Samþykkt: Stjórnsýsla á sveitarstjórnarstigi
Stjórnsýsla á sveitarstjórnarstigi
Með tilliti til
- Greinar §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
- Greinar §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
- Sveitarstjórnarlaga ( http://www.althingi.is/lagas/nuna/2011138.html )
- Ritsins Lýðræði í sveitarfélögum ( http://stjornsyslustofnun.hi.is/sites/stjornsyslustofnun.hi.is/files/lydraediisveitarfelogum_0.pdf )
álykta Píratar að:
Óviðunandi er að í 108. gr. sveitarstjórnarlaga sé sett 20% ófrávíkjanlegt lágmark á fjölda íbúa sem þarf til að óska með bindandi hætti eftir íbúakosningu um tiltekin mál.
Sveitarstjórnarlögum skal breytt til að heimila sveitarfélögum að lækka þetta lágmark.
Hið sama gildir um 10% ófrávíkjanlegt lágmark á fjölda íbúa sem þarf til að óska eftir borgarafundi.
Einnig skal veita sveitarfélögum heimild til að setja skemmri frest en eitt ár á hvenær framkvæma skuli íbúakosningu samkvæmt 108. gr.
Sveitarstjórnarlögum verði breytt til að veita sveitarstjórnum heimild til að láta kjósa framkvæmdastjóra sveitarfélags beinni íbúakosningu og setja lagaramma utan um slíka kosningu.
Núverandi vefkerfi, þar sem íbúar leggja sjálfir fram tillögur og kjósa um þær í umhverfi sem er aðskilið frá stjórnsýslunni sjálfri, gangi ekki nógu langt í að tryggja aðkomu íbúa að stjórnsýslunni. Vefir sem bjóða upp á íbúalýðræði skuli því tengdir beint við stjórnsýslu viðkomandi sveitarfélags, svo þeir megi nýtast sem upplýsingaveitur í báðar áttir um þau málefni sem raunverulega eru til umræðu innan stjórnsýslunnar og sem aðhaldstól gagnvart henni. Einnig skuli leitast við að halda bindandi kosningar í gegnum slíka vefi. Þessi vefkerfi verði keyrð á opnum hugbúnaði.
Unnið verði að eflingu þátttökulýðræðis og íbúasamráðs á sveitarstjórnarstigi. Í þeirri vinnu verði farið yfir ábyrgð kjörinna fulltrúa og embættismanna gagnvart þátttökulýðræði og hún skilgreind, sem og endurmenntun þeirra í aðferðum þátttökulýðræðis. Fyrirkomulag hverfaráða, þar sem þau eru til staðar, verði tekið til sérstakrar skoðunar með það fyrir augum að nærsamfélagið taki beinan þátt í þjónustu og stjórnsýslu. Einnig verði lögð áhersla á þátttökufjárlagagerð og að aðkoma, þátttaka, stuðningur og samráð við íbúa og félagasamtök verði tryggð.
Unnið verði hvar sem því verður við komið að endurskoðun stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi með skilvirkni og aukið aðgengi íbúa að upplýsingum og þjónustu að leiðarljósi. Þar skal meðal annars lögð áhersla á að gera gögn aðgengileg á opnum sniðum og á að auka sjálfsafgreiðslu í stjórnsýslunni, auðvelda þátttöku og tryggja áhrif.
Öll útgjöld sveitarfélaga verði gerð opinber og aðgengileg á vefnum. Í því verði innifalið í hvað styrkjum til lögaðila er varið. Slík upplýsingagjöf lúti þó í öllum tilfellum viðeigandi persónuverndarsjónarmiðum og lögum.
Sveitarstjórnarlögum verði breytt til að tryggja rétt íbúa til að fresta umdeildum stjórnvaldsákvörðunum sveitarfélags í framkvæmd, tímabundið, og vísa þeim í bindandi íbúakosningu.
Greinargerð
Möguleikar til beins lýðræðis á ýmsum sviðum hafa farið vaxandi undanfarna áratugi með aukinni tölvu- og netvæðingu og á það ekki síst við um sveitarstjórnarstigið, þar sem teknar eru ákvarðanir um nærumhverfi fólks. Fulltrúalýðræðið þjónar enn ákveðnu hlutverki, en það fyrirkomulag var skapað fyrir samfélag sem nú er horfið og ljóst að borgararnir geta farið að sleppa þessum millilið í síauknum mæli. Þar að auki hefur það þekkingarforskot sem stjórnmálamenn höfðu gagnvart almenningi stórlega minnkað með auknu aðgengi að upplýsingum og gagnsærri stjórnsýslu, þó enn megi bæta þar um.
Í núgildandi sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að tiltekið hlutfall íbúa geti farið fram á íbúafund eða íbúakosningu um tiltekin mál en sveitarstjórnir hafa ekki haft mikið frumkvæði að því að kynna þetta fyrirkomulag fyrir íbúum né setja upp skýrar gáttir til að auðvelda þeim það. Íbúakosning að frumkvæði sveitarfélagsins sjálfs þar sem íbúar ákveða sjálfir hversu hátt eða lágt hlutfall þeirra getur krafist íbúafundar eða íbúakosningu væri gott fyrsta skref í átt að því að vekja athygli á þessu fyrirkomulagi og virkja íbúanna til þátttöku í því.
Framkvæmdastjóra (sveitarstjóra/borgarstjóra) mætti líta á sem gátt íbúa inn í sveitarstjórn og aðhaldsafl gagnvart henni í þeirra umboði. Þá er eðlilegast að hann verði kosinn beinni kosningu af íbúum eftir því sem því verður við komið.
Í verkefninu Betri borg – bein þátttaka íbúa í ákvörðunum um umhverfis- og skipulagsmál var þátttaka borgaranna ráðgefandi, en auðveldlega væri hægt að útfæra svipað kerfi þar sem ákvarðanir væru bindandi. Hið sama gildir um vefsíðurnar Betri Reykjavík, Íbúavef Reykjanesbæjar og önnur sambærileg verkefni. Jafnframt mætti vera betra flæði frá stjórnsýslunni yfir í kerfin sem bjóða upp á lýðræðisumræður á netinu. Lögð væru til mál sem eru í gangi í sveitarstjórn og sveitarstjórnarkerfinu og fólki gefinn kostur að segja álit og kjósa. Þetta gæti eftir atvikum verið bindandi eða ráðgefandi, en það er lágmark að tryggja að almenningur sé ekki með sín mál í einu horni og stjórnsýslan með sín eigin mál í öðru horni.
Tiltölulega einfalt er að kjósa um stærri mál, eins og staðsetningu flugvallar í Reykjavík eða stækkun álvers í Hafnarfirði, en útfærsla á þátttöku fólks í flóknari verkefnum, eins og fjárhagsáætlun, er nokkuð snúnari, en þó ekki sérlega flókið úrlausnarefni, ef viljinn er fyrir hendi.
Þekkt eru dæmi t.d. frá brasilísku borgunum Porto Alegre og Belo Horizonte, þar sem 8-10 % borgarbúa taka árlega þátt í slíku þátttökuákvörðunarferli. Í Porto Alegre búa um 1,4 milljónir manna og hefur þessi aðferð verið notuð frá lokum 9. áratugar síðustu aldar með góðum árangri. Meðal þeirra breytinga sem leitt hafa af lýðræðisvæðingunni eru:
a. Spilling hvarf, enda ferlið opið og gagnsætt – engar leiðir innan kerfisins til þess að lauma fjármagni til tengdra aðila.
b. Fjármagn fluttist í meira mæli til fátækari svæða frá ríkari svæðum.
c. Grasrótarstarf efldist verulega, fólk tók sig saman um að stofna félög um forgangsröðun verkefna innan hverfa og svæða borgarinnar
Átta prósent (í Porto Alegre) þykir sumum kannski ekki mikil þátttaka, en í þessu tilviki voru það þó rúmlega 100.000 manns sem komu að ferlinu, í stað fárra kjörinna fulltrúa og embættismanna.
Víða eru brotalamir þegar kemur að gagnsæi og skilvirkni stjórnsýslunnar í sveitarstjórnum og erfitt fyrir fólk að átta sig á hvert það á að leita með hvaða erindi og hver ber ábyrgð á hverju. Þetta mætti laga bæði með bættri og notandamiðaðri upplýsingagjöf til íbúa þar sem hver og einn getur auðveldlega nálgast þær upplýsingar sem hans mál varðar og fengið leiðsögn við þau. Einnig mætti auka skilvirkni með meiri sjálfsagreiðslu í kerfinu eftir því sem því verður við komið.
Tilheyrandi mál: | Tillaga að stefnu um stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | odin |