Samþykkt: Grunnstefna utanríkismála
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
- 1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
- 2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
- 4.2 Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvarðanatöku.
- 6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvörðunartöku um málefni sem varða þá.
Með hliðsjón af:
- Tilvist Íslands í alþjóðlegu samfélagi.
- Skuldbindinga Íslands við önnur ríki.
- Þess að Ísland er smáríki sem engu að síður hefur haft mikil áhrif t.d. í hafréttarmálum.
- Að þátttaka okkar í alþjóðasamfélaginu er ekki einkamál stjórnsýslunnar.
álykta Píratar að:
Við mótun stefnu Íslands um samskipti við önnur lönd, milliríkjasamninga, aðrar alþjóðlegar skuldbindingar og varnarmál Íslands skal almenningur hafa aðgengi að upplýsingum og ákvarðanatöku eins og hægt er.
Tryggja skal aðgengi og framsetningu með skýrleika og einfaldleika.
Halda skal aðgengilega skrá yfir fulltrúa Íslands á erlendum vettvangi sem og um ábyrgð þeirra og starfssvið samkvæmt stöðu.
Undanskilja skal einstaklinga sem starfa að sáttamiðlun eða í öðrum álíka erfiðum og jafnvel lífshættulegum aðstæðum erlendis en þeir skulu vera þekktir af ráðherra utanríkismála, ef þörf krefur um aðstoð.
Þar sem því er komið við skal tryggja að fulltrúar Íslands séu á alþjóðlegum fundum þar sem málefni landsins eru tekin fyrir. Einnig að upplýsingum sé komið til almennings með sem einföldustum hætti um starf sem er í gangi og niðurstöður. Skerpa skal á ábyrgð hvers og eins gagnvart þjóðinni sem og ráðherra.
Birta skal opinbera skrá yfir þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, stöðu þeirra innan kerfisins og upplýsingar um ábyrgð fyrir framkvæmd og framfylgd alþjóðlegra skuldbindinga.
Í samræmi við efnahagsstefnu Pírata skal gagnsæi ríkja hvað varðar fjármál tengd utanríkisþjónustu.
Fulltrúar Íslands beiti sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda í alþjóðasamstarfi.
Markmiðið er skýrleiki, einfaldleiki og opið aðgengi almennings í lýðræðissamfélagi.
Tilheyrandi mál: | Utanríkisstefna |
---|