Samþykkt: Málefni fatlaðs fólks
Stefna um málefni fatlaðs fólks
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
1.1. Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
2.2 Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
Og með til hliðsjónar:
Lögfesting Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks
Almenna heilbrigðisstefnu Pírata
Stefna Pírata um NPA
Lögfesting Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks
Almenna heilbrigðisstefnu Pírata
Álykta Píratar í Hafnarfirði að eftirfarandi séu markmið:
A. Hafnarfjarðarbær skal vera sameinandi samfélag með fullri þátttöku fatlaðs fólks.
B. Uppfylla skal alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í málefnum fatlaðs fólks, þar með talið Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), þar sem segir að aðildarríkjum beri að „tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar“.
C Virða skal sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks í málefnum sem það varðar.
D. Fjölskylduþjónusta Hafnarfjarðar móti þjónustu sína í samræmi við SRFF og hugmyndafræðina um sjálfstætt líf. Stefna skuli að afstofnanavæðingu í allri þjónustu við fatlað fólk, sú þjónusta á að vera einstaklingsmiðuð.
Eftirfarandi atriðum skal vinna að til að ná þessum markmiðum:
Hafnarfjarðarbær hefji vinnu, í samvinnu við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, við að innleiða Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og útfæra þjónustu í samræmi við hann.
Alltaf skal hafa virkt samráð og samstarf við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess við mótun og framfylgd stefnumála, reglugerða og laga í málefnum fatlaðs fólks sem og í annarri ákvarðanatöku sem snertir fatlað fólk. Samráðið skal eiga sér stað á öllum stigum vinnunnar.
Tryggja skal að ferðaþjónusta fatlaðs fólks standi undir hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Það skal gert með því að framkvæma reglulega úttekt á starfseminni með aðkomu hagsmunaaðila og sérfræðinga. Endurskoða skal framkvæmd hennar með hliðsjón af þeirri úttekt.
Hafnarfjarðarbær skal halda áfram innleiðingu og stuðningi við NPA (Notendastýrða persónulega aðstoð). Beingreiðslusamningum skal með markvissum hætti breytt yfir í NPA-samninga. Þrýsta ber á að ríkið hraði innleiðingartímanum á NPA og að ríkið tryggi að sveitarfélögin fái aðgang að mótframlagi eins og þau þurfa.
Vinna skal með virkum hætti gegn margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki.
Vinna skal með virkum hætti gegn öllu ofbeldi gagnvart fötluðu fólki.
Hafnarfjarðarbær skal vera leiðandi í því að búa til hvetjandi umhverfi til atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.
Styrkja skal grasrótarstarfsemi sem ýtir undir samfélagsþátttöku og virkni fatlaðs fólks.
Hafnarfjarðarbær skal setja á stofn umboðsmann fatlaðs fólks eða jafngildi slíkrar stöðu t.d. umboðsmann bæjarbúa.
Stuðningur við fötluð börn í skóla- og frístundastarfi miðist við þeirra persónulegu þarfir og þeim skal veitt aðstoð og viðeigandi aðlögun þó að greining sérfræðinga liggi ekki fyrir.
Aðgengi fyrir alla.
A. Við allar framkvæmdir í sveitarfélaginu skal huga að aðgengismálum fyrir fatlað fólk og hvort sé hægt að bæta það með algilda hönnun að leiðarljósi. Einnig skal huga að því að halda röskun á aðgengi í lágmarki á framkvæmdastigi.
B. Fara þarf yfir regluverk sveitarfélagsins með tilliti til framkvæmda til aðgengisumbóta svo að ekki sé fyrirstaða fyrir því þegar fólk og fyrirtæki vilja bæta aðgengi.
C. Stefnt skal að því að öll þjónusta sveitarfélagsins og starf sem er styrkt af Hafnarfjarðarbæ verði aðgengileg fötluðu fólki.
D. Auka þarf aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum um réttindi sín og þjónustu sem því stendur til boða.
E. Leita skal leiða til að hvetja og aðstoða alla þjónustuaðila innan bæjarmarkanna við að bæta aðgengi á gömlu húsnæði.
Greinargerð:
A. Markmiðið skal vera full samfélagsþátttaka allra í samfélagi þar sem allir eru boðnir velkomnir. Píratar vilja tala um sameinandi samfélag (e. inclusive society) frekar en samfélag án aðgreiningar. SRFF er leiðarvísir að hvernig tryggja skal fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra í lífinu og gera því þannig kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.
B. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var fullgiltur árið 2016 og með því hafa stjórnvöld á Íslandi skuldbundið sig, þar á meðal sveitarfélög landsins, til þess að vinna samkvæmt samningnum.
C. Sbr. grein 4.3 um samráð og grein 19 um sjálfstætt líf í SRFF.
D. Hingað til er það eingöngu NPA (Notendastýrð persónuleg aðstoð) sem uppfyllir þessa hugmyndafræði um sjálfstætt líf, önnur þjónusta ekki. Halda skal því til haga að hugtakið sé notað rétt í samræmi við leiðbeiningar SÞ sem finna má í Almennum athugasemdum nr. 5 frá Eftirlitsnefnd SRFF við grein 19 í SRFF.
Með afstofnanavæðingu er átt við að skipta um allar stofnanabundnar aðstæður/þjónustu þar sem í staðinn komi stuðningsþjónusta sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf (skilgreining sótt frá Enil, Evrópusamtökum sjálfstæðs lífs).
Fötluðu fólki skal ekki gert að flytja af heimili sínu gegn vilja þess en nýtt fjármagn á að nýta í takt við markmiðið um afstofnanavæðingu en ekki til uppbyggingar á stofnanaþjónustu. Með hugtakinu “sameinandi samfélag” er átt við hugmyndafræðina sem kallast á ensku “inclusive society”.
Skoða þarf allt stjórnsýslukerfi sveitarfélagsins út frá SRFF og finna hvar þarf að gera úrbætur. Fleiri valkostir skulu vera í boði í þjónustu við fatlað fólk sem uppfylla hugmyndafræðina um sjálfstætt líf innan sveitarfélagsins með því markmiði að notendur hafi meira vald yfir þjónustunni sinni hvað varðar hvenær, hvernig og af hverjum hún er veitt. Þjónustuaukning sem að ríkið þarf að koma að að auknu leyti. Athuga þarf hvort að áhugavert væri að hefja tilraunaverkefni í samstarfi við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess þar sem boðið er upp á persónulegri þjónustu og að ríkið komi með meira fjármagn í mótframlag.
Hingað til hefur samráðið verið framkvæmt með mjög misjöfnum hætti og oft mjög ófullnægjandi og oft seint í ferlum. Efla þarf starf ráðgjafarráðs í þessu samhengi og auka aðkomu ráðgjafarráðs og fötluðu fólki að ákvarðanatöku er varða málefni fatlaðs fólks í Hafnarfjarðarbæ
Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.
Beingreiðslusamingar eru yfirleitt fjárhagslega ófullnægjandi og geta ekki heimilað fötluðu fólki aðstoð við umsýslu því það er hreinlega bannað í reglunum. Til að auka þjónustu við fatlað fólk er eðlilegt að ríkið komi inn með nýtt fjármagn og að það sé gert í takt við raunverulegar þarfir notenda og sveitarfélaga. Hafnarfjarðarbær skal fara yfir þau gögn sem fyrir liggja um hvernig NPA tilraunaverkefnið hefur reynst notendum og fara yfir þjónustuna í samráði við notendur.
Margþætt mismunun er þegar einstaklingar eru hluti af fleiri en einum minnihlutahópi eða jaðarhópi og eru því sérstaklega viðkvæmir fyrir misrétti sem gerist einmitt í krafti þess að tilheyra fleiri en einum minnihlutahópi. Mismununin er þannig einstök og öðruvísi en mismunin sem einstaklingar lenda í sem eingöngu tilheyra einum minnihlutahópi. Sem dæmi má nefna fatlaða manneskju sem er líka samkynhneigð eða innflytjandi.
Meðal annars kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi. Ljóst er að fatlað fólk hefur ekki notið nægjanlegrar verndar gegn ofbeldi af ýmsu tagi í gegnum tíðina og enn eru að koma upp alvarleg mál sem ættu ekki að eiga sér stað.
Atvinnuþátttaka fatlaðs fólks á Íslandi er lægri en gengur og gerist í nágrannalöndunum á meðan atvinnuþátttaka almennings er almennt hærri. Eðlilegt er að skoða hverjar ástæðurnar eru fyrir þessu og hvernig hægt er að efla fatlað fólk til virkni. Hafnarfjarðarbær sé til fyrirmyndar hvað varðar margbreytileika í mannauðsmálum og að fatlað fólk sé metið að verðleikum til jafns við aðra.
Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.
Umboðsmaður fatlaðs fólks gæti heyrt undir stjórnkerfis- og lýðræðisráð eða mannréttindaráð og gæti mögulega verið hluti af skrifstofu umboðsmanns bæjarbúa.
Þetta stendur til samkvæmt 14. grein í frumvarpi um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir en mikilvægt er að sveitarstjórnarfulltrúar og starfsfólk bæjarins geri sér grein fyrir skyldum sveitarfélagsins og að þetta sé framkvæmt með viðeigandi hætti.
Aðgengi fyrir alla
A. Algild hönnun er á ensku “universal design”. Núgildandi reglugerðum er ekki framfylgt og skal bæta þar úr. Þær eru lágmarkskröfur, ekki hámarkskröfur.
B. Dæmi eru um að fólki og fyrirtækjum hafi verið meinað eða gert erfitt fyrir að bæta aðgengi.
C. Ekki er ásættanlegt að leggja opinbert fjármagn til þjónustu og verkefna sem ekki eru aðgengileg öllum. Í gangi eru þó verkefni sem uppfylla ekki þessa staðla. Þeim skal veittur hæfilegur aðlögunartími.
D. Frumkvæðisskyldu sveitarfélaga samkvæmt lögum er ekki framfylgt í þessum málefnum og bæta þarf úr.E. Það getur verið talsverður þröskuldur fyrir þjónustuveitendur að gera breytingar á húsnæði sínu til betra aðgengis þegar aðilanum vantar þekkingu á hvert skuli leita eða hvernig skuli bæta aðgengi. Einnig þarf að skoða hvort setja mætti sjóð á fót eða aðra fjárhagslega hvata til að auðvelda þjónustuaðilum að bæta aðgengi að þjónustu sinni.
Tilheyrandi mál: | Málefni fatlaðs fólks |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Hansi |