Tillaga: Stefna um Pírataspjallið
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.3 Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
Með hliðsjón af
- Píratar standa að og reka Facebook hópinn Pírataspjallið
- Pírataspjallið heyrir undir Framkvæmdaráð Pírata sem ber ábyrgð á því.
- Framkvæmdaráð skal sjá til þess að ávallt séu nægur fjöldi stjórnenda á Pírataspjallinu
- Framkvæmdaráð skal sjá til þess að virk stjórnun sé á Pírataspjallinu og að því sé stýrt eftir siðareglum sem settar eru í samráði við stjórnendur Pírataspjallsins og almenna félagsmenn. Slíkar siðareglur skulu þó ekki ganga gegn skoðana- eða tjáningarfrelsi þátttakenda eða óhefluðum skoðanaskiptum, heldur miða að því að tryggja eðlilegan framgang umræðunnar (sjá nánar í greinargerð)
- Félagsmönnum er heimilt að krefjast greinagerðar um ákvarðanir stjórnenda í málum sem þá varða.
Greinargerð
Liður 1. Með vísun í
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
Nú er komin reynsla á rekstur Pírataspjallsins sem gefur okkur betri aðstöðu og meiri upplýsingar til að taka ákvörðun um rekstur þess.
Jafnframt lítur almenningur á Pírataspjallið sem vettvang Pírata og sem leið til að kynnast þeim og þeirra störfum, þess vegna berum við ábyrgð á því að þessi vettvangur gefi þeim sem þangað koma réttar upplýsingar.
Og
1.3 Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.
Sú ákvörðun að láta Pírataspjallið ganga því sem næst án umræðustjórnunar var tekin í góðri trú á sínum tíma, en reynslan hefur sýnt að það kann að hafa verið misráðið að setja ekki á fót lágmarks-stjórn, sem geti komið í veg fyrir að örfáir háværir þaggi aðra niður eða eyðileggi annars góðar umræður.
Sú ákvörðun þarf að sæta endurskoðun.
Liður 2. Með vísun í:
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
Píratar bera ábyrgð á Pírataspjallinu. Það er í okkar nafni, rekið af okkar meðlimum og í stjórnendahóp síðunnar eru þingmenn, borgarfulltrúar, stjórnarmenn í aðildarfélögum og aðilar úr framkvæmdaráði. Þó svo að vissulega megi halda fram að um sjálfstætt fyrirbæri á þeirra vegum sé að ræða, þá er það ekki heiðarleg eða góð framsetning þegar tengslin eru svo mikil og sterk. Fólk upplifir að við berum ábyrgð á þessum vettvangi og við verðum að axla þá ábyrgð og sýna að við stöndum undir henni, ellegar ber okkur að loka þessum vettvangi og láta þá sem vilja halda þessum umræðum áfram um að stofna nýjan.
Til að við getum borið ábyrgð á því sem fer þarna fram þurfum við að búa til skýra röð ábyrgðar og gefa þeim sem eru handhafar þeirrar ábyrgðar þau tól sem þarf til að standa undir henni, annars er ekki um raunverulega ábyrgð að ræða.
Liður 3.
Framkvæmdaráði er heimilt að velja sjálfboðaliða til að sjá um stjórnun á Pírataspjallinu, annað hvort úr sínum röðum, úr grasrót flokksins eða annarra sem það telur að geti sinnt þessum skyldum. Sú ábyrgð er þó áfram á höndum framkvæmdaráðs sem getur endurskoðað val sitt á stjórnendum ef þurfa þykir.
Liður 4:
Siðareglur og stjórnun spjallsins skulu ekki íþyngja spjallinu eða fara fram á efnislegum forsendum, heldur gefa heimild til að grípa inn í, eyða innleggjum og jafnvel fjarlægja notendur ef um ítrekaðar auglýsingar, "spam", myndefni sem misbýður velsæmi eða vísvitandi eyðileggingu eða yfirtöku á umræðunni er að ræða
Liður 5. Með vísun í
4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
Það er sjálfsögð krafa bæði réttlætis og gagnsæis að þeir sem fara með ábyrgð á þessum vettvangi getið staðið skil á sínum ákvörðunum og útskýrt þær með vísun í stefnu og siðareglur.
Viðbót varðandi lið 5.2
Einhver gæti talið að þessi stefna skarist á við eftirfarandi lið grunnstefnu:
5.2 Takmörkun á frelsi fólks til að tjá sig er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.
Við teljum ekki að um brot á þessum lið sé að ræða, enda sé ekki verið að hamla tjáningarfrelsi einstaklings beint. Einungis verið að neita þeim um að nýta vettvang sem tilheyrir fleirum í þeim tilgangi, á hátt sem eyðileggur möguleika þeirra á að nýta hann.
Á málfundum viðgengst nú þegar að halda umræðustjórn, að fundarstjóri passi að sem flestir komist að, og að enginn einn eyðileggi fundinn með því að einoka orðið og kaffæri þannig aðra.
Þessi stefna myndi gera okkur kleyft að stýra pírataspjallinu með sama hugarfari. Að passa að fáir aðilar skemmi ekki umræðuvettvanginn fyrir öllum.
Athugasemd:
Á Facebook eru reknir hinir ýmsu hópar. Píratar-dýravelferð til dæmis. Nokkrar konur stjórna þeim hóp, flestar standa sig mjög vel, en ein þeirra hefur verið áberandi dónaleg. Á það sérstaklega við þegar umræður eru um kjötframleiðslu, en hún er hlynnt henni. Það er allt gott og blessað, en mér finnst mikilvægt að þeir sem stjórni hópum sé fólk sem er meðvitað að það er þarna í nafni Pírata. Framkoman í þessum hóp olli mér áhyggjum á tímabili.
Annar hópur, Píratar-kvenfrelsi er þekktur undir nafninu Hatrið af femínistum. Það er heldur ekki mjög góð mynd af Pírötum. Ég var inni í þeim hópi en fór mjög fljótlega út. Því miður skildi sú viðvera mín líka eftir vonda tilfinningu gagnvart Pírötum. Ég mun kjósa Pírata vegna þess að ég vil nýja stjórnarskrá, en ég er pínkulítið óttaslegin að ég sé að fara að kjósa flokk þar sem kvenfyrirlitning verður ofan á og dýravelferð verður ekki tekin nógu langt. Líklega ástæðulaus ótti, en bara svona sem dæmi um hve mikilvægt er að stjórna svona hópum af vandvirkni, og kannski að hafa fólk sem hefur þekkingu í málefninu og hvetur til umræðna.
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | bjornlevi | Samþykkt á félagsfundi Pírata |
2 | Tillaga | Ninny | Athugasemd: Á Facebook eru reknir hinir ýmsu hópar. Píratar-dýravelferð til dæmis. Nokkrar konur stjórna þeim hóp, flestar standa sig mjög vel, en ein þeirra hefur verið áberandi dónaleg. Á það sérstaklega við þegar umræður eru um kjötframleiðslu, en hún er hlynnt henni. Það er allt gott og blessað, en mér finnst mikilvægt að þeir sem stjórni hópum sé fólk sem er meðvitað að það er þarna í nafni Pírata. Framkoman í þessum hóp olli mér áhyggjum á tímabili. |