Tillaga um forsætisráð
Tillaga um forsætisnefnd í stað formanns Pírata.
Núv. grein 14.6 hljóði svo:
14.6 Tilheyri þingflokkur minnihluta á Alþingi og geti ekki fengið aðstoðarmann til starfa á þinginu nema með því að hafa formann, skal einn þingmaður gegna málamyndaembætti formanns félagsins, eitt þing í senn. Skal hann slembivalinn eftir þingkosningar og gegni hlutverkinu í eitt þing en þá skal slembivalinn næsti málamyndaformaður. Þingflokkurinn ákveður umboð málamyndaformanns til hægðarauka fyrir þingstörf og almenna samningagerð við aðra flokka á þingi. Þeim sem gegnir málamyndaformannsembætti er í sjálfsvald sett að afþakka formannsálag.
14.7 Þingflokkur kýs sér þingflokksformann. Hann skal sitja allt kjörtímabilið nema þingflokkurinn ákveði annað. Þingflokkurinn ákveður einnig hversu víðtækt umboð þingflokksformanns skuli vera til að auðvelda störfin á þinginu.
Þingflokksformaður getur ekki gegnt stöðu málamyndaembætti formanns félagsins.
Hér kemur inn ný grein um forsætisráð, grein 15 skv. Núverandi, númer annara greina breytast til samræmis:
17.1 Grasrót kýs á aðalfundi þrjá aðila í forsætisráð Pírata skv. Schulze.
17.2 Kjörgengi til ráðsins hafa allir skráðir félagar sem hafa verið minnst 3 mánuði í félaginu.
HLUTVERK FORSÆTISRÁÐS
17.3 Forsætisráð hefur á sinni könnu pólitíska forystu og að vera talsmenn félagsins. Forsætisráð svarar fyrir pólitísk mál í brennidepli og fer þá eftir samþykktum stefnum Pírata.
17.4 Ef samþykktri stefnu er ekki til að dreifa, skulu forsvarsmenn í samráði ákveða hvernig málið verður reitt fram í fjölmiðlum.
17.5 Ef um stórvægileg eða mikilvæg málefni er um að ræða þarf að setja framreidda en ósamþykkta stefnu forsætisráðsins í kosningakerfið til staðfestingar.
17.6 Forsætisráð er ennfremur málsvari félagsins, svarar fyrir stefnu, stjórnmál og önnur málefni félagsins. Forsætisráðið sinnir einnig samningagerð um ríkisstjórnarsamstarf.
17.7 Ekki er gert ráð fyrir formlegri verkaskiptingu innan forsætisráðs en ráðið getur sjálft skipt með sér verkum. Ekki verður hægt að varpa pólitískri ábyrgð á einn einstakling umfram annan í forsætisráði enda ætlast til þess að um fullkomið samráð sé innan forsætisráðs áður en nokkuð er aðhafst.
Ákvæði til bráðabirgða.
Við samþykkt þessarar tillögu skal boða til auka-aðalfundar þar sem fram fari kjör í forsætisráð. Notuð verði Schulze aðferð við talningu atkvæða.
Greinargerð:
Almennt:
Þessi tillaga er ætluð sem málamiðlun á milli þess að Píratar kjósi sér einstakan formann og þess að algjör skortur sé á pólitískri forystu eins og nú er. Í ljósi markmiða Pírata um valddreifingu er pólitísk forysta sett á herðar þriggja manna teymis í stað eins formanns. Þetta er talið heppilegra en formannsembætti í höndum einstaklings, m.a. af eftirtöldum ástæðum:
a) vald safnast ekki á hendur eins félaga í Pírötum og tryggir nauðsynlega valddreifingu.
b)tryggir samráð áður en gripið er til aðgerða eða orðræðu.
c)kemur í veg fyrir foringjaræði
d)tryggir flatari strúktúr
e)forsætisráð tala f.h. og tryggir hagsmuni hreyfingarinnar í heild en ekki þingflokkins eingöngu.
Sérstök greinargerð um grein 14.6:
Þingflokknum gefst tækifæri til að hafa málamyndaformann og gefa henni/honum/hán það umboð sem starfið krefst og lög leyfa. Hið sama gildir um þingflokksformann. Það er öllum fyrir bestu að hlutverkin séu á hreinu, þingflokkurinn hefur fullt lýðræðislegt umboð frá grasrót til að skipta upp í hlutverk, velja þingflokksformann og skilgreina ábyrgð hans og skyldur, sem og ábyrgð og skyldur málamyndaformanns.
Sérstök greinargerð um nýja grein um forsætisráð:
Ný grein. Forsætisráð kemur í stað hins hefðbundna formanns og hefur fullt umboð til að taka af skarið þegar þarf. Það er að segja, þó að vanti stefnu í málefni má ráðið tala skýrum rómi um málefnið sem síðar fer svo í kosningakerfið til staðfestingar. Ráðið hefur frjálsar hendur með að ráða fram úr pólitískum krísum sem geta komið upp, hefur umboð til samninga um myndun ríkisstjórnar og eru talsmenn okkar út á við. Ásýnd Pírata helst í hendur við að hugsjónir um valddreifingu séu virtar í orði sem og á borði. Það hefur líka sýnt sig að einstaklingar eru misábyrgir við að tjá sig. Með samráði þriggja einstaklinga, þar sem enginn hefur meira umboð en annar, er tryggara að samhljómur og fjölbreyttari viðhorf speglist í ákvarðanatöku í æðtu forystu Pírata.
Tilheyrandi mál: | Tillaga um forsætisráð |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Hafnað | Gormur |