Samþykkt: Verndun hafsins
Verndun hafsins
Með tilvísun í:
Almenna umhverfisstefnu Pírata
1. gr. "Framfylgja skal megin gildum sjálfbærrar þróunar. Sjálfbær þróun mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar."
2. gr. "Stjórnvöld skulu byggja á varúðarreglunni og greiðslureglunni við allar ákvarðanir sem varða náttúru Íslands."
4. gr. "Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja."
Efnahagsstefnu Pírata
1. gr. “Til að vinna að hagsmunum almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið vera skýr í öllum efnahagsmálum.”
Og með hliðsjón af:
Gr. 6.6 í lögum Pírata:
“Stefna skal alltaf rökstudd og hafa tilvísun í fyrri ákvarðanir félagsins.”
Álykta Píratar:
1. Vernda skal lífríki sjávar gegn ofveiði, ágangi og mengun.
2. Nýta skal bestu fáanlegu tækni og uppfylla alþjóðasamninga í öllum málum er varða hafið umhverfis Ísland og auðlindir þess.
3. Efla skal hagræna hvata til að minnka losun þrávirkra lífrænna efna og óniðurbrjótanlegra agna frá íbúabyggð og starfsemi í landi, svo sem plastagna.
4. Starfsemi sem getur ógnað lífríki og líffræðilegum fjölbreytileika hafsins skal háð umhverfismati þar sem náttúran fær að njóta vafans.
5. Stuðla skal að sem minnstri umhverfismengun frá skipum í íslenskri landhelgi og stefna að jarðefnaeldsneytislausum skipaflota.
6. Skip sem leggjast við höfn á Íslandi skulu ekki brenna svartolíu, heldur fara í samband við íslenskt rafmagn.
7. Auðlindir hafsins, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg eign þjóðarinnar.
8. Stefnt skal að aukningu friðlýstra svæða og þjóðgarða á hafi til verndar hrygningarsvæðum og viðhalds líffræðilegrar fjölbreytni.
9. Vernda skal hafsbotninn gegn mannvirkjum og veiðarfærum sem geta valdið þar óafturkræfum spjöllum.
10. Olíuleit eða olíuvinnsla skulu ekki leyfð í íslenskri efnahagslögsögu.
11. Íslensk yfirvöld skulu beita sér á alþjóðavettvangi fyrir verndun hafsvæða utan efnahagslögsögu Íslands í öllum álíka málaflokkum og nefndir eru hér að ofan.
Greinargerð:
Hafið og lífríki þess eru ómetanleg auðlind fyrir Ísland. Píratar vilja gera allt sem þarf til að umgengni um hafið verði sjálfbær. Til þess þarf í einhverjum tilfellum að setja ný lög og reglur til að stuðla að aðgerðum sem ná lengra en áður. Til dæmis varðandi fullgildingu alþjóðasamninga um vernd hafsins, varnir gegn mengun frá landi og beinar aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og súrnun hafsins. Einnig ættu Píratar að leggjast gegn umhverfislega ósjálfbærum og óendurkræfum atvinnurekstri sem hefur áhrif á hafið og lífríki þess.
Með bestu fáanlegu tækni (BAT) er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Nokkur slík viðmið eru til varðandi varnir gegn mengun sjávar og íslendingar gætu gert vel að stuðla að frekari tækniframförum í þá átt.
Hagrænir hvatar til að minnka losun þrávirkra lífrænna efna og óniðurbrjótanlegra agna geta verið skattur á tiltekinn varning, ívilnanir til sveitarfélaga að koma á grófhreinsun, fræðsla til almennings um skaðsemi tiltekinna efna, merkingar vörupakkninga eða aðrar leiðir. Fyrirtæki með eigin skólplosun skulu tryggja að ekki berist hættuleg, óniðurbrjótanleg eða þrávirk efni eða efnasambönd í hafið. Bæði skal gefa upp öll efni sem berast eða geta borist í hafið frá fyrirtækinu auk þess sem fyrirtæki skulu koma upp bestu fáanlegu tækni í vörnum gegn skólpmengun. Varúðarregla skal gilda um losun efna í sjó hvort sem losunin er bein eða óbein.
Starfsemi í landi sem haft getur áhrif á hafið, strendur eða lífríki eiga að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og þar sem um ræðir losun eða annað streymi efna í hafið ætti náttúran að njóta vafans, t.d. með breytingum á árfarvegum í landi, uppfyllingum við strendur og losun efna í ferskvatnsviðtaka eða beint í sjó.
Stefna skal að sem minnstri mengun frá umverð skipa um landhelgina og beita markvissum aðgerðum til að stefna að mengunarlausri skipaumferð.
Varðandi auðlindir hafsins má hér ítreka ásetningu Pírata þess efnis að fylgja skuli samskonar ákvæði og stendur í drögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, þess efnis að auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu sameign þjóðarinnar. Dæmi um landeign í hafi í einkaeign er þar sem landeign liggur að sjó, á jarðeigandi netlög allt að 115 metra frá stórstraumsfjöru þar sem aðgrunnt er, annars að dýptarviðmiðinu 6,88 metra.
Til að vernda hafsvæði til framtíðar er vert að skoða frekari friðlýsingar og þjóðgarða ásamt verndun hafsbotns gegn framkvæmdum og óafturkræfu raski. Sér í lagi ætti að skoða svæðisfriðun þar sem lífríki er viðkvæmt og sérstakt.
Ísland þarf að taka virkan þátt í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu starfi um verndun hafsins bæði innan og utan efnahagslögsögunnar. Í mörgum tilfellum má ætla að fjárfesting í slíku samstarfi skili sér margfalt til baka ef markvissum skilyrðum um gagnsæi og upplýsingaaðgengi er framfylgt.
Ítarefni:
Besta fáanlega tækni til að draga úr álagi á umhverfið
http://norden.diva-portal.org/smash/get/diva2:701271/FULLTEXT01.pdfBesta fáanlega tækni – setning nýrra viðmiða
http://www.slideshare.net/FIFIsland/besta-fanlega-tkni-setning-nrra-vimiaLög 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1990073.htmlÞjóðgarður í sjó
http://skemman.is/stream/get/1946/5500/16556/1/%C3%9Ej%C3%B3%C3%B0gar%C3%B0ar%C3%ADsj%C3%B3.pdfSulphur Content in Marine Fuels
http://www.ecgassociation.eu/Portals/0/Documentation/Publications/ECGBriefingReportSulphurContentJan2013.pdfSamningur S.Þ. um takmörkun útblásturs brennisteins
http://www.unece.org/fileadmin/DAM/env/lrtap/full%20text/1994.Sulphur.e.pdfDo Collective Actions Clear Common Air? -The Effect of International Environmental Protocols on Sulphur Emissions
http://folk.uib.no/secaa/Public/Publications/SulphurArticleapril20102.pdf
Tilheyrandi mál: | Verndun hafsins |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | AlbertSvan |