Samþykkt: Húsnæðisstefna
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
- Borgararéttindi
- Gagnsæi og ábyrgð
Með tilvísun í stefnu Pírata
74/2016 Leigustefna
Álykta Píratar eftirfarandi:
1. Uppbygging húsnæðis
1.1. Grípa skal strax til aðgerða og gera áætlun til að uppfylla fyrirséða þörf með 2000 íbúðum á ári til ársins 2040.
1.2. Að auki skal tryggja stofnframlög fyrir 5000 íbúðir til viðbótar og tryggja að uppbygging þeirra hefjist svo fljótt sem kostur er.
2. Fleiri óhagnaðardrifnar íbúðir
2.1. Styðja skal við uppbyggingu námsmannaíbúða um allt land og gera heimavist að valmöguleika fyrir framhaldsskólanema. Stefnt skal að því að auka aðgengi iðnnema að námsmannaíbúðum.
2.2. Styðjum við óhagnaðardrifin leigufélög og húsnæðissjálfseignarstofnanir.
2.3. Skilyrða skal lágmarkshlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum yfir tiltekinni lágmarksstærð.
3. Aukum réttindi
3.1. Tryggja skal réttinn til viðeigandi og öruggs húsnæðis fyrir öll sem þurfa. Fjölga skal búsetuúrræðum sem koma til móts við þarfir mismunandi hópa og fjölga skal almennum íbúðum til að mæta þörfum tekjulágra.
3.2. Horfa skal í auknum mæli til raunverulegrar þarfar fólks við val á félagslegu húsnæðisformi þar sem þarfir einstaklingsins verði ráðandi þáttur í ákvarðanatöku um uppbyggingu og úthlutun íbúða.
4. Staða leigjenda
4.1. Endurskoða skal húsaleigulög með það að markmiði að tryggja réttindi leigjenda og stuðla að heilbrigðari og sanngjarnari leigumarkaði.
4.2. Styrkja skal leigjendasamtök til að aðstoða leigjendur við að komast að réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningagerð og lög og réttindi leigjenda.
4.3. Búum til efnahagslega hvata fyrir langtímaleigusamninga og bönnum vísitölutengingu í leigusamningum.
5. Heilnæmt húsnæði
5.1. Grípa skal til aðgerða gegn rakaskemmdum og myglu og til að tryggja heilnæmt húsnæði fyrir öll.
5.2. Koma skal upp miðlægum gagnagrunni um ástand og viðhald fasteigna og tryggja að reglur um byggingu og viðhald þeirra taki mið af íslensku aðstæðum.
5.3. Gera skal átak í endurbótum á því húsnæði sem er útsett fyrir rakaskemmdum og myglu.
Við samþykkt þessarar stefnu fellur úr gildi leigumálastefna, nr. 74/2016.
Greinargerð.
Með stefnu þessari setja Píratar sér í fyrsta sinn heildstæða húsnæðismálastefnu sem tekur mið af aðstæðum á húsnæðismarkaði í aðdraganda alþingiskosninga 2021. Með henni er tekið með afdráttarlausum hætti á helstu viðfangsefnum stjórnmálanna næstu árin á húsnæðismarkaði.
Í fyrsta lagi eru lagðar til aðgerðir til að mæta íbúðaskorti sem hefur verið mjög aðkallandi. Þó að aldrei hafi verið byggt meira í Reykjavíkurborg og uppbyggingu hafi verið flýtt á mörgum svæðum þarf enn að bæta við húsnæði til að mæta óuppfylltri og fyrirséðri þörf fyrir nýjar eignir. Samkvæmt greiningaraðilum á húsnæðismarkaði er fyrirséð þörf fyrir 2000 íbúðir á ári til ársins 2040. Að auki er þörf fyrir 5000 nýjar íbúðir til að mæta núverandi óuppfylltri þörf.
Í öðru lagi eru lagðar til aðgerðir til að efla uppbyggingu óhagnaðardrifinna íbúða. Þar má fyrst nefna að styðja þarf við uppbyggingu námsmannaíbúða um allt land fyrir háskólastigið þannig að háskólanám í öllum háskólum landsins sé aðgengilegt öllum þeim sem vilja sækja það, óháð því hvar og inni í hvaða aðstæður námsfólk fæðist. Í öðru lagi er lagt til að heimavistir framhaldsskólanna verði gerðar að raunverulegum kosti, en á undanförnum árum og áratugum hefur aðgengi að slíku húsnæði dregist mjög saman. Fyrir námsfólk sem kemur úr dreifðari byggðum getur heimavist verið nauðsynleg forsenda fyrir aðgengi að námi. Þá verður einnig að grípa til aðgerða til að styðja óhagnaðardrifin leigufélög og húsnæðissjálfseignarstofnanir. Því markmiði má ná samhliða aðgerðum í fyrsta kafla stefnunnar, þar sem hægt er að tryggja stofnframlög í miklum mæli til slíkra úrræða og hafa þau þegar borið árangur með uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga víða um land. Þá er einnig kveðið á um að sett verði skilyrði um lágmarkshlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum í tiltekinni lágmarksstærð, til að tryggja að öll burðug sveitarfélög axli sína sameiginlegu samfélagslegu ábyrgð á því að bjóða upp á félagsleg úrræði fyrir öll þau sem þurfa. Ekki getur talist rétt að Reykjavíkurborg axli þá ábyrgð ein á meðan önnur stór sveitarfélög láta sitt eftir liggja. Um er að ræða samfélagslegt verkefni þar sem öll sveitarfélög bera sameiginlega ábyrgð.
Í þriðja lagi er kveðið á um aðgerðir til að tryggja réttindi leigjenda og notenda á búsetuúrræðum. Að tryggja skuli réttinn til viðeigandi og öruggs húsnæðis fyrir öll sem þurfa á að vera grunnstef í réttindaaukningu leigjenda. Annars vegar er kveðið á um fjölgun á búsetuúrræðum til að koma til móts við þarfir fjölbreyttra hópa og hins vegar um fjölgun almennra íbúða til að koma til móts við tekjulága sem á þurfa að halda. Þá er í grein 3.2 kveðið á um að horfa skuli í auknum mæli til raunverulegrar þarfar fólks við val á félagslegu húsnæðisformi þar sem þarfir einstaklingsins verði ráðandi þáttur í ákvarðanatöku um uppbyggingu og úthlutun íbúða.
Í fjórða lagi er kveðið á um aðgerðir til að styrkja og efla stöðu leigjenda. Fyrst þeirra aðgerða þarf að verða endurskoðun húsaleigulaga með það að markmiði að standa betur vörð um réttindi fólks á leigumarkaði. Bág staða fólks á leigumarkaði á Íslandi er samfélagsmein og hefur verulega skert lífsgæði margra þeirra sem hafa verið lengi á leigumarkaði. Við endurskoðun húsaleigulaga verður að grípa til markvissra aðgerða til að stuðla að sanngjarnari og réttlátari leigumarkaði. Þá verður einnig að búa til efnahagslega hvata til að gera langtímaleigusamninga eins og þekkist í sumum nágrannalanda okkar, enda fátt sem er fjölskyldum eins erfitt og að hafa ekki öruggan samastað og þurfa í sífellu að flytja búslóð sína á milli leiguíbúða. Þar að auki verður að banna tengingu verðtryggingar í leigusamningum, þar sem hún er bæði ósanngjörn gagnvart leigjendum og er í sjálfu sér verðbólgumyndandi. Efla þarf leigjendasamtök til að aðstoða leigjendur við að komast að réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningsgerð og lög og réttindi leigjenda.
Í fimmta lagi er lagt til að gripið verði til aðgerða til að tryggja heilnæmt húsnæði og vernda leigjendur fyrir heilsubresti af völdum rakaskemmda og myglu. Húsnæði á að vera griðastaður einstaklinga og fjölskyldna. Til að svo sé þarf að tryggja að allt húsnæði sé heilnæmt og brugðist hratt við þegar út af ber. Koma þarf upp miðlægum gagnagrunni um ástand og viðhald fasteigna og tryggja að reglur um byggingu og viðhald þeirra taki mið af íslensku veðurfari. Gera þarf átak í endurbótum á því húsnæði sem er útsett fyrir rakaskemmdum og myglu.
Með setningu þessarar heildarstefnu í húsnæðismálum fellur úr gildi leigumálastefna frá árinu 2016, en efni hennar var haft til grundvallar við þessa stefnugerð og hafa allir þeir þættir sem enn eiga við íslenskan húsnæðismarkað verið færðir í hana.
Tilheyrandi mál: | Húsnæðisstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | BaldurK |