Fjármál 2
Þessi tillaga heitir Fjármál 2.
Hún er sett inn í kosningakerfi Pírata ásamt annarri sem fjallar um sömu mál og heitir Fjármál 1. Sú tillaga sem hlýtur hærra hlutfall atkvæða verður að lögum Pírata. Sé hlutfall jafnt ræður fjöldi já-atkvæða.
Tillaga að lagabreytingum vegna fjármála aðildarfélaga, eftirfarandi ákvæði eru viðbót við 12. kafla laganna:
12.9. Framkvæmdaráð skal fyrir hvert starfsár gefa út fjárhagsáætlun í samráði við framkvæmdastjóra og kjördæmafélög (aðildarfélög sem ná yfir heil kjördæmi). Fjárhagsáætlun næsta árs skal liggja fyrir eigi síðar en 15. nóvember ár hvert og send félagsmönnum öllum til upplýsinga.
12.10. Helmingur af árlegu framlagi til Pírata sem mögulegt er til skiptanna skal eyrnamerkt og úthlutað til kjördæmisfélaga. Sé eyrnamerktu fjármagni ekki úthlutað skal því endurráðstafað sem viðbót til kjördæmisfélaga í samræmi við reiknireglu í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
12.11. Eyrnamerktum fjármunum til kjördæmafélaga skal úthlutað 1. mars ár hvert. Skipting fjársins milli kjördæmisfélaga skal ákvarðað í samræmi við reiknireglu:
- Fjöldi skráðra meðlima Pírata með lögheimili í kjördæmi: 25%
- Hlutfall af heildaratkvæðum til Pírata í síðustu kosningum til Alþingis: 25%
- Fjöldi skráðra íbúa 1. janúar ár hvert í hverju kjördæmi: 25%
- Stærð hvers kjördæmis í ferkílómetrum: 25%
12.12. Einungis er heimilt að úthluta fjármunum til kjördæmafélaga sem hafa haldið aðalfund (eða stofnfund) á árinu, eru með starfandi stjórn og hafa skilað inn fjárhags- og starfsáætlun fyrir komandi ár. Skulu kjördæmafélög skila áætlunum sínum ásamt umsókn um fjármagn til framkvæmdastjóra Pírata í síðasta lagi 1. desember.
12.13. Einnig er heimilt að úthluta fjármunum til aðildarfélaga sem ekki eru svæðisbundin. Úthlutun skal skilyrt við fjárhagsáætlun og starfsáætlun.
12.14. Þau kjördæmafélög sem nýta sér aðstöðu móðurfélags Pírata að jafnaði skulu greiða fyrir afnotin fast árlegt gjald sem skal haldast óbreytt milli Alþingiskosninga. Framkvæmdaráð ákvarðar fjárhæð gjaldsins.
12.15. Verði ófyrirsjáanlegar og meiriháttar breytingar á fjárhagi Pírata eða einhvers kjördæmafélaganna, getur framkvæmdaráð, með samþykki stjórna allra kjördæmafélaga og framkvæmdaráðs, endurákvarðað árlega úthlutun fjármuna til kjördæmafélaga.
12.16. Aðildafélög skulu ákveða í sameiningu að borga hlutfall af viðhaldskostnaði hugbúnaðar- og vélbúnaðar innviða Pírata.
12.17. Bráðabirgðaákvæði: Sú tillaga sem fær hærra hlutfall atkvæða í vefkosningu gildir, ef hlutfall atkvæða er jafnt þá gildir fjöldi atkvæða..
12.18. Lagabreyting þessi tekur gildi um leið og hún fær samþykki með vefkosningu.
Greinargerð:
Það hefur hamlað starfi aðildarfélaga að hafa lítið rekstrarfé til að vinna með og miðstýring á fjárveitingum hefur bæði verið hamlandi og lýjandi fyrir valddreifingu. En í grunnstefnu Pírata stendur m.a. “6.3 Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum.” Þannig að til að efla grasrótarstarf um land allt, auka viðkynningu og þátttöku í Pírötum er hér lagt til að svæðisbundnu aðildarfélögin fái fast hlutfall af árlegum fjármunum Pírata til að vinna að grasrótarstarfi, kynningarstarfi, málefnavinnu, rekstri og undirbúningi kosninga á sínu svæði.
Síðustu ár hefur skömmtun á fé til rekstrar aðildarfélaga ekki stuðlað að þeirri uppbyggingu sem þörf er á. Þessi lagabreyting er tilraun til að gera betur.
Tilheyrandi mál: | Fjármál 2 |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Hafnað | Gormur |