Matvæla- og landbúnaðarstefna
Stefnan var samþykkt inní kosningakerfið á félagsfundi Pírata þann 17. feb 2021: https://github.com/piratar/Skjalasafn/tree/master/Fundarger%C3%B0ir/F%C3%A9lagsfundir/2021
Málsnúmer: | 3/2021 |
---|---|
Tillaga: | Matvæla- og landbúnaðarstefna |
Höfundur: | Gormur |
Í málaflokkum: | Landbúnaður |
Upphafstími: | 23/02/2021 14:40:43 |
Umræðum lýkur: | 09/03/2021 15:13:14 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 02/03/2021 15:13:14 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 09/03/2021 15:13:14 (0 minutes) |
Atkvæði: | 76 (5 sitja hjá) |
Já: | 43 (56,58%) |
Nei: | 33 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Markmið með stefnunni er tryggja velferð dýra, náttúru- og umhverfisvernd, auk sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda í öllum þáttum landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Styðja við fjölbreytta fæðuframleiðslu, fæðuöryggi, nýsköpun og valfrelsi neytenda þegar kemur að matvælum.
Löggjafarvaldið skal móta heildræna langtímasýn um landbúnað og matvælaframleiðslu, ásamt flutningi og vinnslu hráefna og matvæla fyrir neytendamarkað. Sérfræðingar á sviði umhverfis- og loftslagsmála, landbúnaðarmála og matvælaþróunar skulu vera leiðandi í stefnumótunarferlinu. Huga þarf að ólíkum sjónarmiðum í gagnsæu samráði með þátttöku bæði ofangreindra, neytenda og hagsmunaaðila.
Að grunnframfærsla einstaklinga sem vinna við landbúnað og matvælaframleiðslu sé tryggð með skilyrðislausum borgaralaunum.
Að stutt verði við nýsköpun, rannsóknir og þróun í landbúnaði, frumframleiðslu matvæla og annarri matvælavinnslu á Íslandi, þannig að allir einstaklingar og fyrirtæki geti sótt hvatastyrki til að ná árangri í að skapa blómlegan landbúnað og öflugan matvælamarkað fyrir neytendur á Íslandi.
Að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og fjölbreytt fæðuframboð á sanngjörnu verði fyrir neytendur, m.a. að gera neytendum kleift að kaupa heilnæmar landbúnaðarafurðir milliliðalaust frá framleiðanda, tryggja matvælamerkingar og fella niður einka- og sérleyfi í matvælaframleiðslu.
Að hvatt verði til góðrar nýtingar aðfanga og umskipta yfir í umhverfisvænar aðferðir í landbúnaði, frumframleiðslu matvæla og annarri matvælavinnslu. Auk þess að matvælaframleiðsla nýti endurnýjanlega og vistvæna orkugjafa úr innlendum orkuauðlindum og stuðli að hringrásarhagkerfi.
Að varðveita beri og viðhalda séríslenskum búfjárstofnum, t.d. með hvatastyrkjum.
Hljóti þessi stefna samþykki í kosningakerfi Pírata falla úr gildi stefna Pírata um Landbúnaðarmál frá 2013 og Landbúnaðarstefna frá 2017.
Greinargerð:
- Píratar vilja sjá heildræna framtíðarsýn í landbúnaði, frumframleiðslu matvæla, matvælavinnslu, matvælaöryggi, neytendahagsmuni og sjálfbærni og að umhverfis- og nátturuvernd, velferð dýra, hagsmunir neytenda og heilbrigð byggðarþróun sé í forgangi þegar hið opinbera beitir hvötum eða styrkjum í matvælamálum. Í langtíma-matvælaáætlun þarf að huga að öllum hlutum landbúnaðarkerfisins og annarrar matvælaframleiðslu, allt frá nýliðun og nýsköpun til dýraverndar, og verndar vistkerfa. Einnig þarf að huga að öryggi, annarsvegar heilnæmi matvæla á markaði og hinsvegar að matvælaskortur verði ekki á landinu. Setja þarf ströng viðurlög ef upp kemst um rangar eða villandi uppruna- og heilsumerkingar á matvælum af hálfu innflytjanda, sölumanna eða fyrirtækis. Þessi ferli ættu að stjórnast af sérfræðingum, en með gagnsæi og íbúalýðræði og þannig að allir landsbúar er málið varðar komi að borðinu.
- Að tryggja fólki óskilyrta grunnframfærslu eða borgaralaun stuðlar að heilbrigðri byggðaþróun og mun nýtast mjög vel fyrir einstaklinga í landbúnaði og matvælaframleiðslu, sem er einmitt árstíðabundin og sveiflukennd. Núverandi landbúnaðarstefna greiðir bændum fyrir framleitt magn og ýtir undir offramleiðslu, en borgaralaun greiða aftur á móti fyrir tíma fólks og auðvelda einstaklingum að vinna að eigin markmiðum. Píratar leggja jafnframt til að auðveldaður verði aðgangur að hvatastyrkjum og velferðarþjónustu fyrir alla landsbúa. Nýliðun í atvinnugreinum tengdum landbúnaði og matvælaframleiðslu má einnig tryggja með sveigjanlegum langtímamarkmiðum, fjárhagslegum hvötum í samræmi við langtímaáætlun í landbúnaði, t.d. þannig að frumframleiðsla sem er mikil eftirspurn eftir viðhaldist, ný framleiðsla geti þrifist og tryggt sé að tilteknar landbúnaðarhefðir glatist ekki. Um leið og borgaralaun eru tekin upp má leggja af önnur bóta- og styrkjakerfi, svo má jafnvel fara að endurskoða hinar ýmsu niðurgreiðslur og jöfnunarsjóði.
- Markmið með hvatastyrkjum til viðbótar við borgaralaun er að stuðla að fjölbreytni og nýliðun, t.d. með baunarækt, berjarækt, kornrækt og þörungarækt eða annarri ræktun, bæði til manneldis og annars, , auk þess að vinna að loftslagstengdum verkefnum, skógrækt, endurheimt votlendis eða annarri sjálfbærri landnotkun. Einnig hvetja til láréttar ræktunar, kjötræktar, sameldis fiska og grænkerafæðis og ýmislegt annað sem bændum og framsýnum einstaklingum dettur í hug og vilja framkvæma. Nýsköpun og rannsóknir eru eitthvað sem mikilvægt er að hvetja til og hlúa að í framtíð matvælaiðnaðar á Íslandi. Nýsköpun getur ýtt undir tæknivæðingu og fjölbreytni í úrvali matvæla á markaði, ef vel er að staðið og látið verður af annarri miðstýringu/ríkisinngripum hins opinbera. Hvatar til grunnrannsókna, sér í lagi vísindalegra grunnrannsókna, geta fallið vel að markmiðum um atvinnu- og matvælaöryggi landsmanna til lengri tíma litið, enda geta litlar hugmyndir þróast hægt og rólega yfir í vinnandi aðferðir.
- Mikilvægt er að hugað sé að fæðuöryggi landsbúa með eflingu á innlendri framleiðslu, markvissum milliríkjasamningum og öðrum mögulegum ráðstöfunum eins og að fjölbreyttari leiðum til að koma matvælum til neytenda. Til að hljóta hvatastyrki til matvælaframleiðslu þá þurfa umsækjendur að uppfylla kröfur um dýravernd, heilnæmi, neytendaöryggi, sjálfbærni og gagnsæi í rekstri. Leggja þarf af einkaleyfi og sérleyfi sem hefta ekki bara frjálsan markað, heldur einnig fjölbreyttni í framleiðslu og nýliðun í landbúnaði og matvælagreinum.
- Með innleiðingu hvatastyrkja er mikilvægt að stefna að því að innlend matvælaframleiðsla stuðli að loftslagsvænni landnotkun og neyslu. Endurskipuleggja þarf styrkjakerfi í landbúnaði þannig að bændur geti haft búsetu og atvinnu á býlum sínum á sama tíma og dregið sé úr framleiðslu dýraafurða. Framleiðsla á matvælum úr plöntum verði stórefld með framleiðslustyrkjum og samhliða því dregið úr innflutningi. Þannig stuðlum við að sjálfbærni í samfélaginu og höfum hringrásarhagkerfi okkur sem leiðarljós. Við minnkum með þvi sóun og kostnað, um leið og hagur framleiðenda og neytenda er tryggður. Þannig vinnur þessi landbúnaðar- og matvælastefna með öðrum stefnum um loftslagsaðlögun, orkuumskipti og sjálfbærni. Þó að borgaralaun fyrir bændur og einstaklinga í matvælaframleiðslu séu góður hvati, þá þarf einnig að stuðla að umbun fyrir hollustu matvæla, aðgerðir gegn matvælasóun, loftslagsaðlögun og sjálfbærni. T.d. má nýta styrkjakerfið úr 3. gr. auk þess að efla endurnýtingu, matvælaeftirlit og umbúðamerkingar til að hvetja til góðra umhverfishátta í öllum þáttum matvælaframleiðslu. Dýravelferð og umhverfisvernd skulu vera í samræmi við stefnu Pírata um dýravelferð. Herða skal reglur um aðstæður alifugla, svína og loðdýra á Íslandi. Auk þess sem má yfirfara allar reglur um flutning og geymslu lifandi dýra sem nýtt eru með því markmiði að minnka vanlíðan og streitu dýranna eftir því sem unnt er. Ávallt skal hafa náttúruvernd í huga, t.d. með því stuðla að betri landnotkun til búfjárbeitar. Í því samhengi er upplýsingaöflun og gagnsæi lykilatriði til að kortleggja landnotkun og samræma verklag hjá opinberum stofnunum við öflun, skráningu, viðhald og miðlun landupplýsinga á Íslandi til að viðfangsmikil aðgerðaráætlun til betri landnýtingar geti hafist.
- Verndun íslenskra búfjárstofna byggir á þegar samþykktri stefnu Pírata um Landbúnaðarmál frá 26. mars 2013. Þar kemur fram að vernda beri: s.s. forystufé, landnámshænur og íslensku geitina, auk þess að sett verði markmið í verndun íslenska hestsins, kúastofnsins og íslensku sauðfé almennt. Í því tilliti er mikilvægt að huga að eðllilegu atgervi dýranna og að þau séu virt sem skyni gæddar verur. Grein þessi er ekki til þess gerð að stuðla að auknu þauleldi dýra heldur fremur virðingarvert samlíf með dýrum í formi dýraathvarfa og húsdýrahalds án hagrænna hvata.
- Mikilvægt er að eldri stefnur Pírata um sama málaflokk falli úr gildi og verði merktar sem slíkar á vefsíðum.
Stefnan er með eftirfarandi tilvísanir til grunnstefnu Pírata:
http://www.piratar.is/stefnumal/grunnstefna
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
4.1 Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.
6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
Og með hliðsjón af öðrum stefnum:
Aðgerðarstefna Pírata í loftslagsmálum, https://x.piratar.is/polity/1/document/297/
Atvinnuréttindi, frelsi og lýðræði á vinnumarkaði, https://x.piratar.is/polity/1/document/454/
Dýrahald og velferð dýra, https://x.piratar.is/polity/1/document/44/
Loftslagsaðlögunarstefna, https://x.piratar.is/polity/1/document/450/
Orkumálastefna, https://x.piratar.is/polity/1/document/215/
Sjávarútvegsstefna, https://x.piratar.is/polity/1/document/15/