Þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði 10% kjósenda
Málsnúmer: | 13/2019 |
---|---|
Tillaga: | Þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði 10% kjósenda |
Höfundur: | helgihg |
Í málaflokkum: | Lýðræði |
Upphafstími: | 27/08/2019 15:49:46 |
Umræðum lýkur: | 10/09/2019 16:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 03/09/2019 16:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 10/09/2019 16:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 50 |
Já: | 50 (100,00%) |
Nei: | 0 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp eða þingsályktunartillögu sem er til umfjöllunar á Alþingi. Í slíkum tilfellum framfylgir þingflokkur Pírata kröfunni ýmist með sjálfstæðum tillögum um að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu eða breytingartillögum við tilheyrandi mál svo það taki ekki gildi nema þjóðin samþykki það fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ávallt skal leitast við að þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt þessari stefnu séu bindandi ef mögulegt er.
Undantekningar og takmarkanir á rétti til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þingmál skv. 1. gr. skulu einungis byggja á þeim sem finna má í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár (grundvallaðari á frumvarpi stjórnlagaráðs).
Að öðru leyti skal litið til frumvarps til nýrrar stjórnarskrár (grundvölluðu á frumvarpi stjórnlagaráðs) til leiðsagnar um álitamál sem varða þjóðaratkvæðagreiðslur.
Greinargerð
Markmið þessarar tillögu er að innleiða beint lýðræði í þingferli Pírata á meðan enn er beðið eftir því að ný stjórnarskrá, grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs, verði lögfest. Tillagan er byggð á nýjustu útgáfu frumvarps til nýrrar stjórnarskrár, sem má finna á þingskjali 822 á 149. löggjafarþingi (https://www.althingi.is/altext/149/s/0822.html) þegar þetta er ritað.
Í 66. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um málskot til þjóðarinnar, sem fjallar um rétt kjósenda til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt, náist að safna undirskriftum 10% kjósenda. Takmarkanir á þeim rétti eru tilgreindar í 68. gr., t.d. hvað varðar fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum, skattamál og veitingu ríkisborgararéttar.
Ýmis dæmi eru um að undirskriftir gegn máli til meðferðar á Alþingi nái slíkum fjölda. Dæmi eru Icesave-málin, þingsályktunartillaga um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið án þjóðaratkvæðagreiðslu og kvótasetning makríls.
Aftur á móti er ekkert ákvæði í gildandi stjórnarskrá sem heimilar þjóðaratkvæðagreiðslu um einstaka þingmál nema fyrir atbeina forseta lýðveldisins. Því hafa slíkar undirskriftasafnanir almennt ekki leitt til þjóðaratkvæðagreiðslu, nema í þeim tilfellum sem forseti lýðveldisins hefur einnig hafnað lögum sem Alþingi hefur samþykkt, eins og í Icesave-málunum. Aftur á móti hefur rökstuðingur forseta lýðveldisins breyst mjög milli mála, enda ýmsar aðstæður sem hafa áhrif á afstöðu hans, og því hafa borgarar enga fyrirsjáanlega leið til þess að kalla fram pólitískan stuðning við að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi sér stað. Þess í stað hafa stjórnmálamenn karpað sín á milli um það hvaða mál þeir telji að eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en fara þá jafnan einungis eftir sinni eigin pólitísku sannfæringu, frekar en ákalli hinna endanlegu valdhafa, kjósenda sjálfra.
Árið 2019 voru greidd atkvæði um tillögu meðal Pírata um hvort ætti að setja orkumálastefnu Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu og var henni hafnað. Við meðferð tillögunnar, en ekki síður eftir að niðurstaðan lá fyrir, voru umræður um forsendur hennar og hvenær og undir hvaða kringumstæðum, á hvaða forsendum og með hvaða skilyrðum skuli halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvaða mál. Með öðrum orðum: hvernig eigi að velja málin sem eiga heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ýmsar mismunandi forsendur voru nefndar, sumar í andstöðu við hvora aðra, t.d. skoðanakannanir, gæði upplýsinga um málið (eða skortur þar á), eðli málsins, sérstaða orkumála, fjöldi undirskrifta gegn málinu og ýmislegt fleira.
Það er eðlilegt að óeining ríki um hvort halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu á hverjum tímapunkti eða ekki. Það er hinsvegar mjög óheppilegt að ferlið sem er notað til að taka þá ákvörðun sé óskýrt eða ekki til staðar yfirhöfuð. Afleiðingin er sú að enn ríkir ósætti um málsmeðferðina, jafnvel þegar niðurstaða liggur fyrir um hvort halda skuli þjóðaratkvæðagreiðsu eða ekki. Sú staða grefur undan tiltrú á beint lýðræði og gerir hinn eðlilega ágreining um niðurstöðuna að ágreiningi um málsmeðferðina.
Besta leiðin til að ráða bót á þessu er með því að koma á fót skýrum, fyrirfram þekktum skilyrðum fyrir því hvenær Píratar leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál og er það lagt til með þessari tillögu.
Frá upphafi hefur stefna Pírata verið að innleiða beint lýðræði með nýrri stjórnarskrá og því liggur beinast við að nýta það góða plagg til leiðsagnar.
Ný stjórnarskrá gerir ráð fyrir því að hún sé hluti af löggjafarferlinu og því er ekki hægt að afrita beint texta frumvarpsins inn í þingferli Pírata. Sem dæmi gerir ný stjórnarskrá ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fjalli um lög sem þegar hafa verið samþykkt, meðan Píratar geta einungis lagt til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en mál er samþykkt eða tekur gildi. Því er leitast við að setja á fót ferli sem endurspeglar markmið og verkun málskotsákvæðis nýrrar stjórnarskrár hvað best, helst þannig að almenningur geti leitað til frumvarps um nýja stjórnarskrá og skilið hvaða skref þurfi að taka til að Píratar bregðist við með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Með samþykkt þessarar tillögu verður það ekki lengur bara stefna að innleiða beint lýðræði með nýrri stjórnarskrá, heldur verður beint lýðræði hluti af verkferli flokksins út frá sömu skilyrðum og takmörkunum sem finnast í nýrri stjórnarskrá.
Tillagan er lögð fram með tilvísun í grunnstefnuliði Pírata:
6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
6.2 Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gegnsærrar stjórnsýslu.
6.3 Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.
Tillagan byggir einnig á eftirfarandi ályktunum Pírata:
- Stefna um útfærslu á samþykkt nýrrar stjórnarskrár: https://x.piratar.is/polity/1/document/293/