Samþykkt: Lýðræðisefling á öllum stjórnsýslustigum
Með tilvísun til eftirfarandi greinar í grunnstefnu Pírata
Grein 1. Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna
Grein 4. Gagnsæi og ábyrgð
Grein 6. Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur
Með hliðsjón af
15 gr. frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga, um upplýsingarétt (http://www.stjornlagarad.is/starfid/frumvarp/)
Álykta Píratar að
Tryggja skuli að ferlar við ákvarðanatöku á öllum stjórnsýslustigum séu gagnsæir og rekjanlegir. Allir eigi þess kost að fylgjast með ákvörðunum og aðgerðum stjórnvalda.
Almenningi skuli tryggðar upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sín og skyldur í samskiptum við stjórnsýsluna, hvert hann getur leitað innan hennar með sín mál og hvernig bera skal sig að gagnvart henni.
Stofnunum skuli tryggð tól og fjármagn til þess að vera fær um að vinna úr upplýsingum, halda utan um þær og birta þær, í samræmi við þær kröfur sem til þeirra er gerðar. Sífellt sé haft í huga að meðhöndlun og miðlun upplýsinga er lykilþáttur í stjórnsýslu og þjónustu við almenning.
Í því skyni að vinna að þessum markmiðum skuli starfa vinnuhópur innan Pírata sem hefur það að markmiði að kortleggja öll stig stjórnsýslunnar, ferla og ákvarðanatöku innan hennar og hvar völdin liggja. Þessar upplýsingar skulu vera gerðar aðgengilegar almenningi með markvissum og auðskiljanlegum hætti.
Greinargerð
Aðkoma almennings að ákvörðunum teknum af ríki, sveitarfélögum og byggðasamlögum er lítil. Aðgengi og aðgangur eru almennt slæm og erfitt er að nálgast upplýsingar um hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni og þar með hafa áhrif á framvindu mála. Erfitt getur verið fyrir borgara að vita hvert þeir eiga að leita með sín mál og hver gætir réttinda þeirra í samskiptum þeirra við kerfið. Grundvallarþáttur í að auka áhrif almennings og breyta kerfinu er að almenningur skilji kerfið og viti hvar ákvarðanir eru teknar og hvernig. Borgari getur ekki verið virkur þátttakandi í stjórnkerfinu og veitt því aðhald nema hann sé upplýstur um hvernig það virkar. Kjörnir fulltrúar almennings njóta einnig góðs af slíku gagnsæi og vinna þeirra verður skilvirkari og markvissari. Umræður verða skilvirkari þegar allir hafa jafnan og tæmandi aðgang að upplýsingum um stjórnsýsluna og einstök mál innan hennar. Líta þarf á upplýsingamál sem sjálfstætt grundvallaráskorunarefni í stjórnsýslunni. Til þess að stjórnsýslan sé fær um að sinna þessum skyldum þarf að flétta upplýsingaskyldu og upplýsingamál inn í öll stig hennar og tryggja að skyldunum fylgi nauðsynlegt fjármagn og tæki. Til að hafa skýra sýn á hvar sóknarfærin liggja þarf að kortleggja núverandi stöðu og í því skyni skal vera starfandi vinnuhópur innan Pírata sem starfar að því að afla upplýsinga um stjórnsýsluna, setja þær í samhengi og miðla þeim til almennings. Vinnuhópurinn skal leita samstarfs við kjörna fulltrúa og aðra sem hafa þekkingu og áhuga á málaflokknum.
Tilheyrandi mál: | Lýðræðisefling á öllum stjórnsýslustigum |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | bjornlevi |