í þeim tilgangi að ekki þurfi að fara út til að komast í félagsstarf.
Til að standa undir þessu þarf að auka fjárveitingu til málaflokksins og kanna þarf sérstaklega kostnaðarþátttöku ríkisins, með það að markmiði að semja um hærra hlutfall, enda hefur verkefnið vaxið og kröfur nútímans til slíkrar þjónustu meiri en upphaflega lagt var upp með. Sjálfbært félagsstarf hefur verið notað til að dulbúa sparnað með því að klæða hann í hugmyndafræðilegan búning. Það að virkja eldri borgara til þátttöku í samfélagi sínu og félagsstarfi má ekki byggjast á tilviljanakenndri aðkomu kraftmikilla einstaklinga.
Sú stefna að allir geti búið sem lengst heima er góð, fyrir þá sem það vilja og það hentar, en auka þarf stuðning við þá sem þarfnast meiri þjónustu eða vilja minnka við sig og einhver þjónusta ætti að vera í boði fyrir alla sem hennar óska, svosem við þrif og matargerð, óáháð efnahag.