Samþykkt: Fjölskyldu- og skólastefna
Fjölskyldu- og skólastefna Pírata í Reykjavík
Með tilvísun í:
Grein §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt.
og með tilliti til:
Almennrar menntastefnu Pírata
( https://x.piratar.is/polity/1/document/332/](https://x.piratar.is/polity/1/document/332/) )
Stefnu Pírata um menntamál
( https://x.piratar.is/issue/73/](https://x.piratar.is/issue/73/) )
Upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar (https://reykjavik.is/sites/default/files/upplysingastefna-samthykkt.pdf](https://reykjavik.is/sites/default/files/upplysingastefna-samthykkt.pdf) )
Þjónustustefnu Reykjavíkurborgar
( https://reykjavik.is/sites/default/files/thjonustustefnareykjavikurborgar.pdf](https://reykjavik.is/sites/default/files/thjonustustefnareykjavikurborgar.pdf) )
Sveitarstjórnarlaga
( https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011138.html](https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011138.html) )
Tillagna starfshóps Reykjavíkurborgar um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík
( https://reykjavik.is/sites/default/files/skyrslaleikskolakennarar.pdf](https://reykjavik.is/sites/default/files/skyrslaleikskolakennarar.pdf) )
álykta Píratar í Reykjavík að:
Barnið skuli setja í öndvegi. Skólakerfið lagi sig að þörfum barnsins, en ekki öfugt.
Reykjavíkurborg verði leiðandi í styttingu vinnuvikunnar í því skyni að auka frítíma fjölskyldunnar.
Í upplýsingum felist völd og því eigi að deila þeim með fólkinu.
Efla skuli dagvistunarmál og tengja betur saman lok fæðingarorlofs og dagvistunarpláss.
Námsúrval sé fjölbreytt og í stöðugri þróun. Skilgreina skuli hvert sé markmiðið með menntun og skólagöngu.
Forvarnir skulu byggjast á fræðslu frekar en hræðslu.
Frítími barna og tómstundaiðkun sé á þeirra forsendum en ekki kennara eða þjálfara.
Vinnuskóli Reykjavíkur skuli endurskipulagður og uppfærður.
1. Endurskoða beri allt skólakerfið með velferð, menntun og réttindi barnsins að leiðarljósi
a. Skólakerfið skuli miða að því að barnið fái menntun, frekar en að því sé skylt að stunda skóla.
b. Stefnt skuli að því að lengja leikskólann upp í 7 ára aldur.
c. Árangursmiðað heimanám skuli afnema. Þó skuli halda inni heimalestri, með áherslu á yndislestur, þar sem lestur er grundvöllurinn fyrir öðru námi.
d. Endurskilgreina skuli frímínútur og tilgang þeirra.
e. Greiningar eigi ekki að vera forsenda þess að barn fái aðstoð og þjónustu sem það þarf.
f. Efla beri úrræði fyrir börn með atferlisgreiningar.
g. Stöðumat á nemanda, skuli miða að því að skólinn geti metið eigin kennsluhætti. Skólinn miði að því að hámarka getu og hæfni nemandans.
h. Unnið skuli gegn stéttaskiptingu innan skólakerfisins.
i. Öll systkini búsett í Reykjavík skuli fá systkinaafslátt.
j. Börn og fólk fái að heita “gælunöfnum” eða “öðru nafni” í kerfum Reykjavíkurborgar.
k. Virkja skuli áhuga drengja almennt á námi og leitast verði við að bjóða þeim upp á námsefni og námsaðferðir sem höfða til þeirra.
l. Átak verði gert til að efla áhuga nemenda á lestri, m.a. með því að aðstoða nemendur við að finna út hvaða lestrarefni höfði best til þeirra og hvað vekji áhuga hjá þeim.
m. Setja skuli stefnumörkun til framtíðar í menntamálum með skýrum markmiðum.
Greinargerð:
Endurskoða beri allt skólakerfið með velferð, menntun og réttindi barnsins að leiðarljósi. Hvert er lokamarkiðið með skólagöngunni, hvernig einstaklingi skilar skólinn af sér eftir skólagönguna?
a. Engum er þjónað með ofuráherslu á viðveru, tilgangur kerfisins er að miðla þekkingu og færni og leiðin til þess er að finna leiðir til að virkja börn í starfinu og það er gert með því að höfða til þeirra með réttum aðferðum. Öllum börnum á að líða vel í skóla og þau upplifa sig örugg. Næði og traust eru mikilvæg forsenda einbeitingar.
b. Rannsóknir í nágrannalöndum hafa sýnt fram á haldbær rök fyrir því út frá taugafræði, mannfræði og sálfræðilegum vísindum að það kunni að vera skynsamlegra að kenna ungum börnum í gegnum leik fremur en leiðsögn. Er því haldið fram að árangurinn af slíkri kennslu sé sá að barnið læri betur og það skili sér í aukinni færni í lærdómi og úrlausnum síðar meir. Í Finnlandi og Svíþjóð byrja börn á sjöunda aldursári í skóla en á sjötta ári á Íslandi, Noregi og Danmörku. Sennilegt má telja að lenging leikskólanáms myndi henta betur t.d. börnum með taugaraskanir eða aðrar áskoranir. Miða skyldi við 6 tíma gjaldfrjálst og faglegt leikskólastarf daglega, en mætti bjóða upp á dagvistun lengur gegn vægu gjaldi.
Ætti skólinn frekar að hefjast við 7 ára aldur?
Átta lyklar leikskólabarna að menntun framtíðarinnar](https://www.eschoolnews.com/2013/07/03/eight-ways-kindergarten-holds-the-key-to-21st-century-instruction/)
c. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ávinningurinn af því að hafa árangursmiðað heimanám er umdeilanlegur en vísbendingar eru um að það geti haft ýmis neikvæð áhrif. Geta foreldra til þess að aðstoða við heimanám er til dæmis mismikil og hjá sumum fjölskyldum veldur það togstreitu og kvíða. Horfa ætti í hvert markmiðið með heimanámi ætti að vera. Hægt er að ná fram markmiðum á borð við að börnin spegli námið sitt heima fyrir með öðrum hætti en árangursmiðuðu heimanámi, til dæmis alls konar skapandi verkefnavinnu heima fyrir. Yndislestur verður hins vegar alltaf mikilvægur og hægt er að gera hann mjög skemmtilegan bæði fyrir börnin og foreldrana.
d. Frímínútur eru hugsaðar sem pása frá náminu, til þess að leyfa börnum (og kennurum) að hvíla hugann og einbeita sér að öðru. Líkamleg hreyfing sem kemur blóðinu á hreyfingu hjálpar við það, en það er engin frumskylda að börn fari út og viss tímaskekkja forsjárhyggju að gera þá kröfu. Það er að okkar mati engin haldbær ástæða til að leyfa börnum ekki að nota þennan frítíma á hátt sem þeim hugnast og leyfir þeim að njóta sín. Rannsóknir sýna að 50-75% tilfella eineltis og annars ofbeldis sem kann að gerast á skólatíma á sér stað í frímínútum.
Að henda öllum börnum út í frímínútur, óháð einstaklingsvilja og áhuga, allt árið um kring, út af hálfrómantískum skírskotunum í hve mikilvægt sé að upplifa íslenskt veðurfar, er einhæf og stirð hugsun. Gamaldags forsjárhyggja. Okkur hugnast betur að leggja áherslu á að frímínútur séu frítími þar sem nemendur endurhlaða sig með þeim hætti sem þeim hentar, t.d. með hugleiðslu/slökun, heimsókn á bókasafnið, lestri eða spilum eða fari út að leika sér. Börnin eru þarna að þreifa fyrir sér félagslega í fyrsta sinn og þurfa vissa leiðsögn, en líka visst frelsi.
Skólinn og lóðin er þeirra vinnustaður og þar efla þau sín félagslegu samskipti. Hér er því leitast við að auka val í frímínútum í því skyni að bæta líðan nemenda og kennara í skólanum.
f. Fjármagn er oft tengt við greiningar og því gerist það æði oft að lítið sem ekkert er gert eða hægt að gera fyrr en greining liggur fyrir. Þetta teljum við stóran vanda í þjónustu við börn og teljum að frelsi skóla til að sinna þörfum barna og nýta til þess fjármagn þurfi að auka, en jafnfram að hraða greiningarferli. Eins þarf að fjölga sérúrræðum.
g. Markmið skólanna er að koma þekkingu og færni til skila. Próf og stöðumat með öðrum hætti ættu að vera bæði til að hjálpa skólanum að meta árangur, en líka til að börn geti þekkt eigin styrkleika. Mikilvægt er að skólinn geri ekki upp á milli mismunandi færni, svo sem bóklegs náms, stærðfræði, listfaga eða verklegs náms. Einnig mætti auka vægi kannana.
h. Misskipting á Íslandi hefur aukist mjög á síðustu árum og áratugum. Sá munur finnst einnig milli skólahverfa og hefur aukist mikið síðustu 20 árin. Það má kallast eðlilegt að foreldrar vilji búa börnum sínum bestu mögulega framtíð, en áhersla hins opinbera og skólakerfisins þarf að vera á það að öll börn fái góða menntun og réttan undirbúning, óháð efnahagslegum bakgrunni. Í þeim löndum þar sem efnahagslegri misskiptingu milli hverfa hefur verið leyft að skila sér í misvel fjármögnuðum skólum hefur það undantekningalaust leitt til víxlverkunar sem ýtir enn frekar undir misskiptingu. Það er mjög mikilvægt og hluti af okkar grundvallar hugsjón að tækifæri til náms séu jöfn.
Einnig mætti efla nám í tónlist og öðru listnámi, en aðstöðumunur til slíks náms er töluverður eftir efnahag foreldra.
i. Systkini sem búa hjá sitthvoru foreldrinu fara á mis við systkinaafslátt, en engin ástæða er til þess. Jafnvel mætti færa rök fyrir því að systkini sem búa ekki saman ættu enn frekar að eiga kost á því að ganga í sama skóla.
j. Börn eru stöðugt að uppgötva og finna upp eigin sjálfsmynd. Stundum með tímabundnum hugdettum, en oft vita þau líka alveg hvað þau vilja. Það er engum greiði gerður með fastheldni á löglegt nafn, þegar það býr til erfiðleika eða óánægju. Hvort sem það er til að gera börnum kleift að tjá eigin kynvitund eða af öðrum ástæðum ætti að vera í boði að nota annað nafn eða gælunafn þegar einlægur vilji barnsins liggur fyrir.
k. Á síðustu árum hefur komið æ skýrar fram áberandi munur á námsáhuga og árangri milli drengja og stúlkna, en útskýringar eru margar og misjafnar. Telja má víst að kerfin í dag henti sumum nemendum betur en öðrum og viss tregða hefur verið að endurskoða þau kerfi, jafnvel örlað á því viðhorfi að það sé bara þessum drengjum sjálfum að kenna að passa ekki nógu vel í kerfið. Það er ólíðandi viðhorf og engum til gagns. Til að vinna bug á þessu þarf að leita aðferða til að virkja áhuga allra nemenda með mismunandi áhugasvið og mismunandi styrkleika, og finna þær leiðir sem gagnast þeim til að tengjast námsefninu og tileinka sér það. Áherslan þarf að vera á raunverulega einstaklingsmiðað nám, sem verður að vera meira en innantómur frasi. Einstaklingsmiðað nám lagar sig að þörfum barnsins en krefst þess ekki af barninu að það passi inn í fyrirfram ákveðinn kassa.
l. Lestur er gífurlega mikilvæg grundvallarforsenda frekara náms og lærdóms. Leita ætti allra leiða til að auka áhuga nemenda á lestri. Frelsi í lestrarefni má auka til muna og hvetja til lestrar á fjölbreyttu formi. Skólarnir geta aðstoðað nemendur við val og með því að hvetja þá til að finna lesefni sem passar að þeirra áhuga.
m. Menntakerfið á að styrkja þróun einstaklingsins í að vera gagnrýninn lýðræðisborgari. Nám allra einstaklinga er gróði fyrir samfélagið, óháð því hvert hann stefnir. Rekstrarkerfi og önnur atriði við skipulagningu menntakerfisins eiga að þjóna þessu markmiði. Aðalatriðið er að þetta markmið sé haft í öndvegi í öllu skólastarfi.
2. Borgin stuðli að styttingu vinnuvikunnar bæði meðal sinna eigin starfsmanna og á almennum vinnumarkaði. Borgin skuli einnig leggja sig fram við að bæta umhverfi kennara og nemenda í skólunum.
a. Núverandi markmiðið, í fyrstu umferð er stytting niður í 35 tíma á viku. Næsta umferð eigi að fara niður í 32 tíma vinnuviku.
b. Samhliða styttingu vinnuvikunnar verði stefnt að því að tryggja öllum börnum dagvistun, þar sem styttri vinnuvika dregur úr heildarþörf á dagvistun yfir daginn.
c. Með styttingu vinnuviku kennara, sem og annars starfsfólks í skólum, verði jafnframt hugað að því að bæta starfsumhverfi þeirra og launakjör. Sveitarfélög með Reykjavíkurborg í fararbroddi beiti sér fyrir því að ríkið tryggi þeim tekjur til að standa undir launahækkunum til skólastarfsfólks og endurskoði útsvar og bótakerfi til aukningar á kaupmætti launafólks.
d. Ávallt skuli leitast við að stofna samráðshópa, samsetta af kennurum og öðru skólastarfsfólki þegar ráðast á í breytingar á skólastarfinu.
e. Eldri borgurum sem og öðrum samfélagshópum sem unnið geti hlutastörf, sé gert mögulegt að koma inn í leikskólastarfið, til að auka á fjölbreytileika skólaumhverfisins.
f. Skólastarfið skuli að jafnaði ekki hefjast ekki fyrr en kl. 9 á morgnanna. Til móts við þá breytingu verði frístund í boði frá 7:30.
g. Auka skuli sjálfstæði kennara og menntastofnanna innan ramma markmiða aðalnámskrár.
h. Afnema skuli viðveruskyldu kennara fyrir utan kennslustundir.
Greinargerð
a. Styttri vinnuvika bætir andlega og líkamlega líðan starfsmanna, skammtímaveikindum fækkar og starfsánægja eykst. Með því að stytta vinnuvikuna niður í 32 tíma á viku gefur þeim sem það kjósa, færi á að vinna fjóra daga í viku og eiga frí í þrjá daga í viku. Búum til rými fyrir símenntun kennarans sem kryddar tilveruna og kyndir undir forvitni sem skilar sér í spennandi, upplífgandi og fjölbreyttum kennsluaðferðum.
b. Hér er verið að horfa til þess að áhrifin af styttri vinnuviku verði eins og keðjuverkun, því fleiri sem komast í það að vinna styttri vinnuviku, því færri stundir þurfa þau fyrir börnin sín í leikskólanum.
Með því að stuðla að þeirri fjölbreytni sem blöndun á kynslóðum er, sem og að virkja öryrkja inn í ýmis verkefni samfélagsins, eftir hæfni og getu. Verði hægt að mæta þörfum varðandi mönnun í leik- og grunnskólum.
c. Launum skólafólk almennilega og tryggjum því gott starfsumhverfi, því að grunnþarfir þarf að uppfylla til að manneskja geti verið virkur þátttakandi í lýðræðissamfélaginu - og kennt nemendum að vera slíkur. Með bættu starfsumhverfi er átt við, fjöldi barna í rými, vinnuaðstæður, launakjör o.sfrv. Sveigjanleiki í starfi verði aukinn og dregið úr álagi. Er hér meðal annars horft til skýrslu starfshóps borgarinnar um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík. Góð kjör til kennara og annars skólastarfsfólks eru börnunum í hag þar sem það laðar að hæft og metnaðarfullt fólk og heldur því í starfi. Leysa þarf úr þeim hnúti sem er á milli ríkis og sveitarfélaga, þar sem ekki fylgir nægilegt fjármagn frá ríkinu til sveitarfélaganna miðað við núverandi þjónustukröfur. Rekstur skólanna er dýr og er greiddur niður með lágum launum. Það þýðir að sveitarfélögin eru í raun með verkefni á sinni könnu sem þau ráða ekki alfarið við í núverandi umhverfi. Beita þarf þrýstingi á ríkið og fá þingmenn með í þessa vinnu. Í þessu þarf líka að felast endurskoðun á skattkerfinu og bótakerfinu til þess að auka kaupmátt allra, t.d. með hækkun persónuafsláttar og því að draga úr skerðingum á bótagreiðslum. Grunnþarfir kennara verða að vera vel uppfylltar til að þeir séu lýðræðisþegnar og geti kennt öðrum að vera slíkir.
d. Kennarar og annað fagmenntað fólk í m.a. uppeldisfræðum er best til þess fallið að skipuleggja og þekkja best þær úrlausnir eða breytingar sem þurfa eiga sér stað. Þetta er fagfólkið og þau búa yfir mestu þekkingunni og færninni. Það er sjálfsagt mál að hafa það alltaf með í ráðum.
e. Eldri borgarar og öryrkjar eru tilbúnir til að koma í hlutastörf. Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur. Lífaldur og hreysti borgara er að lengjast og eflast. Meðal eldri borgara má finna mikið af fagfólki úr t.d. Fóstruskóla Íslands sem og menntaða kennara. Tilgangur þeirra er alls ekki að koma í stað fagmenntaðs starfsfólks, heldur að koma frekar inn í líkingu við skólaliða. Þá þarf að leggja áherslu á það að ekki sé verið að reyna að bæta úr kennaraskorti með því að ráða eldri borgarar eða öryrkja í stað þeirra, þann skort þarf að leysa líka með öðrum leiðum. Ekki má heldur nota vilja þessara hópa til þess að vinna til að halda launum kennara niðri. Flestir vilja tilheyra samfélagi og vera þátttakendur í því, en hópar eins og öryrkjar og eldri borgarar eru þá ekki endilega að leita að fullu starfi, heldur frekar part úr degi, t.d. að sjá um að taka á móti börnunum á morgnana o.s.frv. Það getur verið nóg að vera hluta úr degi eða viku til þess að upplifa það að viðkomandi hafi tilgang og hlutverk.
h. Treystum kennurum til þess að sinna vinnunni sinni. Nú þegar, þrátt fyrir viðveruskylduna, þurfa kennarar að vinna mörgum stundum heiman frá sér. Gefum þeim aukið svigrúm og frelsi til að sinna hlutverki sínu, eins og þeim hentar best.
3. Upplýsingamiðlun til barna, foreldra og innan borgarkerfisins, um hagi og réttindi barna, skuli stórefla
a. Starfsfólk borgarinnar skuli hafa frumkvæði að því að veita stöðuga upplýsingagjöf til foreldra um hagi barnsins hverju sinni og réttindi þess.
b. Upplýsingaflæði um hagi barnsins, innan borgarkerfis skuli bæta með skilvirkni að leiðarljósi.
c. Auðvelda skuli foreldrum að leita úrbóta vegna misferlis eða ósættis við meðferð mála sem varða börn þeirra.
e. Endurskoða skuli námsstyrk borgarinnar til framhaldsskólanema, afnema skuli aldursþak styrksins, rýmka reglurnar og hækka styrkinn.
Greinargerð
a-b. Hér þarf þó að tryggja að kröfum um persónuvernd sé gætt til hins ítrasta. Setja skuli skýran ramma um deilingu upplýsinga sem gerir starfsfólki kleift að vinna saman að hagsmunum barnsins þvert yfir borgarkerfið. Auðvelda skuli foreldrum að leita úrbóta vegna misferlis eða ósættis við meðferð mála sem varða börn þeirra. T.d. vegna eineltis eða gruns um þörf á greiningu o.s.frv.
d. Meðal þess sem þarf að endurskoða er sú staða þeirra sem vilja fara í iðnnám en hafa lent á svörtum lista (hver svo sem ástæðan er). Þessir aðilar eru að fara í nám sem er lánshæft hjá LÍN og eiga því ekki rétt á styrknum, en geta ekki sótt um námslán af því að þeir eru á svörtum lista.
4. Dagvistunarmál
a. Taka skuli upp greiðslur með börnum sem ekki fá dagvistunarpláss, greiðslur stöðvist um leið og barn fær dagvistunarpláss.
b. Endurskoða skuli námsmannaafslátt foreldra í námi.
c. Auka skuli niðurgreiðslu borgarinnar vegna dagforeldra gegn skýrari ramma utan um störf þeirra sem styður við faglega þekkingu og gæði starfsins.
d. Bæta skuli starfsskilyrði dagforeldra, m.a. með því að leggja þeim til húsnæði undir starfsemi sína.
Greinargerð
Skýrsla starfshóps borgarinnar, um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík er mjög góð og tökum við undir það sem þar kemur fram.
a. Borgin breytir ekki fæðingarorlofi en getur brúað bilið frá orlofinu og fram að dagvistunplássi. Hér er verið að mæta þeirri alvarlegu stöðu sem skortur á dagvistunarúrræðum er í borginni. Að sjálfsögðu er þó mikilvægast að lengja fæðingarorlofið sem og hækka það. Það er þó ekki á hendi borgarinnar að koma slíku á, ekki þá nema helst í gegnum þrýsting á ríkið og þingið. Hefðbundin heimili er ekki hægt að reka á einni innkomu, þeir foreldrar sem eru því búnir með fæðingarorlof sitt en geta ekki snúið aftur til vinnu eru í þeirri klemmu og áhættu, að missa vinnuna sína sem og þá tekjur. Sveitarfélögin bera ábyrgð á því að útvega börnum dagvistunarúrræði en eins og er eiga þau erfitt með að mæta þeirri skyldu. Því ætti borgin að mæta foreldrum með því að taka upp greiðslur til þeirra sem ekki hafa fengið dagvistunarpláss. Með því að skikka borgina til þess að greiða með börnum sem ekki fá dagvistunarpláss er jafnframt skapaður fjárhagslegur hvati fyrir hana til að útvega plássið. Niðurgreiðsla borgarinnar á hvert leikskólabarn er nú um 150.000 kr. Þessi upphæð sparast því fyrir hvert barn sem ekki kemst á leikskóla, og því er í raun eins og er ákveðinn neikvæður hvati til staðar fyrir borgina að leysa ekki málið.
b. Afslátturinn í dag er í boði fyrir einstæða foreldra eða foreldra sem eru báðir í fullu námi. Reglurnar í dag eru of þröngar.
5. Fjölbreytt námsúrval
a. Efla beri gagnrýna hugsun í skólakerfinu.
b. Styðja skuli við hópavinnu og samvinnunám á öllum skólastigum þar sem nemendur styðja hver annan og setja sig í spor kennara eftir því sem þeir hafa áhuga og getu til.
c. Styðja skuli við fjölbreytt skólaform og nýsköpun í kennsluháttum. Skólastjórnendur og kennarar fái aukið svigrúm til að innleiða sínar eigin framsæknu hugmyndir og kennsluhætti og þróa það áfram.
d. Tæknimenntun og forritun standi öllum til boða snemma á skólagöngunni. Allir nemendur fái kynningu á grunnatriðum forritunar hið minnsta. Börnum standi til boða að vinna í snillismiðjum (e. makerspace).
e. Heimspekilegar og samfélagslegar áherslur verði fléttaðar inn í alla menntun.
f. Boðið sé upp á móðurmálskennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna inni í skólunum.
g. Efla beri iðnnám og starfsnám. Unnið verði skipulega að því innan skólakerfisins að bæta ímynd þessara greina og viðhorf nemenda af öllum kynjum til þeirra.
h. Skyndihjálp, táknmál, pólska, hugleiðsla og nútímalegt fjármálalæsi verði innleidd sem kennsluáfangar.
i. Útikennslutímum skuli fjölga og efla í þeim tilgangi að styrkja tengsl nemenda við umhverfi sitt og náttúru og efla hreyfingu.
j. Notast skuli við opinn hugbúnað í skólastarfi, ásamt opnu menntaefni.
k. Aðgengi að opnu námi (netnámskeiðum), verði fyrir alla Reykvíkinga. Reykvíkingar á öllum aldri hafi aðgengi að slíku námi í sínu nærumhverfi.
Greinargerð
Menntakerfið á að styrkja þróun einstaklingsins í að vera gagnrýninn lýðræðisborgari. Nám allra einstaklinga er gróði fyrir samfélagið, óháð því hvert hann stefnir.
a. Auka þarf heimspekikennslu og virkja gagnrýna hugsun, og um leið hvetja nemendur til þess að spyrja spurninga frekar en að mata þau af kennsluefni, efla lýðræðislega hugsun nemenda og gefa þeim færi á lýðræðislegri þátttöku í námi sínu. Það er mikilvægt að undirbúa nemendur fyrir framtíðina og gefa þeim þá þekkingu og það sjálfstraust sem þarf til að meta upplýsingar sjálfstætt og gagnrýnið. Kennum hugvísindi til að nemandinn sé reiðubúinn undir nýja tíma með hröðum breytingum samfélagsins.
b. Það er góð leið til að læra að kenna öðrum og byggir líka upp sjálfstraust. Þetta getur verið góð leið til að veita yngri nemendum meiri aðstoð og til að leyfa eldri nemendum að upplifa námið frá öðru sjónarhorni og spreyta sig. Gerum námsefnið lifandi, beitum margbreytilegum kennsluaðferðum síðan einstaklingar eru ólíkir og læra á mismunandi hátt.
c. Fögnum fjölbreytileika nemenda, reynum ekki að þröngva þeim í sama farið, enginn græðir á því. Leggjum endanlega af dósaverksmiðjumenntakerfið. Þetta á ekki síður við um kennara og skólastjórnendur en um börn, að frelsi í starfi og það að upplifa traust og sveigjanleika til að koma námsefni til skila eflir þeirra starfsánægju og gefur þeim kost á að finna lausnir sem henta betur á hverjum stað.
d. Í snillismiðjum er unnið að því að tengja saman list-, verk- og tæknigreinar þar sem nemendur fá tækifæri til að læra á tækni í gegnum listsköpun og nýsköpun. Hólabrekkuskóli fékk hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs árið 2018 fyrir snillismiðju sína. Í umsögn dómnefndar segir að verkefnið sé öðrum til eftirbreytni. Þannig er fyrirmyndin komin og getur hæglega nýst fleiri skólum innan borgarinnar. Snillismiðjur má til að mynda hæglega tengja við bókasöfn skólanna.
e. Það er ekki síst hlutverk skólakerfisins að þjálfa börn í skapandi og gagnrýninni hugsun og ættu skólarnir alltaf að gera ráð fyrir umræðu um heimspekileg málefni og vangaveltur upp að vissu marki. Það er eðlilegt að vilja fá svör og mikilvægt að skólarnir efli getu barna til að leita svara við spurningum og skilja svörin. Þetta er meira valdeflandi en að þjálfa þau í að sætta sig við mismunandi útfærslur af ‘af því bara’ eða ‘af því svoleiðis er það’. Stundum eru ekki til betri svör en það, en það er alltaf gagnlegt fyrir börnin að ræða sig í gegnum spurningarnar og álykta sjálf um svörin. Stundum luma þau jafnvel sjálf á betri svörum en hin fullorðnu.
f. Móðurmálskennsla er mikilvæg þar sem hún er grunnur að því að læra önnur tungumál. Þegar börn fá færi á að viðhalda móðurmáli sínu eiga þau auðvelt með að tileinka sér íslensku en ef þau missa niður móðurmálsþekkingu missa þau niður getu til þess að tileinka sér önnur tungumál líka. Það er því mikilvægur liður í því að börn innflytjenda læri íslensku að þau fái líka kennslu í móðurmálinu.
g. Margoft hefur verið farið í átak í þessum málaflokki, samtalið þarf í rauninni að byrja heima. Átakið í dag þyrfti þá kannski að að vera fagmenntað iðnaðarfólk sem stígi fram og hvetji sín börn og vini þeirra. Í þessu samhengi er gott að endurskoða átakið “Nám er vinnandi vegur”
Einnig má ekki horfa allt of neikvætt á brottfall nemenda úr skólum. Námsráðgjafar eiga þó nokkrar sögur af nemendum sem einfaldlega voru ekki tilbúnir fyrir framhaldsskólann og þurftu að fá að prófa að fara vinna og sjá um sig, finna sig áður en þau fundu út hvað þau vildu læra. Þetta er því ákveðin jafnvægislist.
Einnig þarf að grípa fyrr inn í til að sporna gegn brottfalli nemenda í framhaldsskólum. Til dæmis ef nemandi er byrjaður að stunda skóla illa í 8.bekk, þá er augljóst að sá nemandi er ekki að fara sinna framhaldsskólanum betur. Benda námsráðgjafar á að kennarar allt niður í 4.bekk geti spottað nemendur sem muni vera líklegir til að flosna uppúr námi. Þá þarf að veita þeim sérstakt aðhalda í grunnskólanum.
h.’Tákn með tali’ (TMT) ætti að vera áhersluatriði í leikskólum, það græða öll börn á því og að setja upp fjármálalæsi í 10.bekk. 10% þjóðarinnar tala pólsku og er kominn tími til að hún sé innleidd í námskrá.
i. Einbeitingarskortur helst í hendur við hreyfingarleysi.
j. Aðgengi að þekkingu og verkfærum skuli vera sem best fyrir nemendur og skóla. Leið að því er að stuðla að opnu menntaefni (OER) og opinn hugbúnað.
k. Hér er verið að svara þeirri breytingu að þurfa sækja sér menntun í Keili eftir viðkomandi er orðinn eldri en 25 ára.
6. Forvarnir og lýðheilsa
a. Leggja skuli áherslu á að í forvarnarstarfi sé gengið út frá “Fræðslu en ekki hræðslu”.
b. Fjölbreytni mannlífsins, kynfrelsi, líkamsvirðing og jafnrétti verði höfð að leiðarljósi í kennslu og menntun nemenda.
c. Auka skal framboð grænmetisfæðis í skólum og leikskólum með tilliti til lýðheilsu- og umhverfissjónarmiða.
d. Nemendur fái að taka þátt í að elda mat fyrir nemendur í mötuneyti skólans til að auka þekkingu og færni í daglegu lífi sem og til að efla samfélagslega vitund.
e. Nemendur taki virkan þátt í að halda skólastofu, húsnæði og lóð hreinu.
f. Stefnt skuli að því allir grunnskólar verði skólausir skólar.
Greinargerð
a. Upplýsingar eru besta leiðin til að hjálpa fólki að taka ákvarðanir í samræmi við bestu hagsmuni. Hræðsluáróður eða ýkjur, eða öfgar eru best til þess fallnar að fæla frá og búa til aðstæður þar sem ungt fólk í mótun gæti gengið einbeitt gegn slíkum áróðri í mótþróa og vinna þannig gegn markmiðum sínum. Heiðarleiki og einlægt samtal eru eina aðferðin sem getur skilað árangri.
b. Til að fjölbreytt lýðræðissamfélag geti gengið upp þurfum við að bera virðingu fyrir hverju öðru og fjölbreytileikanum, samfélagið þarf að bjóða hverjum og einum upp á rými til að þroskast í eigin sjálfsvitund án fordóma eða þrýstings.
c. Aukið hlutfall grænmetisfæðis er lýðheilsu- og umhverfismál og ekkert því til fyrirstöðu að Reykjavíkurborg geti verið leiðandi í þeirri þróun.
d. Þátttaka í innviðum skólans, með því að aðstoða við hreingerningar, matargerð eða kennslu leyfir nemendum að prófa sig í mismunandi hlutverkum og upplifa hlutdeild í samfélagsverkefnum, þetta er gert með góðum árangri í Japan. En þar eru börn alin upp við þá hugmynd að samfélagið sé á þeirra ábyrgð. Skólinn sé þeirra samfélag og hann endurspegli hver þau séu.
e. Sbr. lið d
f. Skólausir skólar draga úr þörf fyrir þrif og er snyrtilegra innandyra þegar íslenska veðrið er ekki dregið inn að óþörfu.
Ítarefni:
Vímuefnaneysla unglinga á Íslandi](http://apps.who.int/fctc/implementation/database/sites/implementation/files/documents/reports/0015308annex22015%20population%20survey%20done%20by%20Ranns%E2%94%9C%E2%94%82knir%20og%20GreiningUniversity%20of%20Reykjavikred%20line%20is%20the%20daily%20smoking.pdf) Þróun frá 1997-2015
Stjórnarráðið - Brotthvarf úr framhaldsskólum: Haust 2013
Stjórnarráðið - Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 4. september 2012
7. Íþrótta- og tómstundaiðkun barna
a. Íþróttaiðkun barna skuli vera á þeim forsendum að nemendur geti mætt og tekið þátt án þess að þurfa taka þátt í mótum eða keppnum.
b. Ganga skuli út frá þörfum barnsins frekar en þeim tilgangi íþróttafélagsins að skapa afreksíþróttamenn. Þau félög sem eru í samstafi við Reykjavíkurborg skuli gæta jafnræðis í þjálfun og framboði.
c. Opna skuli betur fyrir fjölbreytilegri nýtingu og ráðstöfun á tómstundastyrk Reykjavíkurborgar.
d. Frjálsa hreyfingu skuli innleiða í kennslufögum. Hreyfing og útivist sé hluti af almennu námi. Tryggja þarf reglulegt uppbrot í skólastarfi með hreyfingu.
e. Stefnt verði að aukinni og fjölbreyttari tónlistarkennslu sem m.a. megi koma að innan frístundastarfsins.
f. Ráða skuli tómstunda- og félagsmálafræðinga inn í frístunda og skólastarf.
Greinargerð
a. Vinna skuli gegn þeirri tilhneigingu sumra íþróttafélaga að grisja frá þá sem ekki séu sennilegir til afreka. Það sé ekki forsenda þátttöku að stefna á hæstu metorð, þó það sé í boði fyrir þá sem þess æskja. Litið skuli sem svo á að þátttaka og þjálfun sé heilsusamleg frekar en að barnið eigi að einbeita sér að keppnum.
d. Börn þurfa hreyfingu og hún er góð tilbreyting frá öðru skólastarfi. Innan skólans er hún hins vegar bara í boði tvisvar sinnum í viku í skólanum. Annarri hreyfiþörf barna á síðan að nást með frímínútum. Sú stefna er út frá forsendum skólanna en ekki út frá þörfum nemenda.
e. Tilgangur þess að efla tónlistarkennslu er meðal annars að vinna gegn stéttarmismunun, þar sem tónlistarnám í dag er ekki á færi allra. Þetta gæti verið í skólunum eða hluti af skipulegu frístundastarfi.
f. Tómstunda- og frístundafræðingar hafa verið nokkuð sniðgengnir innan borgarinnar. Vel væri unnt að nýta þeirra sérþekkingu núna þegar frístundastarf er orðið að stórum hluta af degi barna. Við erum með leikskólakennara í leikskóla og grunnskólakennara í grunnskóla, hví skyldum við ekki hafa tómstundafræðinga í frístundastarfi?
8. Vinnuskóli Reykjavíkur
a. Auka skuli frelsi og sveigjanleika nemenda gagnvart því hvenær þeir taka vinnu.
b. Verkefni og störf nemenda skuli vera fjölbreytt og við hæfi.
c. Auka skuli fræðslupakka vinnuskólans og vettvangsferðir.
d. Taka skuli 8. bekk aftur inn í sumarvinnu.
e. Færa skuli Vinnuskóla Reykjavíkur undir Skóla- og frístundasvið.
Greinargerð
a.-c. Nemendur fá í dag eitt tímabil. Ef þau geta ekki unnið á því tímabili eru það hreinlega töpuð laun. Áður var það þannig að nemendur gátu valið sér alveg sjálfir hvenær þeir myndu vinna yfir sumarið, allt eftir hentisemi þeirra og fengu svo greitt í samræmi við launatímabil. Markmið vinnuskólans á að vera fræðsla og að virkja nemendur. En ekki sparnaður fyrir Reykjavíkurborg í umhirðu borgarinnar yfir sumartímann. Fræðsluferðir og heimsóknir eru mikilvægur þáttur í því og sveigjanleiki í kröfum gerir fleirum kleift að taka þátt og stuðlar því að þessu markmiði.
d. Nemendur úr 8. bekk eiga erfiðara með að finna aðra vinnu en þau sem koma úr 10. bekk og því er í raun meiri þörf á að þau eigi vinnuskólann sem möguleika.
e. Vinnuskólinn er núna undir umhverfis- og skipulagssviði en það vinnur gegn þeim markmiðum að auka fjölbreytileika starfa og efla fræðsluna. Betur færi á því að hann heyrði undir skóla- og frístundasvið.
Tilheyrandi mál: | Fjölskyldu- og skólastefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | epli |