Samþykkt: Lagabreytingar: Ungir Píratar
1. gr.
Á eftir 11. kafla laganna kemur nýr kafli, svohljóðandi:
- Ungir Píratar
12.1. Ungir Píratar eru sjálfstætt aðildarfélag, rekið sem deild innan Pírata með
eigin lög og bankareikning, en ekki eigin kennitölu.
2. gr.
Breyting þessi öðlast þegar gildi.
Greinargerð.
Tilefni og nauðsyn
Ungir Píratar eru eitt virkasta aðildarfélag Pírata, en félagið samanstendur af ungu fólki, oft nýliðum, stundum fólki sem ekki hefur starfað innan félagasamtaka áður. Við rekstur sjálfstæðs félags myndast pappírsvinna og annað vesen sem fellur að mestu leyti á gjaldkera félagsins, ásamt stöðugum erjum við Ríkisskattstjóra, sem telur ranglega að einstaklingar undir 18 megi ekki sitja í stjórnum félagasamtaka. Dæmi eru um að félagið missi aðgang að bankareikningum þess vegna þess að Ríkisskattstjóri neitar að viðurkenna stjórnarskipti og breytta prókúru vegna barna innan stjórnar. Dæmi eru um að gjaldkerar verði óvirkir áður en ársreikningi er skilað. Dæmi eru um að ekki náist að fullmanna stöður skoðunarmanna reikninga.
Meginefni
Með því að leggja niður kennitölu félagsins og gera það að deild innan Pírata er sóst eftir því að minnka pappírsvinnuna sem fellur á oft óreynda sjálfboðaliða félagsins. Æskilegt væri að hægt sé að reka félagið á farsælan hátt þó að öll stjórnin samanstandi af óreyndum nýliðum. Félagið myndi hafa aðgang að bankareikningi undir nafni Pírata sem móðurfélagið, í stað Ríkisskattstjóra, getur veitt nýrri stjórn aðgang að. Hægt væri að skila reikningum til skoðunarmanna reikninga Pírata í stað þess að hafa sérstaka skoðunarmenn reikninga Ungra Pírata og samnýta þannig betur auðlindir flokksins. Hægt væri að prófa fyrirkomulag þar sem gjaldkeraembættið er gert valkvætt, en þá myndi forseti félagsins safna kvittunum og sjá til þess að stjórnin skili ársreikningi. Slíkt fyrirkomulag fækkar störfum innan stjórnar sem krefjast reynslu eða sérhæfðrar þekkingar.
Sjálfstæði Ungra Pírata
Með breytingunni er sóst eftir því að viðhalda sjálfstæði félagsins í starfsemi sinni. Pírötum er ekki gefið neitt nýtt vald yfir Ungum Pírötum og félagið heldur lögum sínum. Ein forsenda breytts skipulags er að félagið hafi yfir eigin bankareikningi að ráða, en breytingin tryggir þetta. Hætta skapast á því að þessu lagaákvæði er breytt og vegið að sjálfstæði félagsins, en til þess þarf einungis kosningu í móðurfélaginu. Ungir Píratar telja að slíkt sé ólíklegt og vega hættuna sem ásættanlega miðað við fyrirhöfnina sem væri nauðsynleg til þess að endurheimta stöðu félagsins sem almenn félagasamtök.
Tilheyrandi mál: | Lagabreytingar: Ungir Píratar |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Gormur | Stjórn Ungra Pírata leggur til þessar breytingar á félagslögum Pírata, sem gera Ungum Pírötum kleift að leggja niður kennitölu félagsins og gerast sjálfstæð félagsdeild Pírata. Samhliða kjósa Ungir Píratar um breytingar á eigin lögum. Breytingar á lögum Ungra Pírata: |