Meirihlutasáttmáli fyrir borgarstjórn 2022-2026
Málsnúmer: | 7/2022 |
---|---|
Tillaga: | Meirihlutasáttmáli fyrir borgarstjórn 2022-2026 |
Höfundur: | Gormur |
Í málaflokkum: | Ályktanir |
Upphafstími: | 06/06/2022 18:31:22 |
Umræðum lýkur: | 08/06/2022 18:30:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 07/06/2022 18:30:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 08/06/2022 18:30:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 38 |
Já: | 36 (94,74%) |
Nei: | 2 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Píratar í Reykjavík álykta að eftirfarandi meirihlutasáttmáli milli Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fyrir borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2022 til 2026, sé samþykktur.
https://docs.google.com/document/d/1wzJjvfjnbBbUcNCjO0GLL3CeUrGmVQ9jvFpwL1rUoq4/edit
Samstarfssáttmáli Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar
Fyrstu breytingar
- Við ætlum að ráðast í húsnæðisátak og úthluta lóðum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, á Hlíðarenda, í Gufunesi og á Ártúnshöfða.
- Við viljum efna til samkeppni um skipulag Keldnalands og Keldnaholts og flýta þannig uppbyggingu svæðanna með tilkomu Borgarlínu.
- Við ætlum að hefja gerð umhverfismats vegna Sundabrautar.
- Við ætlum að beita okkur fyrir gerð húsnæðissáttmála ríkis og sveitarfélaga.
- Við ætlum að hækka frístundastyrk upp í 75 þúsund krónur frá 1. janúar 2023.
- Við ætlum að hafa ókeypis í sund fyrir börn á grunnskólaaldri.
- Við ætlum að hafa ókeypis í Strætó fyrir börn á grunnskólaaldri.
- Við ætlum að koma á næturstrætó.
- Við ætlum að gera tilraun með miðnæturopnun í einni sundlaug, einu sinni í viku.
- Við ætlum að setja viðhaldsátak í leik-, grunn- og frístundahúsnæði borgarinnar í forgang og flýta verkefnum eins og kostur er.
- Við ætlum að hefja átak í betri svefni barna og skoða breytingar á upphafi skóladags.
- Við ætlum að setja á fót skaðaminnkandi úrræði fyrir unga karlmenn.
- Við ætlum að stofna framkvæmdanefnd um þjóðarhöll og aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í samvinnu við ríkið.
- Við ætlum að auglýsa eftir samstarfsaðilum til að þróa hugmyndir um miðstöð jaðaríþrótta í Toppstöðinni í Elliðaárdal.
- Við ætlum að efna til samkeppni um Dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti.
- Við viljum ná samstöðu um að stofna áfangastaða- og markaðsstofu ásamt sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til að efla ferðaþjónustu á svæðinu.
- Við ætlum að hefja framkvæmdir á Hlemmtorgi.
- Við ætlum að efna til samtals við alla borgarfulltrúa um bættan starfsanda og fjölskylduvæna borgarstjórn.
Málefni barna
Við ætlum að skipuleggja borgina út frá hagsmunum barna og barnafjölskyldna. Við ætlum að ráðast í heildstæða stefnumótun um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára í samstarfi við fjölskyldur, börn, ríkið, sveitarfélög, fagfólk og atvinnulífið.
Við ætlum að innleiða Betri borg fyrir börn og farsældarlögin í þjónustu við börn og barnafólk í hverfum, með sérstakri áherslu á börn í viðkvæmri stöðu. Skerpa þarf samstarf við heilsugæslu, barnageðdeild, og fleiri aðila sem tengjast velferð og heilsu barna.
Við ætlum að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum aðferðum. Við ætlum að innleiða systkinaforgang og stafræna innritun á leikskólum.
Við ætlum að hækka frístundastyrk upp í 75 þúsund krónur. Við ætlum að hafa ókeypis í Strætó fyrir börn á grunnskólaaldri. Við ætlum að hafa ókeypis í sund fyrir börn á grunnskólaaldri.
Við ætlum að gera átak í betri svefni barna og skoða breytingar á upphafi skóladags.
Við viljum að menntastefnan verði leiðarljós í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Við ætlum að þróa skapandi lærdómssamfélag á grundvelli hennar. Áhersla verður lögð á grundvallarþætti stefnunnar sem eru: félagsfærni, sjálfsefling, læsi, sköpun og heilbrigði. Lögð verði áhersla á skólaþróun og nýsköpun í menntun bæði innan borgarinnar og í samstarfi við utanaðkomandi aðila.
Fjármögnun sjálfstætt starfandi grunnskóla verði endurskoðuð með það að markmiði að þeir verði fjármagnaðir með sambærilegum hætti og hinir borgarreknu en innheimti þess í stað ekki skólagjöld, inntaka barna sé sambærileg og að aukið fjármagn frá borginni sé nýtt í skólaþróun en sé ekki tekið út sem arður.
Reykjavík er vaxandi alþjóðleg borg og hluti af alþjóðlegum vinnumarkaði. Hluti af því að bæta samkeppnishæfni Reykjavíkur er að efla alþjóðlegt skólastarf.
Leggja þarf sérstaka áherslu á málefni barna af erlendum uppruna. Við ætlum að gera samninga við grasrótarsamtök um móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna með það að markmiði að hún verði gjaldfrjáls.
Við viljum bæta starfsumhverfi í leikskólum, grunnskólum og frístund og vinna gegn manneklu. Við ætlum að setja viðhaldsátak í leik-, grunn- og frístundahúsnæði borgarinnar í forgang og flýta verkum eins og kostur er.
Við ætlum að þróa áfram tilraunaverkefni um opin leikrými í samfélagshúsum borgarinnar.
Við ætlum að auka jafnréttis-, hinsegin-, kynja- og kynfræðslu í skólum og tryggja að öll börn hljóti slíka fræðslu á mismunandi stigum skólakerfisins. Við ætlum að standa vörð um mannréttindi og velferð hinsegin barna og ungmenna og vinna að frekari styrkingu hinsegin félagsmiðstöðvar í samstarfi við ríkið og önnur sveitarfélög.
Við ætlum að innleiða tónlistarstefnuna, auka aðgengi að tónlistarnámi óháð efnahag, stækka skólahljómsveitir og fjölga hverfakórum.
Auka þarf samfellu milli skóla- og frístundastarfs. Við ætlum að skoða sérstaklega frístundamál ungmenna á aldrinum 16-18 ára.
Upplýsingagjöf borgarinnar og þjónusta taki mið af fjölbreyttum fjölskylduformum. Unnið verði gegn stjúpblindu.
Húsnæði og skipulag
Komandi kjörtímabil verður mikið framkvæmda- og uppbyggingarskeið í Reykjavík. Við ætlum að ráðast í húsnæðisátak og vera leiðandi í uppbyggingu húsnæðis á Íslandi á komandi árum. Við viljum byggja ný hverfi og þétta byggð. Við ætlum að leggja áherslu á þróunarása borgarinnar og svæðisskipulagsins. Við viljum flýta uppbyggingu Keldnalands og Keldnaholts og flýta til þess uppbyggingu Borgarlínu í samræmi við samning við Betri samgöngur.
Við viljum að Reykjavík beiti sér fyrir gerð húsnæðissáttmála ríkis og sveitarfélaga sem skilgreini hlutdeild og skyldur sveitarfélaga í húsnæðisuppbyggingu, viðmið um hlutdeild hagnaðar- og óhagnaðardrifinnar húsnæðisuppbyggingar og hlutdeild félagslegs húsnæðis.
Við ætlum að fylgja viðmiðum aðalskipulags um að 5% nýrra íbúða verði félagslegar íbúðir og 20% aðrar íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna félaga.
Skipulagssýnin byggi á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 með ákveðnum breytingum, svo sem þeirri að flýta uppbyggingu Keldnalands. Staðinn verður vörður um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Við viljum að borgarskipulag stuðli að því að efla tengsl á milli íbúa til að vinna gegn einmanaleika. Liður í því er að hlúa að félagslegum innviðum í hverfum borgarinnar.
Við ætlum að tryggja uppbyggingu á nýjum svæðum í Úlfarsárdal, í Gufunesi, á Ártúnshöfða og á Kjalarnesi. Við ætlum áfram að byggja upp við Kringluna, í Skeifunni, á Hlíðarenda, við Vesturbugt, á Kirkjusandi, á Heklureit, á Orkureit, á LHÍ-reit í Laugarnesi og á fleiri svæðum.
Við styðjum við fjölbreytt búsetuform og nýsköpun í byggingu húsnæðis. Við viljum nota stafræna umbreytingu til að bæta ferla og skilvirkni í skipulags- og byggingarmálum meðal annars með hliðsjón af ráðleggingum OECD í húsnæðismálum.
Við viljum sjá áframhaldandi uppbyggingu stúdentaíbúða, búseturéttaríbúða, lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk og húsnæðis fyrir fatlað fólk. Við styðjum uppbyggingu heimavistar fyrir framhaldsskólanemendur. Í samstarfi við verkalýðshreyfinguna verða skoðaðar hugmyndir um óhagnaðardrifin leigufélög með íbúðum án tekjutengingar.
Innanlandsflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki fyrir farþegaflutninga innanlands og sjúkraflug. Við ætlum að virða alla samninga Reykjavíkurborgar og ríkisins um innanlandsflug, Reykjavíkurflugvöll og flutning flugvallarins í Hvassahraun á grundvelli veðurfarsrannsókna. Við viljum byggja nýtt hverfi í Skerjafirði, taka tillit til Reykjavíkurflugvallar á byggingartíma þess og taka tillit til faglegs áhættumats og mótvægisaðgerða vegna vindafars sem útfærðar verða í samvinnu við Isavia. Tekin verði afstaða til landfyllingar og útfærslu hennar á grundvelli yfirstandandi umhverfismats.
Við ætlum að ráðast í aðgerðir til að koma í veg fyrir búsetu í hættulegu og óöruggu húsnæði en heimila með skilyrðum búsetu á umbreytingarsvæðum þar sem búsetuskilyrði og eldvarnir eru í lagi. Við ætlum að beita okkur fyrir innleiðingu staðla og reglugerða til að koma í veg fyrir myglu og raka.
Við ætlum að ljúka við gerð hverfisskipulags í Hlíðum, í Háaleiti og Bústöðum og í Laugardal og hefja gerð hverfisskipulags á Kjalarnesi og í Grafarvogi.
Við ætlum að fjölga hundagerðum og hundasvæðum og búa til nýtt stórt lausagöngusvæði fyrir hunda. Hugað verði að þörfum dýra við skipulagningu nýrra hverfa og unnið verður að kynningu nýstofnaðrar Dýraþjónustu.
Við ætlum að gera stefnu um gæði í borgarhönnun, gæði byggðar og mannvæn hverfi. Við viljum að útileiksvæði taki mið af algildri hönnun. Við ætlum að bæta aðgengi fyrir gangandi og hjólandi á framkvæmdatíma.
Við ætlum að huga sérstaklega að lykilsvæðum í hverfunum. Við ætlum að vinna að andlitslyftingu á Spönginni, Rofabæ, Austurbergi, Arnarbakka og Völvufelli. Við ætlum að halda áfram með Hlemmtorg, Lækjartorg, umbreytingu Laugavegar í göngugötu og skoða umbreytingu á svæðinu í kringum Hallgrímskirkju í nýjan hverfisgarð.
Loftslag og samgöngur
Við viljum að öll ákvarðanataka innan borgarinnar taki mið af markmiðum í loftslagsmálum og áhrifum ákvarðana á þau. Við viljum uppfæra aðgerðaráætlun og markmið í loftslagsmálum með það fyrir sjónum að setja fram metnaðarfyllri áætlanir í tengslum við Evrópuverkefni um kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030. Við viljum gera loftslagssamning í samstarfi við ríkið, önnur sveitarfélög, atvinnulíf, fjárfesta, frumkvöðla, fyrirtæki og félagasamtök til að tryggja að þau metnaðarfullu markmið sem þurfa að nást nái fram að ganga.
Samgöngusáttmálinn er sögulegt samkomulag sem tryggir uppbyggingu fjölbreyttra ferðamáta um alla borg. Við styðjum hann og ætlum að vinna að framgöngu hans. Við viljum flýta Borgarlínu og hjólastíganeti höfuðborgarsvæðisins. Við ætlum að klára skipulag fyrir Arnarnesveg, við ætlum að útfæra gatnamót við Bústaðaveg meðal annars með tilliti til Borgarlínu og hefja undirbúning að hönnun og framkvæmd stokka fyrir Miklubraut og Sæbraut.
Við leggjum áherslu á að vistlok og grænar tengingar fyrir hjólandi og gangandi verði í forgangi. Við ætlum að innleiða hjólreiðaáætlun og byggja upp öfluga hjólainnviði meðal annars með aukinni fjárfestingu í hjólastígum, fleiri hjólastæðum og fjárhagslegum hvata til uppbyggingar yfirbyggðra og öruggra hjólaskýla.
Við ætlum að fylgja eftir samkomulagi ríkis og borgar frá 2021 um gerð Sundabrautar. Ráðist verður í gerð umhverfismats, hafist handa við víðtækt samráð, og nauðsynlegar skipulagsbreytingar vegna Sundabrautar undirbúnar. Leggja þarf áherslu á að Sundabraut nýtist öllum ferðamátum, skoða loftslagsáhrif framkvæmdarinnar, áhrif hennar á nærliggjandi byggð og rýna mögulegar mótvægisaðgerðir.
Reykjavíkurborg verði leiðandi í aðgengi fyrir vistvæna ferðamáta á starfsstöðum. Við ætlum að endurskoða bílastæðastefnuna, bæta þjónustu bílastæðasjóðs og beita virkri verðstýringu. Við ætlum styðja við fjölgun deilibíla með því ýta undir samkeppni á opnum markaði, t.d. með jákvæðum bílastæðahvötum. Við ætlum að taka upp viðræður um nemendakort í Strætó og bílastæðastýringu við framhaldsskóla og háskóla.
Við ætlum að koma á næturstrætó. Við ætlum að halda áfram að draga úr skutli til að einfalda líf barnafjölskyldna og draga úr mengun. Við ætlum að halda áfram að innleiða hámarkshraðaáætlun.
Við viljum draga úr svifryksmengun og ætlum að uppfæra aðgerðaáætlun um bætt loftgæði. Við ætlum að efla vor- og vetrarþjónustu og yfirfara forgangsröðun með það að markmiði að tryggja enn betur aðgengi gangandi og hjólandi.
Við viljum undirbúa Samgöngumiðstöð Reykjavíkur á Umferðarmiðstöðvarreit og vinna að því að græn samgöngutenging milli Reykjavíkur og Keflavíkur komist til framkvæmda.
Við ætlum að styðja við allsherjar-orkuskipti, fjölga rafhleðslustöðvum, styðja við uppbyggingu rafhleðsluinnviða í hverfum og í fjölbýlishúsum og halda áfram að rafvæða hafnir.
Við ætlum að fylgja samræmdri úrgangsflokkun, sækja lífrænan úrgang á heimili og ganga lengra í úrgangsflokkun í almannarými og í stjórnsýslubyggingum. Við ætlum að draga úr úrgangsmyndun og matarsóun og auka endurnýtingu og endurvinnslu.
Við ætlum að halda áfram að þróa grænt bókhald og nýta þær upplýsingar til frekari aðgerða. Við viljum koma í veg fyrir orkusóun og stuðla að vistvænni nýtingu auðlinda. Við viljum leggja áherslu á vistvæna fæðu og að grænkerafæði sé valkostur í öllum mötuneytum.
Við viljum að Reykjavík sé græn og falleg. Við ætlum að standa vörð um græn svæði í borginni og þróa þau frekar. Sérstök áhersla verði lögð á strandsvæði og skóglendi til útivistar.
Við viljum fjölga trjám og gróðri í almenningsrýmum, endurheimta vistkerfi og votlendi og standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika. Við viljum fjölga matjurtar- og fjölskyldugörðum í borginni.
Velferð og mannréttindi
Reykjavíkurborg á að vera örugg borg í fararbroddi þegar kemur að vernd og eflingu mannréttinda. Við viljum að öll geti blómstrað í borginni okkar og geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Við viljum valdefla fólk og styðja til sjálfshjálpar. Við viljum vinna að jafnrétti kynjanna og að jafnrétti í víðum skilningi. Við ætlum að vinna gegn fordómum og hvers konar ofbeldi og mismunun.
Við ætlum að vinna gegn fordómum í garð hinsegin fólks.
Öll þjónusta á að vera valdeflandi, taka mið af virðingu, samráði og sjálfstæði og á forsendum þess sem fær þjónustuna. Unnið verði á grunni nýrrar velferðarstefnu og nýrrar lýðheilsustefnu og þær innleiddar. Við ætlum að innleiða aðgengisstefnu.
Við ætlum að vinna markvisst að bættri líðan barna og unglinga að afloknum heimsfaraldri.
Lögð verði áhersla á nýsköpun í velferðarþjónustu bæði innan borgarinnar og í samstarfi við einkaaðila, félagasamtök, frumkvöðla og háskólasamfélagið.
Við ætlum að vinna gegn fátækt og afleiðingum hennar. Við ætlum að þróa áfram Virknihús þar sem fólki bjóðast margþættar leiðir í endurhæfingu til aukinnar virkni og þátttöku á vinnumarkaði. Markmiðið er að bæta lífsgæði og auka tækifæri fólks með áherslu á sjálfstyrkingu, nám og bata.
Við ætlum að þróa félagsmiðstöðvar yfir í samfélagshús og stuðla að blöndun kynslóða og ólíkra samfélagshópa.
Við ætlum að gera nýja aðgerðaáætlun í málaflokki heimilislausra einstaklinga, þar sem unnið verður eftir hugmyndafræðinni um skaðaminnkun. Við ætlum að vinna markviss gegn fordómum gagnvart þessu hópum í samfélaginu, bjóða upp á sólarhringsþjónustu í ,,húsnæði fyrst”, setja á fót búsetuúrræði fyrir konur sem nota vímuefni og setja á fót úrræði fyrir unga karlmenn.
Við ætlum að beita okkur fyrir betra samstarfi heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, fangelsisyfirvalda og löggæslu til að veita nauðsynlega þjónustu fyrir einstaklinga með flókna geð- og fíknisjúkdóma. Við ætlum að þrýsta á betri geðheilbrigðisstuðning við fólk með tvígreindan vanda.
Við viljum skoða samfélag borgarinnar með hliðsjón af auknu langlífi út frá mismunandi og fjölbreyttum þörfum þeirra sem eru að eldast. Við viljum aldursvæna borg.
Við ætlum að gera nýja stefnu í málefnum eldra fólks, með áherslu á sjálfstætt líf og valdeflingu. Félagsstarf fullorðinna þarf að endurhugsa á forsendum þátttakenda til að tryggja gæði, aðgengi og fjölbreytileika. Notast verði í auknum mæli við fjölbreytta matarþjónustu til að tryggja aukið val um leið og gæði eru tryggð.
Við viljum stuðla að skipulagi og uppbyggingu lífsgæðakjarna í borginni í breiðu samráði, meðal annars með hugmyndasamkeppni. Við viljum fjölga hjúkrunarheimilum og efla samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun til að styðja við sjálfstæði fólks til að það geti búið sem lengst á eigin heimili.
Við viljum styðja við heilsueflingu eldra fólks og miðla betur upplýsingum um það fjölbreytta úrval þjónustu og félagsstarfs sem stendur því til boða á vegum borgarinnar. Við viljum þróa leiðir til að auka sveigjanleika starfsloka í samvinnu stéttarfélög.
Við ætlum að við vinna eftir hugmyndafræði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk. Við ætlum að vinna að leiðréttingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk í samstarfi við ríkið. Notendastýrð persónuleg aðstoð á að vera raunverulegur valkostur. Ný uppbyggingaráætlun íbúðakjarna verði samþykkt í samræmi við þörf.
Við hönnun nýbygginga og endurgerð húsnæðis á vegum borgarinnar skal tryggja að búningsklefar, salerni og önnur rými taki mið af algildri hönnun og fjölbreyttum þörfum óháð kynjum, fötlun og færni. Unnið skal að því að almenningssamgöngur séu aðgengilegar fyrir öll.
Nauðsynlegt er tryggja eða koma á fót fjölbreyttum atvinnutækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu í samráði við atvinnulífið.
Viðburðir á vegum borgarinnar taki tillit til mismunandi aðgengisþarfa hvort sem um er að ræða líkamlegt, geðrænt eða skynrænt aðgengi.
Við viljum að það sé aðgengilegt og gott að flytja til Reykjavíkur. Við ætlum að halda áfram að þroska Reykjavík sem fjölmenningarborg. Við ætlum að gera nýja stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd og þróa starfsemi Fjölmenningarráðs.
Við ætlum að hafa frumkvæði að samstarfi við ríkið um áframhaldandi þróun og uppbyggingu á upplýsinga- og þjónustumiðstöð fyrir innflytjendur. Við ætlum að veita upplýsingar á fjölbreyttum tungumálum í samræmi við skýra umgjörð sem skal mótuð í nýrri upplýsingastefnu. Við ætlum áfram að taka vel á móti fólki á flótta.
Reykjavík á að vera borg þar sem ofbeldi er aldrei liðið. Við viljum taka enn stærri skref í átt að ofbeldislausri Reykjavík með því að hrinda nýrri aðgerðaáætlun gegn ofbeldi hratt í framkvæmd.
Menning og íþróttir
Lifandi menningarlíf og öflugt íþróttastarf á að vera aðalsmerki Reykjavíkur, sem styður við heilsu og vellíðan borgarbúa.
Við ætlum að innleiða nýja menningarstefnu og nýja íþróttastefnu. Við viljum tryggja að aðgengi fyrir fjölbreytta hópa óháð efnahag, uppruna, fötlun, færni, kynjum eða öðrum breytum verði í öndvegi innan menningar- og íþróttastarfs borgarinnar.
Við ætlum að hafa viðburði og hátíðir allt árið um kring þannig að Reykvíkingar hafi alltaf eitthvað til að hlakka til. Við ætlum að þróa bókasöfn sem upplýsinga-, menningar-, hringrásar- og samfélagsmiðstöðvar um alla borg. Áfram verður unnið að því að þróa nýmæli í starfsemi bókasafna. Við ætlum að vinna áfram að þróun Grófarhúss.
Við ætlum að vinna staðarvalsgreiningu fyrir bókasafn í Árbæ og skoða nýja staðsetningu Kringlusafnsins. Við ætlum að útfæra mannlausa sólarhringsopnun bókasafna þar sem því verður við komið.
Við ætlum að kanna vilja ríkisins til að setja upp vísindasafn í Reykjavík. Við ætlum að efna til hugmyndasamkeppni um breytingar á Hafnarhúsinu í hús myndlistar. Við ætlum að kynna Borgarsögusafn betur fyrir íbúum og gestum borgarinnar.
Við ætlum að fylgja eftir íþróttastefnu borgarinnar og byggja á forgangsröðun við uppbyggingu íþróttamannvirkja. Við ætlum að þróa dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti og fjölnota boltahús fyrir KR í Vesturbæ. Við ætlum að byggja upp þjóðarhöll og aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í samvinnu við ríkið. Vil ætlum að stækka fimleikaaðstöðu fyrir Fylki.
Við ætlum að gera tilraunaverkefni með miðnæturopnun einn dag í viku í einni sundlaug.
Við ætlum að vinna að endurbótum á Laugardalslaug og koma fyrir aðgengilegri rennibraut. Við ætlum að vinna að Fossvogslaug í samstarfi Kópavogsbæ. Við ætlum að útfæra íþróttaaðstöðu í nýju hverfi í Ártúnshöfða og Vogabyggð.
Tryggt verður að aðstaða til íþróttaiðkunar fylgi hugmyndafræðinni um aðgengi fyrir alla og lögð áhersla á að salernis- og búningsaðstaða taki mið af öllum kynjum. Lögð verði áhersla á jafnréttis- og hinseginfræðslu starfsfólks.
Við ætlum að auglýsa eftir samstarfsaðilum til að þróa hugmyndir um miðstöð jaðaríþrótta í Toppstöðinni í Elliðaárdal.
Víðidalur verður áfram öflug miðstöð hestaíþrótta á Íslandi.
Atvinna, ferðaþjónusta og nýsköpun
Við viljum efla og styðja við atvinnulífið í Reykjavík með það að leiðarljósi að fyrirtæki dafni, framboð þjónustu í Reykjavík sé framúrskarandi og að atvinnulífið laði að sér hæft fólk. Við ætlum að innleiða atvinnu- og nýsköpunarstefnu til að efla samtal og þjónustu við atvinnulífið og tryggja fleiri og fjölbreyttari stoðir verðmætasköpunar í borginni.
Við viljum einfalda ferla og leyfisveitingar sem snúa að stofnun og rekstri fyrirtækja. Við ætlum að straumlínulaga alla þjónustu og leyfisgjöld af hendi borgarinnar. Til þess munum við beita stafrænum aðferðum og tryggja aðgengi á íslensku og ensku.
Við viljum tryggja jöfn tækifæri fjölbreyttra hópa þar sem engin eru skilin eftir og gera atvinnulíf og nýsköpun aðgengileg öllum, þar með talið sjálfstætt starfandi, einyrkjum og fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum.
Við viljum að Reykjavík sé öflugt og metnaðarfullt háskólasamfélag. Við viljum aukið samtal við vísinda-, rannsóknar- og háskólasamfélagið. Við viljum vinna saman að því að nýta styrktarsjóði til að vinna að nýsköpun.
Við ætlum að styðja við þekkingarþorp, Vísindagarða og tilraunasvæði og ætlum að stuðla að samfélagslegri nýsköpun. Við viljum þorp skapandi greina og kvikmyndagerðar í Gufunesi og hringrásargarð í Álfsnesi.
Við viljum að Reykjavík sé eftirsóknarverður áfangastaður sem við getum öll verið stolt af. Við viljum að Reykjavík sé samkeppnishæft samfélag um starfsfólk á alþjóðavísu þar sem fjölbreytileiki mannlífsins nýtur sín. Við viljum að ferðaþjónusta blómstri í góðri sátt við íbúa, þar sem öll njóta góðs af. Til þess viljum við efla samstarf við rekstraraðila í ferðaþjónustu með stofnun áfangastaðar- og markaðsstofu ásamt sveitarfélögum á svæðinu.
Við viljum tryggja gott framboð atvinnulóða og finna léttri iðnaðarstarfsemi stað. Við viljum kortleggja eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði og skapandi samvinnurýmum og styðja við slíka uppbyggingu í takt við þörf í blandaðri byggð í hverfum.
Við viljum efla nýsköpunarmenningu og deilihagkerfi í samfélaginu. Til þess viljum við styðja við nýsköpunarþróunarsetur og FabLab í samstarfi við skólasamfélög og íbúa.
Lýðræði, gagnsæi og stafræn þjónusta
Við ætlum að efla þátttökulýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð með innleiðingu lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Við ætlum að innleiða sameinaða lýðræðisgátt og vinna áfram að því að efla Hverfið mitt. Við viljum stunda markvisst og samræmt samráð við hagaðila innan ráða, nefnda, stjórnsýslu, dótturfyrirtækja og byggðasamlaga.
Við ætlum að halda áfram með stafræna umbreytingu þjónustu borgarinnar til að auðvelda og einfalda líf fólks og við ætlum að innleiða þjónustustefnuna. Við viljum veita framúrskarandi þjónustu í framlínu borgarinnar. Við ætlum að stuðla að bættri endurgjöf til íbúa vegna ábendinga. Við viljum nýta ábendingar markvisst til að bæta ferla og þjónustu.
Við ætlum að styrkja gagnainnviði enn frekar. Við ætlum að vera leiðandi við birtingu opinna gagna, vera opin gagnvart frjálsum og opnum hugbúnaði og innleiða notkun véllæsilegra gagna í öllu stjórnkerfinu. Við ætlum að huga að því að nauðsynleg gögn séu í boði á fleiri tungumálum og með auðlæsilegum hætti í máli eða myndum. Við ætlum að gera skipulagsgögn aðgengilegri og auka aðgengi íbúa og kjörinna fulltrúa að upplýsingum um skipulag.
Við ætlum að auka gagnsæi og innleiða nýja styrkjagátt. Við ætlum að innleiða að fullu Gagnsjá Reykjavíkur með yfirsýn yfir gögn borgarinnar, rekjanleika ákvarðana og með samþættu og bættu aðgengi að þeim gögnum sem er að finna í gagnagrunnum, svo sem í Framkvæmdasjá, í Borgarvefsjá og í opnum fjármálum. Við ætlum að beita okkur fyrir því að upplýsingar um fjármál sveitarfélagsins, dótturfyrirtækja og byggðasamlaga séu sem aðgengilegastar.
Við ætlum að innleiða ,,once only” samfellu í þjónustu svo að fólk þurfi ekki alltaf að byrja upp á nýtt í hvert skipti sem það hefur samband við borgina. Við ætlum að innleiða gagnsærra og aðgengilegra innritunarferli í leikskóla og stórbæta þjónustu í kringum framkvæmdaleyfi, rekstrarleyfi fyrirtækja og skipulags- og byggingarferla, þar sem litið verði til ráðlegginga OECD.
Við viljum bjóða börnum borgarinnar að koma í heimsókn í Ráðhús Reykjavíkur til að kynnast lýðræðinu og fá kynningu á störfum borgarstjórnar.
Rekstur, fjármál og stjórnsýsla
Við viljum að Reykjavík sé eftirsóttur vinnustaður og við viljum efla og bæta vinnuanda og vellíðan í starfi sem endurspeglast í góðri þjónustu. Mannauðsstefna borgarinnar er nútímaleg og við styðjum við hana. Reykjavík er einn vinnustaður í öllum sínum fjölbreytileika sem endurspeglar fjölbreytileika samfélagsins. Við styðjum við forystu og stjórn í borginni sem sé ávallt þannig að Reykjavíkurborg sé lifandi og skemmtilegur vinnustaður sem laðar til sín hæfileikaríkt fólk.
Við ætlum að hafa ráðdeild í rekstri og vandaða fjárhagsáætlunargerð í fyrirrúmi og ráðast í skoðun varðandi bestu fyrirmyndir, innanlands sem utan, í þeim efnum. Við ætlum að hagræða í rekstri og sameina einingar. Við ætlum að halda áfram 1% hagræðingu innan kerfis. Við ætlum að sameina málaflokka íþrótta og menningar í einu sviði.
Reykjavík verði áfram hagstæðasta borg fyrir fjölskyldufólk til að búa í með hliðsjón af gjaldskrá og fasteignagjöldum.
Útsvar verður óbreytt. Við ætlum að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í lok kjörtímabils.
Við ætlum að uppfæra Græna planið og endurskoða 10 ára fjármálastefnu til að tryggja svigrúm til fjárfestinga, rekstrar, sjálfbærni og langtímastöðugleika.
Við ætlum að vinna að leiðréttingu á fjármögnun verkefna sem flust hafa frá ríkinu svo sem þjónustu við fatlað fólk.
Við ætlum að stuðla að betri samnýtingu á húsnæði borgarinnar, skoða langtímaleigusamninga og utanumhald fasteigna borgarinnar. Við ætlum að skoða sölu á Malbikunarstöðinni Höfða að lokinni greiningu.
Við viljum endurskoða umgjörð um innkaupamál til að auka aðgengi fjölbreyttra fyrirtækja og nýsköpunaraðila að innkaupum borgarinnar og notast við lausnamiðuð útboð. Við viljum setja viðmið um sjálfbærni og samfélagsábyrgð sem hluta af forsendum útboða.
Við viljum efla umbóta- og nýsköpunarmenningu innan starfsstaða borgarinnar til hagsbóta fyrir íbúa. Við viljum útrýma kynjuðum launamun meðal alls starfsfólks Reykjavíkurborgar og koma í veg fyrir hvers konar launamismunun sem kann að vera hjá jaðarsettum hópum og innleiða nýuppfærða jafnlaunastefnu. Við viljum þróa áfram kynjaðar fjárhags- og starfsáætlanir til að stuðla að auknu jafnrétti og réttlátari nýtingu fjármuna.
Við ætlum að stuðla áfram að því að fjármál borgarinnar séu opin og gagnsæ og kanna leiðir til að gera bókhald borgarinnar enn aðgengilegra.
Umhverfismál flytjast úr umhverfis- og heilbrigðisráði í skipulags- og samgönguráð sem heiti framvegis umhverfis- og skipulagsráð en heilbrigðismálin verði eftir í endurvakinni heilbrigðisnefnd.
Atvinnumál, nýsköpun og ferðaþjónusta heyri undir forsætisnefnd.
Málaflokkur stafrænnar umbreytinga og þjónustu verði styrktur með nýju stafrænu ráði sem einnig fer með lýðræðis- og gagnsæismál og samfélagslega og opinbera nýsköpun.
Mannréttinda- og ofbeldisvarnarmál verða sameinuð í mannréttindaráði sem taki við hlutverki ofbeldisvarnarnefndar og annist reglulegt samráð um ofbeldismál. Fyrirkomulag samráðsnefnda verður skoðað.
Ný eigendastefna borgarinnar verður innleidd og tilnefningarnefnd vegna skipunar í stjórnir fyrirtækja borgarinnar mun taka til starfa. Stjórnir Orkuveitunnar, Faxaflóahafna, Félagsbústaða og Malbikunarstöðvarinnar Höfða munu starfa óbreyttar fram á haust.