Samþykkt: Fjölmiðlastefna
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
- Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna
- Gagnsæi og ábyrgð
- Upplýsinga- og tjáningarfrelsi
Með tilvísun í stefnu Pírata:
31/2013 Tjáningar- og upplýsingafrelsi
Álykta Píratar eftirfarandi:
1. Heildarendurskoðun
1.1. Taka þarf starfsumhverfi fjölmiðla til heildarendurskoðunar, jafnt lagalega og fjárhagslega stöðu þeirra.
1.2. Heildarendurskoðunin skal leiða til aðgerða sem styrkja stöðu fjölmiðla af öllum stærðum og gerðum.
1.3. Horfið skal frá ríkjandi bútasaumsaðferðafræði sem hyglar stærri fjölmiðlum.
1.4. Erlendir netrisar skulu skattlagðir og tekjunum m.a. varið í stuðning við íslenska fjölmiðla.
2. Réttindavernd blaðamanna
2.1. Ísland skal skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.
2.2. Draga þarf úr réttarfarslegum hindrunum á tjáningarfrelsinu með því að gefa jafnan áfrýjunarrétt í tjáningarfrelsismálum.
2.3. Auka þarf gagnsæi um málskostnað þegar fjölmiðlar eru látnir bera kostnaðinn af málshöfðunum gegn þeim.
3. Staða Ríkisútvarpsins
3.1. Ríkisútvarpinu verði gert kleift að straum af innlendri dagskrárgerð, öryggishlutverki sínu, menningar- og menntahlutverki og rekstri fréttastofu án þess að reiða sig á auglýsingafé.
3.2. Ríkisútvarpið verði fjármagnað með hefðbundnum sköttum en ekki nefskatti, sem leggst hlutfallslega þyngst á fólk með lægri tekjur.
4. Upplýsingamiðlun stjórnvalda
4.1. Stjórnvöld skulu miða að því að útvega fréttafólki þær upplýsingar sem það kallar eftir, þegar það kallar eftir þeim í samræmi við upplýsingaskyldu stjórnvalda.
4.2. Skipaður verði gagnsæisfulltrúi sem ætlað er að auka gagnsæi á öllum sviðum hins opinbera.
4.3. Starfsreglur upplýsingafulltrúa hins opinbera skulu sæta samræmingu og endurskoðun.
Greinargerð
Frá upphafi hafa Píratar barist fyrir tjáningarfrelsinu, gagnsæi, aðgengi að upplýsingum og aðhaldi með valdhöfum - rétt eins og frjálsir og öflugir fjölmiðlar. Lýðræðið þrífst ekki án upplýstrar umfjöllunar um málefni líðandi stundar, ákvarðanir stjórnvalda og afleiðingar þeirra. Sterkir og gagnrýnir fjölmiðlar eru því forsenda þess upplýsta og lýðræðislega samfélags sem Píratar berjast fyrir. Með stefnu þessari setja Píratar sér í fyrsta sinn heildstæða stefnu um fjölmiðla og áhersluatriðin taka mið af stöðu þeirra í aðdraganda alþingiskosninga haustið 2021.
Í fyrsta lagi þarf að taka starfsumhverfi fjölmiðla til heildarendurskoðunar. Atgervisflótti úr stétt blaðamanna er aðkallandi vandamál og sífellt færri ílengjast í fréttamennsku. Fyrir vikið safnast síður upp nauðsynleg sérþekking innan greinarinnar eða sambönd við hið víðara samfélag, sem nauðsynleg eru hverjum fjölmiðli. Stærstu fjölmiðlar landsins eru reknir með viðvarandi halla sem mætt hefur verið með niðurskurði og niðurgreiðslu hagsmunahópa, sem telja sig hafa hagsmuni af því að hafa puttana í fjölmiðlaumfjöllun. Hvorki niðurskurður né ölmusa auðhringja eru traustur grunnur fyrir frjálsa og öfluga fjölmiðla.
Samfélaginu er nauðsynlegt að hafa fjölbreytta fjölmiðlaflóru. Þannig er betur stuðlað að því að fleiri raddir heyrist, málefni líðandi stundar verði krufin frá fleiri sjónarhornum og að þjóðmálaumræðan verði frjórri og dýpri. Stuðningsaðgerðir stjórnvalda handa fjölmiðlum hafa hins vegar verið unnar í smáskömmtum. Afleiðingin hefur verið sú að stærri fjölmiðlar hafa sópað til sín langstærstum hluta stuðningsins á kostnað hinna minna. Það er ekki síst af þeim sökum sem heildarendurskoðun á starfs- og stuðningsumhverfi fjölmiðla á Íslandi er mikilvæg. Með því að líta heildrænt á lagalega og fjárhagslega stöðu fjölmiðla, af öllum stærðum og gerðum, má betur tryggja að á Íslandi þrífist fjölbreytt og frjálst fjölmiðlaumhverfi, sem er grunnforsenda heilbrigðs lýðræðis.
Í þeirri vinnu þarf m.a. að taka mið af erlendum netrisum sem taka til sín sífellt meira auglýsingafé með hverju árinu. Ísland á að verða í hópi þeirra þjóða sem skattleggja fyrirtækin og að tekjurnar verði nýttar til stuðnings íslenskum fjölmiðlum, sem þurfa að uppfylla ríkari kröfur en þeir erlendu (t.a.m. um þýðingu efnis og útsendinga). Að sama skapi þarf að tryggja að stuðningur við fjölmiðla ráðist ekki af duttlungum ráðherra, t.a.m. með skýrum úthlutunarreglum.
Í öðru lagi þarf að styrkja stöðu blaðamanna. Aðhald þeirra, umfjöllun og afhjúpanir gera blaðamenn að skotspón hagsmunaafla sem eru tilbúin að grípa til öfgafullra varna, eins og nýleg dæmi sanna. Ísland á að taka skýra afstöðu með fréttafólki með því að skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þannig þarf að draga úr réttarfarslegum hindrunum á tjáningarfrelsinu með því að gefa jafnan áfrýjunarrétt í tjáningarfrelsismálum. Að sama skapi þarf að auka gagnsæi um málskostnað þegar fjölmiðlar eru látnir bera kostnaðinn af málshöfðunum gegn þeim.
Í þriðja lagi þarf að huga að Ríkisútvarpinu. Kannanir hafa sýnt að stofnunin nýtur víðtæks trausts og stuðnings meðal landsmanna, sem er hverjum fjölmiðli ómetanlegt. Ríkisútvarpið sinnir víðtækri dagskrárgerð, fréttaflutningi og mennta-, menningar- og öryggishlutverki sem rétt er að hlúa að. Ríkisútvarpið getur vel þrifist innan heilbrigðis og fjölbreytts fjölmiðlaumhverfis, tilvist þess er í sjálfu sér til þess fallin að auðga fjölmiðlaflóruna.
Þó verður ekki hjá veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði litið, sem hefur reynst öðrum fjölmiðlum óþægur ljár í þúfu. Eðlilegt er að Ríkisútvarpið hætti að ota auglýsingum að landsmönnum en verði þess í stað fjármagnað að öllu leyti með skattfé. Það verði hins vegar ekki gert með nefskatti, sem leggst hlutfallslega þyngst á fólk með lægri tekjur og gengur þannig gegn hugmyndum um framsækið skattkerfi. Þetta myndi styrkja fréttastofu Ríkisútvarpsins, sem þyrfti ekki lengur að óttast óánægju auglýsenda með umfjöllun fréttastofunnar, auk þess sem dagskrá Ríkisútvarpsins yrði áferðarfallegri þegar ekki þyrfti lengur að brjóta hana upp með auglýsingum. Að sama skapi er það ekki hlutverk hins opinbera að reka auglýsingaskilti eða selja auglýsingapláss utan á stofnunum ríkisins. Vera Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er af sama meiði.
Í fjórða lagi þarf að gera bragarbót á upplýsingamiðlun hins opinbera. Viðkvæðið í samskiptum fjölmiðla við stjórnvöld skal vera með þeim hætti að fréttafólk fái þær upplýsingar sem það kallar eftir, þegar það kallar eftir þeim. Að stjórnvöld neiti blaðamönnum um upplýsingar á að heyra til algjörra undantekninga og þarf neitunin að byggja á skýrt skilgreindum og afmörkuðum forsendum, eins og persónuvernd eða þjóðaröryggi. Til þess að auðvelda fjölmiðlum enn frekar aðgengi að upplýsingum er rétt að stjórnvöld skipi gagnsæisfulltrúa. Hlutverk hans verður að teikna upp hvernig auka megi gagnsæi á öllum sviðum hins opinbera sem Píratar munu síðan hrinda í framkvæmd.
Upplýsingafulltrúum á vegum stjórnvalda hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Upplýsingafulltrúar geta vissulega stutt við störf blaðamanna; t.a.m. með því að útvega þeim upplýsingar og beina þeim á sérfræðinga hins opinbera sem kunna að hafa svörin sem fréttafólkið leitast eftir. Upplýsingafulltrúar eiga hins vegar ekki að vera upplýsingasíur eða verja kröftum sínum í að hagræða sannleikanum stjórnvöldum í vil. Til þess að tryggja að upplýsingafulltrúar beri nafn með rentu á að setja störfum þeirra samræmdar og skýrar starfsreglur, hvar svo sem þeir starfa hjá hinu opinbera. Reglurnar skulu miða að því að útvega fjölmiðlum þær upplýsingar sem þeir kalla eftir, þegar þeir kalla eftir þeim.
Tilheyrandi mál: | Fjölmiðlastefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | BaldurK | Á félagsfundi Pírata þann 8. júlí 2021 var samþykkt að senda eftirfarandi ályktun í kosningu sbr. grein 6.7 í lögum Pírata. Fundargerð félagsfundar: https://office.piratar.is/index.php/s/kpKJABBSQntBRAK |