Samþykkt: Stefna um málefni eldra fólks
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
- Borgararéttindi
- Gagnsæi og ábyrgð
- Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur
Álykta Píratar eftirfarandi:
1. Kjaramál eldra fólks
1.1. Lögbundinn ellilífeyrir hækki í samræmi við verðlagsþróun.
1.2. Lögbundinn ellilífeyrir skal duga fyrir framfærslu.
1.3. Frítekjumark ellilífeyris hækki og skerðingar afnumdar í skrefum.
1.4. Valfrjáls skerðingalaus og sveigjanleg starfslok.
1.5. Heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.
2. Húsnæðismál
2.1. Eldra fólk fái aukið val um búsetuúrræði.
2.2. Meira húsnæði í héraði.
2.3. Hættum að stía hjónum í sundur.
2.4. Byggja upp búsetuúrræði milli heimilis og hjúkrunarheimilis.
2.5. Framkvæmdasjóði aldraðra verði aðeins varið í uppbyggingu og viðhald
3. Sjálfstæði og valdefling
3.1. Eldra fólk hafi ætíð aðkomu að ákvörðunum sem snerti sína hagsmuni.
3.2. Efla fjölbreytt félagsstarf sem tekur mið af áhuga eldra fólks.
3.3. Efla aðgerðir sem minnka einangrun og auka virkni
3.4. Auka félagslegan stuðning og styðja við sjálfshjálp.
Greinargerð
Eldra fólk á Íslandi er fjölmennur og fjölbreyttur hópur. Allt of lengi hefur verið komið fram við eldra fólk eins og hagsmunir þess séu einsleitir, því er sniðinn þröngur stakkur og eldri borgurum gert að laga sig að duttlungum og takmörkunum kerfisins. Píratar berjast fyrir annarri nálgun, þar sem komið er fram við fullorðið fólk eins og fullorðið fólk. Samfélagið á að styðja eldra fólk til að lifa lífi sínu eins og það sjálft vill, en sé ekki fast í boðum, bönnum og skerðingum. Hið opinbera á að styðja fólk, hvort sem það vill setjast í helgan stein eða hefur ánægju og getu til að vera á vinnumarkaði á efri árum. Framtíð eldra fólks skal vera á þeirra forsendum og til þess þarf að fjölga valmöguleikum þeirra, fækka innbyggðum refsingum og hleypa því að borðinu.
Í fyrsta lagi þarf að útrýma fátækt meðal eldra fólks. Það er pólítísk ákvörðun að fólk skuli í allt of mörgum tilfellum búa við sultarmörk. Byrja þarf á því að lögfesta lágmarksframfærsluviðmið, þvert á allar stofnanir hins opinbera, þannig að öllum sé ljóst hvað tekjur fólks þurfi að vera til að geta lifað með reisn á Íslandi. Lögbundinn ellilífeyrir má aldrei fara niður fyrir þessi mörk og fylgja verðlagsþróun, þannig að tekjur eldri borgara fuðri ekki upp í verðbólgu.
Í öðru lagi þarf að hætta að refsa eldra fólki. Vilji fólk halda áfram að vinna, þó svo að það sé komið á „eftirlaunaaldur,“ þá eiga stjórnvöld ekki að standa í vegi fyrir því. Skerðingarnar í núverandi almannatryggingakerfi eru hins vegar til þess fallnar. Þær letja eldra fólk, sem vill nýta þekkingu sína og reynslu á vinnumarkaði, samfélaginu til heilla. Hið opinbera á ekki heldur að svelta fólk til þess að vinna lengur en það þarf, með lágri framfærslu eða annarri nauðung. Starfslok einstaklinga eiga að vera á þeirra eigin forsendum og grundvallast á færni fólks og áhuga, en ekki kennitölunni þeirra.
Í þriðja lagi þarf að gera bragarbót á húsnæðismálum eldra fólks. Heimili fólks á að vera griðastaður og oft er það miðpunkturinn í tilveru þess. Því þarf húsnæði að endurspegla þarfir og áhuga fólks svo að það geti varið efri árunum eftir eigin hentisemi. Byrja þarf á því að tryggja húsnæði og þjónustu við hæfi í heimabyggð fólks, svo það þurfi ekki að flytjast hreppaflutningum úr nærsamfélagi sínu. Þannig á hið opinbera að gera öldruðum kleift að búa heima hjá sér eins lengi og það hefur getu og vilja til. Að sama skapi skal hætta alfarið að stía hjónum í sundur en þess í stað aðlaga þjónustuna að sambúð fólks. Búsetuúrræði eldra fólks eru allt of fábreytt og henta þessum fjölbreytta hópi illa. Í því samhengi er nauðsynlegt að byggja upp húsnæði sem virkar sem millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að byggja upp þannig búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk og þá ekki síður fyrir velferðarkerfið, sem er á forræði ríkis og sveitarfélaga, eins og fram kemur í ályktun Landssambands eldri borgara. Þá þarf að tryggja að fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá, eins og kveðið er á um í lögum.
Í fjórða lagi þarf að tryggja samráð við aldraða. Eldra fólk á að hafa aðkomu að ákvörðunum sem snertir það, enda skal hið opinbera sjá til þess að aldraðir geti varið efri árunum eins og þeir vilja. Ekki aðeins er það lýðræðislegt heldur jafnframt valdeflandi og til þess fallið að bæta ákvarðanatöku í þessum málaflokki, eldra fólki öllu til heilla. Að sama skapi skulu stjórnvöld hafa jafnræði og meðalhóf að leiðarljósi þegar taka á ákvarðanir sem snerta aldraða.
Í fimmta lagi þarf að hlúa að virkni eldra fólks. Einangrun aldraðra er aðkallandi vandamál, ekki aðeins umræddra einstaklinga heldur samfélagsins alls. Eftir því sem samfélaginu tekst að tryggja virkni eldra fólks viðhöldum við betur þroska og getu einstaklinga til að vera virkir alla ævi - og samfélagið fær lengur notið samvista við þá. Faraldur kórónuveirunnar sýndi fram á mikilvægi og ábatann af öflugu félagsstarfi. Gott og vandað félagsstarf er eitt besta verkfæri sem finna má í baráttunni gegn einangrun og einmanaleika og aukið fjármagn til félagsstarfs í faraldrinum er þegar farið að skila góðum árangri. Mikilvægt er að halda áfram á slíkri braut og tryggja félagslegan stuðning og fjölbreytt félagsstarf, þar sem t.a.m. verður hugað að því að brúa kynslóðabil.
Tilheyrandi mál: | Stefna um málefni eldra fólks |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | BaldurK | Á félagsfundi þann 13. júlí 2021 var samþykkt að setja stefnu um málefni eldra fólks í vefkosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata í samræmi við grein 6.7 í lögum Pírata: Fundargerð fundarins má nálgast hér: https://office.piratar.is/index.php/s/bQxDamD6ey6Mrey |