Málefni innflytjenda
Málsnúmer: | 3/2018 |
---|---|
Tillaga: | Stefna Pírata í Hafnarfirði um málefni innflytjenda |
Höfundur: | Hansi |
Í málaflokkum: | Velferðarmál |
Upphafstími: | 06/04/2018 16:29:45 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 11/04/2018 16:29:45 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 16/04/2018 16:29:45 (0 minutes) |
Atkvæði: | 9 |
Já: | 8 (88,89%) |
Nei: | 1 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Stefna Pírata í Hafnarfirði um málefni innflytjenda
Í samræmi við grunnstefnu Pírata:
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
2.2 Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
og með með til hliðsjónar:
Jafnréttis - og mannréttindastefnu Hafnarfjarðar:
Álykta Píratar í Hafnarfirði að:
Markmið þessarar stefnu er að efla lýðræðis- og samfélagsþátttöku fólks af erlendum uppruna í Hafnarfirði.
Píratar í Hafnarfirði vilja að kosningalögum sé breytt svo allir sem eiga lögheimili í Hafnarfirði og hafa náð kosningaaldri geti kosið í sveitarstjórnarkosningum.
Fordómar gagnvart innflytjendum, umsækjendum um alþjóðlega vernd og fólki frá öðrum menningarheimum ganga gegn stefnu Pírata og stefnu Hafnarfjarðar. Ávallt skal leitast við að draga úr þeim með viðeigandi fræðslu.
Helsta forsenda virkrar þátttöku er aðgengi að upplýsingum. Stórefla þarf viðleitni Hafnarfjarðar til að koma upplýsingum til innflytjenda í bænum, m.a. um réttindi þeirra og skyldur, þjónustu sveitarfélagsins, tómstundir fyrir börn, félagsleg úrræði og hvert megi leita til að fá aðstoð, á viðeigandi tungumáli eftir því sem mögulegt er.
Veita skal aðstæðum og aðbúnaði innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd sérstaka athygli. Sýna skal frumkvæði í að rannsaka aðstæður þeirra og bjóða þeim úrræði sem komi í veg fyrir einangrun og tryggi mannlega reisn.
Virða skal mannréttindi í hvívetna og tryggja að í allri þjónustu bæjarins sé komið fram við innflytjendur, umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk af virðingu og vinsemd.
Vinna skal gegn margþættri mismunun og styrkja stöðu kvenna af erlendum uppruna. Stuðla skal að valdeflingu þeirra með greiðu aðgengi að upplýsingum um réttindi og úrræði sem eru í boði á viðeigandi tungumáli.
Efla skal fjölskylduráð og fræðsluráð og uppfæra erindisbréf þeirra á þann veg að málefni innflytjenda, hælisleitenda og flóttafólks falli þar undir. Jafnframt væri æskilegt að koma á stofn embætti umboðsmanns bæjarbúa. Þessum aðilum skal gera kleift að kynna betur starfsemi sína með fullnægjandi hætti og hafa frumkvæði að upplýsingagjöf.
Styrkja skal grasrótarstarfsemi sem ýtir undir samfélagsþátttöku og virkni fólks af erlendum uppruna á öllum aldri.
Efla skal nám í íslensku og samfélagsfærni og það nám ætti að standa öllum innflytjendum til boða án íþyngjandi kostnaðarþátttöku. Gæta þarf þess að það sé aðgengilegt án tillits til efnahagsstöðu. Kynna skal sérstaklega þá styrki sem í boði eru.
Tryggja skal gott aðgengi að túlkaþjónustu þar sem við á og leitast skal við að dreifa viðtalstímum hjá stofnunum bæjarins, svo sem skólum og leikskólum, svo hægt sé að tryggja viðunandi túlkaþjónustu fyrir alla.
Upplýsingar frá bænum skulu vera aðgengilegar á eins mörgum tungumálum og hægt er, þar með talið á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar.
Ávallt skal hafa samráð við hagsmunasamtök innflytjenda við mótun og framfylgd stefnu og aðra ákvarðanatöku er þau varða.
Stöðva þarf félagslegt undirboð og tryggja að réttindi og launakjör allra sem starfa hér á landi séu í samræmi við kjarasamninga og lög.
Stuðningur við móðurmál barna er lykill að farsæld barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi. Leggja þarf áherslu á virkt tvítyngi í öllu skóla- og frístundastarfi og taka þarf tillit til þess í námsskrám.
Stuðla þarf að frekari framhaldsmenntun ungmenna af erlendum uppruna og leita leiða til þess að vinna gegn miklu brotthvarfi þeirra úr framhaldsskólum.
Nám, menntun og reynslu erlendis frá þarf að meta af sanngirni. Gefa þarf menntuðu fólki sem hingað flyst möguleika á að nýta sérþekkingu sína. Þegar því verður ekki komið við með beinni viðurkenningu námsgráðu eða réttinda, t.d. þegar námið er háð staðháttum, skal bjóða upp á möguleika á styttra uppfyllingarnámi eða gefa kost á stöðuprófum.
Greinargerð:
Markmið stefnunnar er að efla lýðræðis- og samfélagsþátttöku fólks af erlendum uppruna í Hafnarfirði og leita allra leiða til að veita fólki þá aðstoð og þau verkfæri sem það þarf til að lifa og dafna í bænum.
Í Hafnarfirði hefur byggst upp fjölmenningarsamfélag og nauðsynlegt er að þannig sé haldið á málum að samfélagið geti dafnað öllum til hagsbóta.
Píratar eru flokkur frelsis og fjölmenningar, við erum flokkur lýðræðis og jafnréttis. Það er eitt af okkar höfuðmarkmiðum að hvetja til eins mikillar lýðræðis- og samfélagsþátttöku og mögulegt er. Þannig er ólíðandi að innflytjendur hafi ekki kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum fyrr en þeir hafi búið hér í þrjú ár ef þeir eru frá Norðurlöndum eða fimm ár annars. Hér greiða innflytjendur skatta og útsvar og hafa hagsmuni af því hvernig ákvarðanir eru teknar sem varða þá, hvort sem um er að ræða málefni innflytjenda sérstaklega eða önnur málefni.
Að sem flestir taki þátt í samfélagsumræðunni, stjórnmálastarfi, grasrótarstarfi eða félagsstarfi, bjóði sig fram og kjósi, er lýðræðislegt meginmarkmið okkar og þessi stefna snýr að því hvernig hægt er að valdefla og virkja innflytjendur sem best til slíkrar þátttöku í samfélaginu. Þetta er öllu samfélaginu til hagsbóta.
Við undirbúning þessarar stefnu var fundað með innflytjendum og haldið pallborð á Borgarþingi Pírata. Úr þeirri vinnu kom sú niðurstaða að einn áberandi rauðan þráð væri að finna. Innflytjendum finnst erfitt að finna upplýsingar sem þeir þurfa á tungumáli sem þeir skilja. Oft vita þeir ekki hvar á að byrja að leita og ítrekað var nefnt að eiginlega gengi ekki neitt nema þú værir svo heppinn að þekkja Íslending sem gæti leitt þig í gegnum kerfið.
Upplýsingar eru fyrsta forsenda þátttöku og valdeflingar. Það verður að vera tryggt að allir sem hingað leita viti hver þeirra réttindi eru, hvaða þjónusta og aðstoð sé í boði á vegum hins opinbera og hvert megi leita ef eitthvað vantar upp á.
Besta leiðin til þess er að Hafnarfjarðarbær sé forvirkur í að koma upplýsingum til skila og kynna sína starfsemi og þjónustu. Til að það geti gengið þurfa þær upplýsingar að vera í boði á öllum algengustu tungumálum.
Þegar kemur að innflytjendum, sem og öðrum jaðarhópum, þarf að veita sérstaka athygli þeim sem eru minnihlutahópar innan þeirra hópa, t.d. konur, samkynhneigðir eða fatlað fólk, og tryggja að réttindi þeirra séu virt og að komið sé í veg fyrir margþætta mismunun.
Skýringar á einstökum liðum:
Ræða má frekar hvort miðað skuli við lögheimili, starfsleyfi eða annað slíkt viðmið, en markmiðið er að allir sem hér búa til lengri tíma og taka þátt í samfélaginu geti tekið fullan þátt og séu hvattir til þess. Skammtímadvöl til vinnu eða náms þurfi ekki endilega að vera inni í þessu, en væri það þó að skaðlausu. Þó að til þessa geti þurft lagabreytingu er það málefni bæjarins og á því við að tilgreina það hér, enda hlutverk bæjarins að eiga þetta samtal við ríkið. Gæta þarf að því að ekki sé brotið gegn alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að við útfærslu þessarar stefnu.
Þessi liður þarfnast ekki útskýringar.
Útfærsla er ekki stefnuatriði út af fyrir sig, til dæmis hefur verið nefndur sérstakur bæklingur þar sem tekið er saman hvar leita megi upplýsinga um réttindi, úrræði og mögulega aðstoð, sem og hvert megi leita þegar út af bregður, eða jafnvel að þetta gæti verið í appi. Eðlilegt er að virkja önnur félög eftir atvikum við að koma slíkum upplýsingum til skila. Ath að bæta upplýsingar á heimasíðu.
Ef gerðir eru samningar við ríkið um umsækjendur um alþjóðlega vernd og útlendinga í sérstökum aðstæðum skal vera ljóst að framlag ríkisins nægi til að koma til móts við þarfir þeirra.
Oft kemur fólk hingað frá ríkjum þar sem yfirvöld virða ekki mannréttindi eða mannhelgi og er því mögulega tortryggið gagnvart opinberum stofnunum. Því þarf sérstaklega að gefa því gaum að starfsfólk og embættismenn bæjarins leggi sig fram við að koma fram við þá sem til þeirra leita af vinsemd og virðingu. Huga þarf að mismunandi menningarbakgrunni og misjöfnum aðstæðum og koma til móts við það.
Hluti af þessu er að passa vel upp á að konur af erlendum uppruna hafi upplýsingar um aðstoð fyrir þolendur heimilisofbeldis og úrræði, upplýsingar um réttindi sín og um samtök sem veita myndu aðstoð. Margþætt mismunun er þegar einstaklingar eru hluti af fleiri en einum minnihlutahópi eða jaðarhópi og eru því sérstaklega viðkvæmir fyrir misrétti. Úrlausn á málefnum annars hópsins sé þá e.t.v. á forsendum meirihlutans innan hans og þeir sem eru þar í minnihluta dragast enn lengra aftur úr. Slík mismunun er þannig einstök og öðruvísi en sú mismunun sem einstaklingar lenda í sem eingöngu tilheyra einum minnihlutahópi. Sem dæmi má nefna fatlaða manneskju sem er líka samkynhneigð eða innflytjandi.
Félagsleg þátttaka er forsenda virkni í samfélaginu og ýmsar aðferðir eru færar til að auka hana. Þá má nefna stuðning við félagsstarf, grasrótarstarf og hagsmunasamtök, með fjárhagsstuðningi, aðgengi að fundaraðstöðu og með samráði við slíka hópa þegar við á.
Skoða mætti að opna aðstöðu þar sem nýta mætti frumkvæði innflytjenda sem vilja stunda félagsstarf eða grasrótarstarf. Hafnarfjarðarbær gæti stutt slíkt starf og vel mætti leita samstarfs við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Leita skal samráðs við atvinnurekendur og starfsmenntunarfélög um möguleika á að slikt nám fari fram á vinnutíma.
Hætt er við mjög miklu álagi á túlkaþjónustu bæjarins, t.d. þegar foreldraviðtöl eru haldin í skólum. Skipuleggja þarf slíka viðburði þannig að unnt sé að dreifa álagi á túlkaþjónustu og passa að allir sem þurfa geti fengið fundi með túlk.
Þetta efni þarf að vera aðgengilegt á að minnsta kosti algengustu erlendu málum hérlendis og helst með möguleika á aðstoð fyrir sjaldgæfari mál. Allir þurfa að geta nálgast upplýsingar um þjónustu bæjarins á heimasíðu hans.
Þessi liður þarfnast ekki frekari útskýringa.
Félagslegt undirboð er þegar starfsmannaleigur undirbjóða innlenda verktaka og annað hvort greiða mun lægri laun en viðgangast fyrir slík störf á Íslandi, eða spara með slökum aðbúnaði og aðstöðu í krafti þess að starfsmenn þeirra þekki ekki rétt sinn eða hafi ekki stöðu til að krefjast hans. Þó þetta sé mál sem varðar ríki meira en bæinn er mikilvægt að því sé haldið til haga að sömu kjör gangi yfir alla í sömu stöðu og að aðbúnaður alls staðar sé viðunandi. Hafnarfjarðarbær getur staðið á þessu í eigin útboðum, innkaupum og reglusetningu. Eins er hægt að huga að því í regluverki, leyfisveitingu og eftirliti að gætt sé að aðbúnaði starfsfólks.
Á mótunarárum er móðurmálið nauðsynlegur þáttur í málþroska og skilningi á hugtökum. Tvítyngd börn sem glata niður móðurmálinu áður en þau ná haldbærum tökum á íslensku eða þriðja máli standa höllum fæti og því ber að sporna gegn. Það er þannig beinlínis nauðsynlegt upp á að börn innflytjenda nái að tileinka sér íslensku að þau geti jafnframt haldið móðurmálinu vel við.
Þó framhaldsskólar séu á forsvari ríkisins er ýmislegt sem bærinn getur gert til að sporna gegn brotfalli með áherslum sínum í tómstundastarfi í grunnskólum og með öðrum stuðningi við ungmenni af erlendum uppruna.
Þetta er einnig á forsvari ríkisins, en þó er gott að stefna bæjarins sé skýr og umræðan sé tekin við ríkið. Eftir megni má sníða starfsmannastefnu og aðrar stefnur sem málið varða að þessum áherslum.