Samþykkt: Sértæk skólastefna, háskólar
Sértæk skólastefna, háskólar
MEÐ TILVÍSUN Í GRUNNSTEFNU PÍRATA
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
4.2 Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.
4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir._
OG MEÐ HLIÐSJÓN AF:
Almennri menntastefnu Pírata
26. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna
76. gr. Stjórnarskrár Íslands
4. gr. Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030.
ÁLYKTA PÍRATAR:
1. Allt starf háskóla skal hvíla á vísindalegum eða listrænum grunni, eftir því sem við á, og byggjast á þekkingu og aðferðum sem standast þær kröfur um áreiðanleika og nýsköpun sem gerðar eru á hverju fræðasviði. Niðurstöður rannsókna í háskólum skulu birtar opinberlega, í samræmi við alþjóðlegar hefðir á hverju sviði. Festa skal í lög ákvæði um hvernig akademískt frelsi háskóla skuli tryggt, og búa svo um að akademískir starfsmenn geti leitað réttar síns í því tilliti hjá óháðum úrskurðaraðila.
2. Háskólastarf skiptist í aðalatriðum í tvennt, rannsóknir og kennslu. Ekki skal gera ráð fyrir að allir háskólakennarar sinni rannsóknum. Sé háskólastarfi skipt upp í rannsókna- og kennsluskóla getur það hvort sem er verið á milli skóla eða innan sama skóla. Í rannsóknaháskólum fara fram rannsóknir, kennsla í greinum sem tengjast þeim og rannsóknanám. Í kennsluháskólum fer fram kennsla í greinum sem eru fyrst og fremst undirbúningur fyrir störf á tilteknu sviði.
3. Gera skal úttekt á öllu rannsóknastarfi háskóla með fárra ára millibili, og fá til þess óháða erlenda sérfræðinga á hverju sviði, sem geri samanburð á gæðum rannsóknastarfs deilda (eða annarra hæfilega afmarkaðra hópa) við samsvarandi starf á alþjóðavettvangi. Slíkt mat skal eingöngu vera jafningjamat á gæðum rannsóknastarfsins, í samræmi við þær alþjóðlegu hefðir sem ríkja á hverju sviði. Taka skal mið af niðurstöðum þeirra úttekta þegar opinberu rannsóknafé er skipt milli háskóla og/eða deilda þeirra.
4. Þeir háskólakennarar sem einbeita sér að kennslu skulu hafa svigrúm til að þróa kennslu sína, og umbun til þeirra skal miðast við gæði kennslustarfs þeirra, en ekki skal gera kröfu um rannsóknastarf þeirra.
5. Þeir háskólakennarar sem stunda rannsóknir en eru ráðnir eingöngu í kennslu (sem og einstaklingar utan háskólanna) skulu geta sótt um styrki í almenna samkeppnissjóði, sem greiði þá laun þeirra við rannsóknastarfið. Einnig skal gera kennsluháskólum kleift að borga þeim kennurum sem stunda rannsóknir sem standast alþjóðleg viðmið laun til að sinna þeim rannsóknum meðfram kennslunni.
6. Háskólar skulu rökstyðja vandlega þær fornámskröfur sem þeir gera fyrir hinar ýmsu námsbrautir sínar. Slíkar kröfur ættu ekki að stjórna starfi framhaldsskóla, umfram það að skólarnir leiðbeini nemendum um hverjar þessar kröfur séu og hvernig megi uppfylla þær. Háskólum skal heimilt að halda sérstök inntökupróf, en góður árangur úr framhaldsskóla ætti einnig að veita aðgang að háskólanámi.
7. Háskólar skulu leggja áherslu á að allar rannsóknaniðurstöður sem birtar eru séu birtar þannig að þær séu öllum aðgengilegar, endurgjaldslaust á netinu.
GREINARGERÐ:
Markmið rannsókna, og þeirrar menntunar sem hvílir á þeim, er að afla áreiðanlegrar þekkingar og miðla henni. Það er gert með rannsóknum sem undirgangast jafningjamat og standast kröfur þess, á þeim alþjóðavettvangi sem nánast allt fræðastarf tilheyrir. Því er nauðsynlegt að akademískir starfsmenn háskóla hafi vald á þeirri þekkingu sem þarf til að miðla henni á skilvirkan hátt. Þeir akademísku starfsmenn háskóla sem bera uppi rannsóknanám (hvort sem er í grunn-, meistara- eða doktorsnámi) þurfa að hafa að baki feril sem sjálfstæðir fræðimenn á viðkomandi sviðum. Þeir sem leiðbeina í slíku rannsóknanámi á meistara- og doktorsstigi þurfa að vera virkir fræðimenn á alþjóðavettvangi á viðkomandi sviðum, enda er það mikilvægur hluti starfs þeirra að tengja verðandi fræðafólk við alþjóðasamfélagið.
Um listgreinar á háskólastigi gildir annað en um fræðasvið með skýrar kröfur um áreiðanleika og aðferðir. Sama gildir um sumar greinar hugvísinda, svo sem bókmenntafræði, sem ekki snýst eingöngu um áreiðanlega þekkingu sem fræðasamfélagið er sammála um, heldur einnig skapandi greiningu. Í slíkum greinum skal þó ætíð miða við þær kröfur um þekkingaröflun og nýsköpun sem gerðar eru í viðkomandi alþjóðasamfélagi.
Akademískt frelsi akademískra starfsmanna háskóla er grundvöllur þess að þeir geti stundað rannsóknir sínar óháð utanaðkomandi hagsmunum, því það er nauðsynlegt þeirri sannleiksleit sem rannsóknir eiga að vera. Í lögum nr. 63/2006 um háskóla eru ákvæði um fræðilegt sjálfstæði, en ekkert um hvernig akademískir starfsmenn geti leitað réttar síns í því tilliti. Allir íslenskir háskólar undirrituðu skjalið „Yfirlýsing um forsendur og frelsi háskóla“ þann 15. júní 2005. Þar er kveðið á um rétt háskólakennara til slíks frelsis, en þar eru engin ákvæði um hvernig þeir geti sótt þann rétt sinn ef á þarf að halda. Þann rétt ætti að vernda með löggjöf, svo yfirvöld háskóla séu ekki dómarar í eigin sök.Í þeim löndum sem hafa hlutfallslega jafnstórt háskólakerfi og Ísland, talið í fjölda nemenda, er nánast algilt að háskólakerfinu sé skipt með þessum hætti. Á Íslandi eru hins vegar allir akademískir starfsmenn í ríkisháskólum (sem eru 85% háskólakerfisins) ráðnir til að stunda rannsóknir í helmingi umfangs starfs síns, þótt ljóst sé að við stöndum ekki öðrum þjóðum framar varðandi getu til rannsókna. Einnig er mikilvægt að þeir háskólakennarar sem einungis stunda kennslu fái að einbeita sér að henni og umbun fyrir það sem þeir gera vel á þeim vettvangi. Hins vegar er eðlilegt að gera ráð fyrir því sem meginreglu að þeir sem stunda rannsóknir kenni líka, enda mikilvægt að miðla þeirri þekkingu og færni sem þar er til staðar.
Til að stuðla að því að rannsóknafé háskóla sé notað með skilvirkum hætti er nauðsynlegt að meta gæði rannsóknarstarfs þeirra reglulega. Til þess þarf óháða og hæfa sérfræðinga á hverju sviði, og slíka sérfræðinga er almennt aðeins hægt að finna erlendis. Markmiðið með slíku mati er að hvetja háskólana til að beina rannsóknafé sínu til þess rannsóknastarfs sem stenst kröfur alþjóðasamfélagsins. Mikilvægt er þó að akademískir starfsmenn háskóla sem stunda rannsóknir hafi til þess næði í langan tíma í senn, og því þarf mat af þessu tagi að taka til nokkurra ára í einu. Af sömu ástæðu ættu skólarnir sjálfir að gera allar breytingar á úthlutun rannsóknafjár til deilda og sviða á löngum tíma en ekki skyndilega, þótt eðlilegt sé og nauðsynlegt að slíkar breytingar geti átt sér stað.
Mikilvægt er að þeir sérfræðingahópar sem fengnir eru til að gera mat af þessu tagi fái þau skilaboð frá menntamálayfirvöldum að beðið sé um heiðarlegan samanburð við alþjóðasamfélagið á hverju sviði. Mat af ofangreindu tagi er algengt að gert sé í erlendum háskólum, og má t.d. líta til slíks mats sem gert hefur verið við háskólana í Helsinki, Lundi og Uppsölum á þessari öld.
Mikilvægt er að mat af þessu tagi sé einungis jafningjamat á gæðum rannsóknastarfs, þ.e.a.s. mat óháðra sérfræðinga á hverju sviði, en ekki sé reynt að spá fyrir um meinta gagnsemi rannsókna utan viðkomandi fræðasviðs. Ástæða þess er að góðar rannsóknir eru í eðli sínu óvissuferð. Áhrifamiklar uppgötvanir eru mjög oft gerðar þar sem engan óraði fyrir, og enginn er þess umkominn að giska á hvar framfarirnar verði helst.
Með því að útdeila rannsóknafé til háskóla (til langs tíma í senn) í samræmi við niðurstöður mats af þessu tagi verða háskólar þar sem rannsóknir eru stundaðar hvattir til að nota það fé sitt með sem bestum hætti til að efla góðar rannsóknir.Góður háskóli verður að vinna markvisst að því að bæta kennsluna og skapa umhverfi sem gerir kennurum kleift að leggja metnað sinn í það. Því þarf að gera kennslunni hátt undir höfði, og umbuna þeim sem eingöngu stunda kennslu fyrir vinnu sína við hana.
Viðbúið er að sumir þeirra sem ráðnir eru eingöngu til kennslu í háskólum stundi rannsóknir. Nauðsynlegt er að þeir eigi kost á því að sinna rannsóknum sínum í hlutastarfi (eins og gildir um flesta starfsmenn rannsóknaháskóla), að því tilskildu að þær standist samanburð við aðrar rannsóknir sem styrktar eru af samkeppnissjóðum.
Eðlilegt er að háskólar geri skýrar kröfur um þann bakgrunn sem nemendur þurfi að hafa til að hefja nám á tilteknu sviði. Hins vegar ætti stúdentspróf í sjálfu sér að vera úrelt sem aðgangskrafa í háskóla; það var enda búið til í allt öðrum tilgangi. Auk námsárangurs í framhaldsskóla væri skynsamlegt að bjóða umsækjendum um háskólanám að taka einhvers konar inntökupróf, hvort sem það miðast við tiltekna háskóladeild eða er almennt próf í ýmsum þáttum menntunar, eins og tíðkast t.d. í Svíþjóð (Högskoleprovet). Þannig gætu þeir sem hafa einbeitt sér að öðru en því námi sem krafist er fyrir háskóla sýnt fram á getu sína til að stunda háskólanám.
Opið aðgengi (e. Open access) að rannsóknaniðurstöðum háskóla er eðlileg krafa af því að hlutverk háskóla er að skapa þekkingu fyrir almenning, auk þess sem það er almenningur sem greiðir kostnaðinn við það starf á Íslandi.
Tilheyrandi mál: | Sértæk skólastefna, háskólar |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | AlbertSvan | |
2 | Tillaga | helgihg | wefe |