Samþykkt: Jafnréttisstefna
JAFNRÉTTISSTEFNA PÍRATA Í REYKJAVÍK
Í samræmi við Grunnstefnu Pírata
- 1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
- 1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
- 2.2 Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.
- 2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
- 4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
- 4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
- 4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
- 6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
Og með til tilsjónar:
Stefnu um málefni transfólks:
Stefnu um flóttafólk:
Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar:
Og Lög um málefni innflytjenda
Álykta Píratar í Reykjavík að:
A: Jafnrétti skal vera skilyrðislaust.
B: Allt fólk á sér mannhelgi.
C: Ofbeldi á ekki að líðast í neinu formi.
D: Vinna þarf gegn margþættri mismunun.
E: Í allri stefnumótun og úrlausn málefna skal haft samráð við viðeigandi hagsmunasamtök og einstaklinga.
F: Tryggja skal möguleika allra til þátttöku og aðgengi að lýðræðissamfélaginu.
Eftirfarandi atriði skal vinna að til að ná þessum markmiðum:
- Styrkja skal og styðja við grasrótar- og félagsstarfsemi sem ýtir undir jafnrétti allra. Leita skal eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu við rekstur slíkrar starfsemi.
- Við alla stefnumótun skal hafa í huga jafnréttissjónarmið, hvort sem varðar kyn, kynhneigð, kyntjáningu, kynvitund eða annað kyngervi.
- Vinna skal með virkum hætti gegn kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi gegn öllum kynjum.
- Við útdeilingu styrkja úr opinberum sjóðum og fjárhagsáætlanagerð skal gæta sérstaklega að jafnrétti og huga að fjölbreytileika styrkþega.
- Setja skal á fót stýrihóp sem gerir úttekt á klefa- og salernisaðstæðum og tillögu til úrbóta þar sem við á til að gefa öllum kynjum rými í opinberum byggingum eins og skólum, sundlaugum og íþróttahúsum. Þetta skal gert með aðkomu hagsmunasamtaka er málið varðar.
- Opinber skráningarform skulu gera ráð fyrir öllum kynjum.
- Meta þarf kerfislægt launamisrétti kynjanna og gera starfsstéttum þar sem óútskýrður launamunur er til staðar, miðað við aðrar starfsstéttir með sambærilegar menntunarkröfur, hærra undir höfði.
Margþætt mismunun
a) Vinna skal með virkum hætti gegn margþættri mismunun.
b) Setja skal á fót sérstök búsetuúrræði með sérhæfðri þjónustu fyrir konur með tvígreiningu (bæði geð- og fíknivanda).
c) Styrkja þarf stöðu kvenna af erlendum uppruna og stuðla að valdeflingu þeirra með meiri upplýsingum um réttindi og úrræði sem eru í boði á viðeigandi tungumáli.
d) Styrkja þarf stöðu hinsegin fólks af erlendum uppruna og stuðla að valdeflingu þeirra með meiri upplýsingum um réttindi og úrræði sem eru í boði á viðeigandi tungumáli.
Jafnrétti í skólum
a) Skipuleggja skal skólastarf á þann hátt að það ýti undir jafnrétti.
b) Starfsfólki í skóla- og frístundastarfi barna og unglinga standi til boða fræðsla í jafnrétti, svo sem í kynjuðum orðaforða og hvernig megi vinna gegn staðalímyndum.
c) Að samræmd jafnréttisfræðsla verði innleidd í menntastofnunum borgarinnar.
d) Að kynfræðsla taki einnig til félagslegra þátta, upplýsts samþykkis og mannhelgi. Slík fræðsla taki mið af fjölbreytileika með tilliti til kynferðis, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar eða annars kyngervis.
e) Fræðsluefni taki mið af því að vinna á móti fordómum og staðalímyndum almennt. Skoða ber aukna fræðslu til að dýpka skilning.
f) Vinna skal gegn ofbeldi, einelti og öllu misrétti í skólaumhverfinu.
g) Huga skal að ólíkum þörfum kynjanna í námi svo að sum kyn verði ekki kerfislega útundan.
Fjölskyldur og jafnrétti
a) Reykjavíkurborg virði öll fjölskyldumynstur til jafns, óháð kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, kynvitund eða annars kyngervis. Allir foreldrar barna njóti jafns tillits við úrlausn mála.
b) Styðja skal foreldra í samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, til dæmis með upptöku brjóstagjafahlés.
c) Auka skal stuðning við þolendur heimilisofbeldis, bæði líkamlegs og andlegs. Bjóða skal upp á sérstök úrræði og fræðslu fyrir hinsegin þolendur heimilisofbeldis.
d) Fyrsta forgangsatriði í umgengnismálum er réttindi barnsins. Þar skal gæta jafnréttis á öllum stigum, en með velferð og réttindi barnsins í forgrunni.
e) Fylgja skal eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tryggja öllum börnum rétt til að umgangast báða foreldra sína, takmarkanir á þeim rétti barnsins komi einungis til ef þau skarist við önnur réttindi þess, eins og réttinn til að búa í öruggu umhverfi.
f) Reykjavíkurborg tryggi að fyrir liggi réttar upplýsingar um hverjir eru foreldrar og hverjir eru forsjáraðilar barns.
g) Reykjavíkurborg gæti jafnræðis í samskiptum við foreldra og forsjáraðila barns óháð kyni foreldris og lögheimili barns.
h) Styrkir borgarinnar miðist við að foreldrum sé kleift að uppfylla þarfir barna sinna.
i) Ef upp kemur vafi við túlkun réttinda barnsins skal leita aðkomu Umboðsmanns barna.
j) Tryggja skal öllum börnum rétt til að lifa í öruggu og uppbyggilegu umhverfi.
k) Samræma skal málefni barna og fjölskyldna milli sveitarfélaga svo að mál falli ekki úr gildi eða fari á byrjunarreit þó flutt sé milli sveitarfélaga.
Tómstunda- og íþróttaiðkun
a) Íþróttafélög sem hljóta styrki frá Reykjavíkurborg skuli framfylgja skilvirkri jafnréttisstefnu.
b) Í starfsemi frístundamiðstöðva, íþróttafélaga og þjónustumiðstöðva skal hugað að jafnréttisfræðslu.
Greinargerð:
A.
Greinin þarfnast ekki útskýringar.
B.
Hugtakið mannhelgi er fengið úr 9 gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðarinnar og felur í sér tvenns konar réttindi, það er að segja rétt til persónufrelsis og rétt til persónulegs öryggis.
C.
Greinin þarfnast ekki útskýringar.
D.
Margþætt mismunun er þegar einstaklingar eru hluti af fleiri en einum minnihlutahópi eða jaðarhópi og eru því sérstaklega viðkvæmir fyrir misrétti sem gerist einmitt í krafti þess að tilheyra fleiri en einum minnihlutahópi. Margþætt mismunun er einstök og öðruvísi en sú mismunun sem einstaklingar lenda í sem eingöngu tilheyra einum minnihlutahópi. Sem dæmi má nefna fatlaða manneskju sem er líka samkynhneigð eða innflytjandi.
E.
Samráð við hagsmunasamtök og einstaklinga skal eiga sér stað á öllum stigum vinnunnar.
F.
Að vera virkur lýðræðisborgari snýst ekki bara um réttinn til þátttöku í samfélaginu heldur einnig raunhæfa möguleika til þátttöku. Slíkur möguleiki er til dæmis styrktur með aukinni meðvitund og fræðslu um að víkka andlegt og líkamlegt rými allra kynja og hópa til þátttöku í samfélaginu.
1:
Þróa skal áfram miðstöðvar til félagsstarfs hinsegin ungmenna og leita eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og viðeigandi grasrótarsamtök.
2-6:
Greinarnar þarfnast ekki útskýringar.
7:
Þegar kemur að launamisrétti kynjanna er stór hluti eftirstandandi vanda tilkominn vegna mismununar milli stórra starfsstétta þar sem meirihluti er af einu kyni (eða nálægri kynvitund).
8: a)
Greinin þarfnast ekki útskýringar.
b)
Með búsetuúrræðum fylgir einnig framboð af þjónustu. Konur með tvígreiningar eru viðkvæmur hópur sem hefur ítrekað lent í ofbeldi við nýtingu þeirra úrræða sem eru opin öllum kynjum.
c)
Konur af erlendum uppruna eru viðkvæmur hópur í samfélaginu sem skortir bakland. Þetta gerir þær berskjaldaðar gagnvart ofbeldi og kúgun eins og kom fram í frásögnum þeirra í #metoo byltingunni. Bæta þarf upplýsingagjöf og auðvelda aðgengi þeirra að þjónustu.
d)
Greinin þarfnast ekki útskýringar.
9: a) b) d)
Greinarnar þarfnast ekki útskýringar.
e)
Samtökin 78 eru með samning um fræðslu í skólum borgarinnar en fræðslan er venjulega aðeins um klukkustund. Athuga skal möguleika á útvíkkun fræðslunnar.
f) g)
Greinarnar þarfnast ekki útskýringar.
10: a)
Greinin þarfnast ekki útskýringar.
b)
Brjóstagjafahlé er hugtak fengið frá Noregi sem snýst um að konur geti komið aftur til vinnu eftir fæðingarorlof en samt haft tíma og næði til að gefa brjóst á vinnutíma. Þetta er gert til þess að auðvelda þeim að halda áfram brjóstagjöf eftir að hafa snúið aftur til vinnu og einnig að auðvelda endurkomu á vinnumarkað eftir fæðingarorlof.
c)
Hinsegin fórnarlömb heimilisofbeldis mega ekki upplifa að þau séu að vinna gegn heildinni með því að upplýsa um ofbeldið.
d) e) f) g) h) i) j) k) 11. a) b)
Greinarnar þarfnast ekki útskýringar.
Tilheyrandi mál: | Jafnréttisstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | XandraBriem |