Samþykkt: Stefna um náttúruauðlindir
Stefnan byggir á Grunnstefnu Pírata:
• 4.1 Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.
• 6.2 Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gegnsærrar stjórnsýslu.
Og með tilliti til:
• Sjávarútvegsstefnu Pírata, liður 1: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ https://x.piratar.is/polity/1/document/15/
• Stefnu (Pírata) um útfærslu á samþykkt nýrrar stjórnarskrár, liður 2: „Alþingi skuli alfarið byggja á þeirri stjórnarskrá þjóðarinnar við meðferð frumvarps á þessum grunni. Allar viðbætur eða breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi yrðu gerðar í víðtæku samráði við almenning, sérfræðinga og fyrrum meðlimi Stjórnlagaráðs, til að forðast að slíkar breytingar gangi gegn markmiðum ráðsins og anda tillagnanna.“ https://x.piratar.is/polity/1/document/293/
• Stefnu (Pírata) um landbúnaðarmál: Liður 2: „Undanþágur frá samkeppnislögum varðandi vinnslu og dreifingu búvara, falla niður og framleiðsla, vinnsla, dreifing og sala matvæla fellur undir samkeppnislög.“ https://x.piratar.is/polity/1/document/267/
• Orðalags eignarréttarákvæða núverandi stjórnarskrár og stjórnarskrár stjórnlagaráðs:
„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“ og
„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“
https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html
http://www.stjornlagarad.is/starfid/frumvarp/
Samþykkja Píratar að festa í stefnu þá meginstefnu í auðlindamálum sem er í
samræmi við auðlindaákvæði stjórnarskrár stjórnlagaráðs:
Stjórnvöld geta á grundvelli laga skilyrt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Með fullu gjaldi er átt við markaðsverð, þ.e. hæsta gjald sem nokkur er fús að greiða t.d. á markaði eða uppboði eða í samningum við ríkið sem umboðsmann rétts eiganda, þjóðarinnar.
Fullt gjald er meginregla, en útilokar ekki undantekningar, en þær séu þá vel ígrundaðar og réttlættar með vísun í almannahagsmuni, jafnræði, eða rannsókna- og vísindastarf.
Lögin snúa að fyrirtækjum og lögaðilum sem sækjast eftir nýtingu takmarkaðra auðlinda sem teljast sameign þjóðarinnar, ekki að almennum borgurum sem nota og njóta persónulega sömu auðlinda, en ekki í hagnaðarskyni.
Greinargerð
Mikilvægt er að lögin séu einföld, gegnsæ og leggi meginlínur. Annað orðalag en „fullt gjald“, með vísan í markaðsverð, opnar fyrir margs konar túlkanir, ógagnsæja ákvarðanatöku og mismunun og auðveldar hagsmunaaðilum að „grugga vatnið“. Slík lög gefa almenningi gegnsæjar mælistikur til að meta athafnir yfirvalda er þau ráðstafa auðlindum þjóðarinnar.
Fundargerð félagsfundar Pírata 8. mars 2020:
https://github.com/piratar/fundargerdir/blob/master/2020/F%C3%A9lagsfundir/2020.03.08.md
Tilheyrandi mál: | Stefna um náttúruauðlindir |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Gormur |