Barnastefna Pírata í Reykjavík
Allar stefnur vegna kosninga 2022:
Fundargerð félagsfundar:
Málsnúmer: | 3/2022 |
---|---|
Tillaga: | Barnastefna Pírata í Reykjavík |
Höfundur: | Gormur |
Í málaflokkum: | Skólamál, Velferðar- og forvarnamál |
Upphafstími: | 03/04/2022 12:00:09 |
Umræðum lýkur: | 13/04/2022 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 08/04/2022 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 13/04/2022 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 24 |
Já: | 23 (95,83%) |
Nei: | 1 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Leiðarljós
-Barnið og þarfir þess eru í öndvegi
-Tryggjum að raddir barna heyrist og að á þær sé hlustað
-Öll börn eiga rétt á að alast upp við öryggi og jákvæða tengslamyndun
-Gætum að réttindum barna í hvívetna
-Eflum og virðum fagmennsku í öllu starfi með börnum
-Notum fjölbreyttar leiðir til að styðja við börn og fjölskyldur þeirra
-Stuðlum að heilsu og vellíðan í öllu starfi með börnum
-Skólakerfið á að undirbúa einstaklinga fyrir að vera hluti af samfélaginu
-Hjálpum börnum að bera kennsl á sérgáfur sínar og rækta þær
-Tryggjum jöfn tækifæri allra barna
-Vinnum gegn stjúpblindu
Markmið:
- Allt barnastarf og þjónusta við börn mótist út frá þörfum barnsins fremur en kerfisins þannig að barnið fái að njóta vafans. Börnum sem líður vel farnast vel.-
- Brjótum upp hinn hefðbundna skóladag og verum skapandi í skipulagi skóladagsins þannig að mismunandi þarfir, athyglissvið og orka nemenda nýtist vel og þau njóti kennslunnar. Aukum flæði milli faga og kennslustunda og sköpum svigrúm til að víkja frá viðjum vanans með rými fyrir fjölbreyttar þarfir. Til dæmis með því að skoða lengd kennslustunda, uppbrot á þeim og notkun á líkamlegri virkni og leik.
- Leikskóla ætti að skilgreina sem grunnþjónustu í lögum og sveitarfélögum tryggðar tekjur til að halda henni úti.
- Íþróttastarf sé sniðið að þörfum einstaklingsins og metið út frá persónulegum árangri og ánægju.
- Mikilvægt er að öll börn njóti góðs af íþróttastarfi til 18 ára aldurs í skjóli fyrir afreksmiðaðri nálgun. Tryggja þarf að íþróttafélög sem starfa samkvæmt samningum við sveitarfélögin sinni öllum börnum sem vilja stunda íþróttir.
- Tryggjum góða samfellu milli skólastiga og eflum félagsstarf fyrir unglinga á framhaldsskólaaldri í samstarfi við framhaldsskólana og ríkið.
- Bjóðum börnum upp á fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf sem víðast sem henti sem flestum svo öll börn geti fundið eitthvað við hæfi.
- Stuðlum að fullnægjandi svefni barna og tryggjum að virknidagur þeirra fylgi líkamsklukku þeirra.
- Nám barna fari fram á skólatíma í stað heimanáms þannig að staðið sé vörð um frítíma barna og komið í veg fyrir að aðstöðumunur hafi áhrif á árangur.
- Styðjum við góðan námsárangur og líðan barna með því að stuðla að því að börn tileinki sér yndislestur sem fyrst, í samvinnu við skóla og heimili.
-Sköpum gæðastundir og einblínum á að viðmót kerfisins sé hvetjandi.-
- Skóla-, frístunda- og tómstundastarf sé ánægjulegur vettvangur sem stuðlar að líkamlegri og andlegri heilsu og vellíðan barna.
- Börnum séu tryggð viðunandi og heilsusamleg aðstaða og umhverfi.
- Tryggja skal að börn geti notið frímínútna á þann hátt sem þeim hentar til að hvíla hugann frá náminu.
- Setja þarf markmið um að efla alhliða hreyfigetu og þroska sem er lykilatriði í velgengni í íþróttum og hreyfingu.
- Eftir sumarfrí í leikskólum flytjist elsti árgangur yfir í frístundastarf grunnskólans svo að börnin hafi svigrúm til að aðlagast aðstæðum áður en skólastarfið hefst formlega.
- Tryggjum að notkun snjalltækja á skólatíma sé uppbyggileg og nýtist í náminu. Notkun einkatækja í skólum er ábyrgðarhlutur sem er mikilvægt að börn séu frædd um. Til dæmis með tilliti til ofnotkunar, svikahrappa, rangra upplýsinga, hópamyndunar og eineltis eða annars. Það er mikilvægt að börn læri að umgangast tæknina og samfélagsmiðla af ábyrgð.
-Stuðlum að betra samfélagi fyrir börn. Nýtum til þess snemmtæka íhlutun, fyrirbyggjandi aðferðir og leggjum áherslu á samvinnu og aukinn tíma með forsjáraðilum.-
- Beita skal snemmtækri íhlutun frá fyrstu árum barna þannig að fjármagn vegna stuðnings sé ekki bundið við greiningar, en greiningum sé þó áfram beitt til að meta hvernig sé best að veita stuðning.
- Skimum börn sem sýna slakan námsárangur eða bera með sér merki um vanlíðan til að greina hvað það er sem veldur og veita viðeigandi stuðning í víðtækum skilningi.
- Eflum tækifæri fjölskyldna til að verja meiri tíma saman með það markmið að efla örugga tengslamyndun barna og forsjáraðila.
- Styðjum við heimili sem eru í viðkvæmri stöðu, rjúfum vítahring fátæktar og ofbeldis og styðjum foreldra sem eiga sjálfir reynslu af tengslarofi eða ofbeldi í æsku.
- Leggja skuli áherslu á að forvarnarstarf byggi á gögnum og að gengið sé út frá “fræðslu en ekki hræðslu”.
-Valdeflum börn svo þau megi verða öflugir lýðræðisborgarar með sterka samfélagsvitund, víðsýni og gagnrýna hugsun.-
- Tryggjum börnum möguleika til þátttöku og samráðs við ákvarðanatöku sem varðar þeirra umhverfi, menntunar- og tómstundastarf.
- Mikilvægt er að nám sé markvisst, faglegt og fjölbreytt, og veiti undirbúning í að meta upplýsingar, taka ákvarðanir og bera ábyrgð á sjálfum sér.
- Aukum samráð ríkis og sveitarfélaga við gerð betri námsgagna sem tali saman þvert á námsgreinar og skólastig.
- Leggjum áherslu á læsi í víðum skilningi og hagnýta samfélagsþekkingu og lífsleikni eins og tækniþekkingu, tilfinningagreind, eflingu sjálfsmyndar, núvitund, fjármálalæsi, sköpunarkjark og foreldrahlutverk.
- Tengjum saman ólíkar greinar, verklegar, bóklegar og skapandi. Aukum virðingu fyrir mismunandi færni og nýtum samlegðaráhrif milli þeirra.
- Þróum Vinnuskólann áfram í þágu þess að efla víðsýni og samfélagsþekkingu ungmenna og tengjum hann betur við aðra menntun og fjölbreytta fræðslu. Vinnuskólinn ætti að vera á ábyrgð skóla- og frístundasviðs.
- Styðjum við félagsþroska ungmenna og aukna fjölbreytni í valfögum, til dæmis með fleiri safnskólum á unglingastigi þar sem við á.
- Vinnum gegn fordómum með áherslu á teymisvinnu þar sem ólíkir einstaklingar koma saman og sérgáfur hvers eins barns fá að blómstra á jafnréttisgrunni.
- Tryggjum jafnréttis-, hinsegin-, kynja- og kynfræðslu fyrir öll börn á öllum skólastigum.
- Fjölgum og bætum aðgengi að hinsegin félagsmiðstöðvum og kynnum starf þeirra betur.
-Tryggja skal mannréttindi barna.-
- Tryggjum jafnrétti til náms, tómstunda og leiks óháð efnahag, uppruna, kynjum, kynhneigð, fötlun, stöðu og öðrum breytum
- Réttur barna til friðhelgis einkalífs skal ávallt tryggður.
- Vinnum gegn ofbeldi, áreitni og einelti þvert á allt barnastarf.
- Starfsfólk í barna- og ungmennastarfi hljóti nauðsynlega jafnréttis-, kynja- og hinseginfræðslu.
- Sálfræðiþjónusta, félagsráðgjöf og annar andlegur stuðningur sé í boði innan skólanna til að takast á við áskoranir nemenda.
- Börn fólks í fátækt fái ókeypis skólamáltíðir.
- Tryggjum aðgengi að tónlistarnámi óháð efnahag í öllum hverfum borgarinnar.
- Bætum jafnrétti í upplýsingagjöf og þjónustu vegna barna óháð hjúskaparstöðu forsjáraðila og gerum betur ráð fyrir stjúpfjölskyldum, fjölda heimila og fjölbreyttum fjölskylduformum.
- Veitum gjaldfrjálsa og aðgengilega móðurmálskennslu og íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku.
- Styðjum við aukna notkun frístundakortsins meðal þeirra hópa sem nýta sér það minna en aðrir. Skoðum að bjóða upp á frístundakortið fyrir yngri börn.
- Komum í veg fyrir að fjárhagsaðstæður takmarki tækifæri barna til tómstundaiðkunar, íþrótta eða félagslífs, til dæmis með því að upphæð frístundakorts taki mið af ólíkum félags- og fjárhagsaðstæðum í hverfinu.
- Tryggjum fullnægjandi upplýsingar um íþróttir og tómstundir á öðrum tungumálum en íslensku.
- Tryggjum jafnt aðgengi að leikskólavistun óháð efnahag og sköpum hvata til styttri dagvistunar með 6 tíma gjaldfrjálsum leikskóla.
-Nýtum fagþekkingu og tækniþróun til að efla faglegt starf innan mennta og tómstunda-
- Stutt sé við hugmyndaauðgi, nýsköpun og þróun í kennsluháttum með fjölbreyttu rekstrarformi skóla.
- Valdeflum starfsfólk og bjóðum upp á öflug tækifæri til endurmenntunar.
- Stuðst skal við fagleg vinnubrögð og gagnreynda aðferðafræði í öllu starfi með börnum
- Eflum menntun og verkfærakistur til nýsköpunar.
- Styrkjum tæknilega innviði í skólakerfinu.
- Sýnum því virðingu að leikskólinn er fyrsta menntastig barna.
- Styrkjum faglegar stoðir dagforeldrakerfisins, búum til hvata til að dagforeldrar starfi fleiri saman og endurmetum kröfur um fjölda barna hjá hverju dagforeldri.
-Tryggjum viðeigandi umönnun barna frá fæðingarorlofi, verum opin fyrir fjölbreyttum lausnum og komum til móts við barnafjölskyldur.-
- Uppfyllum þörfina fyrir fjölda leikskólaplássa frá fæðingarorlofi í nærumhverfi barnsins og styðjum við skilvirka nýtingu þeirra.
- Verndum lýðheilsu barna og stuðlum að tengslamyndun þeirra við forsjáraðila sína og nærfjölskyldu, til dæmis með því að takmarka hámarks dagvistunartíma í takt við styttingu vinnuviku.
- Stuðlum að sveigjanleika í töku sumarfrís frá leikskólum.
- Mætum börnum og fjölskyldum þeirra þar sem þau eru með fjölbreyttum leiðum, til dæmis með því að gera tilraun með greiðslur til foreldra/forsjáraðila 12-15 mánaða barna sem ekki fá dagvistunarpláss eða velja af öðrum kosti ekki að setja börnin í umönnun utan heimilis og söfnum gögnum um hvernig tekst til sem nýtist inn í umræðu um lengingu fæðingarorlofs. Tryggja þarf að foreldrar sem taki þátt í þessu fái viðeigandi fræðslu og endurgjöf.
Við samþykkt þessarar tillögu falla úr gildi eftirfarandi stefnur:
Stefnur frá 2018 sem fjalla um barnamál:
Fjölskyldu- og skólastefna: https://x.piratar.is/polity/102/issue/376/