Samþykkt: Almenn menntastefna
Almenn menntastefna Pírata
MEÐ TILVÍSUN Í GRUNNSTEFNU PÍRATA
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
4.2 Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.
4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
OG MEÐ HLIÐSJÓN AF:
26. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna
76. gr. Stjórnarskrár Íslands
4. gr. Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030.
ÁLYKTA PÍRATAR AÐ:
1. Skólakerfið, allt frá leikskólum upp í háskóla, skal fyrst og fremst þjóna menntun hvers nemanda í samræmi við áhuga hans og getu. Skólar skulu leitast við að kynna nemendum sínum fjölbreytt menntunarsvið, örva áhuga þeirra og styðja þá í að menntast á eigin forsendum.
2. Tryggja skal öllum möguleika á að stunda það nám sem hver ræður við, án tillits til efnahags, búsetu og aldurs.
3. Stuðla skal að gagnrýninni hugsun nemenda og efla læsi þeirra í víðum skilningi, til að mynda mat á trúverðugleika heimilda og upplýsingalæsi.
4. Skólar og kennarar skulu hafa mikið frelsi til að móta kennslu sína innan víðra ramma aðalnámsskrár. Nemendur skulu fá að taka þátt í mótun eigin námsskrár eftir því sem þeir hafa þroska til.
5. Í öllum námsgreinum á öllum skólastigum skal kennsla taka mið af nýjustu þekkingu sem aflað hefur verið með viðteknum vísindalegum aðferðum á hverjum tíma, eftir því sem við á.
6. Á öllum skólastigum þar sem námsmat fer fram skal leitast við að það meti árangur í vinnu við verkefni á hverju sviði, frekar en utanbókarlærdóm.
7. Hafa skal reglulegt eftirlit með starfi allra skóla, með það að markmiði að efla gæði þess og búa nemendum sem best umhverfi fyrir menntun sína. Eftirlitið skal vera á fjölbreyttu formi, en ekki einskorðað við stöðluð próf eða mælikvarða.
8. Skilin milli skólastiga (leik-, grunn-, framhalds- og háskóla) skulu vera sveigjanleg, svo nemendur geti fengist við það nám sem hentar þroska þeirra og menntun hverju sinni.
9. Auka skal möguleika nemenda á að fá stöðumat og til að taka stöðupróf þegar slíkt á við.
10. Auka skal tækifæri nemenda, kennara og forráðamanna til lýðræðislegrar ákvarðanatöku þegar kemur að skólastarfi.
11. Styðja skal við starfssamfélög meðal kennara þar sem fagleg þekkingarmiðlun á sér stað meðal þeirra.
12. Skólakerfið skal stuðla að góðri heilsu og velferð nemenda, bæði líkamlegri og andlegri, meðal annars með því að tryggja aðgengi að sálfræði- og læknisaðstoð. Skólakerfið skal veita nemendum veikindaleyfi þegar við á og leitast við að taka tillit til veikindatengdrar fjarveru við námsmat.
13. Auka skal sveigjanleika í skólatíma nemenda með tilliti til heilsu þeirra og velferðar.
14. Sem allra mest af námsefni allra skólastiga skal vera opið menntaefni og aðgengilegt á netinu, á notendavænu formi og nemendum að kostnaðarlausu. Námsefni og námsgögn í skyldunámi skulu undantekningalaust vera nemendum án endurgjalds.
15. Skólar skulu notast við opinn hugbúnað þar sem því verður við komið.
16. Gera skal langtímaáætlun í menntamálum og menntainnviðum og endurskoða reglulega. Áætlunin skal vera í samræmi við aðrar langtímaáætlanir ríkisins.
GREINARGERÐ:
Til að gera stjórnsýslu menntamála skilvirkari er nauðsynlegt að gera áætlanir til langs tíma um uppbyggingu jafn stórs kerfis og skólarnir eru, í stað þess að gera örar breytingar, sem óvíst er að í sé samræmi. Langtímaáætlun þarf að ná bæði til menntastefnu og skólainnviða, svo sem bygginga, námsgagna og launastefnu. Auk þess þarf að vera tryggt að slíkar áætlanir séu í samræmi við aðrar áætlanir ríkisins, svo þær séu raunhæfar og skapi stöðugleika.
Aðgangur að menntun er skilyrði fyrir því að borgararnir geti notið jafnréttis í samfélaginu. Því er nauðsynlegt að sá aðgangur sé ekki háður efnahag. Það þýðir annars vegar að nauðsynlegt er að nemendur í háskólanámi eigi kost á lánum og/eða styrkjum sem nægi til framfærslu, og hins vegar að endurgreiðsla slíkra lána sé ekki svo íþyngjandi að hún fæli fólk frá námi sem það hefur burði til. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna segir: “Allir eiga rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, að minnsta kosti á grunnskóla- og undirstöðustigum. Grunnskólamenntun skal vera skylda. Starfsmenntun og sérmenntun skal standa öllum til boða og háskólamenntun vera öllum jafnfrjáls á hæfnisgrundvelli. Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi.” Í Stjórnarskrá Íslands stendur til viðbótar að “Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi”, sem nær bæði til grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og fullorðinsfræðslu. Þar sem fólk þroskast með misjöfnum hætti, auk þess sem aðrar gildar ástæður geta legið fyrir tímabundnu, en löngu, brotthvarfi úr skólagöngu er eðlilegt að öllum standi til boða framhalds- og háskólanám, óháð aldri.
Oft er talað um að skólakerfið eigi að þjóna þörfum atvinnulífsins eða samfélagsins. Það ætti hvort tveggja að vera afleiðing af því að það þjóni menntun hvers nemanda vel, en ekki markmið sem stjórni starfi skólanna. Helstu viðmið skólakerfisins ættu að vera einstaklingsmiðað nám, minni áherslu á heimanám, virðing gagnvart starfi kennara, minni áhersla á stöðluð próf og meiri samvinna milli menntakerfis og samfélags, án þess þó að þar sé átt sérstaklega við atvinnulífið og er þetta í samræmi við finnsku leiðina svokölluðu.
Skólar þurfa að búa nemendum umhverfi þar sem áhugi getur kviknað í mörgum greinum og á mismunandi tímum. Séu nemendur aðstoðaðir við menntun á þeim sviðum sem þeir fá áhuga á má gera ráð fyrir að afraksturinn verði mun meiri fyrir þá en þar sem þeir eru þvingaðir til að læra það sem ekki vekur áhuga.Skólakerfið á að þjálfa nemendur í upplýsingalæsi og að hugsa á gagnrýninn hátt, svo þeir geti tekið sjálfstæða afstöðu á grundvelli traustra upplýsinga sem þeir afla sér. Það á hins vegar ekki að innræta nemendum viðtekna hugmyndafræði, þótt skólastarf eigi til dæmis að hafa lýðræði og jafnrétti að leiðarljósi í starfi sínu og fræða nemendur um að þar sé um að ræða grundvallaratriði í samfélagsskipan okkar.
Grunn- og framhaldsskólar þurfa að stuðla að námi innan ramma aðalnámskrár, sem ber að þróa sem hluta af langtímaáætlunum í menntamálum. Ítarlegar opinberar námsskrár samræmast illa því gríðarlega úrvali efnis og aðferða við menntun sem nú er aðgengilegt og þeim hugmyndum um sjálfstæði frá beinstýringu menntunar sem haft er að leiðarljósi í aðalnámsskrám. Til að virkja áhuga ólíkra nemenda, sem er nauðsynlegt til að menntun þeirra geti orðið þeim gefandi, þurfa þeir að hafa umtalsvert frelsi til að velja sér viðfangsefni.
Í þeim greinum sem fjalla um staðreyndir og áreiðanlega þekkingu er grundvallaratriði að byggt sé á traustri þekkingu og vísindalegum vinnubrögðum. Því á pólitísk, trúarleg og hugmyndafræðileg innræting ekki heima í skólakerfinu. Svo dæmi sé tekið er því ekki í lagi að kenna stjörnuspeki, eða sköpunarsögu tiltekinna trúarbragða sem vísindalega kenningu jafngilda þróunarkenningunni. Í öðrum námsgreinum er ekki um að ræða ótvíræða þekkingu, og því ekki hægt að gera kröfur um vísindalegan grunn hennar, til dæmis í listgreinum.
Að því marki sem skólaganga á að skila færni hjá nemandanum sem hægt er að meta ætti það að vera færni í að leysa verkefni af því tagi sem við leysum almennt í lífi og starfi, en ekki verkefni sem samin hafa verið af því að auðvelt er að prófa nemandann í þeim. Þar sem námsmat stýrir vinnu nemenda (og kennara) verður það að hvetja til aðstæðubundins náms og þjálfunar í verkefnavinnu, en ekki í því að leggja einungis hluti á minnið. Auk þess getur utanbókarlærdómur orðið æ minna virði eftir því sem upplýsingar verða aðgengilegri á rafrænu formi. Benda má á að það sem nauðsynlegt er að muna utanbókar lærist yfirleitt sjálfkrafa þegar það er notað.
Það er ekki hægt að mæla gæði skólastarfs með einföldum prófum eða mælikvörðum. Það er samt hægt að leggja mat á starfið, og slíkt er gjarnan gert í háskólum með yfirgripsmiklu jafningjamati, án þess að um staðlaðar aðferðir sé að ræða, og slíku mati eða öðrum markvissum leiðum ætti að vera hægt að beita með góðum árangri á öðrum skólastigum líka.
Nemendur eru ólíkir að áhuga og getu. Þótt skólaganga og menntun snúist um annað og meira en að „komast yfir“ námsefni þá er ljóst að sumir nemendur hafa viljann og getuna til að fara hraðar en aðrir gegnum sumar námsgreinar sem skólarnir bjóða upp á. Þar sem almennur þroski nemenda er ekki endilega í réttu hlutfalli við getu þeirra til að fást við námsefni ætti að gefa þeim möguleika á að vera á undan í náminu án þess að þurfa að skipta um skólastig eins og nú er.
Sumir nemendur eru þroskaðri en aðrir og ættu að hafa möguleika á að sleppa við að sitja undir kennslu á því sem þeir hafa þegar lært. Einnig er algengt að nemendur flytjist til landsins erlendis frá, og möguleikar nemenda á að menntast í tilteknum greinum á eigin vegum verða sífellt meiri. Auk þess má gera ráð fyrir að með meira frelsi nemenda til að ráða námi sínu verði algengara að nemendur flytjist milli skóla með ólíkar kröfur. Þessum nemendum ætti að gefa kost á að sýna að þeir hafi náð tilteknum árangri þegar slíks er krafist í skólakerfinu.
Þegar um er að ræða ákvarðanir sem einungis snerta afmarkað samfélag er eðlilegast að þær séu teknar af þeim sem þær hafa áhrif á. Aðkoma forráðamanna að menntun barna sinna er einnig fullu í samræmi við Mannréttindastefnu Sameinuðu Þjóðanna.
Það hefur lengi verið algengt að kennarar starfi hver í sínu horni, án samstarfs um hvernig kennslu skuli háttað. Með því að vinna saman að skipulagi náms og gerð námsefnis ætti starf kennara að verða skilvirkara, og betra fyrir nemendurna. Hið opinbera ætti að gera ráð fyrir slíku samstarfi í skólakerfinu, og styðja við það.
Ungt fólk ver stórum hluta lífs síns innan skólakerfisins, og er þar á ábyrgð hins opinbera. Því er eðlilegt að skólar tryggi velferð nemenda eins og unnt er, bæði varðandi heilsu hvers og eins og sérstaklega að því leyti sem sjálft skólaumhverfið hefur áhrif á nemendur. Ef nemandi er mikið fjarverandi vegna veikinda en getur sinnt námi á eigin spýtur ætti að leitast við að gera honum kleift að ljúka áföngum þar sem þátttaka á staðnum er ekki óaðskiljanlegur hluti sjálfs námsins.
Nemendur eru innbyrðis ólíkir, eins og annað fólk, og ættu því að hafa einhvern sveigjanleika í því hvenær þeir byrja og enda skóladaginn. Sá tími sem nemendur verja í skólanum markast nú af aðstæðum fortíðar, sem ekki eiga endilega við í dag, t.d. hvenær nauðsynlegt sé að hefja kennslu á morgnana.
Nemendur í framhalds- og háskólum þurfa margir í dag að kaupa námsefni fyrir gríðarlegar fjárhæðir. Í mörgum greinum er mikið af því efni til á netinu í einhverju formi, og hafsjór af ítarefni. Skólar ættu að leitast við að nýta slíkt efni frekar en að einskorða sig við bækur sem nemendur þurfa að kaupa. Menntamálayfirvöld ættu að beita sér fyrir því að allt námsefni á íslensku verði aðgengilegt án endurgjalds á netinu. Sama gildir um allt námsefni sem hið opinbera beitir sér fyrir að sé framleitt eða starfandi kennarar útbúa; það ætti undantekningalaust að vera í opnum aðgangi á netinu, eða gefið út undir frjálsu höfundaleyfi (t.d. Creative Commons), í almenningi (e. public domain) og ekki læst með DRM (Digital Rights Management).Eðlilegt er að hið opinbera sjái nemendum fyrir því sem þeir þurfa til að stunda það nám sem þeir eru skyldaðir til, auk þess sem þaðer of íþyngjandi fyrir þá sem minnst hafa milli handa að þurfa að borga fyrir slíkt.
Almennt ættu skólar, eins og aðrir opinberir aðilar, að nota opinn hugbúnað bæði til að minnka útgjöld sín og til að stuðla að þróun slíks hugbúnaðar. Auk þess ættu skólar að þjálfa nemendur í notkun opins hugbúnaðar svo nemendurnir þurfi síður að verða háðir hugbúnaði sem markaðsvöru.
Fyrri stefna Pírata um menntamál, samþykkt 19/4/2013, fellur úr gildi, þar sem þessi stefna tekur við sem breyting á henni.*
Tilheyrandi mál: | Almenn menntastefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | AlbertSvan |