Samþykkt: Sértæk skólastefna, leikskólar
Sértæk skólastefna, leikskólar
MEÐ TILVÍSUN Í GRUNNSTEFNU PÍRATA
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
4.2 Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.
4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir._
OG MEÐ HLIÐSJÓN AF:
Almennri menntastefnu Pírata
26. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna
76. gr. Stjórnarskrár Íslands
4. gr. Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030.
ÁLYKTA PÍRATAR:
1. Hlutverk leikskóla er umönnun, félagsleg þjálfun og menntun sem fer fram í leik. Ekki skal gera námsmat á námi leikskólabarna sem notað sé til samanburðar á leikskólum eða börnunum, en búa þeim umhverfi þar sem þau geta lært og þroskast með þeim hætti sem hentar hverju fyrir sig.
2. Leikskólar þurfa að hafa á að skipa kennurum sem eru færir um að leiðbeina börnum í námi af því tagi sem hentar þessu skólastigi.
3. Skylda ætti sveitarfélög með lögum til að bjóða öllum börnum leikskólapláss frá tilteknum aldri.
GREINARGERÐ:
Börn þroskast með ýmsum hætti og læra ýmislegt í leikskólum. Bæði leikskólabörn og -kennarar eiga hins vegar að vera frjáls frá þeim þrýstingi og væntingum sem fylgja formlegu námsmati síðar í skólakerfinu.
Í lögum 87/2008 um ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla segir að minnst 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skuli skipuð menntuðum leikskólakennurum. Því fer víðs fjarri að þessu marki sé náð, til dæmis í Reykjavík, þótt það sé afar misjafnt eftir sveitarfélögum. Því þurfa stjórnvöld að beita sér fyrir því að þessu sé kippt í liðinn.
Að því leyti sem leikskólar bjóða upp á nám er mikilvægt að það standi öllum börnum til boða jafnt. Eins er eðlilegt að öllum börnum standi jafnt til boða sú umönnun og tækifæri til félagslegra samskipta við jafningja sem leikskólar veita.
Tilheyrandi mál: | Sértæk skólastefna, leikskólar |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | AlbertSvan | |
2 | Tillaga | Arnaldur |