Landbúnaður
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
Með hliðsjón af:
- Tillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld – Sjá almennar tillögur og tillögur varðandi auðlindageirann, sjá bls. 249
- Landnotkun í dreifbýli og sjálfbær landnýting. Skýrsla starfshóps Umhverfisráðuneytisins
- Fjárlög 2016 - Sjá blaðsíðu 68, liði 04-801, 04-805, 04-807, 04-811 o.fl.
- Búvörusamningar 2016
Álykta Píratar
Mótuð verði ný landbúnaðarstefna fyrir Ísland. Markmið stefnunnar verði þessi:
- Ábatasamur búrekstur, sanngjörn lífsafkoma bænda og trygg nýliðun.
- Samkeppnishæfur landbúnaður með bættri framleiðni, hagkvæmri tækni og góðri nýtingu framleiðsluþátta, sérstaklega vinnuafls. Góðar slysavarnir og vinnuvernd.
- Vernd og styrking vistkerfa sem tengjast landbúnaði og landnotkun. Sjálfbær landnýting. Betri vöktun og nægar rannsóknir á ástandi beitilands. Beit samrýmist landgæðum. Endurheimt votlendis. Loftslagsvernd og vatnsvernd. Fegrun lands og aukin skógrækt.
- Velferð og vernd húsdýra. Rekjanleiki uppruna matvæla til framleiðanda og akra, þar sem við á. Gæðavottun verði áreiðanleg.
- Stuðlað verði að umhverfisvænum vinnubrögðum í landbúnaði og aukinni framleiðslu lífrænna vara.
- Nýsköpun verði kraftmikil og stutt við góða félagslega og efnahagslega þróun á landsbyggðinni. Stuðlað verði að vexti nýrra arðbærra atvinnugreina þar sem þær henta á landsbyggðinni, svo sem ferðaþjónustu. Stutt við vöruþróun á sviði matvæla, svo sem fullvinnslu afurða og milliliðalausum viðskiptum „beint frá býli“.
- Bændur fái frelsi til að keppa á opnum markaði. Virk samkeppni í vinnslu, dreifingu og sölu matvöru. Undanþágur frá samkeppnislögum verði felldar niður.
- Fjölbreytt og gott fæðuframboð á sanngjörnu verði. Fæðuöryggi á heimsvísu.
- Innflutningur matvæla verði tollfrjáls í áföngum gegn sambærilegum aðgangi að erlendum matvörumörkuðum.
- Virkir bændur, sem beita viðurkenndum starfsaðferðum, fái grunnstuðning. Einnig viðbótarstuðning fyrir tiltekin verkefni og æskilegar starfsaðferðir. Aukastuðningur verði við yngri bændur og bændur sem búa við sérstakar aðstæður. Hámark verði á stuðningi við einstök bú. Fjárstuðningur við landbúnað verði í heild svipaður að meðaltali á bú og á hinum Norðurlöndunum.
Greinargerð
Styrkjakerfi landbúnaðarins sem birtist í búvörulögum, búvörusamningum og víðar er slæmt ekki bara fyrir neytendur og skattgreiðendur heldur líka fyrir bændur. Ekki dugar að lappa upp á gamla landbúnaðarkerfið heldur þarf að móta algerlega nýja, faglega landbúnaðarstefnu fyrir Ísland.
Tillagan er um markmið þeirrar nýju stefnu og gengur í aðalatriðum út á eftirfarandi:
- Virkir bændur sem beita viðurkenndum starfsaðferðum fá grunnstuðning og viðbótarstuðning fyrir viss verkefni og starfsaðferðir. Í heild verði beinir styrkir á fjárlögum svipaðir á bú og nú er, sem er svipað og gerist á hinum Norðurlöndunum að meðaltali.
- Opnað verður á tollfrjálsan innflutning matvæla, neytendum til hagsbóta. Við það fellur niður neytendastuðningur sem falinn er í hærri matarverðum hér. Sá stuðningur er nú megin hluti stuðningsins til landbúnaðarins og vinnslugreina.
- Bændur fá frelsi til að haga framleiðslunni að hentugleikum og keppa á markaði. Undanþágur frá samkeppnislögum falla niður.
- Stuðningur verður við umhverfisvænar aðferðir, lífræna ræktun og vistvæna framleiðslu.
Hér er um verulegar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins að ræða sem gera þarf af tillitssemi við þá sem fyrir verða.
Gallar við núverandi landbúnaðarkerfi
Heildarstuðningur við landbúnaðinn og úrvinnslugreinar er um það bil sá hæsti í heimi.
- Stuðningur skattgreiðenda á fjárlögum er um 14 milljarða kr. á ári.
- Neytenda við bændur við búhlið er samkvæmt OECD um 10 milljarða kr. á ári.
- Stuðningur neytenda við slátrun- og vinnslu er um 12,5 milljarða kr. á ári.
- Samtals er stuðningur við landbúnaðinn um 36 milljarða kr. á ári.
Bændur í landinu eru um 3.200. Stuðningur á hvert bú er samtals um 11 milljónir króna á ári. Þar af eru um 4 milljónir á fjárlögum og 7 í stuðning sem felst í hærri matarverðum. Mestur reiknast neytendastuðningurinn við kjúklingabúin, sem eru 27, um 192 milljónir kr. á ári á bú. Svínabúin eru 23 og hvert þeirra nýtur verndar að verðmæti um 77 milljónir kr. á ári. Eggjabú eru 14 og meðal neytendastuðningur um 44 milljónir kr. á ári.
Nokkrar óháðar athuganir benda til að verð innfluttra matvæla án matartolla geti orðið um 35% lægra en innlendra nú.
Bændur hafa í dag lítið svigrúm til að bæta sinn hag vegna styrkjakerfisins. Nýting framleiðsluþátta er léleg.
Nýsköpun er lítil.
Mögulegar leiðir til úrbóta
Við niðurfellingu matartolla myndu matarútgjöld á mann lækka um allt að 68 þúsund kr. á ári. Hér er lagt til að tollverndin verði felld niður í áföngum. Stórar barnafjölskyldur hagnast mest á breytingunni. Einnig stæsta atvinnugreinin, ferðaþjónusta, því matvælaverð og annað verðlag hefur áhrif á fjölda ferðamanna. Þá geta vísitölutryggð lán lækkað um allt 2%.
Landbúnaðurinn verður að aðlaga sig nýjum raunveruleika, hagræða og bæta vöruþróun. Íslendingar munu margir hverjir halda áfram að kaupa innlenda framleiðslu þó hún verði eitthvað dýrari en innflutt, ef marka má það sem gerðist þegar innflutningur grænmetis varð tollfrjáls árið 2003.
Áður en tollar verða felldir þarf að semja við EES löndin um gagnkvæman markaðsaðgang. Við það opnast 550 milljón manna Evrópumarkaður fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir. Samfélagið þarf að styðja bændur og aðra sem verða fyrir tjóni og hjálpa til við umbreytinguna yfir í arðbærari atvinnugreinar.
Við opnun markaða mun fjölbreyttni matvælaframboðs stóraukast og gæði batna. Meðal annars eykst framboð af lífrænt ræktuðu og gæðavottuðu en einnig af einföldu og ódýru fyrir þá sem það hentar.
Lagt er til að meðalstuðningur á býli á fjárlögum verði hár og á hinum Norðurlöndunum, sem er svipað og hann er hér nú, það er um 4 milljónir kr. á bú. Hins vegar gerir tillagan ráð fyrir að viðmið stuðnings breytist. Stuðningur færist frá magnviðmiðun og verði meira tengdur umgengni um landið, umhverfisvænum aðferðum og slíku. Hluti stuðningsins mun þá færast af hefðbundnum kúa- og kindabúskap yfir stuðning tengdan búsetu og umgengni við landið og náttúruna.
Fæðuöryggi – Þróunaraðstoð
Færa ætti hluta þróunaraðstoðar í að hjálpa heimamönnum á völdum svæðum í þróunarlöndum til að auka og bæta matvælaframleiðslu og koma vörunni á markað. Þetta gera margar Evrópuþjóðir og hluti framleiðslunnar er seldur á Evrópumarkaði. Þannig má auka og bæta matvælaframleiðslu þar sem hennar er mest þörf og draga úr fæðuskorti. Við þetta starf nýtist vel menntun fólks meðal annars þeirra sem hlotið hafa menntun sína í Landbúnaðarháskóla Íslands.
Móta þarf faglega, öfluga og raunsæja byggðastefnu fyrir Ísland.
Byggðastofnun hefur yfirumsjón með mótun byggðastefnu fyrir landið allt. Sumum byggðum hentar landbúnaður, öðrum sjávarútvegur, enn öðrum ferðaþjónusta o.s.frv. Móta þarf stefnu um landnýtingu og hvað starfsemi á að styrkja á viðkomandi svæði, ef einhverja. Kalla þarf til verka sérfræðinga í stefnumótun, landbúnaði, byggðamálum, umhverfisvernd, ferðaþjónustu, fjármálum auk fulltrúa bænda, neytenda og skattgreiðenda.
Þetta er nefnt hér af því stuðningur við landbúnað er í aðra röndina byggðastefna og æskilegt væri að framtíðar landbúnaðarstefna myndi styðjast við vandaða byggðastefnu fyrir hvert landsvæði.
Tilheyrandi mál: | Landbúnaðarstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | smari | |
2 | Tillaga | smari | |
3 | Tillaga | smari | |
4 | Tillaga | jack | Þarna finnst mér að mætti bæta við að styðja við bakið á lífrænum búskap hvort heldur það er í hefðbundnum búskap, alifuglarækt, svínarækt eða grænmetisræktun. |
5 | Tillaga | alla | Ég mæli með orðalagsbreytingu af því mér finnst 'einbeita sér' eiga við eitthvað sem einstaklingur gerir. Í staðinn mætti segja "og leggja áherslu rfekar áherslu á skattaafslætti og verkefnatengda styrki..." |
6 | Tillaga | Katla | Ég er sammála Jack.daniels, framleiðsluræktun dýra er eitthvað sem Píratar mættu taka sterka afstöðu gegn. Að styrkja lífrænan búskap væri mjög flott að sjá í stefnunni. |
7 | Tillaga | valli57 | Íslenskur landbúnaður hefur í áratugi verið gísl hafta og reglugerða sem hafa drepið niður allt frumkvæði og framþróun, með því að gefa bændum kost á að framleiða til samræmis við getu og opna á sama tíma opinn uppboðsmarkað fyrir vörur þeirra mun verða til eðlileg verðmyndun sem og myndast jafnvægi í framleiðslu og eftirspurn. |
8 | Hafnað | bjornlevi | Samþykkt á félagsfundi 11.05.2016 |