Samþykkt: Stefna um fiskeldi
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
- Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna
- Gagnsæi og ábyrgð
Með tilvísun í stefnu Pírata
Umhverfis- og loftslagsstefna (með fyrirvara um samþykki)
Matvæla- og landbúnaðarstefna
Stefna um náttúruauðlindir
Stefna um dýrahald og velferð dýra
Álykta Píratar eftirfarandi:
1. Forsendur fiskeldis
1.1. Úthlutun heimilda til fiskeldis skulu fara fram í gagnsæu, faglegu og fyrirsjáanlegu ferli.
1.2. Komið verður í veg fyrir samþjöppun og einsleitni í fiskeldi með því að setja hámark á hlutdeild af heimildum til fiskeldis.
1.3. Innheimta skal fullt auðlindagjald af afla úr fiskeldi.
1.4. Samningar sveitarfélaga og ríkis við félög í fiskeldi skulu vera sanngjarnir og til góða fyrir allt samfélagið.
1.5. Komið verður í veg fyrir eignarhald sem býður upp á þunna eiginfjármögnun.
2. Vernd umhverfis og velferð dýra
2.1. Allt fiskeldi þarf að fylgja ströngum reglum um mengunarvarnir, heilbrigði dýra, sjúkdómavarnir og náttúruvernd.
2.2. Eftirlit með fiskeldi skal vera óháð, öflugt og byggja á faglegum forsendum.
2.3. Félögum í fiskeldi skal gert skylt að taka ávallt upp bestu fáanlegu tækni til verndar umhverfi og velferð dýra.
2.4. Stærð kvía og fjöldi fiska skal ráðast af velferð dýra, ekki þolmörkum náttúrunnar.
3. Viðbrögð við brotum
3.1. Leiki grunur á því að reglum um fiskeldi sé ekki fylgt eftir skal tafarlaust grípa til aðgerða til að takmarka tjón og koma í veg fyrir frekari brot.
3.2. Ítrekuðum og alvarlegum brotum ber að refsa með sviptingu starfsleyfis.
4. Fiskeldi á landi
4.1. Beita skal jákvæðum efnahagslegum hvötum til að fiskeldi á landi verði hagkvæmara en fiskeldi í sjó.
4.2. Fiskeldi á landi þarf að hlýta reglum um fráveitu og skólp sem tryggja að áhrif á umhverfi og lífríki séu sem minnst.
5. Fiskeldi í sjó
5.1. Fiskeldi í sjó skal fara fram í lokuðum kvíum. Fiskeldi sem nú þegar fer fram í opnum kvíum skal uppfylla kröfur um lokað sjókvíaeldi sem fyrst.
5.2. Félög sem stunda fiskeldi í sjó skulu greiða fyrir möguleg neikvæð umhverfisáhrif í samræmi við mengunarbótareglu.
5.3. Rekstrarleyfi á fiskeldi í sjó skal veita í þrepum, þannig að aðeins ákveðið hlutfall af burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar skuli úthlutað í einu. Frekari úthlutanir skulu fara fram að loknum ítarlegum rannsóknum á lífríki og náttúru.
6. Upprunamerkingar eldisfisks
6.1. Standa þarf vörð um hagsmuni neytenda eldisfisks og lögfesta upplýsingagjöf til þeirra.
6.2. Á merkingum matvæla skal koma fram hvort fiskur sé úr eldi eða villtur, af landi eða úr sjó.
7. Framtíð matvælaframleiðslu á sjávarfangi
7.1. Efla skal rannsóknir og þróun á smáþörungum til neyslu.
7.2. Efla skal rannsóknir og þróun á kjötrækt.
7.3. Hvetja skal fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga til að leita nýrra leiða í umhverfisvænni matvælaframleiðslu sem felur ekki í sér dýraeldi.
Greinargerð
Fiskeldi er hratt vaxandi atvinnugrein um allan heim og er nú um helmingur af því sjávarfangi sem í boði er á heimsvísu. Á Íslandi jókst fiskeldi úr 5.050 tonnum árið 2010 í 40.595 tonn árið 2020, þar af var laxeldi 34.341 tonn. Í stefnu þessari er gerð grein fyrir afstöðu Pírata til fiskeldis og framtíð matvælavinnslu úr sjávarfangi.
Stefnan er skrifuð með hliðsjón af stefnum Pírata um umhverfismál, dýravelferð, byggðaþróun og nýsköpun.
Í upphafi er gerð grein fyrir þeim forsendum sem Píratar telja að hið opinbera og félög í fiskeldi verði að uppfylla áður en leyfisveiting til fiskeldis kemur til álita. Annar hluti stefnunnar snýr að öflugri umhverfisvernd og tryggir að velferð dýra í fiskeldi sé ávallt skör hærri en burðarþolsmörk fiskeldis. Í þriðja hluta er fjallað um málsferð og refsingar þegar félög eru brotleg við lög og reglur um fiskeldi.
Fjórði hluti stefnunnar fjallar sérstaklega um fiskeldi á landi, en þar er sett fram sú stefna Pírata að fiskeldi sé betur fyrirkomið á landi en í sjó og hinu opinbera ber að sjá til þess að hvatar þar að lútandi séu nægilega öflugir. Umfjöllun fimmta hluta um sjókvíaeldi er í samræmi við þessi sjónarmið og leggur til að leyfisveitingar á fiskeldi í sjó takmarkist mjög eða leggist af. Hætt verði sem fyrst með opið sjókvíaeldi og félögum í fiskeldi gert skylt að loka kvíunum eða flytja starfsemina í land. Sjötti hluti stefnunnar fjallar svo um merkingar á matvælum, neytendum til hagsbóta.
Í sjöunda og síðasta hluta stefnunnar er hvatt til frekari rannsókna og þróunar á umhverfisvænum matvælum úr sjávarfangi sem hafi ekki áhrif á dýr.
Tilheyrandi mál: | Stefna um fiskeldi |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | BaldurK | Á félagsfundi þann 13. júlí 2021 var samþykkt að setja stefnu um fiskeldi í vefkosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata í samræmi við grein 6.7 í lögum Pírata: Fundargerð fundarins má nálgast hér: https://office.piratar.is/index.php/s/bQxDamD6ey6Mrey |