Samþykkt: Umhverfisvernd og andstaða við mengandi iðjuver
Umhverfisvernd og andstaða við mengandi iðjuver í Helguvík
Í anda grunnstefnu Pírata að borgararéttindi og sjálfsákvörðunarréttur séu tryggð ásamt vernd hinna valdaminni gegn valdbeitingu valdmeiri lögaðila.
Píratar á Suðurnesjum ætla að koma umhverfisvernd í gott horf og standa fast gegn því að mengandi iðjuver séu staðsett nærri íbúabyggð. Í því felst meðal annars eftirfarandi:
1. Við viljum að sveitarfélög skulu koma sér upp samræmdri umhverfisstefnu með heilsu íbúa, bætts skipulags, sjálfbærni í atvinnuvegum og umhverfisvernd að leiðarljósi.
2. Við viljum að íbúar og heilsa þeirra njóti ætíð vafans við ákvarðanir er varða staðsetningu mengandi atvinnustarfsemi.
3. Við viljum leita leiða til að koma í veg fyrir að mengandi stóriðja verði staðsett nærri íbúabyggð, svo sem í Helguvík.
4. Við viljum að auka flokkun úrgangs heimila og fyrirtækja um öll Suðurnesjum.
5. Við viljum að í samningsgerð sorpbrennslustöðvarinnar Kölku í Helguvík verði gerð krafa um vothreinsibúnað til verndar heilsu íbúa.
6. Komi til sameiningar Kölku og Sorpu skal stuðla að mótttöku úrgangs um Helguvíkurhöfn frekar en að það auki á þungaflutninga um Reykjanesbraut.
7. Við viljum að allur arður af rafmagnsframleiðslu frá sorpbrennslunni reiknist til lækkunar orkuverðs fyrir íbúa á Suðurnesjum.
8. Við viljum hefja vinnu að undirbúningi eldfjallaþjóðgarðs á Suðurnesjum sem framhald jarðvangsverkefnis.
Umræða:
Umhverfisstefna sveitarfélaga skal taka tillit til betrumbóta á rekstri og uppbyggingu í sveitarfélögunum, ásamt því að uppfylla mengunarbótareglu, varúðarreglu og alþjóðleg stefnumið Íslands í umhverfismálum, þar með talið að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Efla þarf umhverfisvitund í stjórnkerfinu á Suðurnesjum og þarf hugmyndafræði sjálfbærni og umhverfisverndar til lengri tíma vera samþætt við alla þætti í rekstri sveitarfélaganna.
Hluti af skipulagsmálum og umhverfisstefnu sveitarfélaga skal vera að efla hagræna hvata til aukningar á hlut sjálfbærra atvinnuvega á Suðurnesjum, svo sem heilbrigðisþjónustu, vistvænnar matvælaframleiðslu fyrir íbúa og ferðafólk, og að draga markvisst úr öllum ívilnunum og stuðningi við mengandi starfsemi.
Afturkalla skal leyfi og aðra samninga við mengandi iðjuver í Helguvík vegna brostinna og breyttra forsendna er varða heilbrigði íbúa. Íhuga skal mengunarbótastefnu með því markmiði að fæla mengandi starfsemi frá íbúabyggð. Þar eiga kostnaður og skaðabætur að skipta minnstu máli og eiga ekki að stjórna umræðunni.
Ljóst er að iðnaðarsvæðið í Helguvík er of nálægt íbúabyggð til að vera hentug fyrir mengandi iðjuver. Þegar uppbygging iðjuvera var samþykkt í Helguvík grunaði fáa hversu mikil neikvæð áhrif það hefði á andrúmsloft, heilsu og umræðu í samfélaginu. Nú þykir ljóst að bæði sé svæðið of nálægt íbúabyggð til að bæta þar við mengandi iðjuverum auk þess sem atvinnuástand kallar ekki sérstaklega eftir þessari uppbygginu á næstu misserum. Þannig skal gefast tími til að huga að vistvænni atvinnuuppbyggingu og afturköllun starfsleyfa mengandi iðnaðar. Athuga þarf aftur samning við fyrirtæki um þörungarækt. Opna þarf umræðu um ræktun á iðnaðarhampi. Suðurnes koma oft illa út úr viðhorfskönnunum og samanburði við önnur landssvæði þannig að ímynd Suðurnesja er í húfi.
Við samninga um breytta starfssemi sorpbrennslustöðvarinnar Kölku skal gæta ýtrustu varúðarsjónarmiða varðandi heilsu íbúa, einnig skal sporna gegn auknum þungaflutningum úrgangs um Reykjanesbraut og bjóða þá fremur upp á móttöku í gegnum Helguvíkurhöfn.
Raforkuframleiðsla frá Kölku hefur farið inn á dreifikerfi Hitaveitu Suðurnesja, sem nú hefur verið seld frá hinu opinbera að mestu leyti. Því skal gæta þess og krefjast að arður af þessari raforku renni til íbúa á Suðurnesjum í formi lægra raforkuverðs.
Hefja þarf undirbúning að því að stofna þjóðgarð á Reykjanesi sem formfesting og framhald af þeirri ágætu vinnu þegar hefur farið fram varðandi jarðvang S.Þ., verkefni sem HS Orka ber ábyrgð á.
Tilheyrandi mál: | Umhverfisvernd og andstaða við mengandi iðjuver |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | AlbertSvan |