Umsögn Pírata um frumvarp um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna
Málsnúmer: | 7/2019 |
---|---|
Tillaga: | Umsögn Pírata um frumvarp um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna |
Höfundur: | peturolithorvaldsson |
Í málaflokkum: | Menntamál |
Upphafstími: | 02/08/2019 02:08:09 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 02/08/2019 00:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 08/08/2019 00:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 16 (2 sitja hjá) |
Já: | 13 (81,25%) |
Nei: | 3 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Píratar álykta að við mál nr. S-180/2019 (Frumvarp um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna) í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar verði send inn eftirfarandi umsögn:
Píratar fagna frumkvæði Mennta- og menningarmálaráðuneytis að tillögunum, enda hefur lengi verið þörf á að styrkja stöðu lánþega LÍN. Margar breytingarnar sem lagðar eru til samræmast stefnu Pírata um málefnið einstaklega vel, til að mynda að hluti höfuðstóls fellur niður að námi loknu og að hægt sé að greiða lánin fyrirfram. Þá hafa Píratar lengi lagt áherslu á framfærslustyrki fyrir borgara með sem fæstum skilyrðum, og er efling námsstuðningskerfisins því gleðiefni. Málefnið er afar flókið og hefur mikil áhrif á marga. Sérstaklega mikilvægt er að breytingar séu vandlega úthugsaðar og að haft sé sem breiðast samráð við mótun þeirra, í anda lýðræðislegrar þáttöku og góðra stjórnarhátta. Píratar vona að þau sjónarmið sem koma fram í þessari umsögn komi að gagni við áframhaldandi vinnu að breytingum á LÍN.
Hætta getur skapast ef vextir verða sérstaklega háir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að nefnd fari yfir stöðuna og leggi til aðgerðir fari þeir yfir 4%, en þetta er afar veikur varnagli þar sem ekki er tryggt að brugðist verði við skjótlega og að staða lánþega verði tryggð á fullnægandi hátt. Séu vextir háir er einnig mögulegt að þeir éti upp stóran hluta 30% niðurfellingu höfuðstóls lána þeirra nemenda sem uppfylla skilyrði fyrir henni, og að þeir lánþegar sem uppfylla ekki þau skilyrði endi í talsvert verri fjárhagslegri stöðu en ef þeir væru í núverandi lánakerfi. Einnig eru breytilegir vextir ófyrirsjáanlegir og skapa áhættu fyrir tilvonandi lánþega.
Gerðar eru kröfur um eðlilega námsframvindu til að hljóta námsstyrk, og veittar eru undanþágur til lánþega sem lenda í erfiðleikum vegna ákveðinna afmarkaðra aðstæðna, til dæmis barneigna og örorku, en námsmenn sem tefjast vegna fjárhagserfiðleika eða annarra aðstæðna sem ekki eru talin upp í 14. gr. frumvarpsins fá enga slíka undanþágu. Einnig skapa skilyrðin aukna byrði fyrir lánþega sem eiga rétt á undanþágu þar sem þau eru oft beðin um sannanir, greiningar, og önnur formsatriði sem getur verið miserfitt að útvega fyrir fólk sem oft er þegar í erfiðum aðstæðum, og auka líkur á mistökum sem geta verið afar íþyngjandi. Best væri að takmarka slík skilyrði eins og hægt er.
Breytingar á sjóðnum í áttina að styrktarsjóði að Norrænni fyrirmynd eru jákvæðar, en vafi leikur á hvort að viðeigandi sé að breyta nafni sjóðsins í stuðningssjóð meðan að ekki er nema 30% niðurfelling á höfuðstól, sérstaklega í ljósi hækkun vaxta.
Í 2. málslið 1. msg. 9. gr. er gerð krafa um að umsækjandi sé fjarráða, en þetta takmarkar möguleika ungra iðnnema á námslánum, en iðnnám getur falið í sér nokkurn kostnað.
Afar mikilvægt er að breytingar á skipan stjórnar SÍN séu gerðar í virku samráði við hlutaðeigandi félög, og að tryggt sé að fulltrúar mikilvægra hagsmunahópa eins og námsmanna erlendis hafi aðgang að ákvarðanatöku.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að nemendur sem hyggjast fara í nám erlendis uppfylli skilyrði fyrir láni fyrir námi á Íslandi, hafi búið á Íslandi í tvö af síðustu fimm árum, og hafi “sterk tengsl við íslenskt samfélag að mati Stuðningssjóðs íslenskra námsmanna”. Einstaklega vafasamt er að fela stofnun að meta hversu sterk tengsl umsækjandi hefur við íslenskt samfélag, og skapar mikla hættu á mistökum eða jafnvel misnotkun. Gera má ráð fyrir að einstaklingur sem búið hefur hér í tvö ár af síðustu fimm og uppfyllir skilyrði fyrir láni fyrir námi á Íslandi hafi sterk tengsl við íslenskt samfélag.
Í 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir tvöföldu lögheimili, en þetta er ekki fyrirkomulag sem er mögulegt í núverandi kerfi.
Í 27. gr. frumvarpsins segir í 1. mgr. að um fyrningarfrestur kröfu vegna námslána fari eftir ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda, en þetta er þegar gildandi réttur og ákvæðið því óþarft. Aftur á móti kemur í 2. mgr. fram það nýmæli að kröfur vegna námslána skuli verða undanþegnar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, um lengd fyrningarfrests og sérreglur þeirra um slit fyrningar. Sú ráðagerð brýtur í bága við þá meginreglu skuldaskilaréttar að óheimilt sé að mismuna kröfuhöfum og er því vandséð að hún samræmist jafnræðisreglu stjórnarskrár. Tveggja ára fyrningarregla 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti var sett árið 2010 í kjölfar bankahrunsins og hefur reynst mikilvæg réttarbót, en gjaldþrot er oft eina leiðin fyrir einstaklinga til að binda enda á óviðráðanlegan skuldavanda. Með frumvarpsákvæðinu er vegið að þessu úrræði og ef það yrði að lögum myndi það grafa undan réttarstöðu skuldara, en því verður að mótmæla.
Sýslumaður Norðurlands vestra hefur lagt til að embætti sitt standi að innheimtu námslána, og gæti það aukið möguleika lánþega á að semja um endurgreiðslu ef opinber stofnun tæki að sér innheimtu.
Almennt telja Píratar margt jákvætt koma fram í frumvarpinu, en að hækkun vaxta skapi hættu á að breytingin muni veikja fjárhagslega stöðu margra lánþega miðað við áður. Gæta ætti fyllstu varkárni til að tryggja að jafnt aðgengi að námi sé ekki skert. Ef markmið frumvarpsins er að auka stuðning við nemendur er mikilvægt að því fylgi viðeigandi aukið fjármagn til SÍN. Ekki er ásættanlegt að nemendur sjálfir greiði hluta 30% niðurfellingar á lánum þeirra sem hafa tök á klára nám án verulegra seinkana.