Landbúnaðarstefna
Málsnúmer: | 58/2016 |
---|---|
Tillaga: | Landbúnaðarstefna |
Höfundur: | elinyr |
Í málaflokkum: | Landbúnaður |
Upphafstími: | 13/07/2016 16:29:20 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 20/07/2016 16:29:20 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 27/07/2016 16:29:20 (0 minutes) |
Atkvæði: | 84 (5 sitja hjá) |
Já: | 45 (53,57%) |
Nei: | 39 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun til grunnstefnu Pírata:
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir. (http://www.piratar.is/stefnumal/grunnstefna/)
Með hliðsjón af:
Umsagnir um búvörulög o.fl. til Alþingis, árið 2016.
Fjárlög 2016 – bls. 68, liðir 04-801, 04-805, 04-807, 04-811 o.fl. (http://www.althingi.is/altext/pdf/145/s/0001.pdf)
Tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld – [Sjá almennar tillögur] (http://forsaetisraduneyti.is/samradsvettvangur/tillogur) og [tillögur] (http://forsaetisraduneyti.is/media/samradsvettvangur/audlindageirinn.pdf) varðandi auðlindageirann, sjá bls. 249
Álykta Píratar:
Meginatriði nýrrar landbúnaðarstefnu Íslands verði þessi:
1. Grunnstuðningur
Virkir bændur sem viðhafa viðurkenndar starfsaðferðir eiga rétt á grunnstuðningi. Grunnstuðningi er ætlað að tryggja afkomuöryggi bænda. Greiðslurnar eru óháðar vörusölu á mörkuðum, sem getur verið sveiflukennd. Þessum beingreiðslum er einnig ætlað að stuðla að stöðugu framboði helstu matvara. Fullur grunnstuðningur hvers bónda er x (1)* kr. á ári.
Framleiðendur hafa frelsi til að bæta afkomu sína með því að aðlaga framleiðsluna að eftirspurn og þörfum neytenda á markaði.
Undanþágur frá samkeppnislögum varðandi vinnslu og dreifingu búvara, falla niður og framleiðsla, vinnsla, dreifing og sala matvæla fellur undir samkeppnislög.
Stjórnvöldum ber að skilgreina hvað telst virkur bóndi og upphæð fulls grunnstuðnings.
2. Viðurkenndar starfsaðferðir
Til að fá óskertar grunngreiðsur þurfa bændur að viðhafa viðurkenndar starfsaðferðir. Þær varða fæðuöryggi, dýravelferð, velferð plantna, sjálfbæra landnýtingu, loftslagsvernd, vatnsvernd, ástand ræktaðs lands og fleira. Kröfurnar eru ýmist lögbundnar kröfur eða teljast góðar starfsvenjur í landbúnaði og umhverfismálum og munu þróast og með tímanum.
Beingreiðslur til einstakra búa kunna að skerðast ef starfsemin fer á svig við viðurkenndar starfsaðferðir.
Bændum og búaliði skal standa til boða ráðgjöf um viðurkenndar starfsaðferðir, græna starfshætti, vatnsvernd, sjálfbæra notkun varnarefna og ráðstafanir til að bæta þróun í dreifbýli.
Stjórnvöldum ber að skilgreina hvað teljast viðurkenndar starfsaðferðir og önnur skilyrði fyrir grunnstuðningi og veita fræðslu þar um.
3. Valkvæðar og grænar greiðslur
Bændum stendur til boða viðbótarstuðningur fyrir tiltekin skilgreind verkefni. Meðal verkefna og aðgerða sem hlýtur að koma til greina að styrkja eru þróun vörumerkja fyrir matvöru og upprunamerkinga vöru, þannig að neytendur geti valið vöru með tilliti til verðs, uppruna, dýravelferðar, gæða o.fl. Einnig tæknivæðing, aðgerðir sem stuðlar að bættu öryggi og vinnuvernd, aðgerðir sem bæta dýravelferð sbr. lög þar um, gróðurvelferð, vernd dýrastofna, endurheimt votlendis, skógrækt, fegrun lands og landumsjón á vissum svæðum.
Bændur sem beita tilteknum aðferðum við ræktun, sem taldar eru stuðla að vernd loftslags og umhverfis, eiga kost á „grænum greiðslum“ pr. hektara. Þrjár mikilvægustu aðferðirnar í þessu sambandi eru viðhald túna, sáðskipti og að halda „lífræn svæði“.
Nýsköpun svo sem ferðaþjónustutengd verkefni, vöruþróun býla vegna “beint frá býli” og fleira.
Stjórnvöldum ber árlega að skilgreina styrkhæf verkefni, skilyrði og upphæðir styrkja.
4. Ungir bændur
Til að stuðla að kynslóðaskiptum eru grunngreiðslur til ungra bænda (undir 40 ára og stunda búskap) x% (3)* hærri fyrstu 5 ár búskapar.
5. Sérstakar aðstæður
Bændur sem búa á svæðum þar sem náttúrulegar aðstæður takmarka búskap eiga í sumum tilvikum rétt á allt að x% (4) hærri grunngreiðslum.
6. Meiriháttar forsendubreytingar
Þegar stuðningskerfi landbúnaðar eða starfsskilyrðum er breytt verulega af stjórnvöldum ber að gera það af fyllstu tillitssemi við bændur og tengda aðila sem verða fyrir raski eða tjóni og í sumum tilvikum bæta tjónið (5)*.
7. Hámark greiðslna
Ef heildarupphæð stuðnings einstaks bús fer yfir x (6) kr. á ári skerðast greiðslur um x% (7)*.
8. Stjórnun og eftirlit
Greiðslustofun (í dag Matvælastofnun) reiknar styrkupphæðir hvers býlis út frá ofangreindum viðmiðunum.
- (1) til (7). Stjórnvöld skilgreina árlega viðmiðanir og upphæðir styrkja, við gerð fjárlaga, að höfðu samráði við bændur, fagaðila, neytendur.
Greinargerð
Tillagan byggist á CAP, sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, sem flest Evrópulönd tóku upp árið 2013. Stefnan er öflugt „verkfæri“ til að ná fram æskilegum markmiðum um þróun landbúnaðar og landsbyggðanna. Stefnan kemur í staðinn fyrir úrelt fyrirkomulag og núverandi búvörusamningana.
Markmið landbúnaðarstefnunnar:
• Gott fæðuframboð á sanngjörnu, viðráðanlegu verði.
• Sanngjörn lífsafkoma bænda.
• Velferð dýra og gróðurs.
• Velferð landsbyggða og heilbrigð efnahagsþróun í dreifbýli.
Virkir bændur, hvort sem um er að ræða mjólkur, sauðfjár, kjúklinga, eggja, svína, grænmetis, kartöflu eða aðra eiga rétt grunnstuðningi, starfi þeir samkvæmt viðurkenndum starfsaðferðum. Einnig eiga þeir kost á viðbótarstuðningi fyrir sérstök verkefni sem talin eru mikilvæg. Stefnan gerir því ekki upp á milli búgreina. Um leið og bændum er tryggð grunn velferð opnar stefnan á kosti markaðsviðskipta og samkeppni. Bændur geta framleit það sem þeim þykir henta og aukið sinn hag ef þeir sinna þörfum markaðarins vel. Hér er því um miklar framfarir að ræða bæði fyrir bændur, neytendur og skattgreiðendur.
Stuðningur skattgreiðenda við landbúnaða er á fjárlögum 2016 um 14 milljarðar kr., eða um 4 milljónir króna á ári á bú. Auk þess er reiknaður stuðningur neytenda vegna tollverndar um 22 milljarðar kr. á ári eða um 7 milljónar kr. á bú, en rúmlega helmingur hennar nýtist ekki bændum heldur matvælavinnslum, sjá sér tillögu um tollvernd. Stuðningur í Danmörku og Finnlandi er um 3 milljónir kr. á bú á ári. Stuðningur við landbúnað hefur farið minnkandi og almennt er stefnt að því að sú þróun haldi áfram.
Árlega, til dæmis í tengslum við gerð fjárlaga, þarf að meta og ef til vill uppfæra gunnupphæðir og viðmiðanir stuðningsgreislna í samráði við bændur og fagaðila í stefnumótun, landbúnaði, umhverfisvernd, neytendur og fleiri eftir atvikum. Þessi vinna kemur í stað núverandi búvörusamninga sem eru úrelt form og verða aflagðir.
Stilla má grunnstuðing og viðbótarstuðning þannig af að heildarstuðningur verði svipaður og nú er ef vilji er fyrir því, hærri eða lægri. Stuðningur verður minna háður búgreinum en meira háður því að bændur vinni samkvæmt viðurkenndum starfsaðferðum og sinni verkefnum sem samfélagið telur þess virði að greiða fyrir svo sem endurheimt votlendis vegna loftlagsmála, ræktun skóga osfrv.
Núverandi landbúnaðarkerfi er ekki gott fyrir neytendur, skattgreiðendur né bændur. Þetta sést berlega af umsögnum um búvörsamningana sem liggja fyrir Alþingi til staðfestingar. Í umsögn Neytendasamtakanna segir m.a.: „Hugmyndir sem liggja að baki nýjum búvörusamningi ganga gegn hagsmunum neytenda, samningurinn þjónar ekki langtímahagsmunum búvöruframleiðslu, hann styrkir ekki stöðu bænda og engar tryggingar eru fyrir því að hann styrki uppbyggilega byggðaþróun í landinu.“
Stefnan gengur út á að skapa betri umgjörð um landbúnaðinn þannig að bændur hafi svigrúm til að bæta sinn hag með því að þróast eftir þörfum markaðarins og stuðlar að því að settum markmiðum svo sem um umhverfisvernd, lífræna ræktun, dýravelferð o.fl. verði náð um leið og hagur neytenda batnar með aukinni fjölbreyttni og lægri verðum.
Önnur tengd mál
Landbúnaðarstefna snýst öðrum þræði um byggðamál, fæðuöryggi, heilbrigðismál, dýravelferð, velferð plantna, sjálfbæra landnýtingu, loftslagsvernd, vatnsvernd, ástand ræktaðs lands og fleira. Um mörg þessara atriða er og verður fjallað í sér stefnum hjá Pírötum. Landbúnaðarstefnan nýtist til að hjálpa til við að ná settum markmiðum í þessum og öðrum tengdum málaflokkum.