Samþykkt: Lista- og menningarstefna

Tillaga þessi hefur verið samþykkt með atkvæðagreiðslu.
Tilheyrandi mál:Lista- og menningarstefna

Útgáfur

# Staða Höfundur Lýsing
1 Samþykkt Kristin

Listir og skapandi greinar

Inngangur:
List er óaðskiljanleg samfélaginu sem hún sprettur úr. List speglar samfélagið og er virkt afl í mótun þess.

List speglar ekki aðeins raunveruleikann heldur er virkt afl í mótun hans, og því geta birtingarmyndir á einsleitri ímynd Íslands í listum verið útilokandi fyrir stóran hóp Íslendinga og ýtt undir hamlandi staðalímyndir.

List getur afhjúpað ranglæti og sýnt okkur réttlæti. List getur dregið fram það besta í fjölbreytileika samfélags en um leið það versta, séu þröngar hugmyndir um samfélagsgerð okkar látnar ráða. Því er mikilvægt að sporna gegn einsleitnum birtingarmyndum í listum sem eru útilokandi fyrir stóran hóp landsmanna og ýta undir sundrung og skautun, og vinna gegn markmiðum menningarstefnu Ísland um sameiningu og skilning í krafti listanna.

Í skýrslu menningar- og viðskiptaráðuneytisins um Framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi kemur fram að beint framlag menningar og skapandi greina nam 3,5% af landsframleiðslu árið 2023, en til samanburðar þá nam framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu 4% sama ár. Hver króna sem hið opinbera fjárfestir í menningu og skapandi greinum skilar þremur krónum til hagkerfisins. Píratar taka undir með skýrsluhöfundum að það þurfi að líta á menningu og skapandi greinar sem eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, og sem efnahagslega og samfélagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar.

Listin hefur gildi í sjálfri sér. Efnahagslegt-, samfélagslegt- og jafnræðis- gildi hennar er stórkoslegt en listrænt gildi hennar er nóg til að réttlæta tilveru hennar. Ef horft er til aukinnar sjálfvirkni í framtíðinni mun hlutverk lista og skapandi greina gjörbreytast, úr því að vera iðkun fárra og neysluvara margra yfir í að vera grunnstoð lífsstíls fólks sem hefur meiri tíma til að sinna ástríðum sínum. Jafnræði, fagmennska, gagnsæi og sjálfbærni verða að vera í fyrirrúmi til að tryggja heilbrigt listalíf framtíðarinnar.

Listmenntun
Listsköpun og -þjálfun á að vera ríkur þáttur af uppeldi allra barna. Það þarf að valdefla börn til að hugsa út fyrir boxið og framkvæma hugmyndir sínar sem munu hjálpa mannkyninu að lifa af í framtíð sem við getum ekki byrjað að ímynda okkur núna. Meðfram þróun gervigreindar er nauðsynlegt efla það sem aðskilur okkur frá tækninni, eins og samkennd okkar, og eru listir og skapandi greinar grundvallaratriði í þeim áherslum.
Listmenntun leikur lykilhlutverk í að rækta gagnrýna hugsun, lestrarskilning, greiningarhæfni og almennt læsi barna og fullorðinna á samfélagið. Að börn fái grunnskilning í listrænum aðferðum líkt og hljóðfæraleik, leiktúlkun eða sjálfbærinni hönnun leiðir til aukinnar sköpunargáfu hjá einstaklingum á öllum sviðum samfélagsins, í listum eða í öðrum greinum. Þar vega listform líkamans þungt, eins og dansinn, sem tengir fólk við líkamann og er mikilvæg aðlögun við áhrif gervigreinar. Aðgangur barna að listmenntun eins og ritlist og menningarstofnunum eins og leikhúsum er einnig uppistaða í varðveislu og þróun íslenskrar tungu. Auka skal samstarf liststofnana við menntakerfið.
Aðgengi fullorðinna að listmenntun á ekki að vera skert sakir samfélagslegrar stöðu eða uppruna. Listmenntun eykur skilning einstaklingsins á samfélagið og er mikilvæg til þess að efla lýðræðismeðvitund okkar.
Listaháskóli Íslands á að vera mótandi afl í listalífi landsins en hefur hingað til verið fjársveltur og í óviðunandi húsnæði. Píratar vilja beita sér fyrir fullnægjandi fjármagni til Listaháskólans og að fundin sé framtíðarlausn fyrir stofnunina í einu húsnæði sem hýsir allar deildir hans.

Aðgengi og fjölbreytileiki
Píratar vilja auka aðgengi þeirra hópa sem hingað til hafa ekki átt greiðan aðgang að listmenntun og störfum innan listgreina. Það eru mannréttindi að stunda listir og Píratar vilja tryggja almennt aðgengi að listum og listnámi á öllum menntastigum óháð efnahag, búsetu, uppruna, líkamsgetu eða annarra þátta.
Barnamenningu á að vera hampað eins og auðið er. Börn eiga að fá að tjá sig um málefni sem þau varðar og stunda listir á eigin forsendum, innan og utan stofnana. Píratar telja að bæta þurfi rannsóknir og skilning á barnamenningu eins og hún er stunduð af börnum.
Aukinn sýnileiki og fjölbreyttar birtingarmyndir ólíks fólks í listframleiðslu er forsenda fyrir réttlátara samfélagi. Liststofnanir líkt og Listaháskólinn, Þjóðleikhúsið og RÚV eiga að endurspegla félagslegan og menningarlegan fjölbreytileika samfélagsins, en gera það ekki eins og stendur. Það er á ábyrgð þessara stofnana að auka fjölbreytileika í verkefnavali, ráðningum og innritun nemanda til að auka verulega þátttöku og sýnileika jaðarsettra hópa. Stofnanir skulu setja sér stefnu í aðgengi og inngildingu, og lifandi aðgerðaáætlun sem fylgt er eftir. Til þess þurfa þær aukið fjármagn og vilja Píratar beita sér fyrir því.
Píratar vilja sérstaklega auka aðgengi fatlaðra nemenda að listnámi á öllum menntastigum, og eyrnamerkja sérstaklega fjármagn til stofnana svo þær geti framfylgt þeirri stefnu.
Efla þarf listmenntun og listsköpun á landsbyggðinni og því þarf að styðja við núverandi stofnanir og bæta aðstöðu þeirra. Veita þarf auknu fjármagni til listrænna verkefna sem virkja samfélög á landsbyggðinni. Það þarf að styðja stofnanir líkt og Þjóðleikhúsið við að framfylgja lagalegu hlutverki sínu gagnvart landsbyggðinni (sjá lög um Þjóðleikhúsið). Bæta þarf aðgengi ungmenna og fullorðinna utan höfuðborgarsvæðisins að framhaldsnámi í hljóðfæraleik svo þau standi ekki hallandi fæti í samkeppni við nema af höfuðborgarsvæðinu. Einnig þarf að aðstoða Listaháskólann við að ná til nemenda á landsbyggðinni til dæmis með ferðastyrkjum fyrir inntökupróf og fjármögnun kynninga á námi skólans.
Píratar vilja beita sér fyrir aukinni þátttöku listafólks af erlendum uppruna í listnámi og lista- og menningarstarfi. Þá eru Píratar fylgjandi því að listamenn utan Evrópu, bæði þau sem hafa stundað nám á Íslandi og önnur, geti sótt um listamannavisa á Íslandi eins og tíðkast í öðrum löndum. Þá þarf að stórauka sýnileika fólks sem hefur annað móðurmál en íslensku í liststofnunum eins og leikhúsunum og fjölmiðlum eins og Ríkisútvarpinu.
Breyta þarf lögum svo hægt sé að safna lýðfræðilegum upplýsingum og rannsaka hagtölur í listum og skapandi greinum líkt og í öðrum atvinnugreinum. Þar skal taka saman tölur og breytur eins og uppruna, kyn og búsetu. Það er grunnforsenda þess að hægt sé að bregðast við þegar ákveðinn hópur fólks er ekki sýnilegur í stofnunum miðað við flóru samfélagsins. Einnig skulu fara fram rannsóknir á lýðfræðilegri samsetningu þeirra sem að sækja listviðburði.
Aðgengi að menningu eru mannréttindi. Leita þarf leiða svo aðgengi að menningu og listviðburðum sé ekki skert af fjárhag einstaklinga. Einnig þarf að bæta fjármögnun menningarstofnana á borð við Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands en afleiðing fjárskorts er að áherslur liststofnanna breytast frá listrænum hugsjónum að því að forgangsraða markaðshugsun sem hefur gífurleg áhrif á gæði listarinnar. Tryggja þarf framfærslu menningarstofnana svo fé úr styrkjapottum nýtist betur til afmarkaðra verkefna. Píratar hvetja til þess að stofnanir útfæri leiðir til að fólk geti greitt fyrir listviðburði eftir kaupmætti, til dæmis með greiðslugetu skala (sliding scale).

Kjör listafólks
Listamenn treysta á opinberan stuðning til að þrífast og nánast ógjörningur að starfa við listir án hans. Meðhöndlun opinberra fjármuna þarf að vera fagleg og gagnsæ, og byggð á jafnræði. Tryggja þarf góð rekstrarskilyrði fyrir ríkisstofnanir í listum og aðrar stofnanir, svo þær geti með góðu móti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og framþróun í takt við þróun samfélagsins. Einnig er mikilvægt að styðja við sjálfstæðu listasenuna til að hlúa að grasrótinni, nýliðun og listrænni fjölbreytni. Það þarf að gera meðal annars með samráði og heildrænni innviðauppbyggingu byggðri á þarfagreiningu, til að tryggja það að sjálfstæða senan hafi aðgang að nægum sýninga- og æfingarýmum og þurfi ekki að reiða sig á leigutekjur frá utanaðkomandi aðilum.
Stórbæta þarf starfsöryggi og kjör listafólks sem oftar en ekki hrekst úr faginu vegna þess að þau geta ekki lifað af listinni, og hvað þá stofnað til fjölskyldu. En þetta á við um unga nýliða í listgreinum jafnt sem þau reynslumeiri. Það leiðir til þess að þekking og alþjóðleg tengslamyndun hverfur úr iðnaðinum, fyrirmyndir fyrir yngri kynslóðina hverfa, listræn gæði lækka, sjálfbærni er ekki forgangsraðað og tengsl listalífsins við almenning stórminnka. Áhrifin eru slæm bæði hagfræðilega og menningarlega.
Styrkjakerfin sem sjálfstætt listafólk reiðir sig á í dag þarf að endurhugsa frá grunni í samstarfi við Bandalag íslenskra listamanna. Eins og sjóðirnir eru í dag þá koma þeir í veg fyrir samfellu í starfi, heilbrigða nýliðun og aðgengi jaðarsettra hópa að listum. Árangurshlutfall er aðeins brotabrot af umsóttum umsóknum í öllum listgreinum, og hefur fjármögnun þeirra ekki verið í takt við fólksfjölgun eða aukningu á listmenntun á háskólastigi á síðustu áratugum. Endurskoða þarf styrkjakerfin með hliðsjón af öðrum Norðurlöndum, til dæmis hvernig Noregur hefur útfært sína langtímastyrki. Meta þarf framlag sjálfstæðu listasenanna (til dæmis með hlutfalli af miðasölu eða áhorfendum/gestum), og haga fjármagninu eftir því. Auk þess sem sjóðirnir eru efldir fjárhagslega vilja Píratar tryggja nýliðunarstyrki til ungs listafólks, þróunarstyrki til lengri verkefna, og að gerðir séu langtímasamningar við reyndara listafólk- eða hópa. Auk þess ætti að koma á fót umhverfisstyrkjum til verkefna sem hafa sérstaklega í huga nýjar umhverfisvænar leiðir í listum og hönnun. Sérstaklega þarf að horfa til stuðnings til undirfjármagnaðra samtaka, félaga og listahátíða sem styðja hagsmuni listafólks, styðja við grasrótarstarf, styðja við aðgengi og inngildingu, stuðla að ímynd íslensks listafólks út á við sem og færa alþjóðleg verkefni til áhorfenda og listunnenda á Íslandi.
Píratar vilja styðja við öndvegisstofnanir og -samtök í menningarlífi á landsbyggðinni, svo sem Sinfóníuhljómsveitir fjórðunganna, með langtímasamningum sem tryggja rekstur þeirra, gera þeim kleift að færa listir og menningu til fleiri landsmanna, styðja við grasrótarlist í heimabyggð og greiða veg smærri aðila að styrkfjármagni.
Píratar vilja bæta aðstöðu og húsakost listafólks til muna. Tryggja þarf að kjarnastofnanir og sjálfstæða senan séu með viðunandi og heilsusamlega aðstöðu til að starfa, en reyndin er sú að liststofnanir og listafólk starfar oft í heilsuspillandi og hættulegum aðstæðum. Einnig þarf húsakostur listasenunnar að vera aðgengileg öllum, bæði starfsfólki og listunnendum, og stórbæta þarf aðgengi fatlaðra bæði að stofnununum. Bæta þarf aðstöðu sjálfstæðu senunnar til muna og skal þar miða við framlag þeirra til listasenunnar yfir höfuð. Kortleggja skal og efla aðstöðu til liststarfs á landsbyggðinni. Píratar vilja sérstaklega beita sér fyrir nýju danshúsi á Íslandi, líkt og tíðkast á öðrum Norðurlöndum. Varanleg lausn þarf að finna fyrir aðstöðu og þróun óperusenunnar og byggja þarf upp starfsemi óperunnar með aukningu á fjárframlögum, með það að markmiði að hún komist í eigið húsnæði.
Rannsóknir á íslenskri menningu eru lykilþáttur í auknum skilningi okkar á samfélaginu og hvaðan við komum. Píratar telja að styðja þurfi við rannsóknir á sögu lands og þjóðar, svo sem með auknum fjárveitingum til fornminjarannsókna og fullri fjármögnun háskólanna.

Þróun, alþjóðlegur sýnileiki, sjálfbærni og varðveisla.
Píratar vilja efla gagnaöflun, rannsóknir og stefnumótun í listum og skapandi greinum með hliðsjón af öðrum atvinnugreinum. Hlutur lista innan akademíunnar skal vera efldur á forsendum listgreinanna.
Píratar vilja blómlega íslenska kvikmyndagerð. Kvikmyndamiðstöð er mikilvæg lykilstofnun þegar kemur að stuðningi við íslenska kvikmyndalist og endurgreiðslur til kvikmyndagerðar. Hún hefur stutt við uppbyggingu mikilvægra innviða fyrir kvikmyndagerð sem hefur skapað samfélaginu mikil verðmæti.
Algeng þróun þéttbýliskjarna er í átt að miðstéttarvæðingu með lýðfræðilegri breytingu hverfa og sjáum við teikn á lofti hvað þetta varðar í miðborg Reykjavíkur. Í slíkri þróun er algengt að auðmagnið ýti menningarlegu auðmagni út. Píratar standa fyrir þeirri viðleitni að standa gegn þeim þrýstingi og gera jaðarhópum og efnaminni aðilum í lista- og menningarstarfsemi kleift að starfa innan svæðisins. Ein leið er að styðja við minni tónleikastaði sem hafa verið á undanhaldi innan miðborgarinnar.
Píratar vilja styrkja fjárhagsgrundvöll menningarstofnana á sveitarstjórnarstigi og gera þeim kleift að tryggja almenningi gott aðgengi að skjölum og menningarminjum. Menningarstofnunum og öðrum aðilum í menningarlífi á sveitarstjórnarstigi skal tryggt fjármagn til þess að miðla safnkosti sínum með stafrænum hætti, eftir því sem unnt er.
Alþjóðlegur sýnileiki íslenskra lista og þátttaka í alþjóðlegu listalífi er grundvallarforsenda fyrir tengsl sem að næra sköpunarkraft íslenskra lista og ýtir undir skilning og samkennd milli ólíkra hópa. Alþjóðleg samvinna lengir líftíma listaverka, skapar útflutningstekjur og eykur tekjur íslensks listafólks. Auka þarf ferðastyrki til listafólks um leið og umhverfisáhrif ferðanna eru lágmörkuð. Styðja þarf við kynningarmiðstöðvar lista til að styðja við alþjóðlegt samstarf, nýsköpun og sýnileika íslenskra lista á alþjóðlegum vettvangi.
Setja skal af stað verkefni sem varðveita sögu og menningararf íslenskra lista og gera þau aðgengileg almenningi. Tónlistarsafni Íslands skal gert hærra undir höfði og því útvegað viðeigandi húsnæði og starfsfólk til þess að sinna mun umfangsmeiri sýningar- og fræðslustarfsemi.
Umhverfisleg sjálfbærni og hringrásarhagkerfi skal vera í fyrirrúmi í listframleiðslu. Það skal meðal annars gert með stuðning við grænar lausnir, stefnumótun og fræðslu. Styrkjum skal veita til sjálfbærinna verkefna í listum og hönnun. Stofnanir skulu setja sér umhverfisstefnu og aðgerðaáætlun.