Samþykkt: Geðheilbrigðisstefna (staðfesting)
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
gr. Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
gr. Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra
gr. Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.
gr. Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.
gr. Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
Og með hliðsjón af:
Almenn heilbrigðisstefna ( https://x.piratar.is/polity/1/document/252/ )
Félagsleg velferð, 4. grein ( https://x.piratar.is/polity/1/document/401/ )
Umboðsmaður sjúklinga ( https://x.piratar.is/polity/1/document/337/ )
Þjónusta sálfræðinga verði hluti af sjúkratryggingum ( https://x.piratar.is/polity/1/document/270/ )
Málefni spítalana og heilbrigðiskerfisins ( https://x.piratar.is/polity/1/document/10/ )
Álykta Píratar að:
Í geðheilbrigðisþjónustu ætti að leggja áherslu á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun, með nægilegu fjármagni til fyrsta og annars stigs þjónustu til að tryggja aðgengi allra að kerfinu og stytta biðlista. Styðja skal sérfræðinga við rannsóknir og þróun nýrra aðferða.
Leitað verði leiða til að draga úr þvingunum og sviptingum vegna geðrænna vandkvæða. Koma þarf upp öðrum meðferðarúrræðum sem byggjast á samþykki og samvinnu. Styðja skal við réttindi notenda til að leita réttar síns gagnvart ákvörðunum um þvinganir og sviptingar. Sérmenntaðir viðbragðsaðilar bregðist við útköllum þar sem ætla má að geðræn veikindi séu til staðar.
Niðurgreiða skal sálfræðiþjónustu og viðurkenndar samtalsmeðferðir til að tryggja besta mögulega aðgengi. Tryggja skal viðeigandi fjármögnun fyrir þær niðurgreiðslur. Tryggja skal réttindi og fjárhagslegan stuðning einstaklinga til að fá bestu gagnreyndu þjónustu sem stendur til boða.
Tryggja skal aðgengi nemenda í grunn-, fram- og háskólum að sálfræðiþjónustu, meðal annars með því að tryggja að sálfræðingar séu til staðar innan veggja skólanna. Útfæra skal í aðalnámskrám hæfniviðmið um þekkingu á geðheilbrigði og einkennum algengra geðkvilla.
Tryggja þarf aðgengi fyrir alla að geðheilbrigðisþjónustu og huga að hópum sem að hættir til að falla á milli kerfa. Búseta á ekki að koma í veg fyrir að fólk nálgist geðheilbrigðisþjónustu.
Tryggja þarf fagleg og sérhæfð úrræði fyrir fólk með geðrænan vanda sem þarf bráðaaðstoð. Slík þjónusta skal vera í boði allstaðar á landinu allan sólarhringinn.
Öllum sem eru með geðfötlunargreiningu skal tryggð búseta við hæfi og eftirfylgni með líðan eftir að formlegri meðferð lýkur.
Tryggja skal aðstandendum viðeigandi þjónustu og fræðslu.
Valdefla skal rödd notenda þjónustunnar. Notendur og fyrrum notendur skulu hafðir með í ráðum í stefnumótun á sviði geðheilbrigðisþjónustu og við útfærslu þjónustunnar.
Greinargerð:
Geðheilbrigði er órjúfanlegur þáttur í heilsu einstaklinga og því mikilvægt að leggja áherslu á að allir hafi aðgengi að réttustu og bestu þjónustunni. Geðheilbrigðisstefna Pírata byggist á almennri heilbrigðisstefnu og útvíkkar hana. Stefnan skýrir nánar hvernig gildi á borð við mannvirðingu og valfrelsi notenda þjónustunnar um meðferðarúrræði eiga við um geðheilbrigðisþjónustu og leggur línur varðandi sértækar áskoranir sem felast í geðheilbrigði. Geðheilbrigðisþjónusta er sérstök að því leyti að vandamálin eru gjarnan huglægari en gengur og gerist í heilbrigðiskerfinu almennt og þau varða persónu notendanna með afar sértækum hætti. Áskoranir á borð við valdeflingu og virðingu fyrir réttindum notenda þjónustunnar geta þannig verið alveg sérstaklega krefjandi innan geðheilbrigðiskerfisins. Stefnan tekur til margra þátta er varða notendur geðheilbrigðisþjónustu og einnig aðstandendur þeirra.
Nánar um einstaka greinar:
Geðheilbrigðiskerfið er víðfeðmt og líkt og gildir um heilbrigðisþjónustu almennt þá skiptist það í nokkur stig þar sem þjónustuþyngd og kostnaður eykst eftir því sem alvarleiki og flækjustig þeirra vandamála sem notenda þjónustunnar eru að glíma við eykst. Sýnt hefur verið fram á að forvarnir eru mikilvægar til þess að fólk viti til dæmis hvar það getur leitað sér aðstoðar og hvenær sé rétt að gera það. Snemmtæk íhlutun þýðir að gripið er inn í vandann hjá einstaklingum fyrr en seinna, því að oft er hægt að aðstoða fólk með geðraskanir fljótt og örugglega og fyrirbyggja vanda, oft án þess að mikil röskun verði á lífi fólks. Færa þarf þjónustuna úr auknum mæli úr þungri fyrsta stigs þjónustu yfir í léttari annars og þriðja stigs þjónustu (sbr. umfjöllun í almennri heilbrigðisstefnu um stig heilbrigðisþjónustu) en þá þarf að tryggja fjármögnun þeirrar þjónustu sem bætt er inn. Fyrsta stigs þjónusta er þjónusta sem að notendur eiga að geta sótt sér í nærumhverfinu til dæmis á heilsugæslu. Annars stigs þjónusta er þá sérhæfðari þjónusta sem að einstaklingar ættu að hafa aðgang að ef að fyrsta stigs þjónustan nægir ekki. Sú þjónusta er til dæmis sálfræðingar, geðlæknar eða aðrir meðferðaraðilar á stofu. Það er alltaf minnstur kostnaður við að grípa vandamál snemma og jafnvel ná að hlúa að geðheilbrigði fólks áður en vandamál koma upp. Með því að efla stuðning við fyrstu og annars stigs þjónustu væri þannig hægt að stytta biðlista sem að er stórt vandamál í nútíma geðheilbrigðiskerfi. Einnig þarf að huga að því hvernig aðrir hlutar opinbera kerfisins geta nýst til að styðja við geðheilbrigði einstaklinga - til að mynda geta efnahagslegar aðgerðir haft áhrif annað hvort til hins betra eða verra á geðheilbrigði, enda helst það í hendur við aðstæður fólks og aðbúnað. Stuðningur við þróun nýrra aðferða, meðferðarforma og úrræða er jafnframt mikilvægur liður í að tryggja sem besta nýtingu fjármagns og hámarks gæði þjónustunnar.
Þróunin innan geðheilbrigðiskerfisins hefur undanfarna áratugi verið í átt að því að gæta sífellt betur að réttindum og mannhelgi notenda þjónustunnar og draga úr frelsissviptingum og þvingunum. Slíkar íþyngjandi aðgerðir eru gjarnan réttlættar út frá því að þær séu einstaklingnum og/eða samfélaginu fyrir bestu í ákveðnum tilfellum, á borð við þegar manneskja er lent í krísuástandi, en þær geta samt sem áður hæglega ollið meiri skaða en lækningu og skarast hreinlega á við grundvallarmannréttindi. Þannig hafa hagsmunasamtök notenda sem og alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar hvatt ríki til þess að gera úrbætur á geðheilbrigðiskerfum sínum í því skyni að þau samræmist mannréttindum betur. Píratar leggja áherslu á réttindi einstaklingsins og valdeflingu hans og út frá því er eðlilegt að beita sér fyrir hraðari þróun í þessa átt. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja að til staðar séu önnur meðferðarúrræði sem byggjast á og styðja við frelsi notenda þjónustunnar og ganga út frá samvinnu frekar en þvingun. Sem dæmi má nefna nærþjónustu á borð við skjólhús í stað innlagna á legudeildir, formleg ferli sem styðja við rétt notenda til að samþykkja eða hafna ákveðnum meðferðarformum, og aukinn stuðning við forvarnir og snemmtæka íhlutun (sbr. 1. gr.) í því skyni að draga úr því að fólk lendi í krísuástandi yfir höfuð. Einnig er mikilvægt að styðja við og efla rétt notenda til að leita réttar síns, séu þeir ósáttir við þær frelsissviptingar sem þeir eru beittir, en það er hvati til þess að þeim sé ekki beitt í óhófi. Hér er það síðan sértækt áskorunarefni hvernig er haldið á málum þegar viðbragðsaðilar eru kallaðir til að eiga við fólk þar sem til staðar er eða grunur leikur á geðrænum veikindum eða öðrum andlegum krísum. Með því að senda ávallt sérmenntaða aðila á staðinn er dregið úr líkum á því að aðferðum sem byggjast á þvingunum sé beitt og frekar gripið til vægari úrræða. Það krefst ákveðinnar þekkingar að beita þvingunarlausum aðferðum og leita þarf allra leiða til að efla þá þekkingu alls staðar þar sem átt er við fólk sem á við geðrænan vanda að stríða.
Það eru til staðar göt í kerfinu þegar kemur að því hvaða hlutar geðheilbrigðiskerfisins eru fjármagnaðir af Sjúkratryggingum og hverjir ekki. Stoppa þarf í þessi göt til þess að auka það fjármagn sem fer í geðheilbrigðiskerfið, jafna aðstöðumun notenda þjónustunnar eftir því hvaða meðferðarform það er að sækja sér, og tryggja að fjármagn nýtist með sem skilvirkastum hætti. Hér þarf bæði að huga að lagasetningu og framkvæmd laga. Píratar hafa áður sett sér skýra stefnu um að þjónusta sálfræðinga verði hluti af sjúkratryggingum en hér er einnig opnað á að annars konar löggild þjónusta verði felld þar undir, þá samtalsmeðferðir sem að viðurkenndar hafa verið af landlæknisembættinu.
Mikilvægt er að tryggja það að nemendur í skólum landsins hafi aðgang að sálfræðiþjónustu, að öll börn innan skólakerfisins á öllum stigum geti gengið að gjaldfrjálsri sálfræðiþjónustu í nærumhverfi sínu. Sálfræðingar í skólum geta þá kennt geðfræðslu sem að væri aðlöguð fyrir hvern aldur fyrir sig. Þá væri einnig mikilvægt að geðfræðsla væri í aðalnámskrá þar sem að kennd væru einkenni geðsjúkdóma, bjargráð og grunnhugtök til dæmis hugrænnar atferlismeðferðar. Í samræmi við áherslu á að grípa geðrænar áskoranir snemma er mikilvægt að huga að því að æskan er sérlega mikilvægt æviskeið og vandi sem ekki er meðhöndlaður þar getur dregið mikinn dilk á eftir sér síðar um ævina. Skólar eru góður vettvangur til að veita geðheilbrigðisþjónustu þar sem börn og ungmenni eyða þar drjúgum tíma og þröskuldurinn við að sækja sér þjónustu þar er lægri en þegar þeim er ætlað að sækja sér þjónustu annars staðar. Þegar upp kemur alvarlegur eða sértækur vandi er þá hægt að vísa viðkomandi í sérhæfðari þjónustu annars staðar. Einnig er mikilvægt að efla og styðja við getu starfsfólks skóla til að vera vakandi fyrir geðheilbrigði nemenda og vera fært um að fræða nemendur um helstu þætti geðheilbrigðis og styðja við góða geðheilsu þeirra.
Notendur geðheilbrigðisþjónustu eru margs konar og þurfa á mismunandi þjónustu að halda. Því miður er enn of algengt að ákveðnir hópar fólks falli á milli skips og bryggju af því ekki er til staðar nægilega sérhæfð þjónusta fyrir þarfir þess eða ekki er skýrt hver ber ábyrgð á því að þjónusta hópinn. Sem dæmi má nefna fólk sem á bæði við geðrænan vanda og fíknivanda að stríða, fólk með einhverfugreiningu og aldraða. Þessu þarf yfirstjórn heilbrigðiskerfisins stöðugt að vera vakandi fyrir og vera tilbúið að bregðast við þegar vart verður við um þjónustubrest með því að tryggja að til staðar sé viðeigandi þjónusta og skýrt sé hvar hana eigi að veita. Einnig er mikilvægt að vera vakandi fyrir þjónustubresti sem upp kann að koma á mismunandi svæðum á landinu og bregðast við með því að bæta úr honum. Aðstöðumunur fólks þegar kemur að getu til að sækja sér geðheilbrigðisþjónustu er óásættanlegur. Fólk á aldrei að þurfa að neita sér um slíka þjónustu eða velja sér lakari þjónustu en aðra sem því stendur til boða sökum fjárhags og því þarf að leita allra leiða til að draga úr kostnaði notenda við þjónustuna og styðja notendur sem standa höllum fæti fjárhagslega. Mikilvægt er þó að ganga út frá viðmiðum um hvaða þjónusta telst gagnreynd, í því skyni að tryggja ákveðin gæði þjónustunnar.
Bráðaþjónusta við fólk sem á við geðrænar áskoranir að stríða er það sérhæft úrlausnarefni að eðlilegt er að gera kröfu um að hún sé aðskilin annarri bráðaþjónustu. Mikilvægt er einnig að tryggja það að einstaklingar sem að eru sérmenntaðir í geðsjúkdómum séu að veita þjónustuþegum aðstoð þar allan sólarhringinn. Einstaklingar sem að eru mikið veikir og meta sem svo að innlögn væri best fyrir sig ættu að fá aðgengi að því. Aðgengi að þessari þjónustu þarf að vera alltaf til staðar og um allt landið.
Sumir geðfatlaðir, líkt og fólk með fötlun almennt, þurfa á sérhæfðum búsetuúrræðum með stuðningi að halda og það að hafa aðgengi að slíku húsnæði dregur á álagi á legudeildum. Mikil töf getur verið á að þessir einstaklingar fái búsetu við hæfi. Það er mikilvægt að ekki sé verið að bregða á það ráð að útskrifa einstaklinga í búsetuúrræði sem að er ekki viðeigandi í endurhæfingarferli einstaklingsins. Það þarf að tryggja þjónustuíbúðir við hæfi svo að einstaklingurinn fái sem besta endurhæfingu og aðlagist á sem bestan hátt út í samfélagið eftir spítaladvöl eða annað. Slík búseta ætti að standa öllum sem á þurfa á henni að halda til boða án undantekninga og þannig teljast til sjálfsagðra réttinda. Það þarf að endurmeta hversu lengi er viðeigandi fyrir einstaklinga að vera inni á spítala án tryggðrar búsetu við hæfi, það að vera of lengi inn á lokuðum deildum getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir einstaklinga. Einnig er mikilvægt alls staðar í kerfinu að eftirfylgni meðferðar sé tryggð, í því skyni að tryggja aðlögun fólks að samfélaginu sínu og draga úr bakslögum.
Mikið mæðir gjarnan á aðstandendum fólks sem glímir við andlegar áskoranir og slíkt álag getur jafnvel leitt til enn frekari geðrænna áskorana sem verða viðfangsefni út af fyrir sig. Gjarnan fer orkan ekki bara í tilfinningalegan og efnislegan stuðning við hinn nákomna heldur líka í glímu við kerfið og baráttu fyrir því að tryggja góða þjónustu. Geðheilbrigðiskerfið þarf að koma til móts við aðstandendur og tryggja viðeigandi stuðning í formi fræðslu og meðferðar. Það er til mikils að vinna að létta álagi á aðstandendum og valdefla þá í sínum stuðningi og baráttu þannig að þeir upplifi sig ekki eina og örmagna.
Notendur þjónustunnar er fólkið sem veit af eigin raun hvernig það er að glíma við andlegar áskoranir sem og við geðheilbrigðiskerfið. Þeir búa yfir dýrmætri þekkingu á sínum eigin högum og á kerfinu frá sínu sjónarhorni og þá þekkingu ber að nýta eftir fremsta megni. Þannig skulu notendur hafðir með í ráðum á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustunnar, allt frá stefnumótun og að rekstri einstaka deilda og úrræða. Þetta getur farið fram bæði með því að eiga formlegt samráð við notendur og samtök þeirra og með því að ráða notendur eða fyrrum notendur til starfa innan geðheilbrigðiskerfisins.
Tilheyrandi mál: | Geðheilbrigðisstefna (staðfesting) |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Gormur | Á félagsfundi Pírata þann 31. mars 2021 var samþykkt að senda eftirfarandi ályktun í kosningu með hraðmeðferð sbr. gr. 6.9 í lögum Pírata. 6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki stefnu- og málefnanefndar, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Fundargerð félagsfundar: Atkvæðagreiðsla í hraðmeðferð: HLEKK VANTAR |