Samþykkt: Gagnsæi, gæðastjórnun og íbúalýðræði
Gagnsæi, gæðastjórnun og íbúalýðræði gegn spillingu í sveitarstjórnum.
Í anda grunnstefnu Pírata varðandi eflingu og verndun borgararéttinda, styrkingu beins lýðræðis og eflingu gegnsærrar stjórnsýslu sem stuðlar að vernd hinna valdaminni gagnvart þeim sem eru valdameiri.
Píratar á Suðurnesjum vilja bæta borgaravitund og stuðla að sjálfseflingu íbúa. Í því felst meðal annars eftirfarandi:
1. Við viljum að bæjarstjórar séu kosnir í bindandi íbúakosningu.
2. Við viljum að sveitarfélög á Suðurnesjum bjóði ætið upp á bindandi íbúakosningar þegar þess er óskað í stórum málefnum er íbúa varðar.
3. Við viljum valdefla íbúana með auknu þátttökulýðræði og aðkomu bæjarbúa að ákvörðunum.
4. Við viljum stórauka gagnsæi í stjórn sveitarfélaga á Suðurnesjum meðal annars með aukinni upplýsingaveitu um heimasíður og internet.
5. Við viljum að öll útboðsgögn og tilboð sem berast vegna framkvæmda og verkefna sveitarfélaga séu opin og aðgengileg almenningi.
6. Við viljum að leitast verði við að nota frjálsan, óháðan hugbúnað og opna staðla í rafrænum skjölum sem aðgengileg eru íbúum.
7. Við viljum auka gæði í stjórnsýslu með því að stofnað embætti umboðsmanns íbúa sem hefur tillögurétt í bæjarstjórn og tryggir gagnsæja málsmeðferð með hag íbúa að leiðarljósi.
8. Við viljum að Sveitarfélög á Suðurnesjum reki grunnstoðir samfélagsins og endurheimti þær fasteignir bæjarfélagsins sem hýsa starfsemi sem teljast til slíkra grunnstoða.
Umræða:
Við viljum búa í bæjarfélögum sem sinna þörfum íbúa af kostgæfni og myndugleik, ekki aðeins lágmarkskröfum samkvæmt lögum og reglum, heldur af áhuga og framsýni.
Þátttaka og samráð við íbúa og félagasamtök á að vera tryggð svo nærsamfélagið hafi skýra rödd í stjórnsýslu og þjónustu. Við viljum að íbúum, sér í lagi nýbúum, ungu fólki og öryrkjum séu kynnt réttindi sín með bæklingum og upplýsingalínu sem umboðsmaður íbúa sér um.
Umboðsmaður íbúa skal sjá til þess að hlustað verði á fólk og hugmyndum fylgt eftir af sveitarstjórnum. Hluti af starfinu má er valdefling bæjarbúa gagnvart sveitarstjórnum með upplýsingagjöf um réttindi og tækifæri bæjarbúa í flóknu kerfinu, t.d. varðandi félagsleg réttindi, húsnæðismál og kynna fólki atvinnuréttindi sín auk þess að hafa óháð gæðaeftirlit með starfsemi sveitarfélaga. Umboðsmaðurinn er opinber starfsmaður og starfar óháð bæjarstjórnum við að sinna almannatengslum, samskiptum og upplýsingaveitu fyrir íbúa og fjölskyldur með ólíkar þarfir og af ólíkum þjóðernum. Sveitarfélög á Suðurnesjum geta sameinast um rekstur embættisins.
Auðvelda þarf aðgang íbúa að fundagerðum, ákvörðunum sveitarfélaga, samningum, hagsmunaaðilum, samskipti við hagsmunaaðila og bréfaskriftir sem varða opinberar ákvarðanir og stjórnsýsluákvarðanir. Sveitarfélög eiga að koma sér upp umhverfisstefnu sem fylgja stefnum stjórnvalda og alþjóðasamþykktum. Huga þarf að húsnæðismálum og samfélagsmálum og vinna að langtímamarkmiðum og áætlunum er varða innviði og grunnstoðir samfélagsins. Bæði á að veita aðgang að frumgögnum og einnig birta úrdrátt á mannamáli sem íbúar geta auðveldlega kynnt sér.
Aðkoma almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun er nauðsynleg samfélaginu. Til þess að svo megi verða þarf aðkoma íbúa að verða virkari innan stjórnsýslunar. Með því að efla íbúalýðræði og þátttökulýðræði og aðgengi bæjarbúa að upplýsingum, minnkar það þekkingarforskot sem stjórnmálamenn höfðu gagnvart almenningi. Þannig geta bæjarbúar í Reykjanesbæ veitt aðhald gangnvart stjórnsýslu bæjarinns og bæjarstjórn. Bæjarbúar eiga einnig að hafa rétt á að kjósa um mikilvæg málefni sem varðar þá og framtíð bæjarins.
Stefna skal að því að efla grunnstoðir samfélags á Suðurnesjum. Grunnstoðirnar eru; heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, menntastofnanir, samgöngukerfi, veitukerfi og öryggismál. Setja þarf markmið til framtíðar um hverja grunnstoð og vinna í samræmi við þau markmið til að stuðla að velferð íbúa á Suðurnesjum. Þessar grunnstoðir og innviði þeirra skal endurheimta eftir þörfum, með hag allra íbúa að leiðarljósi.
Tilheyrandi mál: | Gagnsæi, gæðastjórnun og íbúalýðræði |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | AlbertSvan |