Samþykkt: leigustefna
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
- gr. 2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
- gr. 2.3 Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu
ekki skert. - gr. 2.2 Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra
réttinda. - gr. 4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.
- gr. 4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu
til að taka ákvarðanir. - gr. 4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að
ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það
hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar. - gr. 6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku
um málefni sem varða þá - gr. 6.2 Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu
gegnsærrar stjórnsýslu.
Leigumálastefna
Ísland er það Evrópuríki sem hefur hæst hlutfall séreignar á
fasteignamarkaði ásamt Noregi. Þótt húseign hafi ýmsa kosti á landi sem
sögulega hefur haft ótryggt fjármálaumhverfi felast líka ýmsir gallar í
því. Miklar sveiflur eru á húsnæðismarkaði sem nýtur ekki mótvægis af
öflugum leigumarkaði og því væri ódýrara og stöðugra
leiguumhverfi öllum Íslendingum mikil hagsbót. Heilbrigður
húsnæðismarkaður býður upp á valfrelsi, og öruggur leigumarkaður myndi
stuðla að stöðugleika. Því skal miða að því
að leigumarkaður verði sanngjarn, stöðugur og öruggur. Til þess þarf
skýrt og gagnsætt regluverk, með innbyggðum hvötum til langtímaleigu,
sem tryggir bæði réttindi leigjenda og leigusala. Til að ná því
markmiði álykta Píratar að:
Allir þegnar samfélagsins eigi rétt á húsnæði við hæfi.
Tryggja skuli valfrelsi hvað varðar búsetuform.
Efla skuli leigjendasamtök sem aðstoða leigjendur við að komast að
réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningagerð,
lög og réttindi leigusala og leigjenda, hvaða áhrif verðtrygging hafi á
leigusamninga, tímalengd samninga og önnur álíka atriði.
Styrkja skuli fjárhagslegan grundvöll leigufélaga sem rekin eru án
arðsemissjónarmiða, svo sem með sértækum vaxtalækkunum á lánum eða
beinum ríkisstyrkjum.
Auka skuli gagnsæi og skilvirkni leigumarkaðarins gagnvart almenningi
og stjórnvöldum svo hægt sé að fylgjast með þróun á helstu
tölfræðiatriðum markaðarins. Halda skal rafrænt utan um alla þinglýsta
samninga svo unnt sé að fylgjast með þróun á leiguverði og bregðast við
ef hún telst óeðlileg.
Hvetja skuli til réttrar skráningar leiguverðs.
Stemma skuli stigu við óskráðu leiguhúsnæði.
Stuðla skuli að byggingu húsnæðis sem eingöngu er ætlað til
langtímaútleigu.
Nota skuli hvata innan skattkerfisins til að stuðla að langtímaleigu.
Þ.m.t. kanna hvaða afleiðingar lækkanir og hækkanir á gjöldum hefðu.
Þannig gæti t.d. leigusali sem gerir langtíma leigusamning með löngum
uppsagnarfresti notið skattalegs hagræðis.
Rannsaka eigi hvaða afleiðingar leiguþak, þ.e. takmarkanir á hversu
hátt leiguverð má vera miðað við aðstæður (þ.m.t. stærð húsnæðis, gerð,
aðbúnað og staðsetningu), hefði á húsnæðismarkað.
Til að stuðla að því að húsnæði ætlað til búsetu verði ekki notað í
öðrum tilgangi skal útleiga til styttri tíma en mánaðar vera takmörkuð
við ákveðinn fjölda íbúða á leigusala og árshlutfalls. Heimagisting
skuli ekki gerð óleyfileg, en koma skuli í veg fyrir að sömu lögaðilar
séu með fleiri íbúðir í útleigu til ferðamanna án þess að sækja um
gistileyfi.
Greinargerð
Þegar Ísland er borið saman við önnur ríki vesturevrópu kemur í ljós að
flest ríki hafa stöðugri leigumarkað þar sem fólki er kleift að leigja
til langtíma. Íslenski leigumarkaðurinn er mun óstöðugari, á síðustu
fimm árum hefur t.d. átt sér stað 50% sveifla upp á við í leiguverði.
Að hluta til skýrist þetta af smæð markaðarins sem er undir mikilli
pressu vegna aukningar á fjölda ferðamanna, íbúðir sem áður voru
leiguíbúðir eru nú gistiheimili ýmist opinberlega eða með óbeinum hætti
í gegnum síður eins og airbnb og aðrar.
Engin stefna sem tekur til húsnæðis ætti að vanmeta áhrif
byggingarreglugerða, vaxtaumhverfis og annars kostnað af húsnæði.
Fjármögnunarkostnaður er hár og í sumum tilvikum væri hægt að bjóða upp
á ódýrara húsnæði með sveigjanlegra regluverki. Þessi stefna leysir
ekki þau vandamál sem felast í háum vöxtum á Íslandi, verðtryggingunni,
og öðrum langvarandi kerfisvandamálum, en stöðugri leigumarkaður væri
til hagsbóta fyrir alla og drægi úr áhrifum hinna þáttanna. Viðurkenna
verður þá staðreynd að margir sjá sig tilneydda til að kaupa íbúð án
þess að fyllilega standast greiðslumat, lágtekjufólk eru helstu
fórnarlömb verðtryggða lána og það sem fer verst út úr sveiflum á
húsnæðismarkaði.
Það er þó ekki bara lágtekjufólk sem getur þurft á leiguhúsnæði að
halda eða kosið að búa í slíku. Sumir vilja ekki taka áhættuna sem
felst í að kaupa húseign, aðrir vilja frekar nýta pening sinn í annað.
Í landi með góðri hagstjórn eru engin rök fyrir því að fórna
séreignarlífeyrissparnaði til að eignast fasteign, þar sem
lífeyrissjóður með fjárfestingum í ýmsum fyrirtækjum, ríkisskuldabréfum
og fasteignum ætti að vera stöðugri og öruggari heldur en húsnæði á
markaði. Í grunninn snýst þetta þó fyrst og fremst um val. Fólki á að
vera frjálst til að velja það búsetuform sem því hentar, líkt og það
fær að stýra sínu eigin námi, mataræði og atvinnu. (Sjá grein. 6.1 í
grunnstefnu).
Píratar mótuðu sér stefnu í leigumálum skömmu fyrir kosningar 2013, og
margt í þessari stefnu er sótt í hina gömlu. Greinar um að efla
leigjendasamtök og auka gagnsæi standa nærri óbreyttar. Viðbæturnar í
þessari stefnu felast í aukinni áherslu á að styðja við leigufélög,
ríki og sveitarfélög munu þurfa að eiga virkan þátt í að byggja upp
leigumarkaðinn fyrst um sinn. Í þessu munu lóðaúthlutanir og beinir
styrkir skipta töluverðu máli, en til langtíma ætti að stefna að því að
leigumarkaðurinn verði sjálfbær.
Einnig hafa aðstæður breyst síðan þá hvað varðar fjölda ferðamanna og
aukinni þörf á gistihúsnæði sem hefur ýtt verðlagi upp. Við teljum
fulla ástæðu til þess að stjórnmálafólk bregðist við þessum vanda.
Húsaleigubætur hafa verið felldar úr þessari stefnu. Þessar bætur eru
vissulega hvati til þess að fólk þinglýsi samningum og þannig öðlast
ríkið yfirsýn yfir verðlag á leigumarkaði og þróun þess. Hópurinn sem
vann að þessari stefnu taldi of óljóst í fyrri stefnunni hvað átt við
væri með því að óska eftir bæði hækkun leigubóta og að þær fylgi
framfærslu-upphæð. Vissulega ættu slíkar bætur að þróast í takt við
almennt verðlag og helst sem visst hlutfall af framfærsluviðmiði, en
hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að fleiri leiðir gætu verið til
þess að ná þessum markmiðum, og óþarft að binda hendur þingmanna
flokksins í þessu efni. Útvíkkun húsaleigubóta til þeirra sem leigja
herbergi í íbúð, eins og algengt er meðal námsmanna, kemur vel til
greina, sem og hækkun á þeim, en hópurinn taldi óþarft að gera kröfu um
að húsaleigubætur yrðu inni í núverandi mynd í langtímastefnumótun
íslenska ríkisins á húsnæðismarkaði.
Besta leiðin til að koma stöðugleika á markað þar sem eftirspurn er
orðin of mikil er að mæta henni með auknu framboði. Ríki og
sveitarfélög verða að móta sér langtímastefnu í stað þess að horfa
einungis til næsta eða þar næsta kjörtímabils. Í slíkri stefnu mega
hagsmunir leigjenda og leigusala ekki gleymast, heldur verða að vera
stjórnmálamönnum ofarlega í huga. Langvarandi vanræksla á þessu sviði
hefur skapað óstöðugleika og óöryggi, og takmarkað valfrelsi borgara.
Tilheyrandi mál: | Leigustefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Beltiras | Samþykkt á félagsfundi föstudaginn 30. september 2016 |