Samþykkt: Upplýsingaráð skilgreint
Lagt er til að lögum 6.9. verði breytt á eftirfarandi máta:
6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki framkvæmdaráðs, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Staðfesti upplýsingaráð, með auknum meirihluta (sbr. 9.5), að setja yfirlýsingu í skyndikosningu í samræmi við grein 9.16 má setja slíka kosningu í gang án samþykktar framkvæmdaráðs. Sú heimild gildir eingöngu um tilkynningar eða yfirlýsingar sem þarfnast samþykkis félagsmanna, en veitir ekki heimild til skyndikosninga um stefnumál eða lög félagsins.
Lagt er til að lög um upplýsingaráð Pírata verði samþykkt sem lög 9.1-9.19
Lagt er til að lögum 9-15 verði breytt til samræmis svo þau verði lög 10-16
9.1. Hlutverk upplýsingaráðs er að veita upplýsingar fyrir hönd Pírata á Íslandi. Upplýsingaráð hefur heimild til þess að tjá afstöðu flokksins í heild til einstakra mála í samræmi við samþykktar stefnur, lög félagsins og ályktanir, hvort sem er að fyrra bragði eða sem svar við fyrirspurnum eða opinberri umræðu sem myndast hefur.
Upplýsingaráð á að sjá til þess að réttar upplýsingar um stefnu pírata og afstöðu þeirra til einstakra mála sé komið á framfæri. Upplýsingaráð hefur umboð til að álykta og senda út yfirlýsingar í nafni flokksins, svo lengi sem slíkar ályktanir eða yfirlýsingar séu í samræmi við samþykktar stefnur, ályktanir og lög félagsins.
9.2. Í upplýsingaráði sitja níu manns og níu til vara. Svæðisfélög í hverju kjördæmi skipa saman einn fulltrúa fyrir kjördæmið og varamann. Þingflokkurinn tilnefnir einn fulltrúa og einn varamann. Aðalfundur kýs að lokum tvo fulltrúa í upplýsingaráð og tvo varamenn með Schulze aðferðinni.
9.3. Sigurvegari kosningar á aðalfundi verður formaður upplýsingaráðs, en sá sem næstur kemur verður varaformaður. Varamenn þeirra eru þeir tveir sem á eftir fylgja.
9.4. Að auki skipa framkvæmdaráð og fjölmiðlunarnefnd áheyrnarfulltrúa í upplýsingaráð. Það val getur sætt endurskoðun og mega framkvæmdaráð og fjölmiðlunarnefnd velja nýja fulltrúa eftir þörfum. Því þarf ekki að skipa sérstaka varamenn. Slíkir áheyrnarfulltrúar sitja fund áfram þó svo ákveðið sé að loka fundi í samræmi við grein 9.18
9.5. Upplýsingaráð tekur ákvarðanir með einföldum meirihluta atkvæða sitjandi aðalmannna nema annað sé tekið fram. Þar sem það kemur fram telst aukinn meirihluti vera atkvæði amk. þriggja af hverjum fjórum sitjandi aðalmanna, námundað upp. Þannig þarf sjö aðalmenn til að ná auknum meirihluta á fundi þar sem níu aðalmenn eru á staðnum. Kosningarétt á fundum upplýsingaráðs hafa allir viðstaddir aðalmenn eða varamenn þeirra í samræmi við lið 9.11. Viðstaddir teljast þeir sem eru staddir á fundinum, eða taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.
9.6. Þingflokkur og svæðisfélög ákveða sjálf hvernig þau velja fulltrúa og varafulltrúa þingflokksins eða kjördæmisins í upplýsingaráð. Hafi kjördæmi eða þingflokkur ekki valið sér fulltrúa og varamann mánuði eftir aðalfund Pírata og sitji ekki fulltrúi með gilt umboð frá fyrra tímabili í samræmi við grein 9.9 skal framkvæmdaráð skipa staðgengla þeirra sem skuli sitja þar til kjördæmið eða þingflokkurinn velur fulltrúa. Þessir fulltrúar og staðgenglar hafa upplýsingaskyldu við það félag sem þeir sitja fyrir, en skal útfærsla hennar ákveðin af þeim hópum.
9.7. Upplýsingaráð velur sér sjálft ritara og önnur embætti sem það telur sig þurfa, utan formanns og varaformanns.
9.8. Upplýsingaráð skal setja sér starfsreglur og gera þær opinberar á heimasíðu Pírata.
9.9 Þau félög sem skipa fulltrúa í upplýsingaráð ráða hve oft og hvenær sú skipun er endurskoðuð en skal umboðið endurnýjað eigi sjaldnar en árlega. Þó skal enginn sitja í upplýsingaráði lengur en tvö ár í senn. Seta sem varamaður telur ekki sem seta í upplýsingaráði.
9.10. Upplýsingaráð skal funda að lágmarki mánaðarlega. Alla aðalfulltrúa og varafulltrúa skal boða til fundarins eigi síðar en viku fyrir fund. Fundir upplýsingaráðs skulu vera opnir félagsmönnum nema aukinn meirihluti upplýsingaráðs ákveði að sökum sérstakra aðstæðna skuli fundur eða hluti fundar vera lokaður. Sé það mögulegt skal afgreiða slík mál í upphafi eða undir lok fundar.
9.11. Upplýsingaráðsfundur telst löglegur ef a.m.k. 5 aðalmenn eru viðstaddir eða varamenn þeirra. Varamaður hvers aðalmanns hefur forgang. Varamenn kjörnir á aðalfundi eru næstir og taka sæti fulltrúa sem er fjarverandi á fundi, sé þeirra varamaður heldur ekki á fundinum. Hafi þeir þegar tekið sæti, eða séu ekki til staðar, og þarf enn að manna sæti aðalmanna, mega þeir ráðsmenn sem tekið hafa sæti sjálfir ákveða hver af viðstöddum varamönnum taki þau sæti aðalmanna sem eftir á að fylla með einföldum meirihluta.
9.12. Haldi upplýsingaráð ekki löglegan fund í 60 daga, skal Framkvæmdaráð boða til neyðarfundar upplýsingaráðs. Falli sá fundur niður sökum vanmönnunar, eða sé það niðurstaða fundarins að ráðið sé óstarfhæft, skal formanni gert að víkja. Þá taki varaformaður sæti formanns og næsti varamaður taki sæti í ráðinu. Nýr formaður ber ábyrgð á að gera kjördæmaráðum og þingmönnum grein fyrir stöðu mála og krefjast endurskoðunar á fulltrúum þeirra. Takist ekki að manna upplýsingaráð á 30 dögum svo það sé starfhæft skal boða til auka-aðalfundar. Gerist það aftur í setu sama upplýsingaráðs að ekki sé haldinn löglegur fundur í 60 daga skal einnig boða til auka-aðalfundar.
9.13. Upplýsingaráð má gefa yfirlýsingar um stefnu flokksins út frá samþykktum stefnumálum, lögum og ályktunum. Í slíkri yfirlýsingu má túlka stefnu ef þarf til að svara fyrirspurnum en þó skal gæta meðalhófs. Liggi skýr stefna ekki fyrir skal miða við grunnstefnu pírata, en þó með þeim fyrirvara að ekki sé til samþykkt stefna í þeim málaflokki. Þetta gildir þó einungis um þau mál þar sem augljóst ætti að vera hver afstaða félagsmanna sé, eða augljós skírskotun í samþykktar stefnur eða grunnstefnu. Sé slík yfirlýsing gefin út skal hún undirrituð af öllum aðalmönnum upplýsingaráðs sem sitja fundinn, eða varamönnum þeirra í samræmi við grein 9.11.
9.14 Upplýsingaráð má velja sér talsmann eða talsmenn ákveðinna samþykktra stefnumála og skal það umboð veitt með auknum meirihluta ráðsmanna. Slíkir talsmenn skulu gera ráðinu grein fyrir viðbrögðum sínum hverju sinni. Það skal gert óformlega jafnóðum en í síðasta lagi á næsta formlega fundi upplýsingaráðs. Einfaldur meirihluti upplýsingaráðs dugir til að afturkalla slíkt umboð.
9.15. Séu að minnsta kosti þrír aðalmenn sammála um að komið hafi upp mikilvægt málefni sem krefjist tafarlausrar meðferðar ráðsins skal formaður boða til aukafundar. Á þann fund þarf að boða alla aðalmenn og varamenn, en það má vera með skemmri fyrirvara en viku. Ákvarðanir þess fundar teljast þó ekki gildar nema þær hljóti aukinn meirihluta.
9.16. Komi upp mál þar sem brýnt þykir að skýra afstöðu flokksins í mikilvægu málefni, þar sem ekki liggur fyrir skýr stefna, hefur upplýsingaráð heimild til að búa til yfirlýsingu og setja í neyðarkosningu í kosningakerfi Pírata í samræmi við grein 6.9. Sú kosning skal standa í 24 tíma. Má svo gefa hana út í nafni flokksins hljóti hún einfaldan meirihlutastuðning. Slík yfirlýsing fellur úr gildi þegar gild stefna í málaflokknum hefur verið samþykkt. Upplýsingaráð getur samþykkt að setja í gang slíka kosningu með auknum meirihluta.
9.17. Takist upplýsingaráði ekki að koma sér saman um úrræði í mikilvægu máli samkvæmt grein 9.13 eða 9.16 er því skylt að gefa yfirlýsingu þess efnis að það óski eftir að það mál fari í stefnumótunarferli innan flokksins. Ráðið skal koma því á framfæri við þá hópa innan flokksins sem málefnið varðar, svo sem aðildarfélög, málefnahópa, framkvæmdaráð eða grasrót, með auglýsingu á vefsvæði pírata og öðrum viðeigandi hætti, svo sem með tölvupósti, boðun félagsfundar eða með auglýsingu á netmiðlum eftir því sem við á.
9.18. Halda skal fundargerð fyrir hvern fund upplýsingaráðs og skal hún birt á vefsvæði pírata eigi síðar en tveimur vikum eftir fund. Það er á ábyrgð ritara. Hafi upplýsingaráð ákveðið að fundur skuli vera lokaður þarf samt að halda fundargerð, en má hún vera lokuð. Úrskurðarnefnd eða trúnaðarráði er heimilt að fara fram á rökstuðning þess að fundur sé lokaður og geta ákveðið að fundargerð skuli opnuð, sé sú röksemd metin ófullnægjandi. Eins er úrskurðarnefnd eða trúnaðarráði heimilt að fá aðgang að lokuðum fundargerðum án þess að opna þær, séu þær viðkomandi málefni sem þau hafi til afgreiðslu.
9.19. Víki aðalmaður í upplýsingaráði sæti, hvort sem er varanlega eða tímabundið, skal varamaður hans taka við af honum á meðan fjarveru stendur. Sá fulltrúi teljist þá aðalmaður með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Sé varamaður ekki til staðar skal fylla sæti hans í samræmi við grein 9.11. Víki aðalmaður sem er fulltrúi þingflokks eða kjördæmis varanlega sæti og sé réttur varamaður ekki tiltækur skal þingflokkurinn eða kjördæmið þá velja sér nýjan fulltrúa í upplýsingaráð, en manna má stöðuna á fundum í samræmi við grein 9.11 þangað til það er gert. Varamaður telst eingöngu sitjandi fulltrúi í skilningi laga þessara á meðan hann hefur réttindi og skyldur aðalfulltrúa.
Greinargerð:
Þessi lög eru tilkomin af því að ljóst er að óvissa er uppi um það hvernig megi halda stefnu pírata til haga með skýrum hætti, svo fjölmiðlar, kjósendur og aðrir viti hvert sé hægt að leita til að fá skýr svör. Þeir sem gefi þau svör þurfa að hafa umboð til að svara slíkum spurningum í nafni félagsins, en þó þarf að setja slíku umboði skýr mörk.
Tilgangur upplýsingaráðs er að svara spurningum, leiðrétta rangfærslur og halda til haga hver afstaða Pírata sé. En ráðið á ekki að ákveða sjálft hver sú stefna sé, liggi hún ekki fyrir. Skýr krafa er að þeir sem gegni þessum embættum forðist að lýsa eigin skoðun þegar þeir tala í umboði sínu sem meðlimir upplýsingaráðs.
Ákveðið var að best færi að lög um upplýsingaráð fylgi beint á eftir lögum um framkvæmdaráð, úrskurðarnefnd og trúnaðarráð og því er lagt til að þau verði gerð lög 9. Núverandi lögum 9 til 15 verði þá breytt til samræmis svo þau verði lög 10 til 16.
Breyta þarf lögum 6.9 til að þau leyfi úrræði sem upplýsingaráði er veitt í grein 9.16 or er sú breyting tekin með í þessari tillögu.
9.1.
Hér er útlistað hvert sé hlutverk upplýsingaráðs. Það má gefa út yfirlýsingar og ályktanir í samræmi við þá stefnu sem Píratar hafa samþykkt, ályktanir þeirra og lög og að sjálfsögðu grunnstefnu, sem telst hluti af samþykktum stefnum í þessu samhengi. Ráðið má útskýra stefnu, leiðrétta rangfærslur og svara spurningum, en ekki semja stefnu eða ákveða hana sjálft.
9.2.
Hér er útlistað hverjir hafi aðkomu að upplýsingaráði. Þessi útfærsla snýst um það að efla aðkomu sem flestra Pírata að ráðinu og leyfa þeim að upplifa að allir eigi þar rödd. Þó er mikilvægt að að láta líka meirihluta félagsmanna hafa visst vægi, en við teljum að góður meðalvegur sé fundinn með því að kjördæmi skipi sinn fulltrúa hvert, en aðalfundur skipi tvo og þingflokkur einn. Schulze aðferðin er valin til að samræma innri kosningar Pírata, umfram Eitt flytjanlegt atkvæði (STV) aðferðina, en þó myndu báðar duga ágætlega. Teljum við að hún muni skila vel þeim tveimur aðalmönnum og tveimur varamönnum sem mestan stuðning hafi, án þess að félagsmenn þurfi að kjósa taktískt eða velja illskásta kost að eigin mati. Tekið skal fram að fulltrúi þingflokks þarf ekki sjálf(ur) að vera þingmaður eða varaþingmaður (þó hann eða hún megi vera það) heldur einungis einhver sem þingflokkur treystir til starfsins.
9.3.
Þetta ákvæði skýrir sig í raun sjálft, þarna er tiltekið að kosning á aðalfundi kjósi formann og varaformann upplýsingaráðs. Þeirra varamenn séu svo (í réttri röð) þeir sem lenda í sæti þrjú og fjögur.
9.4.
Framkvæmdaráð og fjölmiðlunarnefnd eru mikilvægir hlutar af innra starfi Pírata. Þeirra sjónarmið og áherslur geta skipt miklu máli þegar upplýsingaráð tekur ákvarðanir, og geta líka skipt máli þegar kemur að því að eiga samráð við framkvæmdaráð og fjölmiðlunarnefnd. Þó var álitið að betur færi að um áheyrnarfulltrúa væri að ræða en aðalmenn, þar eð ekki var talið gott að kjörið embætti leiddi einnig af sér ábyrgðarstöðu til jafns við annað kjörið embætti. Þó var gerð undantekning með þingflokkinn, þar sem sá hópur er kjörinn af landsmönnum öllum. Taka skal fram að áheyrnarfulltrúi þarf ekki að vera hluti af framkvæmdaráði eða fjölmiðlunarnefnd, þó það megi.
9.5.
Í þessu ákvæði er útskýrt hvernig ákvarðanir upplýsingaráðs séu teknar. Venjulegar ákvarðanir þurfa einfaldan meirihluta þeirra aðalmanna sem sitja fundinn, en aukinn meirihluti er skilgreindur þannig að þrír fjórðu aðalmanna þurfi að samþykkja. Það eru þá 4 ef 5 sitja fundinn, 5 ef 6 sitja fundinn, 6 ef 7 eða 8 sitja fundinn og 7 ef 9 sitja fundinn.
Það er gert til að árétta að þau úrræði sem bundin eru auknum meirihluta ættu að vera þess eðlis að svo að segja allir séu sammála þeim, en gefur þó svigrúm til að einhver geti setið hjá, vilji þau frekar halda að sér höndum eða hafi sér-túlkun sem þau vilji halda til haga.
9.6
Þessu ákvæði er ætlað að árétta það að fulltrúar kjördæmanna og þingflokksins eigi að vera skipaðir af þeim og það sé ekki endilega hlutverk þessara laga að ákveða hvernig það sé gert. Svæðisfélög í hverju kjördæmi þurfi að koma sér saman um hvernig skuli velja, en tiltekið er úrræði takist það ekki. Þurfi Framkvæmdaráð að velja staðgengil er vonast til að þá yrði valinn staðgengill sem hefur tengsl við og þekkingu á því svæði eða þeim hóp sem hann er staðgengill fyrir. Þarna er líka tiltekin upplýsingaskylda, en hver fulltrúi í upplýsingaráði ber ábyrgð á því að þau svæðisfélög, þingflokkur eða annað sem hann situr fyrir hafi upplýsingar um hvað upplýsingaráð hefst að og þær ákvarðanir sem eru teknar.
9.7
Hér er það tiltekið að þó svo formaður og varaformaður séu valdir af aðalfundi, þá sé það ráðið sjálft sem velji í önnur embætti eftir þörfum. Eina embættið sem er formlega skilgreint er ritari, en önnur embætti getur það ákveðið sjálft. Þær stöður gætu verið fjölmiðlafulltrúi, alþjóðafulltrúi, gjaldkeri, fulltrúi tiltekins stefnumáls eða ýmislegt fleira.
9.8.
Hér er tiltekið að ráðið skuli setja sér starfsreglur, sem það skuli fara eftir og gera opinberar á heimasíðu Pírata. Það geta verið reglur um fundarsköp, innra skipulag, ábyrgðarskiptingu innan ráðsins, reglulega fundi eða annað.
9.9.
Hér er það áréttað að félög sem eigi aðild að upplýsingaráði ákveði sjálf hvenær og hve oft þau skipi sína fulltrúa. Sum gætu t.d. viljað skipta um fulltrúa eftir aðalfundi sinna félaga, eða þingflokkur eftir alþingiskosningar. Það sem skiptir máli er að umboð sé endurnýjað a.m.k. árlega, og að enginn sitji lengur en tvö ár.
9.10
Hér er tiltekið að upplýsingaráð eigi að funda að minnsta kosti mánaðarlega. Þó væri yfirleitt ráðlegt að funda töluvert oftar en það. Boðun um fund skal berast með viku fyrirvara, en eins og viðgengst hjá öðrum félögum má líka vera með fastan fundartíma og telst þá vera boðað til hans með viðunandi hætti ef öllum aðal- og varamönnum er gert grein fyrir því a.m.k. viku áður en fyrsti slíki fundur er haldinn. Upplýsingaráð má loka fundi, eða hluta fundar, telji það sig hafa góða ástæðu til og hafi til þess aukinn meirihluta, en leitast skal við að afgreiða slík mál í upphafi eða við lok fundar.
9.11
Hér eru tilgreindar reglur um hvað teljist gildur fundur og hvernig varamenn virka. Varamaður ákveðins aðalmanns hefur alltaf forgang, en varamenn kjörnir á aðalfundi koma næstir og eru þeir almennir varamenn í ráðið ef þess er þörf. Að lokum er þeim aðalmönnum sem tekið hafa sæti leyft að velja hvaða varamenn taki sæti þeirra sem enn á eftir að fylla, séu ekki réttir varamenn, eða almennir varamenn af aðalfundi til taks. Þetta er gert svo sem minnstur vafi leiki á hverjir séu réttir varamenn hverju sinni.
9.12.
Hér er tilgreint hvað gerist, verði upplýsingaráð óvirkt eða óstarfhæft. Þó halda eigi fund mánaðarlega er það ekki fyrr en eftir 60 daga sem viðurlög og formleg viðbrögð taka við. Tilgangurinn með þessu er að passa að virkt upplýsingaráð sé til staðar. Fyrstu viðbrögð eru neyðarfundur, sem er á ábyrgð framkvæmdaráðs, þar eð upplýsingaráð sé sýnilega ekki fært um að boða til fundar. Sá fundur annað hvort ákveður að um tímabundinn brest hafi verið að ræða og tekur aftur til starfa, eða ákveður að ráðinu sé ekki fært að starfa áfram. Þá skal formaður víkja sæti og varaformaður tekur við. Sá sem var í þriðja sæti á kjöri aðalfundar kemur þá inn sem nýr varaformaður og aðalmaður í ráðið. Nýr varaformaður ber skyldu til að tala við þingflokk og svæðisfélög og fara þess á leit að þau skipi fulltrúa sem sjái sér fært að mæta á fundi. Takist ekki að skipa upplýsingaráð sem er starfhæft á 30 dögum eftir neyðarfund skal boða til auka-aðalfundar. Eins er það tiltekið að gerist þetta aftur skuli boða til auka-aðalfundar, enda sé ekki hægt að eyða tíma félagsins með því að sama ráð samþykki ítrekað á neyðarfundum að sitja áfram.
9.13.
Þetta ákvæði gefur upplýsingaráði heimild til að gefa út yfirlýsingar um stefnu flokksins út frá samþykktum stefnumálum, lögum og ályktunum, eða grunnstefnu séu þær ekki til staðar í þeim málaflokki. Þetta ákvæði er hugsað fyrir þau mál þar sem augljóst ætti að vera hver afstaða flokksins er og engin átök fyrirsjáanleg, enda er þess krafist að allir viðstaddir aðalmenn skrifi upp á slíka yfirlýsingu og er það í raun sambærilegt kröfu um samhljóða ákvörðun.
9.14.
Í stórum málaflokkum þar sem til er skýr stefna má upplýsingaráð velja ákveðinn talsmann, sem hafi þá umboð ráðsins til að fjalla um það út á við án þess að ráðfæra sig við ráðið í hvert skipti. Þeir mega vera fleiri en einn, ef ráðið ákveður það, en ættu þá að hafa samráð svo þeir endi ekki í mótsögn hvor við annan. Talsmenn ættu þó alltaf að gera upplýsingaráði grein fyrir svörum sínum og viðbrögðum, bæði óformlega og í síðasta lagi á næsta formlega fundi upplýsingaráðs. Ef ráðið ákveður að draga slíkt umboð til baka dugir til þess einfaldur meirihluti.
9.15.
Hér er tiltekin heimild til að boða til aukafundar með skemmri fyrirvara en viku. Þá þurfa amk. þrír aðalmenn að vera sammála um að brýnt sé að ráðið komi saman í flýti, og það er þá á ábyrgð formanns að boða til þess fundar alla aðal- og varamenn (hvort sem formaðurinn sjálfur er sammála því mati eður ei). Þegar sá fundur kemur saman þarf alltaf aukinn meirihluta til að ákvarðanir hans séu gildar.
9.16.
Hér er upplýsingaráði heimilt að meta væntanlega afstöðu pírata í tilteknu mikilvægu máli, sem ekki er til gild stefna um, og skrifa yfirlýsingu þess efnis. Mælst er til þess að ef til er vinnuhópur um þá stefnu væri haft samráð við þann hóp eða ábyrgðarmann þegar kemur til þess að skrifa slíka yfirlýsingu, en þó er upplýsingaráði það ekki skylt. Þá yfirlýsingu þarf þó að samþykkja í kosningakerfi Pírata til að hana megi senda út. Í ljósi þess að fyrirséð þykir að þetta ákvæði sé helst nýtt þegar mikið liggur á svörum er bætt við heimild til að sú kosning sé neyðarkosning sem fram fari á sólarhring, sbr. grein 6.9, en þeirri grein er breytt til samræmis til að það sé leyft. Slík yfirlýsing fellur svo úr gildi þegar gild stefna hefur verið samþykkt í málaflokknum, enda sé hún væntanlega yfirgripsmeiri og ítarlegri. Eins þarf að passa að þeir sem standi að stefnumótun séu ekki bundnir af slíkri yfirlýsingu og geti búið til stefnu sem kemst að annarri niðurstöðu, hljóti hún samþykki. Tiltekið er að aukinn meirihluta þurfi, þar sem þetta er úrræði sem ekki ætti að beita að óþörfu eða í málum þar sem ekki sé töluverður samhugur.
9.17.
Í þeim málum þar sem brýnt þykir að komast að niðurstöðu, en upplýsingaráði er það ekki fært með greinum 9.13 eða 9.16, er augljóst að dýpri stefnuvinnu þarf til. Þá ber upplýsingaráði að gefa út tilkynningu þess efnis að það óski þess við viðeigandi undirfélög, stjórnir eða grasrót, að í gang fari stefnuvinna í málaflokknum. Þá tilkynningu ber að auglýsa með viðeigandi hætti, en þó aldrei minna en með tilkynningu á vefsvæði Pírata.
9.18.
Hér er tilgreind sú skylda upplýsingaráðs að halda fundargerð um hvern fund og birta hana á vefsvæði Pírata, þá væntanlega á undirsíðu upplýsingaráðs, eigi síðar en tveimur vikum eftir fund. Hafi upplýsingaráð ákveðið að fundur eða hluti hans sé lokaður þarf ekki að birta fundargerðina, en hún þarf samt að vera til og mega trúnaðarráð eða úrskurðarnefnd fara fram á rökstuðning þess að fundargerðin sé lokuð og sé sú röksemd ekki metin fullnægjandi geta þau ákveðið að hún skuli opnuð og skal þá upplýsingaráð verða við því. Einnig er úrskurðarnefnd eða trúnaðarráði heimilt að biðja um aðgang að lokaðri fundargerð, séu þar upplýsingar sem skipta máli við úrlausn máls sem þau hafi til afgreiðslu.
9.19
Hér er farið gaumgæfilega í það hvernig skuli standa að því ef aðalmaður segir sig frá ráðinu tímabundið eða varanlega. Hans varamaður tekur við, en sé varamaðurinn ekki tiltækur má manna stöðuna í samræmi við 9.11 þangað til nýr aðalmaður hefur verið valinn. Það skiptir mestu máli þegar kemur að fulltrúa þingflokks eða kjördæmis, en manna má varanlega út frá 9.11 ef um fulltrúa af aðalfundi er að ræða. Eins er áréttað að varamaður teljist eingöngu sitjandi fulltrúi meðan hann hafi réttindi og skyldur aðalfulltrúa.
Tilheyrandi mál: | Upplýsingaráð skilgreint |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | odin |