Samþykkt: Höfundaréttarstefna
Með tilvísun til grunnstefnu Pírata
- 1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
- 1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
- 2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
- 2.3 Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.
- 3.1 Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.
- 3.2 Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi.
- 4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.
- 5.1 Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.
með hliðsjón af
- Norsku skýrslunni, ítarlegri rannsókn á áhrifum stafrænnar væðingar á tónlistar iðnaðinnum í Noregi frá 1999 til 2009](http://www.scribd.com/doc/37406039/Thesis-Bjerkoe-Sorbo)
- Hargrave review, skýrslu sem breska ríkisstjórnin lét taka saman
- Svörum tíu þúsund einstaklinga, listamanna og annara hagsmunaðila varðandi núverandi höfundarétt innan Evrópusambandsins
- Ályktun Sameinuðu Þjóðanna um einkalíf í stafrænum heimi](http://www.ohchr.org/EN/Issues/DigitalAge/Pages/DigitalAgeIndex.aspx)
- Samning WIPO um aðgengi blindra, sjónskertra og heyrnaskertra að höfundarréttarvörðu efni](http://www.wipo.int/pressroom/en/articles/2016/article_0007.html)
Álykta Píratar
Höfundar skulu eiga rétt á að njóta ágóða af verkum sínum.
1.1 Markmið höfundalaga er að tryggja og skilgreina rétt höfunda gagnvart samningsaðilum, s.s. framleiðendum, útgefendum, stafrænum veitum, dreifingaraðilum og öðrum milliliðum.
1.2. Milliliðir skulu sæta upplýsingaskyldu gagnvart höfundum til að tryggja gagnsæi í samningum.
1.3. Höfundalög og greiðslur höfundalauna skulu sæta reglulegri endurskoðun í ljósi framþróunar nýrra miðlunarleiða og skal markmiðið vera að tryggja rétt höfunda.
1.4. Ávallt skal leita leiða til að styrkja lagaleg réttindi höfunda gagnvart milliliðum. Borgararéttindi skulu jafnframt höfð til hliðsjónar við slíka skoðun.
1.5. Höfundar geti valið hvers konar dreifingar- og notkunarleyfi gildi um verk þeirra. Höfundum skal vera frjálst að semja um útgáfu, framleiðslu, sölu, sýningar eða dreifingu á verkum sínum, hvort heldur sem er við útgáfu eða síðar.Endurskoðun höfundalaga skal taka mið af síbreytilegri þróun viðskiptahátta og miðlunarmöguleika í listsköpunar- og hugverkaiðnaði, með það að markmiði að gera höfundum kleift að afla tekna af verkum sínum án þess að framfylgni laganna bitni á almannahagsmunum, borgararéttindum eða hefðbundnum ferlum réttarríkisins.
2.1. Leitað verði leiða til að gera sæmdarrétt sem samhæfðastan við listform sem byggja á nýtingu búta úr öðrum lista- og hugverkum. Líta skal til sanngirnissjónarmiða bæði höfunda þeirra verka hvaðan bútarnir koma og þeirra sem endurnýta þá.
2.2. Samræma þarf undanþágur og takmarkanir á höfundalögum innan innri markaðs evrópska efnahagssvæðisins.
2.3. Samræma skal gildistíma höfundaréttar við alþjóðlega staðla, en ekki umfram þær kröfur sem 7. grein Bernarsáttmálans gerir ráð fyrir.
2.4. Höfundalög skulu ekki standa í vegi fyrir nýjum listformum sem ný tækni hefur upp á að bjóða og skulu viðurkenna nýmóðins höfunda sem gilda hagsmunaðila.
2.5. Tilvísanir í formi hljóðs og mynda skulu meðhöndlaðar á sama hátt og tilvísun í texta.
2.6. Almannarými skal skilgreint sem almannaeign og undanþegin íþyngjandi kröfum höfundaréttar (e. freedom of panorama).
2.7. Undanþága vegna skopstælinga og háðs skal vera skýr og óháð tilgangi þess verks sem skopstælt er eða tilgangi afleidda verksins (freedom of parody).
2.8. Leyfa skal gagnaúrvinnslu á höfundaréttarvörðu efni.
2.9. Notkun hugverka í rannsóknar- og menntatilgangi skal auðvelduð.
2.10. Heimila skal rafræn útlán.
2.11. Sérstaklega skal gæta að undanþágum og takmörkunum á höfundaréttarvörðu efni fyrir aðila sem geta ekki notað efnið í þeirri útgáfu sem verkið var hannað fyrir. Þetta á til dæmis við um sjón- og heyrnarskerta, lit- og lesblinda, ásamt öðrum aðilum sem gætu þurft aðlagaða útgáfu af verkinu til þess að nýta það sér til gagns. (Marrakesh sáttmálin)
2.12. Stafræn útgáfa eldra verka framlengir ekki höfundarétti.
2.13 Skilgreina þarf íslensk verk í almannaeign (e. public domain) sem menningarlega sameign almennings. Slík verk falla ekki undir hefðbundna vernd einkaleyfa eða höfundarréttar vegna aldurs, tilurðar eða óskar höfundar, heldur sé það menningarleg sameign sem nota megi að vild.Rannsóknir á höfundaréttarbrotum og framfylgni höfundaréttar skulu ávallt grundvallast á forsendum setts réttar og með vernd mannréttinda og borgararéttinda til hliðsjónar.
3.1. Rannsóknir á netsamskiptum vegna höfundaréttarbrota skulu ekki njóta sérstöðu gagnvart ferlum sem hugsaðir eru til aðhalds á rannsóknarheimildum, svo sem kröfu um dómsúrskurð og rökstuddan grun um refsivert athæfi.
3.2. Tálmanir skulu ekki settar á netumferð vegna höfundaréttarbrota.
3.3. Internetið byggir á frjálsu flæði upplýsinga og höfundalög þurfa að taka mið af því.
3.4. Spornað verði gegn tilraunum yfirvalda til að fylgjast með netnotkun einstaklinga vegna höfundaréttarbrota án viðunandi rannsóknarheimilda.
3.5. Refsingar vegna höfundaréttarbrota skulu taka mið af þeim fjárhagslega skaða sem rétthafi hefur sannanlega orðið fyrir.Breytingar á höfundalögum skulu gerðar með tilliti til réttinda notenda.
4.1. Allar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir höfundaréttarbrot skulu taka tillit til mannréttinda hvað varðar friðhelgi einkalífsins og tjáningarfrelsi.
4.2. Notandi skal hafa óskoraðan rétt til þess að eiga við, fikta í og breyta tækjum og hugbúnaði til einkanota, þar á meðal til þess að komast framhjá takmörkunum sem framleiðandi kemur fyrir, svo sem afritunarvörnum.
4.3. Neytendur eiga rétt á að vita fyrirfram hvort tæki eða hugbúnaður innihaldi afritunarvarnir eða aðrar takmarkanir sem eru til þess fallnar að skerða nýtingargildi vörunnar sem keypt er.
4.4. Neytendur og notendur verði aldrei gerðir ábyrgir fyrir dreifingu annarra á höfundaréttarvörðu efni.Afurðir og verk opinberra starfsmanna, sem sköpuð eru á vinnutíma þeirra og unnið sem hluti af starfi, eða í þágu starfs skulu að jafnaði vera almannaeign (e. public domain) nema um annað hafi verið samið.
5.1. Nýr hugbúnaður og ný hugverk sem ríkið framleiðir sjálft eða kaupir sérsmíðuð af öðrum, skulu gefin út undir opnum leyfum nema sérstakar ástæður séu til annars.
GREINARGERÐ
Á breyttum tímum samskipta og tækniþróunar er nauðsynlegt að endurskoða höfundalög með tilliti til jafnvægis réttar höfundar til þess að vera kenndur við verk sitt og njóta ágóða af vinnu sinnu, borgaralegum réttindi fólks og tjáningafrelsis.
Höfundarréttur og afleidd réttindi þess eru bundin í fjölmargar alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland er aðili að, m.a. Bernarsáttmálann, Alþjóða hugverkastofnuninni WIPO og Evrópusambandið, auk alþjóðlegra viðskiptasamninga. Höfundarréttarmál (copyright) er hluti af innri markaði Evrópusambandsins og taka Íslendingar því upp þær tilskipanir sem samþykktar eru þar.
Píratar viðurkenna þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir á sviði höfundalaga. Íslensk höfundalög eru að miklu leyti byggð á erlendum höfundalögum, dönskum og sænskum þá helst, einmitt vegna þess að höfundalög hafa verið alþjóðlega samræmd síðan á 19. öld. Píratar telja hins vegar að með breyttri tækni þá þurfi að uppfæra höfundalög til þess að endurspegla breytta tíma. Þess fyrir utan þarf að breyta höfundalögum til þess að þau þjóni í hagsmunum höfunda í ríkara mæli, m.a. með auknum réttindum höfunda við samningagerð við þriðja aðila.
Nú á sér stað endurskoðun höfundarréttar (copyright reform) innan Evrópusambandsins og stefna Píratar á Íslandi að því að styðja við starfsemi Pírata á Evrópuþingi sem vinna að því að uppfæra lög og regluverk í kringum höfundarétt til þess að þær samræmist grunngildum borgararéttinda fyrir 21. aldar samfélag, eðli internetsins og grunngildi Pírata um frjálst flæði upplýsinga.
Stefna þessi skiptist í fimm hluta: Fyrst réttindi höfunda, svo þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera á höfundalögum, þriðji kaflinn fjallar um rannsóknir og eftirfylgni á höfundaréttarrbrotum, fjórði kaflinn fjallar um réttindi notenda og sá fimmti fjallar um hið opinbera í samhengi við höfundalög.
Píratar viðurkenna rétt höfunda til þess að vera kenndir við verk sín og njóta ágóða af verkum sínum skv. fyrstu grein. Markmið höfundalaga skal að sama skapi vera að styðja og efla listamenn og höfunda til þess að halda áfram listsköpun. Samkvæmt umsögnum höfunda varðandi núverandi höfundarrétt innan Evrópusambandsi þá þarf að gera verulega bragabót til þess að styrkja stöðu höfunda gagnvart milliliðum. Þar að auki er mikilvægt að veita höfundum meira frelsi til þess að velja sér notkunarleyfi á verkum sínum, t.a.m. í anda Creative commons.
Nánar um ákveðnar greinar
Grein 1
fjalla um að styrkja réttindi höfunda. Ein stærsta áskorun höfunda í breyttu tækniumhverfi er að semja við rétthafa og milliliði þeirra. Sífellt fleiri listamenn og höfundar standa frammi fyrir því að þurfa að semja um réttindi sín við stórfyrirtæki. Þetta getur skapað valdaójafnvægi þar sem höfundurinn stendur höllum fæti. Þessar grienar hafa það að markmiði að skýra rétt höfunda til þess að afla sér lífsviðurværis auk þess að viðurkenna ákveðið valdaójafnvægi og gefa höfundum sterkari stöðu í samningaviðræðum.
Grein 2
2.2 gr. Fjallar um að Píratar styðja við þá vinnu sem hafin er innan Evrópusambandsins og leidd er af Evrópuþingmanni Pírata til þess að samræma höfundalöggjöf innan Evrópska efnahagssvæðsins. Ein stærsta áskorun höfunda í hinu nýja umhverfi veraldarvefsins er að semja um sanngjarna samninga við rétthafa og milliliði. Innan Evrópusambandsins gæti meira verið gert til þess að vernda rétt höfunda. Í því felst t.a.m. að samræma undanþágur og takmarkanir sem eru í gildi innan innri markaðarins. Þetta er mikilvægt því að ekki er unnt að beita undanþágum innan landa EES nema þær séu sérstaklega lögfest í því landi. Með þvi að samræma undanþágurnar er unnt að draga úr lagalegri óvissu.
2.6. gr. Hér er almannarými (e. public space) í merkingunni umhverfi þar sem almenningur getur séð, snert eða heyrt óafvitandi eða óviljandi. Þarna er verið að styrkja það sem kallast á ensku "freedom of panorama" sem gerir það að verkum að það teljist ekki vera höfundalagabrot að taka myndir af umhverfinu sínu. Þetta á til dæmis við um að bannað er að taka myndir af Eiffel turninum eftir sólarlag þar sem ljósasýningin á honum er höfundarréttarvarin, eða mynd af Sólfarinu, þar sem það er verndað með höfundarrétti. Þessi grein er til þess að efla og styrkja tjáningafrelsi annarra listforma, þá sér í lagi ljósmyndun og kvikmyndun en getur einnig átt við önnur listform eða tjáningu.
2.7. gr. Fjallar um sérstaka undanþágu frá höfundalögum til þess að skopstæla eða gera grín, kerfjist tjáningin notkunar af öðru annars höfundarréttarvörðu efni. Þetta er til þess að styðja tjáningafrelsi, en háð og skopstælingar eru mikilvægur þáttur tjáningar og listsköpunar, ekki síst í pólitískum tilgangi. Þannig á þessi undanþága frá höfundalögum að gagnast höfundum við að tjá sig.
2.8. gr. Fjallar um að gagnaúrvinnsla á höfundarréttarvörðu efni verði leyfð. Þarna er átt við úrvinnslu úr innihaldi efnisisins til þess að greina það frekar og finna mögulegar tengingar milli orða, talna, hljóða eða annars sem sérfræðingar geta fundið tengsl á milli. Þetta felur til dæmis í sér að vísindamaður geti notað tölvu til þess að greina mikið af rannsóknargreinum til þess að uppgötva tengsl milli tveggja sjúkdóma. Rétthafar halda því fram að til þess að gera þetta þurfi tvö leyfi, eitt til þess að lesa greinarnar og annað fyrir gagnaúrvinnslu. Hér þyrfti að koma til undanþága sem auðveldar gagnaúrvinnslu.
2.9. Notkun hugverka í rannsóknar- og menntunartilgangi skal auðvelduð. Hér er átt við að auðvelduð verði notkun höfundaréttarvaris efnis til kennslu og fræðslu innan menntastofnanna. Hér er einnig átt við vísinda- og fræðigreinar. Með því að auka aðgengi almennings og menntastofnanna að fræðigreinum og rannsóknarskýrslum er mögulegt að auka nýsköpun á hinum ýmsu sviðum. Þetta gæti sparað kennurum tíma og fyrirhöfn en einnig myndi þetta auðvelda fjarnám og sjálfnám.
2.10. Heimila skal rafræn útlán. Almenningur nýtir sér tæknina í enn meira mæli til þess að nálgast höfundavarið efni. Með því að heimila rafræn útlán aukast möguleikar fólks á því að nálgast höfundavarið efni á löglegan hátt.
2.11 grein fjallar um að Ísland þurfi að innleiða Marrakesh sáttmálann sem fjallar um víðtækar undanþágur fyrir lesblinda, litblinda, blinda og sjónskerta og aðra sem geta ekki notað höfundarréttarvarið verk í því formi sem það var fyrst gefið út vegna fötlunar eða skerðingar að einhverju leyti.
2.13 grein fjallar um nauðsyn þess að skilgreina menningarlega sameign sem á ensku kallast "public domain". Í því felst að hver sem er geti nýtt menningarlega sameign okkar án þess að hægt sé að beita íþyngjandi atriðum höfundalaga til þess að koma verkum úr dreifingu. Verk telst vera menningarleg sameign þegar það er ekki lengur undir sértækri tímavernd höfundalaga eða þá að höfundur hafi ánafnað verki sínu sem menningarlegri sameign.
Grein 3
fjallar almennt um ítrekun á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna með tilliti til friðhelgi einkalífs í stafrænum heimi. Yfirlýsingin gerir það að verkum að eftirlit með netumferð án heimildar er mannréttindabrot samkvæmt þeirri yfirlýsingu.
3.5. grein fjallar um að það er vandkvæðum háð að sýna fram á fjárhagslegt tjón af völdum stafrænnar dreifingar. Í einhverjum tilvikum þá hefur slík dreifing bókstaflega haft þveröfug áhrif, höfundur hefur hagnast á aukinni dreifingu. Það er nauðsynlegt að skaðabætur byggi á sannanlegum heimildum um fjárhagslegan skaða, til dæmis með því að sanna að dreifingaraðili hafi sjálfur hagnast á dreifingunni. Talning á því hversu oft viðkomandi verk var halað niður af notendum er ekki sannanleg heimild á notkun verksins. Það er ekki heldur sannanleg heimild á því hver sótti verkið þrátt fyrir að skýrt sé hver ber ábyrgð á viðkomandi tengingu.
Grein 4
fjallar um að réttindi notenda skuli vera höfð til hliðsjónar við breytingar og beitingu á höfundalögum og viðurkenningu á því að undanþágur frá höfundalögum þurfa að vera í einhverjum tilvikum til þess að tryggja mannhelgi einstaklings.
4.2 og 4.3 greinar fjalla um að tryggja notendum rétt til þess að eiga við eigin tæki eins og þeim hentar til einkanota. Þetta eru víðtækar greinar sem eiga jafnt við það að notendur eiga rétt á að komast hjá afritunarvörum eða lesturshindrunum á búnaði, fá upplýsingar um að afritunarvörn eða lesturshindranir séu á þeim búnaði vöru sem þeir kaupa. Þetta á einnig við að notendur hafa rétt á að eiga við eða jafnvel laga þau tæki sem þeir hafa undir höndum til einkanota og að það teljist ekki vera brot á höfundarrétti að gera svo.
4.4 grein fjallar um að aðrir netnotendur og neytendur verði ekki gerðir ábyrgir fyrir dreifingu annarra á höfundaréttarvörðu efni. Í því felst að ekki á að refsa einum notanda fyrir höfundarréttarbroti annars.
Grein 5
fjallar um að afurðir og verk opinberra starfsmanna, sem sköpuð eru á vinnutíma þeirra, unnin sem hluti af starfi, eða í þágu starfs skulu að jafnaði vera undanþegin íþyngjandi höfundarréttarlögum. Þarna er átt við sem dæmi, skýrslur, dóma, lög og fleira slíkt sem unnin eru sem hluti af opinberu starfi þeirra séu ekki bundin höfundalögum að sama skapi og önnur verk, heldur sé hluti af sameign þjóðarinnar.
5.1 grein fjallar um að hugbúnaður og hugverk sem er búið til eða fjármagnað af hinu opinbera skuli vera gefið út undir opnum leyfum, til þess að auka öryggi, gagnsæi og hagkvæmni af verkunum sjálfum.
Tilheyrandi mál: | Höfundaréttarstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | sbylgja |