Samþykkt: Uppfærð umhverfis- og loftslagsstefna
Lagt er til að gera eftirfarandi breytingar á 28/2021 Umhverfis- og loftslagsstefnu:
Í stað „7,6%“ í 1.2. gr. kemur: 8,7%
Við 1.6. gr. bætist: Stígum hröð skref á þessu sviði og stefnum á að helminga nettólosun frá landi til 2030 miðað við 2019, með samspili samdráttar í losun og aukinnar bindingar.
Við 2.5. gr. bætist: Látum stjórnvöld sýna gott fordæmi með því að setja skilyrði um að sífellt hækkandi hluti opinberra innkaupa og framkvæmda hafi jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi, t.d. með því að beita umhverfisvottunum.
Við 3.6. gr. bætist: Hækkum upphæð samgöngustyrkja þannig að vinnustaðir geti stutt betur það starfsfólk sem notar virka samgöngumáta.
Á eftir 3.9. gr. bætist ný grein, svohljóðandi: 3.9.a. Umbyltum hvötum til raunverulegra orkuskipta þannig að stóraukin áhersla verði lögð á að styðja fólk til þess að kaupa reiðhjól, t.d. með beinum styrkjum í gegnum Orkusjóð og með því að vinnustaðir geti veitt starfsfólki samgöngustyrki í formi kaupleigu á reiðhjólum.
Á eftir orðunum „tveggja ára fresti“ í 4.6. gr. bætist: og alltaf innan sex mánaða frá myndun nýrrar ríkisstjórnar.
5.4. gr. sem nú hljóðar svo: „Eflum loftslagssjóð og aðra samkeppnissjóði, með sérstaka áherslu á styrki til framkvæmdaverkefna sem stuðla að samdrætti í losun“ breytist og orðist svona: Endurreisum sjálfstæðan Loftslagssjóð og eflum hann, með sérstaka áherslu á styrki til framkvæmdaverkefna sem stuðla að samdrætti í losun og fræðsluverkefna sem styðja við hugarfarsbreytingu hjá almenningi.
Á eftir 5.4. gr. bætist ný grein, svohljóðandi: 5.4.b. Nýtum þá reynslu sem er komin á fjarvinnu til að auka sveigjanleika á vinnumarkaði og bætum þannig lífsgæði og drögum úr álagi á samgöngukerfið.
Á eftir fyrri setningu 5.13. gr. bætist: Hluti af þeirri sýn skulu vera aðgerðir til að ná markmiðum um að matarsóun dragist saman um a.m.k. helming fyrir árið 2030, miðað við árið 2015.
Á undan 6.1. gr. kemur ný millifyrirsögn: Styrkir innviðir fyrir náttúru.
Á undan 6.6. gr. kemur ný millifyrirsögn: Líffræðilegur fjölbreytileiki.
Á eftir 6.8 gr. bætist ný grein, svohljóðandi: 6.8.a. Aukum rannsóknir og grípum til aðgerða til að vinna gegn útbreiðslu ágengra framandi lífvera sem geta ógnað líffræðilegum fjölbreytileika og haft veruleg áhrif á lífríkið.
Á undan 6.9. gr. kemur ný millifyrirsögn: Orka í þágu samfélags.
Í stað 6.10. gr. sem nú hljóðar svo: „Gerum raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar og hverfum frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Búið er að virkja nóg í þágu mengandi stóriðju á Íslandi. Forgangsröðum smærri notendum og nýtum orkuna til uppbyggingar grænnar nýsköpunar“ komi þrjár greinar, sem orðist svona:
6.10. Gerum raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar og hverfum frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Búið er að virkja nóg í þágu mengandi stóriðju á Íslandi og draga þarf úr vægi hennar. Tryggjum að ný orkuvinnsla nýtist til orkuskipta og nýtum orkuna til uppbyggingar grænnar nýsköpunar.
6.11. Stöndum með almenningi og smærri notendum þannig að þeim sé tryggt aðgengi að áreiðanlegri endurnýjanlegri orku á viðráðanlegu verði og að fólk sitji við sama borð hvar sem er á landinu.
6.12. Tryggjum varúðarsjónarmið til að nýir orkukostir séu ekki þróaðir á kostnað umhverfis og náttúru. Vindorka krefst þess að settur sé skýr lagarammi þar sem tryggt sé að saman fari hagsmunir almennings, náttúru og nærsamfélags.
Í stað seinni setningar 7.3. gr. koma tvær setningar sem orðast svo: Aukum aðgengi fólks að viðgerðaþjónustu og varahlutum, bæði með breytingum á skattkerfinu og beinum stuðningi, til að lengja líftíma tækja og hluta. Skyldum framleiðendur til að framleiða vörur þannig að auðvelt sé að gera við þær.
Á eftir 7.4. gr. kemur ný grein, svohljóðandi: 7.4.a. Gerum áætlun um endurvinnslu í hringrásarhagkerfinu sem hafi það að markmiði að allar vörur séu endurvinnanlegar og fram komi skýrt og skilmerkilega á hverri vöru hvernig standa skuli að endurvinnslu hennar. Endurvinnsluferli verði gerð gagnsæ og rekjanleg og sérstaklega stuðlað að innlendum hringrásarferlum þar sem hægt er.
Á eftir fyrri setningu 7.6. gr. bætist: Þróum skipulag og hlutverk Úrvinnslusjóðs þannig að hann geti betur sinnt því lykilhlutverki sem hann þarf að hafa til að draga úr úrgangi og auka endurvinnslu. Jafnframt þessu þarf að bæta eftirfylgd með endurvinnslu og auka áreiðanleika gagna til þess að almenningur geti treyst því að úrgangur sem hann flokkar verði raunverulega endurunninn.
Í stað „2030“ í 7.8. gr. kemur: 2027.
Við 7.11. gr. bætist: Höldum borgarafundi um allt land, breytum í framhaldinu skipulagi landsbyggðastrætós þannig að hann þjóni þörfum íbúa til að komast á milli staða innan síns svæðis og á milli landsvæða. Aukum stuðning við strætó um allt land þannig að kostnaður haldi fólki ekki frá því að nýta sér vistvænan ferðamáta.
Á eftir 7.12 gr. kemur ný grein, svohljóðandi: 7.13. Styðjum sveitarfélög til að skipuleggja og byggja upp innviði sem auka seiglu gegn mögulegum afleiðingum loftslagsbreytinga, þar sem sérstaklega verði horft til náttúrulegra lausna.
Á eftir „loftslagsmál“ í 8.4. gr. bætist: og líffræðilegan fjölbreytileika.
Í stað 8.9. gr. sem nú hljóðar svo: „Tölum fyrir alþjóðlegu samstarfi um náttúruvernd, sér í lagi á norðurslóðum. Göngum fram með góðu fordæmi, með því að banna olíuleit og beita okkur í framhaldinu fyrir alþjóðlegu banni gegn olíuleit og nýrri olíuvinnslu“ komi þrjár greinar sem orðast svona:
8.9. Tölum fyrir alþjóðlegu samstarfi um umhverfis- og náttúruvernd, sér í lagi á norðurslóðum. Virkjum samstöðu Norðurlandanna til að stefna sameiginlega að metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum og setjum þannig þrýsting á Evrópusambandið að ganga enn lengra í þágu loftslagsmála.
8.10. Stöndum með umhverfis- og náttúruvernd og beitum varúðarreglunni á alþjóðasviðinu með því t.d. að styðja bann við námavinnslu á hafsbotni, beita okkur fyrir alþjóðlegu banni gegn olíuleit og olíuvinnslu og að norðurskautssvæðið njóti sérstakrar friðlýsingar.
8.11. Beitum okkur fyrir því að vistmorð verði viðurkennt sem brot á alþjóðalögum.
Greinargerð
Við undirbúning kosningastefnu fyrir Alþingiskosningar 2024 kom í ljós að uppfæra þurfti nokkur atriði umhverfis- og loftslagsstefnu Pírata í ljósi breytinga sem orðið hafa á þeim tíma sem liðinn er frá samþykkt stefnunnar. Hér eru lagðar til nokkrar mjög afmarkaðar breytingar til að koma til móts við það.
Í fyrri útgáfu stefnunnar miðaði árlegur samdráttur í losun við það sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) taldi vera nauðsynlegt til að halda hlýnun innan 1,5°C. Aðgerðaleysi ríkisstjórna er orðið þess valdandi að enn meiri aðgerðir þarf til að ná árangri. Hér er því árlegt samdráttarmarkmið uppfært til samræmis við UNEP Emissions Gap Report 2023, enda taka Píratar ákvarðanir á grundvelli vísindalegra upplýsinga. Hversu hátt þarf að setja markið endurspeglar fyrst og fremst hversu lengi stjórnmálafólk hefur hundsað loftslagsvandann. Aðgerðaleysi fyrri ára þýðir að mun meiri aðgerðir þarf á næstu árum ef ætlunin er að ná þeim árangri sem vísindin kalla á.
Mikil sóknarfæri eru í því að draga úr losun frá landnotkun, sérstaklega hvað varðar endurheimt votlendis. Á næsta kjörtímabili mætti byrja á því að kortleggja með skjótum hætti framræst land í ríkiseigu sem mætti endurheimta mjög hratt. Í framhaldinu væri hægt að vinna með ólíkum landeigendum. Hér er því lagt til að setja skýr töluleg markmið til að hvetja þá vinnu áfram.
Ríki og sveitarfélög eru ekki bara mikilvæg til að setja reglur og ramma utan um rekstur samfélagsins, heldur eru þau stór kaupandi á vörum og þjónustu. Með því að skilyrða hluta þeirra útgjalda til að kaupa vörur og þjónustu sem eru með umhverfisvottun, auk þess að stærri framkvæmdir séu valdar á þeim sömu forsendum, getur hið opinbera haft mikil og jákvæð áhrif.
Með því að hækka skattfrelsismörk samgöngustyrkja getur ríkið búið launagreiðendum það umhverfi að styðja kröftulega við starfsfólk sitt þegar kemur að umskiptingu yfir í vistvæna ferðamáta. Þannig er hægt að virkja vilja almennings til að ná árangri fyrir hönd ríkisins til að berjast gegn loftslagsbreytingum, án þess þó að skapa mikinn kostnað fyrir ríkið.
Á undanförnum árum hefur almenningur sýnt svo um munar að hann er tilbúinn að hjálpa stjórnvöldum til að ná markmiðum um orkuskipti. Fjölgun rafbíla sem hafa notið gríðarlegra ívilnana, sem og reiðhjóla og rafmagnsreiðhjóla, sem hafa notið takmarkaðari skattastuðnings, sýnir að með réttum hvötum er hægt að hvetja þessa þróun áfram. Allt of lítill kraftur hefur hins vegar verið settur í stuðning við hjólafólk miðað við rafbílaeigendur, sem orkar tvímælis í ljósi þess að fólk sem stundar samgönguhjólreiðar dregur ekki bara úr útblæstri heldur fækkar bílum á götunum. Hér er því lagt til að unnið verði að ýmsum leiðum til að koma betur til móts við fólk sem stundar þann vistvæna ferðamáta.
Til að undirstrika mikilvægi þess að metnaður í loftslagsmálum aukist reglulega þarf að vera skýrt að eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar sé að uppfæara aðgerðaáætlun. Frá myndun ríkisstjórnar 2021 liðu tvö og hálft ár þangað til uppfærð aðgerðaáætlun var sett í samráðsgátt - þannig að öll áætlanagerð ríkisins miðaði við löngu úrelta handbók.
Vorið 2024 voru Orkusjóður og Loftslagssjóður sameinaðir með lögum. Umsagnaraðilar óttuðust að með þessu myndi sérstaða Loftslagssjóðs tapast. Píratar lögðu til að halda sjóðunum aðskildum, en auka tekjur Loftslagssjóðs þannig að þær samsvöruðu tekjum ríkisins af ETS-kerfinu. Með þessu mætti stórauka stuðning við verkefni sem skila raunverulegum árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Eitt af því sem Covid-faraldurinn sýndi fram á var hversu vel er hægt að sinna ýmsum verkefnum á vinnumarkaði með fjarvinnu. Þennan lærdóm þarf að nýta til að móta hvata til að auka sveigjanleika til fjarvinnu og styttingarvinnu vikunnar. Með því má bæði ná fram auknum lífsgæðum fyrir fólk á vinnumarkaði en ekki síður draga úr álagi á samgöngukerfið með því að auðvelda fólki að sinna störfum á heimili sínu eða nálægt því.
Lagt er til að nefna matarsóun sérstaklega, þar sem hún hefur mikil áhrif á alla virðiskeðju matvælaframleiðslu og losun gróðurhúsalofttegunda. Matarsóun er mest inni á heimilum, eða ríflega 60% af heildarsóuninni samkvæmt UNEP, og því talsverðir fjárhagslegir hagsmunir fyrir almenning að lenda ekki í því að kaupa meiri matvæli en hann getur neytt. Í heimsmarkmiðum S.þ. er lagt til að eigi síðar en árið 2030 hafi sóun matvæla á smásölumarkaði og hjá neytendum minnkað um helming á hvern einstakling, miðað við grunnárið 2015. Hér er lagt til að nota það viðmið.
10., 11. og 13. Lagt er til að gera 6. kafla skýrari með því að skipta honum upp með millifyrirsögnum.
Ágengar framandi lífverur eru vandi víða um heim. Í áhugaverðum þáttum Arnhildar Hálfdánardóttir á Rás 1, „Innrás froskanna og fleiri kvikinda,“ birtist fyrr á árinu býsna skýr mynd í samtölum við sérfræðinga á sviðinu. Hvort sem er í sjó eða á landi, þá hefur allt of litlu fjármagni verið veitt í rannsóknir til að fylgjast með nýjum tegundum í lífríkinu og meta hvort þær geti haft skaðleg áhrif. Þessari forgangsröðun er mikilvægt að breyta út frá varúðarsjónarmiðum og í þágu líffræðilegs fjölbreytileika.
Lagt er til að skipta 6.10. gr. upp og í staðinn komi þrjár tengdar greinar:
6.10.: Í umræðu undanfarinna missera um mikilvægi þess að virkja í þágu orkuskipta hefur orðið sífellt skýrara hversu bagalegt er að ekkert í lagarammanum tryggir að slík loforð haldi. Ef nýjar virkjanir eiga að rísa þarf að vera skýrt að sú orka nýtist til orkuskipta og uppbyggingar grænnar nýsköpunar.
6.11. : Í umræðu undanfarinna missera um meintan orkuskort hefur orðið sífellt skýrara hversu bagalegt er að almenningur og smærri fyrirtæki njóti ekki sérstakrar verndar í raforkukerfinu. Þessi áherslupunktur skiptir sífellt meira máli og er því gerður að sjálfstæðum punkti en var áður hluti af 6.10. gr.
6.12.: Um þessar mundir eru 30-40 hugmyndir að vindorkuverum á borði Orkustofnunar, þó enn eigi eftir að samþykkja lög sem skilgreini leikreglur utan um þessa tegund orkukosta. Tilraunir til þess hafa strandað fyrir síðustu tvær Alþingiskosningar. Þessi staða hefur skapað ágreining og spennu í sveitarfélögum víða um land.
Lítilsháttar breyting til að undirstrika að aðgerðir til stuðnings viðgerðaþjónustu geta verið ýmiskonar, ekki bara með því að fella niður skatt. Til dæmis hefur þingflokkur Pírata lagt fram frumvarp um hringrásarstyrki, þar sem fólk getur sótt um endurgreiðslu á viðgerðum. Við vinnslu þess máls kom fram að reynsla í öðrum ríkjum væri sú að með þessum hætti væru meiri líkur á að stuðningurinn skilaði sér beint til neytandans en með breytingum á skattkerfinu. Þá er lagt til að banna svokallað „planned obsolescence,“ þ.e. að framleiðendum verði skylt að framleiða vörur þannig að auðvelt sé að gera við þær.
Markvissar aðgerðir þarf til að tryggja að sem auðveldast sé að endurvinna vörur, bæði með því að skilgreina hvaða efni megi vera í þeim og að fólk geti með skjótum hætti séð hvernig skuli standa að endurvinnslu þeirra. Samhliða því þarf að skoða hvernig hægt sé að leysa þau verkefni með innlendum hringrásarferlum. Þessi grein byggir á tillögu sem þingflokkur Pírata hefur ítrekað lagt fram á Alþingi.
Þrátt fyrir skýra niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um að bráðnauðsynlegt sé að stokka upp í skipulagi Úrvinnslusjóðs, þá hafa þær breytingar ekki náð fram sem lagabreytingar. Það er mikið hagsmunamál fyrir innleiðingu hringrásarsamfélags að Úrvinnslusjóður sé í stakk búinn til að sinna forystuhlutverki til að draga úr úrgangi og auka endurvinnslu. Þess vegna er lagt til að uppfæra þessa grein þannig að sjóðurinn sé skýrt tilgreindur.
Í ljósi þess að ríki og sveitarfélög halda sameiginlega utan um allar almenningssamgöngur á landi, þá er tiltölulega einfalt praktískt úrlausnarefni að ráðast í sameiginlegt átak til að ná fram kolefnishlutleysi. Því er lagt til að flýta þessu markmiði.
Við umfjöllun um samgöngumál á undanförnum árum hefur komið skýrt fram að almenningssamgöngur eru í talsverðu lamasessi úti um landið. Tíðni er of lítil, óljóst hverjum leiðakerfi eiga að þjóna og miðaverð er fráhrindandi. Til að bæta úr þessu væri einfaldast að kalla til samtals öll þau sem eiga hagsmuna að gæta, teikna upp leiðakerfi sem þjónar þörfum fólks á hverju svæði og í framhaldinu fjármagna þær breytingar sem þarf til að gera landsbyggðastrætó að raunhærfum valkosti um allt land.
Líkt og fram kemur í loftslagsaðlögunarstefnu Pírata, þá er mikilvægt að íslensk stjórnvöld grípi þegar í stað til aðgerða sem miða að því að lágmarka samfélagslegan skaða loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag. Ýmsir innviðir sem eru á ábyrgð sveitarfélaga geta bæði haft áhrif til að draga úr eða auka loftslagsbreytingar, auk þess sem afleiðingar loftslagsbreytinga munu reyna á innviði sveitarfélaganna. Það er mikilvægt að ríkið og sveitarfélög vinni þétt saman, öllum almenningi til hagsbótar.
Lagt er til að nefna líffræðilegan fjölbreytileika til jafns við loftslagsmál til að undirstrika að þessar tvær grundvallaráskoranir verða ekki slitnar í sundur.
Lagt er til að skipta 8.9. gr. upp og í staðinn komi þrjár tengdar greinar:
8.9.: Hið nána samstarf sem einkennir Norðurlöndin býður upp á einstakt tækifæri til að lyfta þeim upp sem nokkurs konar metnaðarbandalagi þegar kemur að loftslagsmálum. Með því móti gætu norrænu ríkin ýtt hvert öðru út í áhrifaríkari aðgerðir, en jafnframt nýtt það góða fordæmi til að setja þrýsting á önnur ríki og ríkjasambönd.
8.10.: Ýmis stór álitaefni í alþjóðlegri náttúruvernd snúast um hugmyndir sem gætu haft sérstaklega mikil áhrif á Ísland, eins og önnur ríki sem stóla mikið á heilbrigði sjávar. Hér er lagt til að íslensk stjórnvöld tali skýrt máli varúðarreglunnar á alþjóðasviðinu, þannig að ekki sé farið af stað með nýjan iðnað eða haldið áfram gömlum sem gæti raskað verulega vistkerfum. Í þessari grein er talað um alþjóðlegt bann gegn olíuleit, en samsvarandi grein um bann við olíuleit á íslensku yfirráðasvæði er í 1.8. gr.
8.11.: Stærstu árásir á náttúru og umhverfi eru af völdum risastórra alþjóðlegra fyrirtækja, sem oft nýta sér glufur í alþjóðlegu regluverki til að komast undan ábyrgð. Tillaga þingflokks Pírata um vistmorð, sem var lögð fram vorið 2022, snýst um að vistkerfi Jarðar eigi sér málsvara í réttarsal, þar sem hinir ábyrgu aðilar verði látnir svara til saka.
Tilheyrandi mál: | Uppfærð umhverfis- og loftslagsstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Kristin | https://x.piratar.is/polity/1/document/489/ Tengill á núverandi stefnu Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
Álykta Píratar að gera eftirfarandi breytingar á 28/2021 Umhverfis- og loftslagsstefnu og eru lagðar fram hér til samþykktar eftir kynningu á félagsfundi 29.10.24 |