Samþykkt: Stefna um baráttu gegn spillingu
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
- Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna
- Gagnsæi og ábyrgð
Álykta Píratar eftirfarandi:
1. Varnir gegn hagsmunaárekstrum
1.1. Endurskoða þarf siðareglur ráðherra og starfsfólks stjórnarráðsins, setja á fót sjálfstætt eftirlit með þeim og innleiða viðurlög við alvarlegum brotum. Einnig þarf að setja á fót stöðuga og hnitmiðaða þjálfun í notkun siðareglnanna í samræmi við tilmæli GRECO.
1.2. Endurskoða og samræma þarf reglur um hagsmunaárekstra opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa, bæði á þingi og í sveitarstjórnum, með það að markmiði að koma í veg fyrir óæskileg áhrif hagsmunaaðila á opinbera ákvarðanatöku. Tryggja þarf að hagsmunaskrár valdhafa séu réttar, tæmandi og aðgengilegar og setja þarf viðurlög við rangri hagsmunaskráningu.
1.3. Taka þarf lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds frá árinu 2020 til heildarendurskoðunar. Nauðsynlegt er að stoppa í þau göt sem núverandi stjórnarmeirihluti skildi eftir, m.a. með því að koma á fót sjálfstæðu eftirliti með hagsmunaárekstrum í stjórnarráðinu og koma í veg fyrir að aðstoðarmenn ráðherra getið ráði sig beint sem hagsmunaverði eftir störf sín.
1.4. Lækka þarf lágmarks andvirði gjafa sem skrá þarf í opinbera hagsmunaskrá og samræma reglur sem gilda um gjafir til þingmanna og æðstu stjórnenda innan stjórnarráðsins.
1.5. Útvíkka þarf skilgreiningu á hugtakinu hagsmunavörður þannig að skráningarskylda laganna nái yfir alla þá sem sinna hagsmunavörslu en ekki einungis þeirra sem bera starfstitilinn hagsmunavörður.
1.6. Innleiða þarf skýrar og samræmdar reglur um framkvæmd útboða. Þá þarf að setja hámark á hversu mikið má versla við einstaka aðila án útboðs og koma þannig í veg fyrir ítrekuð viðskipti rétt undir útboðsmörkum, eins og dæmi eru um.
1.7. Uppfylla þarf allar ítrustu kröfur GRECO, OECD og annarra alþjóðlegra aðila um varnir gegn hagsmunaárekstum.
2. Eftirlit og rannsóknir
2.1. Eftirlitsstofnanir skulu hafa valdheimildir, mannskap og fjármagn til að taka á valdníðslu og spillingu, jafnt hjá hinu opinbera sem og í einkageiranum. Eftirlit þeirra skal stuðla að gæðum og áreiðanleika opinberrar ákvarðanatöku þannig að lög og reglur skili tilætluðum árangri, verndi réttindi landsmanna og að allir fylgi leikreglum samfélagsins.
2.2. Hefja verður almenna uppbyggingu og styrkingu eftirlitsstofnana eftir markvisst niðurrif og fjársvelti undanfarinna ríkisstjórna. Sérstaka áherslu skal setja í að byggja upp stofnanir sem rannsaka spillingu, efnahagsbrot, skattsvik, samkeppnisbrot og peningaþvætti. Auka þarf fjárveitingar til héraðssaksóknara og efla stofnanir á borð við Samkeppniseftirlitið, Ríkisendurskoðanda, Fiskistofu, Umboðsmann Alþingis, Persónuvernd og Skattinn. Standa þarf vörð um eftirlitshlutverk minni sjálfstæðra rannsóknaraðila, á borð við Neytendastofu og rannsóknarstofu byggingariðnaðarins.
2.3. Sjálfstæðar skattrannsóknir skulu endurvaktar, annað hvort með því að endurreisa sjálfstætt embætti skattrannsóknarstjóra eða að fela nýju óháðu embætti rannsóknirnar.
2.4. Í því samhengi skal kanna fýsileika þess að setja á fót embætti sem hefur það hlutverk að sameina rannsóknar- og ákæruvald fyrir spillingarbrot, meiriháttar skattalagabrot og peningaþvætti. Slík stofnun hefði einnig það hlutverk að rannsaka fyrri peningaþvættisbrot sem framin voru á meðan varnir Íslands voru í lamasessi og orsakaði að Ísland var sett á gráan lista FATF.
2.5. Gera þarf rannsókn á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og kanna hvort að hún hafi verið misnotuð, m.a. til að koma óskráðum og óskattlögðum eignum Íslendinga á aflandssvæðum aftur til landsins.
2.6. Auka skal eftirlit með og viðurlög við skattaundanskotum, samkeppnislagabrotum og peningaþvætti og tryggja skal að stjórnendur opinberra stofnana og fyrirtækja geti orðið persónulega ábyrgir fyrir ásetningsbrotum í rekstri.
2.7. Innleiða skal snúningshurðarákvæði um starfsval þeirra sem ljúka störfum hjá eftirlitsstofnunum þannig að þau fari ekki beint til starfa fyrir þær stofnanir og fyrirtæki sem þau höfðu eftirlit með.
3. Gagnsæi
3.1. Setja þarf heildstæða stefnu um aukningu gagnsæis í opinberri stjórnsýslu, þar sem m.a. verði kveðið á um skipan embættis gagnsæisfulltrúa sem ætlað er að auka gagnsæi á öllum sviðum hins opinbera.
3.2. Öll þau gögn sem hið opinbera býr yfir og snerta ekki persónugreinanlega hagsmuni einstaklinga skulu vera aðgengileg og ókeypis hverjum sem er. Það þýðir líka að þau þurfa að vera á formi sem er nytsamlegt.
3.3. Innleiða skal upplýsingahyggju hjá hinu opinbera. Í því felst að stjórnvöld svari spurningum samkvæmt upplýsingalögum og leggja áherslu á meira gagnsæi en minna.
3.4. Auka þarf vernd uppljóstrara með endurskoðun á núgildandi lögum, þar sem íþyngjandi skilyrði gagnvart uppljóstrurum eru felld út. Ekki skal gera kröfu um tiltekinn ásetning við uppljóstrun og innleiða skal leiðbeiningarskyldu stjórnvalda til uppljóstrara.
3.5. Halda skal áfram vinnu við Stafrænt Ísland sem felst í að samræma, einfalda og netvæða stjórnsýslu á Íslandi. Vinna verður áfram að því að öll innri og ytri samskipti hins opinbera séu á samræmdu sniði, en slíkt samræming einfaldar fólki að afla sér upplýsinga.
3.6. Stjórnvöld skulu útvega fjölmiðlum þær upplýsingar sem þeir kalla eftir, þegar þeir kalla eftir þeim. Starfsreglur upplýsingafulltrúa hins opinbera skulu sæta samræmingu og endurskoðun.
3.7. Á öllum stigum skal gæta fyllsta öryggis við vernd persónuupplýsinga.
3.8. Halda skal áfram vinnu við að auka gagnsæi opinberra skráa ríkisins, t.d. fyrirtækjaskrár, hluthafarskrár og gera upplýsingar þeirra aðgengilegar öllum án endurgjalds. Heimila skal frjálsan aðgang að Stjórnartíðindum og Lögbirtingarblaði án endurgjalds.
4. Eftirlit með framkvæmdavaldinu
4.1. Efla skal eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu því aðhald er nauðsynlegt til að stemma stigu við misbeitingu valds og tryggja jafnvægi á milli handhafa ríkisvalds.
4.2. Festa skal í lög sannleiksskyldu ráðherra og setja viðurlög við því að ljúga að þinginu eða að halda frá því upplýsingum og skýrslum af ásettu ráði.
4.3. Nefndarfundir Alþingis skulu að jafnaði að vera opnir og gefa þarf fastanefndum þingsins heimild til að kveða fólk til skýrslugjafar þar sem það verði refsivert að gefa þinginu vísvitandi rangar upplýsingar.
4.4. Gefa þarf Alþingi verkfæri til að fylgja á eftir þingsályktunum sínum og krefja ráðherra um efndir á þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin.
4.5. Auka skal eftirlit með reglugerðarvaldi ráðherra, m.a. til að tryggja að þeir fari ekki út fyrir heimildir sínar. Birtingavefur reglugerða verði uppfærður og gagnsæið aukið, t.d. með því að rekja breytingar frá fyrri reglugerðum. Ráðherra mæti reglulega fyrir þingið og svari fyrir nýlegar reglugerðarbreytingar.
4.6. Tryggja verður nauðsynlegt fjármagn til Umboðsmanns Alþingis svo hann hafi bolmagn til frumkvæðisrannsókna. Auka skal vægi eftirlitsheimilda umboðsmanns og gefa honum heimild til að beina bindandi tilmælum til stjórnvalda.
4.7. Ráðherrar skulu ekki sitja á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Setja skal skýrar reglur um samskipti ráðherra, bæði formleg og óformleg. Tryggja skal að samskipti ráðherra eins og símtöl og fundir, sem hafa bein áhrif á starf hans eða ráðuneyti hans, séu skráð. Tryggja skal að fundardagbækur ráðherra séu uppfærðar í rauntíma, en ekki mörgum vikum eða mánuðum eftir á.
4.8. Störf Alþingis eiga að vera sjálfstæð frá framkvæmdavaldinu. Snúa þarf við þróun undanfarinna ára þar sem Alþingi hefur í auknum mæli tekið að starfa sem stimpilstofnun ríkisstjórnarinnar, frekar en sjálfstæður handhafi löggjafarvalds.
4.9. Tryggja þarf að brot ráðherra í starfi sæti rannsókn frá handhöfum ákæru- eða lögregluvalds. Grunur um misbeitingu opinbers valds á alltaf að sæta rannsókn.
5. Einkaaðilar
5.1. Koma þarf í veg fyrir spillandi áhrif fjársterkra einkafyrirtækja á valdhafa. Auka þarf eftirlit og efla spillingarvarnir til að koma í veg fyrir mútubrot og tryggja að til staðar séu skýr viðurlög fyrir greiðasemi í þágu einstakra fyrirtækja.
5.2. Setja þarf auknar gagnsæiskröfur á fyrirtæki utan markaðar sem ná ákveðinni skilgreindri lágmarksstærð, t.d. út frá veltu eða starfsmannafjölda.
5.3. Auka skal gagnsæi um samninga einkafyrirtækja við íslenska ríkið. Setja þarf á fót óháð endurskoðunarferli sem tryggir hagsmuni ríkis og þjóðar.
5.4. Gera þarf heildstæða úttekt á spillingu í íslenskum sjávarútvegi, hérlendis og erlendis.
6. Löggæsla
6.1. Tryggja þarf nægjanlegt og fyrirsjáanlegt fjármagn til lögreglu. Sérstaklega ber að huga að nægjanlegu fjármagni til varnar spillingu og hagsmunaárekstra innan lögregluembætta.
6.2. Ráðast þarf í endurskoðun á siðareglum lögreglu til þess að þær nái betur yfir hagsmunaárekstra og stjórnmálaþáttöku. Efla þarf þjálfun og fræðslu um siðareglurnar með hagnýtum dæmum og aðgangi að ráðgjöf undir nafnleynd.
6.3. Setja þarf á fót raunverulegt sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu.
6.4. Stöðva þarf pólitísk afskipti af störfum lögreglu. Tryggja þarf að auglýst sé í allar stöður innan lögreglu og að ráðið sé í stöður byggt á hæfni og án pólitískra afskipta. Sömuleiðis verði að tryggja gagnsæja ferla í kringum endurráðningar og að auðvelt sé að áfrýja ákvörðun um endurráðningar.
6.5. Innleiða skal snúningshurðarákvæði gagnvart lögreglumönnum til þess að koma í veg fyrir að lögreglumenn verði strax ráðnir til starfa hjá aðilum þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum.
6.6. Setja þarf skýr lög um uppljóstraravernd innan lögreglunnar.
6.7. Endurskoða þarf lögreglulög með það að markmiði að tryggja að beiting þeirra brjóti ekki á rétti almennings til friðsamra mótmæla.
Við samþykkt þessarar stefnu falla úr gildi eftirfarandi stefnur:
61/2016 Stefna: Aukið vægi eftirlits með framkvæmdavaldinu
Greinargerð
Spillingu á hvorki að líða í stjórnkerfinu né annars staðar í samfélaginu. Í fámennu samfélagi eins og Íslandi er mikil hætta á frændhygli, hagsmunaárekstrum og greiðasemi sem er þjóðhagslega mikilvægt að girða fyrir. Spilling kostar samfélagið háar fjárhæðir á hverju ári og leiðir til þess að almannagæði eru færð úr sameiginlegum sjóðum í vasa hinna fáu. Á undanförnum árum hefur íslenskum stjórnvöldum ítrekað verið bent á fjölmarga galla í stjórnkerfi og löggjöf landsins og að ekki hafi verið gert nóg til að koma í veg fyrir spillingu og efla heilindi hjá æðstu valdhöfum. Á þetta sérstaklega við um handhafa framkvæmdavaldsins. Í skýrslu GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, var Íslandi árið 2018 bent á fjölmarga veikleika í sinni löggjöf þegar kæmi að spillingarvörnum. Í eftirfylgnisskýrslu GRECO árið 2020 var Ísland enn skammt á veg komið í úrbótum og þörf á frekari vinnu til að uppfylla kröfur um fullnægjandi spillingarvarnir.
Valdhafar undanfarinna ára hafa sýnt að þá skortir getu og vilja til að bregðast við og berjast gegn spillingu. Í spillingu felst misbeiting opinbers valds þar sem spilling hyglir fáum á kostnað allra annarra. Hún gerir okkur fátækari og grefur undan réttarríkinu, en gerir hinum fáu kleift að byggja valdablokkir sínar á grundvelli hins spillta valds.
Stærsta og mikilvægasta skrefið þegar kemur að baráttunni gegn spillingu er að breyta leikreglunum, auka gagnsæi og aðhald almennings, styrkja lýðræðislegar stoðir stjórnkerfisins og setja skýrar línur um skiptingu ríkisvalds hér á landi með nýrri stjórnarskrá byggðri á tillögum stjórnlagaráðs. En óháð endurskoðun stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða til að varna hagsmunaárekstrum, efla eftirlitsstofnanir, setja í lög raunveruleg viðurlög og grípa til aðgerða gegn spillingu alls staðar þar sem hana er að finna.
Gera verður átak í baráttunni gegn hagsmunaárekstrum. Ekki hafa verið stigin nægilega nógu stór skref til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra hjá handhöfum opinbers valds. Fylgja verður eftir ábendingum GRECO og endurskoða siðareglur innan stjórnarráðsins, setja á fót sjálfstætt eftirlit og innleiða viðurlög. Endurskoða og samræma þarf reglur um hagsmunaárekstra opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa og tryggja uppfærðar hagsmunaskrár valdhafa. Stoppa verður í göt í lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum og setja í lög snúningshurðarákvæði um aðstoðarmenn ráðherra. Lækka þarf lágmarks andvirði gjafa sem skrá þarf í opinbera hagsmunaskráningu og útvíkka skilgreiningu á hugtakinu hagsmunavörður. Taka þarf framkvæmd útboða til endurskoðunar, sérstaklega á sveitarstjórnarstiginu þar sem setja þarf hámark á hversu mikið má versla við einstaka aðila án útboðs og koma þannig í veg fyrir ítrekuð viðskipti rétt undir útboðsmörkum, eins og dæmi eru um.
Hefja verður endurreisn íslenskra eftirlitsstofnana, sem valdhafar undanfarinna ára hafa markvisst grafið undan, vanfjármagnað og lagt niður. Þær skulu hafa valdheimildir, mannskap og fjármagn til að taka á valdníðslu og spillingu, jafnt hjá hinu opinbera sem og í einkageiranum. Eftirlit þeirra skal stuðla að gæðum og áreiðanleika opinberrar ákvarðanatöku þannig að lög og reglur skili tilætluðum árangri, verndi réttindi landsmanna og að allir fylgir leikreglum samfélagsins. Sérstaka áherslu þarf að setja á uppbyggingu stofnana sem rannsaka spillingu, efnahagsbrot, skattsvik, samkeppnisbrot og peningaþvætti og standa vörð um eftirlitshlutverk minni sjálfstæðra rannsóknaraðila. Í því samhengi er lagt til að kannaður verði möguleikinn á því að setja á fót embætti sem hafi það hlutverk að sameina rannsóknar- og ákæruvald fyrir spillingarbrot í opinberri stjórnsýslu, meiriháttar skattalagabrot og peningaþvætti. Slík stofnun hefði einnig það hlutverk að rannsaka fyrri peningaþvættisbrot sem framin voru á meðan varnir Íslands voru í lamasessi og orsakaði að Ísland var sett á gráan lista FATF. Þá verður að gera rannsókn á fjárfestingaleið Seðlabankans, auka eftirlit með og viðurlög við skattaundanskotum, samkeppnislagabrotum og peningaþvætti og innleiða snúningshurðarákvæði um starfsval þeirra sem ljúka störfum hjá eftirlitsstofnunum.
Setja verður heildstæða stefnu um aukningu gagnsæis í opinberri stjórnsýslu og innleiða það viðhorf að stjórnvöldum beri að leggja áherslu á meira gagnsæi en minna. Vinna verður að því að auka aðgengi að gögnum stjórnvalda á opnu sniði og auðvelda aðgengi fjölmiðla að þeim, þó þannig að sjónarmið um vernd persónuupplýsinga séu virt. Auka þarf vernd uppljóstrara með endurskoðun á núgildandi lögum, þar sem íþyngjandi skilyrði gagnvart uppljóstrurum eru felld út.
Auka verður eftirlit með framkvæmdavaldinu, m.a. með því að efla eftirlitshlutverk Alþingis. Festa verður í lög ákvæði um sannleiksskyldu ráðherra og setja viðurlög við því að ljúga að þinginu eða að halda frá því upplýsingum og skýrslum af ásettu ráði. Nefndarfundir Alþingis eiga að jafnaði að vera opnir og gefa þarf fastanefndum þingsins heimild til að kveða fólk til skýrslugjafar þar sem það verði refsivert að gefa þinginu vísvitandi rangar upplýsingar. Efla þarf eftirlit Alþingis með framkvæmd þingsályktana og reglugerðarvaldi ráðherra til að tryggja að ráðherrar fari ekki út fyrir valdheimildir sínar. Tryggja verður fjárveitingar til umboðsmanns Alþingis svo hann geti sinnt frumkvæðisrannsóknum, auka vægi eftirlitsheimilda umboðsmanns og gefa honum heimild til að beina bindandi tilmælum til stjórnvalda.
Alþingi verður að starfa sem sjálfstæð stofnun, en ekki stimpilstofnun ríkisstjórnarinnar. Til að ná fram aðskilnaði framkvæmdar- og löggjafarvalds þarf að tryggja að ráðherrar sitji ekki á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Setja skal skýrar reglur um samskipti ráðherra og að samskipti eins og símtöl og fundir, sem hafa bein áhrif á starf hans eða ráðuneyti hans, séu skráð. Tryggja verður líka að fundardagbækur ráðherra séu uppfærðar í rauntíma, en ekki mörgum vikum eða mánuðum eftir á. Brot ráðherra í starfi eiga sæta rannsókn frá handhöfum ákæru- eða lögregluvalds. Grunur um misbeitingu opinbers valds á alltaf að sæta rannsókn.
Koma þarf í veg fyrir spillandi áhrif fjársterkra einkafyrirtækja á valdhafa. Auka þarf eftirlit og efla spillingarvarnir til að koma í veg fyrir mútubrot og tryggja að til staðar séu skýr viðurlög fyrir greiðasemi í þágu einstakra fyrirtækja. Með aðgerðum til að koma í veg fyrir spillingu einkaaðila er hægt að tryggja jafnar leikreglur, standa vörð um samkeppnishæfni Íslands, koma í veg fyrir óæskileg áhrif sérhagsmunahópa á opinbera ákvarðanatöku og að öll borgum við okkar sanngjarna hlut í samfélaginu. Auka þarf gagnsæiskröfur á fyrirtæki utan markaðar og setja á fót óháð endurskoðunarferli um samninga einkafyrirtækja við íslenska ríkið og gera heildstæða úttekt á spillingu í íslenskum sjávarútvegi.
Skýrsla GRECO um spillingarvarnir á Íslandi frá árinu 2018, auk eftirfylgniskýrslu ársins 2020, sýndi fram á að mikil þörf var á að bregðast við skorti á spillingarvörnum í málefnum löggæslu. Koma verður á öflugum vörnum gegn spillingu og hagsmunaárekstrum innan lögregluembætta. Ráðast þarf í endurskoðun á siðareglum lögreglu, efla þjálfun og fræðslu um siðareglur og setja á fót raunverulegt sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu. Koma verður í veg fyrir pólitísk afskipti af lögreglu og tryggja að allar stöður séu auglýstar. Þar ráði einungis hæfni frekar en pólitísk tengsl ákvörðun um ráðningu. Innleiða skal snúningshurðarákvæði gagnvart lögreglumönnum og setja skýr lög um uppljóstraravernd innan lögreglunnar. Endurskoða þarf lögreglulög með það að markmiði að tryggja að beiting þeirra brjóti ekki á rétti almennings til friðsamra mótmæla.
Tilheyrandi mál: | Stefna um baráttu gegn spillingu |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | BaldurK | Á félagsfundi þann 13. júlí 2021 var samþykkt að setja stefnu um baráttu gegn spillingu í vefkosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata í samræmi við grein 6.7 í lögum Pírata: Fundargerð fundarins má nálgast hér: https://office.piratar.is/index.php/s/bQxDamD6ey6Mrey |