Samþykkt: Tillaga um stjórnir, ráð og nefndir á vegum Pírata
- gr.
7. kafli laganna fellur brott. Nýr kafli orðist svo:
7. Stjórn félagsins
Framkvæmdastjórn
7.1. Framkvæmdastjórn annast almenna stjórn og rekstur félagsins að svo miklu leyti sem hún er ekki í höndum aðildarfélaga.
7.1.1 Í framkvæmdastjórn sitja þrír einstaklingar sem kosnir eru beinni kosningu á aðalfundi. Kjörtímabil þeirra er tvö ár. Sá meðlimur framkvæmdastjórnar sem hlýtur besta kosningu skal stýra störfum hennar nema viðkomandi biðjist undan.
Framkvæmdastjórn velur sjálf einnig gjaldkera og ritara.
7.1.2 Þau eru kjörgeng til framkvæmdastjórnar sem setið hafa að lágmarki eitt kjörtímabil í skilgreindri trúnaðarstöðu á vegum félagsins eða aðildarfélaga.
7.1.3 Framkvæmdastjórn setur stefnu um rekstur félagsins.
Stefnu- og málefnanefnd
7.2 Stefnu- og málefnanefnd skal vera félagsfólki, kjörnum fulltrúum og nefndum, stjórnum, ráðum og aðildarfélögum Pírata til aðstoðar varðandi stefnumótun og málefnastarf innan flokksins. Þá getur hún haft frumkvæði að viðbrögðum við stóratburðum í samfélaginu, t.d. með skipulagningu viðburða og funda.
7.2.1 Í stefnu- og málefnanefnd sitja fimm einstaklingar sem kosin eru beinni kosningu á aðalfundi. Kjörtímabil þeirra er eitt ár. Sá meðlimur nefndarinnar sem hlýtur besta kosningu skal stýra störfum hennar nema viðkomandi biðjist undan.
7.2.2 Stefnu- og málefnanefnd skipuleggur Pírataþing, sem haldin skulu tvisvar á ári.
7.2.3 Í aðdraganda kosninga starfar stefnu- og málefnanefnd með frambjóðendum við undirbúning kosninga.
7.2.4 Í aðdraganda alþingiskosninga skal stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Kosningastefnuskrá skal samþykkt með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins.
7.2.5 Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga aðstoðar stefnu- og málefnanefnd aðildarfélög sem taka þátt í kosningum eftir þörfum.
Fjármálaráð
7.3 Fjármálaráð tryggir gegnsæi, valddreifingu og vönduð bókhaldsvinnubrögð í fjármálum. Ber það ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar Pírata.
7.3.1 Í fjármálaráði sitja þrír einstaklingar sem kosin eru beinni kosningu á aðalfundi. Kjörtímabil þeirra er tvö ár. Sá meðlimur fjármálaráðs sem hlýtur besta kosningu skal stýra störfum þess nema viðkomandi biðjist undan.
7.3.2 Fjármálaráð skal setja verklagsreglur um fjármálaumsjón félagsins og stofnana þess. Í reglunum sé að lágmarki kveðið á um:
að tvöföld undirritun sé á reikningum,
að haldið sé vel um kvittanir og önnur bókhaldsgögn,
að bókhaldi sé skilað til framkvæmdastjórnar a.m.k. ársfjórðungslega,
að lögum félagsins um opið bókhald sé framfylgt og;
fjárveitingar til svæðisbundinna aðildarfélaga samkvæmt skilgreindri reikniaðferð í 11. kafla laganna.
7.3.3 Fjármálaráð hefur umsjón með eftirfylgni við verklagsreglur um fjármálaumsjón félagsins.
Samráðsvettvangur
7.4 Samráðsfundir skulu haldnir á þriggja mánaða fresti. Eftirfarandi skulu eiga að lágmarki eitt sæti á samráðsfundi:
* Framkvæmdastjórn
* Stefnu- og málefnanefnd
* Fjármálaráð
* Kjördæmabundin aðildarfélög
* Önnur aðildarfélög sem tilkynna um þátttöku
* Þingflokkur
* Fulltrúar úr hverri sveitarstjórn þar sem Píratar eiga fulltrúa
7.4.1 Framkvæmdastjóri sér til þess að samráðsfundir skuli haldnir og skal sitja þá.
7.4.2 Samráðsfundir skulu setja sér reglur um fundarsköp og ritun fundargerða.
Önnur ákvæði
7.5 Framkvæmdastjórn skal ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur Pírata. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk Pírata. Um störf framkvæmdastjóra og annars starfsfólks fer nánar samkvæmt 9. kafla.
7.6 Framkvæmdastjórn og fjármálaráð skulu viðhafa reglubundið samráð við framkvæmdastjóra hvað varðar fjármál og rekstur félagsins.
7.7 Framkvæmdastjórn, stefnu- og málefnanefnd og fjármálaráði er heimilt að skipa nefndir, starfshópa og málefnahópa. Skal viðkomandi ráð setja þeim hópum og nefndum sem það skipar reglur.
7.7.1 Nefndir, starfshópar eða málefnahópar skulu hafa ábyrgðaraðila og skila reglubundinni skýrslu ef um varanlega nefnd, starfshóp eða málefnahóp er að ræða, en við lok starfsins ef um tímabundna nefnd, starfshóp eða málefnahóp er að ræða.
7.7.2 Gera skal grein fyrir störfum slíkra nefnda, starfshópa og/eða málefnahópa í ársskýrslu félagsins sbr. grein 4.8.
Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
7.8 Kosningar í framkvæmdastjórn, stefnu- og málefnanefnd og fjármálaráð skulu skila raðaðri niðurstöðu. Að öðru leyti fer um kjörið samkvæmt 4. kafla um aðalfund.
7.8.1 Þeir einir eru kjörgengir til stjórna, nefnda og ráða Pírata sem hafa verið í félaginu í að lágmarki 30 daga áður en kosning hefst. Óheimilt er að sitja lengur en tvö kjörtímabil samfleytt í sömu stjórn eða ráði.
7.8.2 Heimilt er að sitja í fleiri en einni nefnd, stjórn eða ráði.
Almenn ákvæði um stjórnir, nefndir og ráð
7.9 Halda skal fundargerðir fyrir fundi stjórna, nefnda og ráða og skulu þær birtar innan mánaðar frá fundi.
7.10. Fundir stjórna og ráða skulu að jafnaði vera opnir öllum. Þó er heimilt að loka fundi eða hluta úr fundi þegar ræða á trúnaðarmál. Meirihluta ráðsfólks/stjórnarmeðlima sem sitja fundinn þarf til þess að ákveða að loka fundum.
7.11 Heimild til að rita firma félagsins hefur fulltrúi framkvæmdastjórnar og framkvæmdastjóri.
2. gr.
Í stað orðsins “Framkvæmdaráði” í grein 3.2 kemur: Framkvæmdastjórn.
3. gr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráði í grein 3.5 kemur: framkvæmdastjórn.
4. gr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráð” í grein 3.8 kemur: framkvæmdastjórn.
5. gr.
Í stað orðsins “Framkvæmdaráð” í grein 4.4 kemur: Framkvæmdastjórn.
6. gr.
Í stað orðanna “framkvæmdaráði” og “Framkvæmdaráð” í grein 4.5 kemur:
framkvæmdastjórn
Framkvæmdastjórn
7. gr.
Í stað orðsins “Framkvæmdaráð” í grein 4.6 kemur: Framkvæmdastjórn
gr.
Grein 4.10 orðast svo: Á aðalfundi skal fara fram kosning í framkvæmdastjórn, fjármálaráð og stefnu- og málefnanefnd eins og nánar er kveðið á um í 7. kafla.gr.
Grein 4.14 fellur brott.gr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráði” í grein 4.16 kemur: framkvæmdastjórn.gr.
Grein 4.17 fellur brott.gr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráð” í grein 4.18 kemur: stjórnir, nefndir og ráð sem kveðið er á um í 7. kafla laga þessara.gr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráðs” í grein 6.9 kemur: stefnu- og málefnanefndar.gr.
Í stað orðsins “Framkvæmdaráð” í grein 8.a.1 kemur: Framkvæmdastjórn.gr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráð” í grein 8.a.4 kemur: stjórnir, nefndir og ráð innan Píratagr.
Grein 8.a.7 orðast svo:
Skipunartími fulltrúa í trúnaðarráði skal vera eitt ár.gr.
Grein 9.1 fellur brott.gr.
mgr. greinar 9.2. fellur brott.
gr.
Orðin “Framkvæmdaráði og” í 2. mgr. greinar 9.2 falla brott.gr.
Grein 9.3 orðast svo:
Framkvæmdastjóra er heimilt, í samráði við framkvæmdastjórn, að ráða til sín starfsfólk í tengslum við kosningabaráttu eða önnur tímabundin verkefni án auglýsingar.gr.
Grein 9.5 fellur brott.gr.
Í stað orðsins “Framkvæmdaráð” í grein 10.4 kemur: Framkvæmdastjórigr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráði” í grein 10.5 kemur: framkvæmdastjórngr.
Í stað orðsins “Framkvæmdaráð” í grein 10.6 kemur: Framkvæmdastjórngr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráð” í 2. málsl. greinar 10.6 kemur: framkvæmdastjórngr.
Í stað orðanna “framkvæmdaráðs” og “Framkvæmdaráð” í grein 11.1 kemur:
framkvæmdastjórnar
Framkvæmdastjórngr.
Í stað orðanna “Framkvæmdaráð” og “framkvæmdaráð” í grein 11.3 kemur:
Framkvæmdastjórn
framkvæmdastjórngr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráðs” í grein 11.4 kemur:
framkvæmdastjórnargr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráði” í grein 11.7 kemur: framkvæmdastjórngr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráðs” í grein 12.5 kemur: fjármálaráðsgr.
Grein 12.7 fellur brott.gr.
Í stað orðsins “framkvæmdaráði” í grein 13.1 kemur: framkvæmdastjórn í samráði stefnu- og málefnanefndgr.
Í stað orðsins “Framkvæmdaráð” í 1. málsl. og 2. málsl. greinar 13.2 kemur: Stefnu- og málefnanefndgr.
Grein 13.7 fellur brott.gr.
Grein 14.2 fellu brott.gr.
Grein 14.4 fellur brott.gr.
- kafli fellur brott.
Ákvæði til bráðabirgða.
Við samþykkt þessarar tillögu skal boða til auka-aðalfundar þar sem fram fari kjör í framkvæmdastjórn, stefnu- og málefnanefnd og fjármálaráð. Við fyrsta kjör skal velja í framkvæmdastjórn og fjármálaráð tvo fulltrúa til tveggja ára en einn til eins árs. Í stefnu- og málefnanefnd skal velja þrjá fulltrúa til tveggja ára og einn til eins árs. Skipan í framkvæmdaráð helst þangað til að kosning á auka-aðalfundi er yfirstaðin og verkefnum framkvæmdaráðs hefur verið réttilega komið til þeirra sem taka við þeim.
Greinargerð
Aðdragandi.
Með tillögu þessari er lagt til að 7. kafli laga Pírata um framkvæmdaráð falli brott og í stað komi nýr kafli sem kveði á um skipan stjórna, nefnda og ráða innan Pírata. Þá eru lagðar til fjölmargar breytingar á öðrum greinum í lögum Pírata sem fela þau öðrum einingum innan Pírata þær skyldur og þá ábyrgð sem framkvæmdaráð hefur áður haft.
Tillagan byggir á vinnu sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið. Upphaf hennar má rekja til reglulegra funda sem haldnir voru á haustmánuðum árið 2018. Þar komu saman kjörnir fulltrúar og meðlimir úr grasrót og ræddu skipulag á starfi flokksins. Til umræðu voru ýmiss konar vandamál sem telja mætti að byggðu á skipulagi flokksins og hvernig mætti vinna þeim bót. Við lok fundaraðarinnar samþykkti fundurinn ályktun um að stofnaður yrði starfshópur skipulagsbreytinga sem hefði eftirfarandi markmið:
1. Að móta heildstæðan strúktúr svo strúkturinn verði skýrari og að hlutverkum séútbýtað á lýðræðislegan máta.
2. Leggja fram breytingartillögur á lögum flokksins í lok vinnu sinnar
3. Starfshópurinn er er hugsuð sem vinnueining sem hefur það hlutverk að útbúatillögur vegna lagabreytingartillagna og strúktúrs til aðalfundar.
Verksvið starfshópsins var nánar skilgreint svo:
1. Móta strúktúr utan um grasrótarstarf og ferla Pírata [...]
2. Leggi fram tillögur og lagabreytingartillögur til aðalfundar til umræðu og tilkosningar um að vísa í kosningakerfið
3. Fara yfir vinnu sem hefur verið unnið varðandi strúktúr og lagabreytingar, þ.m.t. skýrslur starfsfólks, framkvæmdaráða, niðurstöður félagsfunda o.fl.
4. Nefndin sér ekki um að ákveða stefnuna heldur búa til tillögur sem lagðar eru fram á aðalfundi.
Starfshópurinn hóf störf 10. maí en í honum sátu Álfheiður Eymarsdóttir, Baldur Karl Magnússon, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eiríkur Rafn Rafnsson, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jason Steinþórsson, Jón Þór Ólafsson, Margrét Sigrún Þórólfsdóttir og Sunna Rós Víðisdóttir. Þó má nefna að ekki luku allir skipaðir fulltrúar störfum og hættu sumir þeirra á meðan hópurinn var að störfum. Á meðan hópurinn var að störfum var sérstaklega tekið fram um störf hans að opið skyldi vera fyrir tillögur frá félagsfólki og fullt gegnsæi tryggt um störf hans. Öll vinnuskjöl hópsins voru aðgengileg á opnu vefsvæði og þær tillögur sem bárust voru teknar með inn í tillögurnar eftir fremsta megni. Hópurinn lauk vinnu sinni og skilaði lagabreytingartillögum til skipuleggjenda aðalfundar í ágúst 2019.
Á aðalfundi Pírata fór fram Píratasmiðja þar sem hluti viðfangsefna fundarins snerist að skipulagsbreytingum innan Pírata. Skipuleggjendur aðalfundar tóku þær tillögur sem starfshópurinn sendi inn og skilgreindi á þeim grundvelli nokkur viðfangsefni sem voru eftirfarandi:
● Þáttaka og val
● Stefnumótun
● Félagar og félög
● Staðsetjum valdið
Undir hverjum lið voru á meðan fundinum stóð kynntar tillögur starfshópsins að einhverju marki. Sú kynning var framkvæmd af fundarstjórum sem voru á hverju borði þar sem til umræðu var eitt af áðurgreindum umfjöllunarefnum. Haldnar voru á hverju borði fundargerðir sem kynntar voru í lok aðalfundar. Þá voru fundargerðirnar færðar í eitt heildstætt skjal sem umsjónaraðili Píratasmiðjunnar, Oktavía Hrund Jónsdóttir, tók saman og kynnti síðar á félagsfundi. Á þeim sama fundi voru einnig kynntar allar tillögur starfshópsins sem starfaði til ágústmánaðar.
Þegar nýtt framkvæmdaráð kom saman eftir aðalfund 2019 fól það Snæbirni Brynjarssyni að leiða áfram vinnu við skipulagsbreytingar á grundvelli þeirrar vinnu sem hafði þegar farið fram. Í kjölfarið boðaði Snæbjörn til reglulegra vinnufunda og félagsfunda sem stóðu fram að árslokum ársins 2019 þar sem lokatillögur voru mótaðar á grundvelli þeirrar vinnu sem hafði þegar farið fram. Á meðan þetta starf stóð yfir fór fram samráð í gegnum samráðskerfið Your Priorities á www.yrpri.org þar sem rætt og kosið var um fyrirliggjandi tillögur. Þær tillögur sem voru vinsælastar í samráðinu voru útfærðar í endanlegar tillögur. Lokaúrvinnsla lagabreytingartillagna fór fram í desember 2019.
Almennt um tillöguna.
Meginefni þessarar tillögu snýr að endurskoðun 7. kafla laga Pírata, sem nú fjallar um skipan framkvæmdaráðs. Með samþykkt tillögunnar verður kveðið á um nýja skipan stjórna, ráða og nefnda á vegum Pírata. Verður núgildandi 7. kafli þannig felldur niður og framkvæmdaráð í núverandi mynd lagt niður.
Í nær öllu því starfi og samráði sem unnið hefur verið fram að framlagningu þessarar tillögur hefur verið samhljómur um að nauðsynlegt sé að endurskoða hlutverk og starfssvið framkvæmdaráðs. Hvað varðar nýtt innra skipulag innan Pírata voru tvær tillögur sem helst nutu vinsælda, sérstaklega í samráði í gegnum áðurnefnt Your Priorities kerfið, annars vegar endanleg tillaga starfshópsins sem starfaði til aðalfundar 2019 og hins vegar tillaga um skipulag sem byggir á uppbyggingu ráða og nefnda hjá tékkneskum Pírötum.
Tillaga starfshópsins var eftirfarandi:
Skipan, hlutverk og uppbygging framkvæmdaráðs verði breytt og þess í stað verði skipaðar minni nefndir/ráð sem bera ábyrgð á málefnastarfi, félagsstarfi, framkvæmdastjórn auk fjármálaráðs. Framkvæmdastjóri beri ábyrgð á því að samráðsvettvangur ráðanna sé starfræktur og komi saman reglulega, t.d. á einhverra mánaða fresti, til samræmingar og upplýsingaskipta.
● Málefnaráð tryggi aðgengi félagsfólks að stefnumótun, fylgist með henni og viðhaldi virku málefnastarfi og framgangi þess (t.d. ef augljóst er að uppfæra þurfi stefnu eða að þörf sé á nýrri stefnu).
● Félagsráð sjái um félagslíf og viðburði innan Pírata, og stuðli að því að þátttaka sjálfboðaliða í starfinu sé eftirsóknarverð og að góð umgjörð sé um starf þeirra.
● Stjórn sjái um hagnýt atriði eins og málefni starfsfólks, fjármál, rekstur og húsnæði. Framkvæmdastjóri starfar í umboði framkvæmdastjórnar.
○ Undirtillaga: Gjaldkeri og alþjóðafulltrúi eigi sæti í framkvæmdastjórn/framkvæmdaráði, en þau verði sérstaklega kosin á aðalfundi.
● Fjármálaráð tryggi gegnsæi, valddreifingu og vönduð bókhaldsvinnubrögð í fjármálum. Í þessu felst framkvæmd verklagsreglna til að uppfylla grunnmarkmið sem fest verði í lög félagsins, t.d. að tvöföld undirritun sé á reikningum, haldið sé vel um kvittanir og önnur bókhaldsgögn, bókhaldi sé skilað til stjórnar a.m.k. ársfjórðungslega og að lögum félagsins um opið bókhald sé framfylgt. Fjármálaráð sjái einnig um fjárveitingar til svæðisbundinna aðildarfélaga samkvæmt fyrirfram skilgreindri formúlu sem fest verði í lög félagsins og geri tillögu til aðalfundar um fjárhagsáætlun og til stjórnar ef bregðast þarf við sérstökum aðstæðum á milli aðalfunda.
Tillaga um tékkneska uppbyggingu fyrir miðlægan strúktur, eins og henni var lýst í áðurnefndu samráðskerfi var fyrst lögð fram í smiðjustarfi á aðalfundi. Á meðan samráðsferlinu stóð komu tillögur um nánari útfærslur inn í samráðskerfið frá þeim sem tóku þátt í smiðjum aðalfundar. Grunnhugmyndin sem lögð var fram hljóðaði svo:
Þriggja manna ákvarðanaráð, starfsmannaráð, fjármálastefnunefnd, málefnaráð, úrskurðarráð. Aðildarfélög sjái um öll önnur verkefni eða komi sér saman um nýjar nefndir. Með þessu megi tryggja betur að fólk finni sig í félagsstarfi innan Pírata og hafi hlutverk, bæði gamlir og nýir.
Viðbótarskýringar sem komu fram í athugasemdakerfi samráðskerfisins voru eftirfarandi, allar lagðar fram af Alberti Svan:
Talsmannsnefnd/stýrinefnd er þriggja pírata ráð sem eru talsmenn Pírata útávið. Þar sitja formaður þingflokks hverju sinni, einn tilnefndur af aðildafélögum til skiptis og varaformaður kosinn slembivali. Hlutverk stýrinefndar Pírata eru:
-að tryggja tengsl milli eininga félagsins,
-að veita miðlægan tengipunkt fyrir fjölmiðla,
-hafa frumkvæði að viðbrögðum við stóratburðum varðandi Pírata alla
-semja fyrir hönd félagsins við aðra flokka
-sinna miðl. verkefnum sem upp koma með skömmum fyrirvara.
Starfsmannaráð er þriggja pírata ráð (lýðræðislega kosið á aðalfundi) sem fer með starfsmannamál eingöngu. Það mótar stefnu í starfsmannamálum og viðheldur henni, í samráði við aðildarfélög og önnur ráð. Formaður ráðsins er yfirmaður framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri fer með allar frekari ráðningar og samskipti við verktaka í samræmi við starfsmannastefnu.
Fjármálaráð er þriggja pírata ráð (lýðræðislega kosið á aðalfundi) fer með eftirfarandi verkefni:
-útbúa verklagsreglur um bókhald og fjármál Pírata,
-sjá um fjárveitingar til aðildarfélaga í samræmi við lög Pírata þar um,
-að vinna með aðildarfélögum, framkvæmdastjóra, bókurum, endurskoðendum og öðrum nefndum/ráðum að því að bókhald og fjármál séu vönduð og í samræmi við verklagsreglur,
-sjá til þess að bókhald Pírata sé faglegt, opið og aðgengilegt.
Trúnaðarráð verður lagt niður. Stjórnir aðildarfélaga bera ábyrgð á grasrótarstarfi, þar með talið fundarsköpum, málamiðlunum og samskiptum félaga. Mögulegt er að visa hugsanlegum brotum á lögum Pírata til Úrskurðarnendar. Í öðrum tilfellum má óska þess að starfsfólk ráða til sérstaka málamiðlara/ráðgjafa til að miðla málum stríðandi Pírata og veita þannig stjórnum aðildarfélaga ráðgjöf til að ljúka málum.
Úrskurðarnefnd starfar sem fyrr, en hefur skýra fjárheimild til að fá aðkeypta lögfræðiráðgjöf til að flýta fyrir og létta þeim störfin þegar svo ber undir.
Kosninganefnd er þriggja pírata nefnd (lýðræðislega kosin á aðalfundi) sem vinnur að undirbúningi kosningabaráttu í samráði við svæðisbundin aðildafélög. Ráðið fræðir og er leiðbeinandi fyrir aðildarfélögin og kosningavinnu þeirra.
Í ljósi þess að þessar tvær tillögur nutu mestra vinsælda í samráðskerfinu var í kjölfarið ákveðið að byggja vinnu við lagabreytingartillögur á grundvelli þeirra og reyna að nýta hið besta úr báðum tillögunum. Sérstaklega var lögð áhersla á að skipulagið yrði einfalt og þægilegt í notkun, það yrði aðlaðandi fyrir þá sem vilja taka þátt í starfi Pírata, bæði nýja meðlimi og eldri, að það myndi styrkja Píratahreyfinguna og efla grasrót flokksins. Þá var enn fremur stefnt að því að að skýra ábyrgðarsvið og hlutverk ráða og nefnda, að tryggja að ábyrgð og vald haldist í hendur og að dreifa ákvörðunarvaldi með áhrifaríkari hætti. Niðurstaða vinnufunda og félagsfunda sem haldnir voru að loknum aðalfundi 2019 var að leggja til eftirfarandi grunnþætti í skipulagi til að koma í stað framkvæmdaráðs:
● Framkvæmdastjórn annist almenna stjórn og rekstur félagsins að svo miklu leyti sem það er ekki í höndum aðildarfélaga
● Stefnu- og málefnanefnd verði félagsmönnum, kjörnum fulltrúum og nefndum, stjórnum, ráðum og aðildarfélögum Pírata til aðstoðar varðandi stefnumótun og málefnastarf innan flokksins. Þá getur hún haft frumkvæði að viðbrögðum við stóratburðum í samfélaginu, t.d. með skipulagningu viðburða og funda.
● Fjármálaráð tryggi gegnsæi, valddreifingu og vönduð bókhaldsvinnubrögð í fjármálum. Það beri ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar Pírata.
● Samráðsfundir skulu haldnir á þriggja mánaða fresti þar sem eftirfarandi skuli eiga að lágmarki einn fulltrúa: Framkvæmdastjórn, stefnu- og málefnanefnd, fjármálaráð, kjördæmabundin aðildarfélög, önnur aðildarfélög sem tilkynni þátttöku, þingflokkar og fulltrúar úr hverri sveitarstjórn þar sem Píratar eiga fulltrúa.
Verður hér að neðan fjallað um einstakar greinar lagabreytingartillögu þessarar.
Um 1. gr.
Í 1. gr. tillögunnar er kveðið á um nýjan 7. kafla. Með henni er þannig felldur úr gildi núgildandi 7. kafli laga Pírata sem fjallar um framkvæmdaráð. Í stað framkvæmdaráðs koma þrjár sérstakar stjórnareiningar, þ.e. framkvæmdastjórn, stefnu- og málefnanefnd og fjármálaráð. Þá er kveðið á um frekari nýjungar í grein 7.4 - 7.13 sem nánar verður gert grein fyrir að neðan.
Framkvæmdastjórn.
Í greinum 7.1 - 7.1.3 er kveðið á um stofnun nýrrar framkvæmdastjórnar. Stjórnin annast almenna stjórn og rekstur félagsins að svo miklu leyti sem hún er ekki í höndum aðildarfélaga. Þannig er það hlutverk þeirra sem sitja í framkvæmdastjórn að sinna þeim almennu stjórnunarhlutverkum sem felast í rekstri stjórnmálasamtaka, þó með þeim hætti að allir þættir sem tengjast daglegum rekstri verði á ábyrgð framkvæmdastjóra skv. grein 7.6. Framkvæmdastjórn mun taka við flestum þeirra hlutverka sem nú eru skilgreind á ábyrgð framkvæmdaráðs, en þó er gert ráð fyrir því að verkefnaálag sem nú hvíli a framkvæmdaráði dreifist betur þar sem allir þættir sem varðar málefnastarf annars vegar og stefnumótun í fjármálum hins vegar verða færð til nýrra stefnu- og málefnanefndar annars vegar og fjármálaráðs hins vegar.
Nánar er kveðið á um skipan framkvæmdastjórnar og kjör í hana í greinum 7.1.1 og 7.1.2 en ekki er gert ráð fyrir því að víkja í neinu verulegu leyti frá núverandi fyrirkomulagi hvað varðar val á fulltrúum í framkvæmdaráð. Gert er ráð fyrir að kosið verði á aðalfundi og að í stjórninni sitji þrír einstaklingar, en sá sem hljóti besta kosningu verði formaður. Þá velji framkvæmdastjórn gjaldkera og ritara.
Í grein 7.1.2 kemur fram að þeir sem kjörgengir séu til stjórnar þurfi að hafa setið að lágmarki eitt kjörtímabil í skilgreindri trúnaðarstöðu á vegum félagsins eða aðildarfélaga. Þar sem framkvæmdastjórn er fámannað ráð með breitt ábyrgðarsvið er mikilvægt að tryggja að í því sitji aðilar sem hafi reynslu af störfum innan Pírata og séu vel til þess búnir að valda því hlutverki sem stjórninni er falið. Reynsla af því að sinna ábyrgðarstöðum innan Pírata er að öllu leyti til þess fallin að auka getu stjórnarmanna til að fást við þau verkefni sem þeim eru falin.
Samkvæmt grein 7.13 skal framkvæmdastjórn setja stefnu um rekstur félagsins. Í því felst t.d. skylda til að setja stefnur á borð við persónuverndarstefnu og starfsmannastefnu.
Stefnu- og málefnanefnd.
Stefnu- og málefnanefnd á að vera aðilum innan Pírata til aðstoðar varðandi stefnumótun og málefnastarf innan flokksins. Tekið skal fram að með því er vald til stefnumótunar ekki tekið frá almennum félagsmönnum, heldur er ætlunin sú að nefndin sé félagsmönnum til aðstoðar við stefnumótunarvinnu. Borið hefur á því að í tilteknum málaflokkum hafi málefnastarf orðið óvirkt eftir að félagið hefur mótað sér stefnu í málaflokknum og minna borið á frumkvæði af hálfu félagsmanna hvað varðar stefnumótun og málefnastarf. Málefnastarf er ein af undirstöðum pólitískra hreyfinga og er æskilegt að það sé virkt á hverjum tíma. Því getur stofnun slíkrar stefnu- og málefnanefndar verið til þess fallið að treysta og styrkja starf Pírata sem stjórnmálahreyfingar. Áréttað er í grein 7.2 að nefndin sé til aðstoðar fyrir alla aðila innan Pírata sem gætu þurft á aðstoð hennar að halda - þ.e. félagsmönnum, kjörnum fulltrúum, nefndum, stjórnum, ráðum og aðildarfélögum.
Í nefndinni sitja fimm einstaklingar sem kosnir eru beinni kosningu á aðalfundi til eins árs. Sá meðlimur sem hljóti besta kosningu verði formaður hennar.
Meðal verkefna nefndarinnar er að skipuleggja Pírataþing, en það eru fundir með stærra sniði þar sem vinna skal að stefnumótun og málefnum í breiðu samráði félagsmanna. Þannig er félagsmönnum tryggður aðgangur að vel skipulögðu og gefandi málefnastarfi á vegum Pírata.
Þá eru nefndinni falin ákveðin hlutverk í tengslum við kosningar í greinum 7.2.3 - 7.2.5 en þar er um að ræða hlutverk sem hefur oftast verið sinnt af framkvæmdaráði eða tímabundinni kosningastjórn. Það að fela þessi verkefni varanlegum aðila sem starfar allan ársins hring er miklu betur til þess fallið að tryggja að verkefnin séu vel af hendi leyst, og að samfella sé í venjubundnu starfi Pírata svo og í kosningabaráttu.
Fjármálaráð.
Grein 7.3 setur á fót fjármálaráð, en hlutverk þess er að tryggja gegnsæi, valddreifingu og vönduð bókhaldsvinnubrögð í fjármálum. Það ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar fyrir Pírata. Í ráðinu sitja þrír eintsaklingar sem kosnir eru á aðalfundi og verður sá meðlimur formaður sem hlýtur besta kosningu. Ráðinu ber að setja verklagsreglur um fjármálaumsjón félagsins og stofnana þess. Í grein 7.3.2 er kveðið á um hvaða þætti skuli kveðið um í reglunum að lágmarki. Ekki er loku skotið fyrir það að reglurnar kveði á um fleiri þætti en þá sem fjallað er um í greininni.
Ráðinu ber m.a. að sjá um fjárveitingar til svæðisbundinna aðildarfélaga samkvæmt skilgreindri reikniaðferð í 11. kafla laganna. Þannig má vænta þess að ráðinu beri að taka við fjárhagsáætlun frá þeim svæðisbundnu aðildarfélögum sem hljóta slíkar fjárveitingar.
Fjármálaráð skal einnig hafa umsjón með eftirfylgni við verklagsreglur um fjármálaumsjón félagsins.
Samráðsvettvangur.
Samkvæmt grein 7.4 skal halda samráðsfundi á þriggja mánaða fresti. Tilgangur fundanna er að efla samráð á milli þeirra sem gegna trúnaðarstöðum fyrir flokkinn, hvort sem um ræðir sjálfboðastörf á vegum flokksins eða kjörna fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum. Samkæmt grein 7.4.1 ber framkvæmdastjóri ábyrgð á því að samráðsfundirnir séu haldnir, en gert er ráð fyrir því að honum sé heimilt að fela öðrum starfsmanni utanumhald þess ef hann telur ástæðu til. Í grein 7.4.2 er kveðið á um að samráðsfundirnir ákveði sjálfir reglur um fundarsköp og ritun fundargerða. Er þetta sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að undir vissum kringumstæðum kunna að koma til umræðu umfjöllunarefni sem binda þarf trúnaði og er þá mikilvægt að kveðið sé á um hvernig skuli fara með þau. Þá verður einnig að líta til þess að slíkir fundir kunna að vera sóttir af mörgum fulltrúum sem eykur þörfina á skýrum og áhrifaríkum fundarsköpum þar sem mætti t.d. kveða á um tilhögun ræðna og andsvara auk hámarks ræðutíma.
Nauðsynlegt er að slíkir fundir verði til þess fallnir að efla samráð á milli mismunandi eininga félagsins, hvar á landi sem þær er að finna. Nokkrar leiðir eru færar til þess en rétt er að eftirleggja skipuleggjendum hverju sinni hvernig utanumhald verði. Nauðsynlegt er þó að tryggja að öll þau félög sem eiga fast sæti á samráðsfundum hafi nóg fjármagn til að senda sína fulltrúa á slíka fundi, og þá ekki einungis í gegnum fjarfund, heldur með viðveru á fundinum sjálfum. Því gæti orðið nauðsynlegt að veita fjármagn til þess að tryggja aðkomu fulltrúa að slíkum fundum. Alla jafna yrðu slíkar ferðir greiddar af móðurfélagi Pírata, en í þeim tilfellum þar sem um er að ræða fulltrúa frá aðildarfélagi sem fær reglubundnar fjárveitingar frá móðurfélagi Pírata væri þó rétt að það félag greiddi ferðir hans.
Önnur ákvæði.
Í grein 7.5 er kveðið á um að framkvæmdastjórn ráði framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur, en að framkvæmdastjóri ráði annað starfsfólk Pírata. Er þetta gert til þess að einfalda starfsmannahald Pírata og tryggja að framkvæmdastjóri hafi skýrt umboð til að vera beinn yfirmaður starfsfólks og að sjá um daglegan rekstur flokksins. Geta framkvæmdastjóra til daglegrar stjórnunar mun enda ávallt vera mun meiri en framkvæmdastjórnar, sem eru sjálfboðaliðar og óraunhæft að gera á þá kröfu um afskipti af daglegum rekstri og stjórnun hreyfingarinnar.
Grein 7.6 kveður á um að framkvæmdastjórn og fjármálaráð skuli hafa reglubundið samráð við framkvæmdastjóra hvað varðar fjármál og rekstur félagsins.
Greinar 7.7, 7.7.1 og 7.7.2 gefur þeim stjórnum, ráðum og nefndum sem fjallað er um í 7. kafla heimild til að skipta nefndir, starfshópa og málefnahópa. Sambærilega heimild er að finna í núgildandi 7. kafla og er hún færð að miklu leyti óbreytt í nýjan 7. kafla laganna þannig að framkvæmdastjórn, stefnu- og málefnanefnd og fjármálaráði verði heimilt að skipa slíka hópa.
Greinar 7.8, 7.8.1 og 7.8.2 kveða á um tilhögun kosninga í stjórnir, nefndir og ráð skv. 7. kafla.
Grein 7.9 byggir á núgildandi grein 7.7.
Grein 7.10 byggir á núgildandi grein 7.8
Grein 7.11 byggir á núgildandi grein 7.10, þó með þeirri viðbót að framkvæmdastjóri getur ritað firma auk fulltrúa framkvæmdastjórnar. Framkvæmdastjórn skal þannig velja sér einn fulltrúa sem hafi þessa heimild til að rita firma í umboði framkvæmdastjórnar.
Um 2. gr.
Núgildandi grein 3.2 leggur þær skyldur á framkvæmdaráð að sjá til þess að listi yfir trúnaðarmenn félagsins og aðildarfélaga sé aðgengilegur almenningi. Er lagt til að framkvæmdastjórn taki yfir þær skyldur.
Um 3. gr.
Núgildandi grein 3.5 segir að framkvæmdaráð ákveði hvaða aðferð sé notuð til auðkenningar á þeim sem hyggast ganga í félagið. Er það ákvörðunarvald fært til framkvæmdastjórnar.
Um 4. gr.
Aðildarfélögum ber samkvæmt grein 3.8 að upplýsa framkvæmdaráð um hverjir gegnir trúnaðarstöðum á þeirra vegum. Færast þær tilkynningar yfir til framkvæmdastjórnar.
Um 5. gr.
Heimild til frestunar aðalfundar um eina viku samkvæmt grein 4.4 er færð til framkvæmdastjórnar.
Um 6. gr.
Framkvæmdastjórn tekur við skyldum framkvæmdaráðs til að boða til auka-aðalfundar sé það samþykkt í kosningakerfi samkvæmt grein 4.5. Einnig færist sjálfstæð heimild til boðunar auka-aðalfundar frá framkvæmdaráði til framkvæmdastjórnar.
Um 7. gr.
Framkvæmdastjórn tekur yfir skipulagningu aðalfundar, sem framkvæmdaráð hefur haft með á höndum sbr. grein 4.6.
Um 8. gr.
Núgildandi grein 4.10 tilgreinir að framkvæmdaráð skuli valið á aðalfundi eins og rætt er um í 7. kafla. Er greininni breytt á þann veg að nú skuli velja í framkvæmdastjórn, fjármálaráð og stefnu- og málefnanefnd samkvæmt ákvæðum 7. kafla.
Um 9.gr.
Þar sem ekki er gert ráð fyrir slembivali í nýju fyrirkomulagi 7. kafla er grein 4.14, sem fjallar um skil á hagsmunaskráningu slembivaldra fulltrúa, felld á brott.
Um 10. gr.
Ábyrgð framkvæmdaráðs til að semja reglur um hagsmunaskráningu samkvæmt grein 4.16 er færð yfir til framkvæmdastjórnar.
Um 11. gr.
Núgildandi grein 4.17 sem lýsir framkvæmd slembivals fellur brott þar sem ekki er gert ráð fyrir slembivali í þessari tillögu.
Um 12. gr.
Núgildandi grein 4.18 fjallar um kosningu kjörstjórnar. Er gert ráð fyrir að í stað þess að standa að kosningu í framkvæmdaráð sjái kjörstjórn um kjör í allar stjórnir, nefndir og ráð sem kveðið er á um 7. kafla.
Um 13. gr.
Í núgildandi grein 6.9 er framkvæmdaráði veitt heimild til að setja inn tillögu í kosningakerfi til hraðmeðferðar. Ákvæðið stendur óbreytt að öllu leyti nema stefnu- og málefnanefnd tekur við þessu hlutverki.
Um 14. gr.
Skipun trúnaðarráðs samkvæmt grein 8.a.1. er í dag á höndum framkvæmdaráðs. Er lagt til að framkvæmdastjórn taki þetta hlutverk að sér. Er slíkt ekki endilega ákjósanlegast, en í þessum tillögum er aðallega verið að færa ábyrgð. Betra færi á því að setja inn sérstakar lagabreytingatillögu um skipan og hlutverk trúnaðarráðs.
Um 15. gr.
Heimild til að vísa málum til trúnaðarráðs samkvæmt grein 8.a.4. er færð til framkvæmdastjórnar frá framkvæmdaráði.
Um 16. gr.
Skipunartími í trúnaðarráð miðaðist upprunalega við skipunartíma í framkvæmdaráð. Í ljósi þess að ekkert eitt ráð verður starfandi sem viðeigandi væri skipunartíma trúnaðarráðs við er lagt til að skipa skuli til eins árs.
Um 17. gr.
Núgildandi grein 9.1 fjallar um heimild framkvæmdaráðs til að ráða starfsfólk. Er þessi heimild samkvæmt þessum tillögum í 7. kafla á höndum framkvæmdastjóra. Núgildandi grein 9.1 fellur því brott.
Um 18. gr.
Þar sem þessar tillögur gera ráð fyrir að framkvæmdastjóri Pírata sé til að tefla og hann m.a. sjái um ráðningu annars starfsfólk, er 1. mgr. 9.2 gr. felld brott.
Um 19. gr.
Til samræmis við 17. og 18. gr. hér að ofan er framkvæmdaráð fellt út úr 2. mgr. 9.2 gr. sem fjallar um ráðningu annarra starfsmanna.
Um 20. gr.
Núgildandi grein 9.3 í núverandi lögum fjallar um heimildir framkvæmdaráðs til að ráða starfsfólk tímabundið og án auglýsingar. Er þessi heimild færð yfir til framkvæmdastjóra, en þó aðeins í samráði við framkvæmdastjórn.
Um 21. gr.
Núgildandi grein 9.5 fjallar um skoðanir félagsmanna á störfum starfsfólks. Með skýru skipulagi á starfseminni, úrskurðarnefnd og trúnaðarráði, og í samræmi við starfsmannastefnu Pírata, er ekki talin þörf á frekari leiðum í þá veruna.
Um 22. gr.
Núgildandi grein 10.4 fjallar um hvernig erindisbréf umboðsmanna er lagt í kosningu. Er ábyrgð á því að færa slíkt inn í kosningakerfið færð til framkvæmdastjóra.
Um 23. til 25. gr.
Framkvæmdastjórn tekur við hlutverki framkvæmdaráðs varðndi það ferli að staðfesta erindisbréf umboðsmanna Pírata.
Um 26. til 29. gr.
Framkvæmdaráð er helsti tengiflötur aðildarfélaga við starf Pírata á landsvísu, eins og útlistað er í 11. kafla. Er það hlutverk í þessum tillögum fært yfir til framkvæmdastjórnar, enda í öllum tilvikum rekstrarlegs eðlis.
Um 30. gr.
Skilyrt heimild til að taka lán fyrir rekstri færist frá framkvæmdaráði til fjármálaráðs.
Um 31. gr.
Ekki er talin þörf fyrir grein 12.7 í því skipulagi sem hér er lagt til. Einungis þeir sem hafa heimild til eiga að geta innt af hendi greiðslur fyrir hönd félagsins.
Um 32. gr.
Í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem framkvæmdaráði er falið í 3. mgr. greinar 13.1, þ.e. að standa fyrir kjöri á lista fyrir kjördæmi þar sem engin aðildarfélög eru starfandi, er lagt til að framkvæmdastjórn taki við því hlutverki en að það skuli þó hafa samráð við stefnu- og málefnanefnd, sem er sú nefnd sem starfar hvað mest við undirbúning kosninga í nýju skipulagi.
Um 33. gr.
Í samræmi við þau hlutverk sem stefnu og málefnanefnd er falið í grein 7.2 og undirgreinum hennar er talið rétt að henni verði einnig falið það samræmingarhlutverk sem kveðið er á um í grein 13.2. Um er að ræða afar viðamikið hlutvekr sem ber með sér miklar skyldur og því til bóta að geta fært það frá framkvæmdaráði til nefndar sem setur meiri áherslu á undirbúning kosninga fremur en almennan rekstur félagsins, eins og er reyndin með framkvæmdaráð.
Um 34. gr.
Grein 13.7 er felld brott þar sem hún er óþörf.
Um 35. gr.
Allt frá stofnun þingflokka og sveitarstjórnarflokka hefur það verið venja að fundirnir séu lokaðir með vísan til þessarar greinar. Sú regla sem er að finna í 14.2 getur því vart talist undantekningarregla og því óþörf. Með því að kveða einnig á um betra og reglubundnara samráð kjörinna fulltrúa við aðrar einingar flokksins minnkar þörf þeirra fyrir það að sitja sem áheyrnarfulltrúar á fundum þingflokks og sveitarstjórnarfulltrúa. Þá er heldur ekki loku fyrir það skotið að þingflokkur og/eða sveitarstjórnarflokkar geti heimilað áheyrn einstaka fulltrúa, eins og venja hefur verið um nokkurt skeið.
Um 36. gr.
Framkvæmdaráð eða aðrar stjórnir, ráð og nefndir þurfa ekki lagaheimild til að óska eftir komu kjörinna fulltrúa og er því lagt til að fella grein 14.4 brott.
Um 37. gr.
Á undanförnum misserum hafa framfarafundir ekki verið haldnir með þeim reglubundna hætti sem lýst er í grein 15.1. Þrátt fyrir að framkvæmdaráð beri skyldu til að boða til fundanna samkvæmt grein 15.2 hefur ekki tekist að koma því til framkvæmdar, en skipulagning fundarins er á ábyrgð framkvæmdaráðs, þingmanna og málefnahópa. Á þeim framfarafundnum sem þó hafa síðast verið haldnir hefur þó farið fram umræða um þá ókosti sem fylgja núverandi fyrirkomulagi.
Tilgangur fundanna er að þingflokkur, málefnahópar og framkvæmdaráð geri ítarlega úttekt um störf sín og að svo fara fram umræða um þá úttekt. Áhugi á fundunum virðist því miður hafa dvínað og kann að vissu leyti af skýrast af fyrirkomulagi þeirra - þar fer fram einhliða skýrslugjöf frá hendi eins aðila sem gæti allt eins farið fram með beinum hætti á netinu. Fundirnir eru þannig ekki settir upp með það í huga að gefa félagsmönnum aðkomu að ákvarðanatöku um starf á vegum félagsins.
Með tilkomu Pírataþinga og samráðsfunda mun reglulegt samráð aukast. Annars vegar verður tryggt samráð á milli sjálfboðaliða í trúnaðarstöðum innan félagsins og kjörinna fulltrúa þess með samráðsfundum og hins vegar verður aðkoma almennra félagsmanna að pólitískri starfsemi og stefnumótun félagsins tryggð með reglulegum Pírataþingum.
Tilheyrandi mál: | Tillaga um stjórnir, ráð og nefndir á vegum Pírata |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Gormur |