Tillaga: Endurskoðun höfundaréttar
Með tilvísun til
- 1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
- 1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
- 2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
- 2.3 Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.
- 3.1 Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.
- 3.2 Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi.
- 4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.
- 5.1 Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.
og með hliðsjón af
- Norsku skýrslunni, ítarlegri rannsókn á áhrifum stafrænnar væðingar á tónlistar iðnaðinnum í Noregi frá 1999 til 2009 - http://www.scribd.com/doc/37406039/Thesis-Bjerkoe-Sorbo
- og Hargrave review, skýrslu sem breska ríkisstjórnin lét taka saman http://www.ipo.gov.uk/ipreview-finalreport.pdf
álykta Píratar eftirfarandi:
Rannsóknir á höfundaréttarbrotum skulu vera á grundvelli réttarríkisins. Rannsóknir á netsamskiptum vegna höfundaréttarbrota skulu ekki njóta sérstöðu gagnvart ferlum sem hugsaðir eru til aðhalds á rannsóknarheimildum, svosem kröfu um dómsúrskurð og rökstuddan grun um refsivert athæfi.
Engir tálmar skulu settir á netumferð vegna höfundaréttabrota.
Neytendur og netnotendur verði aldrei gerðir ábyrgir fyrir dreifingu annarra á höfundaréttarvörðu efni.
Spornað verði gegn tilraunum til að fylgjast með netnotkun fólks vegna höfundaréttarbrota.
Endurskoðun höfundalaga skal taka mið af síbreytilegri þróun viðskiptahátta í listsköpunar- og hugverkaiðnaði, með það að markmiði að gera höfundum kleift að afla tekna af vinnu sinnu án þess að framfylgni laganna bitni á borgararéttindum og hefðbundnum ferlum réttarríkisins.
Leitað verði leiða til að gera sæmdarrétt sem samhæfastan við listform sem byggja á nýtingu búta úr öðrum listaverkum. Líta skal til sanngirnissjónarmiða gagnvart öllum höfundum, bæði þeirra sem nýta búta úr listaverkum annarra en sömuleiðis höfunda þeirra verka sem bútarnir eru teknir úr.
Neytendur hafi óskoraðan rétt til þess að eiga við, fikta í og breyta tækjum og hugbúnaði til einkanota, þar á meðal til þess að komast framhjá takmörkunum sem framleiðandi kemur fyrir, svosem afritunarvörnum. Neytendur hafi rétt á að vita fyrirfram hvort tæki eða hugbúnaður innihaldi afritunarvarnir eða aðrar takmarkanir sem eru til þess fallnar að skerða nýtingarrétt neytanda.
Nýr hugbúnaður og ný hugverk sem ríkið framleiðir sjálft eða kaupir sérsmíðuð af öðrum, skulu gefin út undir opnum leyfum nema sérstakar ástæður séu til annars, svosem öryggissjónarmið eða vernd réttinda annarra.