Samþykkt: Sjávarútvegsstefna
Með tilvísun til eftirfarandi greinar í grunnstefnu Pírata
- 4.1 Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.
- 4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.
- 4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
- 6.3 Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllumð sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.
Með hliðsjón af
- Stefnu Pírata um stjórnskipunarlög (https://x.piratar.is/polity/1/document/35/)
Álykta Píratar að
- Ákvæði frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga verði efnislega tekið upp í stjórnarskrá en það er svohljóðandi: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar. Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“
- Íslenska ríkið, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, skal bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð og skulu öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar.
- Allur afli skal fara á markað til að gera viðskipti með sjávarútvegsafurðir eðlilegri og bæta hag sjómanna, minni sjávarútvegsfyrirtækja og annara fyrirtækja sem vinna með afleiddar afurðir.
- Allar upplýsingar frá vigtun og markaði, s.s. tölfræði, skulu vera opinberar.
- Handfæraveiðar verði frjálsar þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu.
- Störf Hafrannsóknastofnunar skulu gerð gagnsæ og starfshættir hennar aðgengilegir almenningi. Ráðgjafaráð Hafrannsóknastofnunar skal ekki skipað hagsmunaaðilum.
- Tryggja skal eftirlitshlutverk Samkeppnisstofnunar í málaflokknum.
- Stórefla skal landhelgisgæsluna að mannafla og búnaði til eftirlits og þjónustu við sjávarútveginn.
- Að láta sjómenn taka þátt í leigu á aflaheimildum skal gert refsivert.
Greinargerð
Allar breytingar á aflamarkskerfinu eru gagnslausar án tryggðs eignarhalds þjóðarinnar. 34. grein stjórnarskránnar er grundvallarbreyting þjóðinni í hag.
Útvegsmenn sjálfir, í gegnum virkan uppboðsmarkað, munu ráða hversu mikið útvegurinn borgar fyrir réttinn til að veiða. Þegar ríkið ákveður veiðigjöld hafa útvegsmenn og samtök þeirra gífurlega hagsmuni af því að þrýsta á stjórnvöld, hamast á almenningi með áróðri og skekkja bókhald sitt með ýmsum aðferðum til að stilla stöðunni þannig upp að útvegurinn líti út fyrir að vera illa greiðsluhæfur og rökstyðja þannig kröfur um lækkuð gjöld. Ef útvegurinn greiðir markaðsverð sem myndast á frjálsum uppboðsmarkaði á veiðiheimildum hvetur það útvegsmenn til að færa bókhald sitt í eðlilegt lag, sýna raunverulega rekstrarstöðu og mun leiða til eðlilegrar eiginfjármyndunar í greininni. Algert grundvallaratriði er að upphæð veiðigjalds myndist á uppboðsmarkaði. Þegar þannig er að málum staðið getur útvegurinn ekki haldið því fram að verið sé að oftaka gjöld af greininni því útgerðirnar bjoða einfaldlega ekki hærra en það sem atvinnugreinin rís undir. Ekki er síður mikilvægt að þegar veiðigjöld eru rýr í erfiðu árferði mun ekki vera hægt að áfellast útvegsmenn af þessari sömu ástæðu: greinin greiðir einfaldlega ekki meira en hún getur. Með þessum hætti verður sátt i þjóðfélaginu um veiðigjöld, hvort sem þau eru há eða lág frá ári til árs.
Til að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun og óheilbrigða verðmyndun á fiski og fiskafurðum skal öllum afla landað á fiskmarkað til vigtunar á vottuðum stöðum. Skal eftirlit vera með þeim hætti að erfitt reynist að skjóta sér undan kerfinu. Endurvigtunarleyfi útgerða skulu fjarlægð. Viðskiptatengsl vigtunaraðila við útgerð og aðra sem ættu hagsmuni af því að hagræða vigtun á að vera í algjöru lágmarki.
Í núverandi kerfi hafa útgerðir með eigin vinnslu leyfi til að endurvigta fisk eftir að hafnarvog og markaður hafa vigtað. Þetta leiðir af sér undanskot frá kerfinu. Þegar fiski er landað beint til vinnslu er stuðst við verðlagsstofuverð sem yfirleitt er langt undir raunvirði fisksins. Þetta skilar sér síðan í lægri launum sjómanna og þar af leiðandi minni tekjuskattsheimtu. Einnig gefur þetta stærri aðilum óeðlilegt forskot á erlendum mörkuðum þegar þeir geta undirboðið aðra aðila um upphæðina sem sparast við að kaupa fiskinn á lágu verði. Jafnframt þegar lóðrétta samþættingin er á þann veg að aðilar selji systurfyritækjum afurðir undir markaðsverði sem leiðir af sér að tekjurnar skila sér ekki til landsins.Til að stemma af hvað kemur inn og hvað fer út af markaði skal tölfræði vera gerð opinber og öllum aðgengileg. Markmiðið með þessu ákvæði er að með auðveldum hætti verði hægt að fylgjast betur með hve mikið raunverulega kemur úr hafinu.
Með frjálsum veiðum einstaklinga á handfæri skal stuðlað að nýliðun ásamt kærkominni búbót fyrir gjörvallt landið. Tilgangurinn er að hafa átyllu fyrir nýa aðila til að komast inn í útgerð án þess að þurfa að standa undir útgjöldum við leigu á heimildum. Skal þetta háð skynsamlegum takmörkunum á fjölda leyfa á einstakling, lögaðila og eftir tegundum báta.
Störf Hafrannsóknastofnunar og ákvarðanir ásamt gögnum þeim til rökstuðnings skulu gerð opinber. Einnig skulu hagsmunaaðilar ekki hafa sæti í ráðgjafaráði stofnunarinnar og skal hagsmunapot víkja fyrir vísindum. (Um þessar mundir sitja tveir aðilar tengdir hagsmunasamtökum í ráðgjafaráðinu, jafnframt eru tveir ráðherraskipaðir í sjö manna ráði. Þetta skal víkja fyrir sjö manna óháðu ráði, þar sem enginn hefur fjáhagslegan ávinning af ákvörðunum ráðsins - beint eða óbeint, svo sem í gegnum nána ættingja.
Til að heilbrigð samkeppni geti átt sér stað þarf eftirlit innanlands sem utan til að tryggja að hver sá sem kýs geti keppt á heilbrigðum markaðsforsendum.
Nú um stundir er landhelgisgæslan starfrækt á þann veg að tæki hennar eru notuð í útleiguverkefni í Miðjarðarhafi. Jafnframt er einungis ein þyrla starfrækt og ein áhöfn á hana. Íslendingar eiga tvær starfandi þyrlur og þá þriðju sem hefur ekki blindflugsbúnað ásamt því að vera ekki búin til næturflugs og björgunaraðgerða. Þessar þyrlur eru leigðar út og starfsemi gæslunar er það illa fjármögnuð að hún neyðist til að leigja út tækin sem keypt eru - til þess að fjármagna störf.
Þekkt er í kvótakaupum að láta sjómenn taka þátt í kaupunum. Með þessu gætu útgerðir hækkað tilboð sitt í aflaheimildir á kostnað sjómanna. Þetta er ekki markmiðið með stefnunni.
Tilheyrandi mál: | Sjávarútvegsstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Úrelt | stefanvignir | |
2 | Tillaga | farbiond | ég tel að setja þurfi inn skilyrði fyrir jafnari dreifingu kvóta um allt land .. þannig að smærri byggðarfélög hefðu möguleika á að stækka.. það sem er að drepa sjávar þorpin er kvóta leysi og kostnaður við kvóta einnig þarf að skilda landvinnslu á einhverjum hluta til þess að skapa atvinnu í þessum smærri bæjarfélögum. |
3 | Tillaga | jack | Ég hef lengi verið talsamður smábátaútgerðar og vil sjá að þar verði farið í breytingar á núverandi kerfi og það einfaldað til mikilla muna. |
4 | Samþykkt | bjornlevi |