Tillaga: Hugbúnaðarhús ríkisins

Enn er þetta einungis tillaga sem hefur ekki verið samþykkt með atkvæðagreiðslu.

Útgáfur

# Staða Höfundur Lýsing
1 Tillaga 7oi

Framkvæmd

Stofnað yrði hugbúnaðarhús ríkisins og allur hugbúnaður og þróun hans færð undir það, ásamt þeim starfsmönnum sem sinna því.

Skipulag

Í hugbúnaðarhúsinu væru starfandi forritarar, kerfisstjórar, hönnuðir og verkefnastjórar ásamt starfsfólki sem sinnir gæðastjórnun. Fyrir hverja vöru (hugbúnað) væru svo tengiliðir hjá viðeigandi stofnun sem væru svokallaðir “product owners”, sem myndu koma að þróun varanna og koma til leiða þeim kröfum sem stofnunin hefur fyrir þær.

Kostir

  • Gríðarlega mikil þekking sem og hugbúnaður færist undir eitt þak sem styrkir þróun talsvert. Eflaust er margt sem hægt er að nýta á milli stofnanna sem er ekki gert í dag þar sem þær eru allar á sitthvorum staðnum að gera sitt.

  • Hægt að koma með heildstæða stefnu í þróunarmálum opinbers hugbúnaðar (eins og til dæmis krafa um að hugbúnaður sé opinn eða betra aðgengi að gögnum í gegnum API endapunkta) og gerir mun auðveldara að framfylgja henni.

  • Hægt að samræma virkni og útlit ríkisrekins hugbúnaðar og endurnýta mun meira á milli. Því fylgir auðvitað gríðarlegur tímasparnaður, og því fjárhagslegur sparnaður einnig.

  • Þar sem öll þessi þekking væri komin undir sama þak væri hægt að hafa meira flæði á milli teyma og/eða vara. Það væri hægt að samræma tækni sem er notuð í hugbúnaðinum meira til að einfalda það flæði einnig, sem gerir öllum kleift að nýta sína þekkingu og hoppa inn í þróun á hvaða hugbúnaði sem er.

  • Stofnanir sem ekki hafa bolmagn til að vera með sína eigin deild í hugbúnaðarþróun þurfa ekki að leita á náðir verktaka og geta fengið sín verkefni unnin af fólki sem þekkir þau og þarf ekki langan tíma til að koma sér inn í þau.

  • Eflaust fleiri kostir sem ég hef hugsað út í en gleymt að bæta við

Rýnt í tölur

Miðað við tiltölulega gamlar tölur fundnar á síðum Alþingis, þá fóru u.þ.b. 2 milljarðar króna í þróun hugbúnaðar árlega á árunum 2006-2008. Það eru gróflega reiknað árslaun fyrir 170 starfsmenn (mikil einföldun, en samt). Þar fyrir utan fóru að meðaltali u.þ.b. 470 milljónir árlega í aðkeyptan hugbúnað. Þessar tölur fóru hækkandi á hverju ári og má gera ráð fyrir að nú, 11 árum seinna, að þessar tölur séu talsvert hærri.

Inn í þessum tölum er eflaust mjög mikið um aðkeypta vinnu verktaka, annað hvort sjálfstæðra eða á vegum hugbúnaðarfyrirtækja. Tímakaup þeirra er auðvitað alltaf talsvert meira en tímakaup fastráðinna, þannig að það má gera ráð fyrir að tímafjöldi unnina tíma fyrir sömu fjárhæðir væri talsvert meiri. Þá má gera ráð fyrir að ekki þurfi til 170 starfsmenn til að sinna þessum störfum vegna þess, og því gætu sparast talsverðar fjárhæðir í launakostnaði.