Samþykkt: Umhverfisstefna
UMHVERFISSTEFNA
Með vísun í:
- Grein §1 í grunnstefnu Pírata um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu
- Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
- Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
Almennrar umhverfisstefnu Pírata
Aðgerðastefnu Pírata í loftslagsmálum
Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Minnisblaðs um rafvæðingu hafna
Stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni
Álykta Píratar í Reykjavík:
Markmið umhverfisstefnu er að:
- Reykjavík verði í forystu í sjálfbærri uppbyggingu, neyslu og framleiðslumynstri.
- Aldrei verði gengið á lífsgæði komandi kynslóða.
- Styðja við umsvifalausar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.
- Stuðla að bættum loftgæðum og heilnæmu umhverfi.
- Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi.
- Vernda strendur, fjörur og hafsvæði Reykjavíkur á sjálfbæran hátt.
- Efla borgarskógrækt og auka kolefnisbindingu innan borgarmarkanna.
- Vernda og fjölga grænum svæðum innan borgarinnar.
- Stuðla að líffræðilegri fjölbreytni í borgarlandinu og vinna gegn helstu ógnum sem að henni steðja.
- Stuðla að sjálfbærum landbúnaði og verndun landbúnaðarsvæða.
- Blása auknu lífi í alþjóðlegt samstarf milli borga um sjálfbæra þróun.
Leiðir að markmiðum:
Færa valdheimildir til innri ákvarðanatöku frá ríki til sveitarfélaga, sem geri þeim kleift að fylgja eftir frumkvæði íbúa og grasrótarsamtaka um aðgerðir til varnar umhverfinu. Tryggja fjármögnun með sérstökum umhverfissjóði til stuðnings við sveitarfélögin.
Samræma í mun meiri mæli aðgerðir sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í umhverfismálum, meðal annars úrgangsmálum, til að hámarka skilvirkni og tryggja að aðgerðir þeirra séu samstíga.
Stutt verði við snjallvæðingu borgarinnar til þess að ná umhverfismarkmiðum:
a. Rafræn þjónusta verði fyrsti kostur til þess að draga úr ónauðsynlegum ferðalögum fólks og draga úr pappírsnotkun.
b. Stutt verði við snjallkerfi í umferðarstjórnun.
c. Komið verði upp orkuskilvirkri lýsingu í borgarlandinu.
d. Settar verði upp snjallar ruslatunnur.
e. Komið verði upp mælaborði fyrir umhverfismælikvarða sem sýnir stöðu umhverfismælinga og hvetur fólk til árangurs.
Setja stefnu og aðgerðaráætlun um orkuskipti í samgöngum. Lögð sé áhersla á samstarf ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu innviða:
a. Hvatt verði til notkunar rafhjóla með ívilnunum fyrir rafhjólakaup og rafhjólaleigur.
b. Almenningssamgöngur verði að öllu leyti rafvæddar eða knúnar öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum.
c. Rafbílavæðing Reykjavíkurborgar verði efld með áframhaldandi fjölgun hleðslustöðva miðsvæðis og í úthverfum. Reykjavíkurborg komi til móts við íbúa við að leggja hleðslutaugar við íbúðarhús og fyrirtæki.
d. Faxaflóahafnir endurskoði reglur um útblástur skipa með það að markmiði að stöðva mengun sem hlýst af notkun jarðefnaeldsneytis og hvetja til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. með uppsetningu rafhleðslustöðva fyrir skip.
e. Meðferð og notkun svartolíu á svæði Faxaflóahafna verði með öllu bönnuð fyrir árið 2025, í samræmi við viðauka VI í Marpol-samkomulaginu.
Hlutdeild aðstöðu fyrir hjólandi vegfarendur í fjárfestingum og uppbyggingu samgöngukerfisins verði aukin verulega.
Unnið verði í samráði við skóla að markvissum aðgerðum til að auðvelda nemendum að nýta sér almenningssamgöngur og vistvænar samgöngur.
Umferð hópferðabíla í miklu þéttbýli verði stýrt og hún takmörkuð á íbúasvæðum. Unnið verði að þessu í samráði við íbúa og hagsmunaðila.
Borgin beiti sér fyrir átaki til að draga úr svifryksmengun í Reykjavík.
a. Íbúum í öllum hverfum borgarinnar standi til boða raunhæft val um vistvæna samgöngumáta.
b. Útbúa skal viðbragðsáætlun sem gripið verði til þegar svifryk mælist yfir hættumörkum.
c. Gerðar verði rannsóknir á ferðavenjum, áhrifum nagladekkja, sem og breyttri efnisnotkun við lagningu vega og stíga.
d. Aukið verði við þrif og rykbindingu til að draga úr dreifingu svifryks.
e. Unnið verði í samráði við ríkið að loftgæðaáætlun og aðgerðum út frá henni.
Reykjavíkurborg taki upp vistvæna innkaupastefnu með það að markmiði m.a. að:
a. Auka framboð grænmetisfæðis í mötuneytum á vegum borgarinnar og minnka með því kolefnissporið.
b. Minnka matarsóun bæði hjá borginni og hvetja fyrirtæki til þess með svipuðum aðferðum og Frakkar hafa notað með góðum árangri.
c. Sporna við innkaupum á vörum sem framleiddar eru á óumhverfisvænan hátt, svosem vörum sem innihalda pálmaolíu.
Draga úr plastnotkun í borginni:
a. Skoða aðgerðir til að draga úr myndun örplasts.
b. Stórauka framboð á drykkjarvatni með drykkjarbrunnum og hefja átak í að minnka notkun á plastflöskum.
c. Sporna við plastnotkun í verslunum og á veitingstöðum, t.d. einnota umbúðum, áhöldum og rörum.
d. Sporna við notkun á plastpokum og styðja við notkun umhverfisvænna margnota poka.
Átak gegn notkun mengandi og óumhverfisvænna hreinsiefna og snyrtivara. Vitundarvakning um mikilvægi þess að nota umhverfisvæn hreinsiefni í þrifum bæði hjá fyrirtækjum, stofnunum og á heimilum.
Stuðla að verndun landbúnaðarsvæða og efla fjölbreytta ræktun og matvælaframleiðslu í anda sjálfbærrar þróunar.
Borgarbúskapur skuli efldur og skipulag við nýbyggingar og hverfi miðist að sjálfbæru samfélagi. Hvatt verði til aukinnar ræktunar í byggðum hverfum.
a. Skoðað verði að koma til móts við íbúa borgarinnar í kostnaði ef þeir eru að rækta grænmeti eða jurtir, til dæmis með lækkun á orkukostnaði. Þetta eigi við um hænsnakofa einnig.
b. Samnýtanleg svæði verði um alla borgina til að byggja gróðurhvelfingar eða matjurtagarða eftir óskum íbúa.
c. Samfélagsleg ábyrgð skólabarna á umhverfi okkar sé virkjuð með aukinni útikennslu.
d. Skoða skal möguleika á ræktargörðum tengdum við stofnanir svo sem þjónustuíbúðir, dvalarheimili og skóla.
Sterk staða líffræðilegrar fjölbreytni í borgarlandinu verði tryggð og unnið verði gegn því sem ógnar henni helst:
a. Skipulag og hönnun borgarinnar hafi það að markmiði að auka markvisst líffræðilega fjölbreytni með áherslu á lífsækni (e. biophilia).
b. Rýnt verði í stöðu verndarsvæða og aðgerðir unnar til úrbóta á þeim.
c. Viðkvæmar tegundir og vistgerðir verði vaktaðar.
d. Stuðlað verði að endurheimt votlendis.
e. Með breyttum áherslum í ræktun og umhirðu borgarlands sé fjölbreytileiki gróðurs og annars lífríkis aukinn.
f. Aukið verði við gróðursetningu trjáa og gróðurs í göturými.
g. Unnið verði að upplýsingamiðlun til borgarbúa um ástand líffræðilegrar fjölbreytni og um aðgerðir til eftirlits og úrbóta.
h. Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og verkefnum er varða líffræðilega fjölbreytni verði tryggð.
Mótuð verði skógræktarstefna fyrir Reykjavík, sem miði m.a. að því að:
a. Starfsemi Reykjavíkurborgar verði kolefnisjöfnuð með því að planta 20.000 plöntum árlega.
b. Auka skjólmyndun og rykbindingu.
c. Móta ný og fjölbreytt útivistarsvæði.
d. Efla samvinnu við skógræktarfélög og félagasamtök.
Unnið verði heildarskipulag fyrir strendur og eyjar innan borgarmarkanna með það að markmið að viðhalda og vernda náttúru og lífríki.
Greinargerð:
Á síðustu árum hefur almenningur kallað eftir róttækari aðgerðum í umhverfismálum eftir því sem meðvitund eykst um mikilvægi þeirra. Hitastig á jörðinni fer hlýnandi og almenningur er langþreyttur á aðgerðarleysi. En umhverfismálin verða ekki leyst með einni aðgerð heldur felst lausnin í mörgum aðgerðum á sem flestum sviðum. Ýmis dæmi má til dæmis finna úr Betri Reykjavík, en þar hafa íbúar kallað eftir betri flokkun á sorpi, grænni svæðum, banni við fjölpósti og banni á plastpokum í stórverslunum. Oft stranda þessi áköll íbúa á valdaleysi íslenska sveitastjórnarstigsins og miðstýringu frá Alþingi. Heimildir sveitarfélaga til að grípa til aðgerða til verndar umhverfinu eru takmarkaðri en í mörgum erlendum borgarsamfélögum og löggjöf hefur ekki haldið í við þéttbýlisþróun undanfarinna áratuga. Þess vegna miðar stefna Pírata í Reykjavík ekki síst að því að færa sveitarfélögum auknar heimildir til aðgerða á þessu sviði, til þess að bregðast við kröfum íbúa um hreinna loft og grænni lífsgæði.
Skýringar á einstaka liðum:
Sem stendur eru heimildir sveitarfélaga til ýmissa aðgerða til verndar umhverfinu að mörgu leyti takmarkaðar og hafa ekki fylgt þróun í umhverfismálum. Þetta er sérstaklega hamlandi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem íbúar glíma við ýmsar sértækar áskoranir á sviði umhverfismála sem fylgja borgarsamfélagi. Stundum er vísað til erlendra borga sem fyrirmynda og spurt hvort Reykjavíkurborg geti ekki gert það sama, og stundum er svarið þá hreinlega að hún hafi ekki heimildir til þess. Hér þarf að byrja á að veita þessar heimildir og svo taka afstöðu til þess hvort eigi að beita þeim, í samráði við íbúa. Sveitarfélög ættu t.d. að hafa heimild til að ákveða hvort plastpokar séu seldir í stórverslunum eða setja reglur til að dreifa álagi umferðar. Ef ríki og sveitarfélög ákveða síðan að framkvæma gjaldtöku í tengslum við mengunarbótaregluna skal peningurinn renna í sérstakan sjóð ásamt mótframlagi frá ríkinu. Honum verði síðan úthlutað til þeirra sveitarfélaga sem standa sig best í umhverfismarkmiðum. Gjaldtaka getur verið í tengslum við mengun frá skemmtiferðaskipum, bílaumferð, vegna notkunar nagladekkja o.s.frv.
Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eiga með sér ýmislegt samstarf, m.a. í gegnum Samtök sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og rekstur byggðasamlaga. Á vettvangi SSH er unnið sameiginlegt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og þar er starfandi svæðisskipulagsstjóri. Þetta fyrirkomulag gengur um margt ágætlega til að ná sameiginlegum skipulagsmarkmiðum en stjórnun á sameiginlegum umhverfismálum er ekki jafn markviss. Markviss stjórnun á umhverfismálum er nauðsynleg til að ná metnaðarfullum umhverfismarkmiðum í krefjandi nútímaumhverfi. Úr þessu mætti bæta með því að stofna sérstaka umhverfisskrifstofu á vettvangi SSH sem sér um samræmingu á umhverfismálum milli sveitarfélaganna. Sú skrifstofa gæti jafnframt unnið með byggðasamlaginu Sorpu að samræmingu úrgangsmála sér í lagi. Samræma þarf hirðu á úrgangi við heimili vel við móttöku hans hjá Sorpu. Eins þarf að samræma eftir fremsta megni fyrirkomulag hirðu milli sveitarfélaga til að tryggja hagkvæmni og draga úr misvísandi skilaboðum og misskilningi.
Margir möguleikar eru til að nýta nútímatækni til þess að draga úr sóun, gera fólki auðveldara að taka þátt og gera þjónustu skilvirkari. Skoða þarf möguleikana á betra stjórnkerfi fyrir umferðarkerfi borgarinnar, en það getur verið hlutfallslega mjög ódýr leið til að bæta umferðarþunga til muna. Tilraunaverkefni með snjalltunnur á vegum borgarinnar hefur reynst vel og ætti að fjölga þeim tunnum. Þær spara ferðir og gefa gögn um nýtingu á göngustígum sem hægt er að nota til að bæta skipulag. Eins má bjóða upp á aðgang að mælingum í borginni svosem svifryki, umferð og fleiri atriðum sem geri íbúum og skipulagsaðilum betur kleift að átta sig á flæði borgarinnar. Einnig mætti hugsa sér snjallskápa víðs vegar um borgina, sem væri mögulegt að opna með símum. En þar sem væri ruslatýna, hanskar og poki undir sorp. En með þeim gætu íbúar týnt upp og skilað sorpi á göngu eða hlaupum.
Orkuskipti í samgöngum er meira en rafbílavæðing. Þessum lið er ætlað að útlista þær leiðir sem blasa við, en tilgangur hennar er að undirstrika að fjölbreytileiki í úrræðum er mikilvægur. Hvatar til rafbílavæðingar eru skref í því, en olíunotkun skipa er líka stór mengunarvaldur. Aukið vægi hjólreiða getur líka dregið mikið úr umferð og mengun, en rafmagnshjól geta hjálpað við að brúa það bil (þó ekki bókstaflega) sem er milli Íslands og nágrannalanda sem búa við heppilegri landafræðilegar aðstæður, en ekki má gleyma því að þó svo rafmagnsbílar séu langtum umhverfisvænni en bílar knúnir kolefnaeldsneyti, þá er framleiðsla þeirra ekki án umhverfisáhrifa, sem færa má rök fyrir að séu jafnvel verri, og rafkerfi landsins þarf einnig að standa undir því að hlaða þessi farartæki. Því er samt sem áður mikilvægt að leggja áherslu á almenningssamgöngur og hjólreiðar meðfram því að taka upp rafmagnsbíla og aðra bíla sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum.
Að hjóla og að ganga eru án efa með umhverfisvænustu ferðamátum sem völ er á. Þegar ferðir innan þéttbýlis eru til umfjöllunar ættu ganga og hjólreiðar að vera í fararbroddi sjálfbærra ferðamáta. Hlutdeild aðstöðu fyrir hjólandi vegfarendur í fjárfestingum og uppbyggingu samgöngukerfisins verði aukin verulega. Lagt er til að borg og ríki efni til samstarfs um hjólabyltingu með styrkjum til íbúa um kaup á rafhjóli, komi með aukið fjármagn til lagningar hjólastíga og fjármagni, sérstaklega uppbyggingu hjólahraðbrauta á höfuðborgarsvæðinu.
Með bættum almenningssamgöngum viljum við stuðla að umhverfisvænni samgöngumáta og hvetja til notkunar þeirra meðal nemenda í skólum, til dæmis með sérstökum samgöngustyrkjum.
Stigvaxandi ferðamennsku hafa fylgt auknar rútuferðir með ferðamenn til og frá gististöðum. Hefur þetta skapað töluvert álag í íbúabyggðum og mikilvægt er því að stýra ferðum hópferðabifreiða þannig að þeir raski ekki þeirri byggð sem fyrir er óhóflega. Nú þegar hafa verið stigin skref til að bregðast við þessu í miðborginni. Mikilvægt er að vera sívakandi yfir því hvernig gengur að framfylgja þessum stýringum og bregðast við ef þær þarf að efla. Einnig þarf að skoða að útvíkka þær til annarra hverfa þar sem rútuumferð fer vaxandi.Til dæmis má skilgreina ákveðnar staðsetningar sem settar væru upp til að sækja ferðamenn og bjóða fyrirtækjum sem keyra ferðamenn upp á að setja upp aðstöðu þar.
Ýmsir þættir valda svifryksmengun í Reykjavík og mikilvægt er að sporna gegn þeim með markvissum aðgerðum. Þar þarf m.a. að skoða dekkjagerð, framleiðsluaðferðir á malbiki og möguleika til bindingar. Þegar svifryksmengun mælist yfir hættumörkum er mikilvægt að til staðar sé áætlun sem hægt sé að grípa til strax, til verndar heilsu íbúa. Síðan er að sjálfsögðu mikilvægt að missa ekki sjónar á því að besta leiðin til að draga úr myndun svifryks verður alltaf sú að draga úr umferð, styðja við almenningssamgöngur og umhverfisvæna eldneytisgjafa.
Það gleymist oft í umræðunni um umhverfisvænni borg að skoða þarf innkaup borgarinnar. Það hefur verið stefna í borginni að samræma matarinnkaup fyrir mötuneyti í skólum, leikskólum og á öðrum stofnunum og þá helst til að spara en taka mætti meira tillit til heilsu- og umhverfisþátta. Því fer þó fjarri að sparnaður felist í því að versla kjöt og mjólkurvörur og ætti borgin því að auka framboð á grænmetisfæði svo um munar en það er ekki einungis hagkvæmara heldur er mikill heilsufars- og umhverfisávinningur af því.
a. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hvatt ríki heims til að minnka neyslu dýraafurða verulega vegna heilsufars- og umhverfisþátta. Rannsóknir hafa sýnt að búfénaður í landbúnaði, sem samanstendur af nautgriparækt, svínarækt, sauðfjárrækt og kjúklingarækt, ber ábyrgð á 18 prósentum af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Þetta er meira en samanlögð losun allra vélknúinna ökutækja á jörðinni, sem nemur um 13 prósentum af heildarlosun. Tölfræðin byggir á gögnum frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Talið er að losun landbúnaðarins á gróðurhúsalofttegundum muni vaxa að óbreyttu um 80 prósent fyrir árið 2050. Sjá úttekt hér:
b. Matarsóun í heiminum er 1,3 milljarður tonna árlega samkvæmt könnun SÞ. Við þyrftum ekki að endurheimta nema 25% af þeim mat sem nú er hent til að fæða 870 milljón manns og með því útrýma hungursneyð. Við viljum fara í róttækar aðgerðir gegn matarsóun og lítum hýru auga til frönsku leiðarinnar. Frakkar takmarka mjög hversu miklum mat stórverslanir mega henda, banna þeim að hafa lása á ruslagámum sínum sem hindrar aðgang að þeim og hvetja þau að gefa matinn frekar til “Matarsóunar- samtaka”. Þannig samtök setja upp “verslun” með matnum að breskri fyrirmynd “Food waste supermarkets” þar sem fólk má koma og taka mat og ræður hversu mikið og hvort þau borga fyrir. Þetta er ólíkt hjálparsamtökum sem gefa mat hér á Íslandi, þar sem þau krefjast þess að þiggjendur gefi upp kennitölu sína og sanni að þeir séu fátækir. Við teljum það brot á grunngildi Pírata um friðhelgi einkalífsins og að það fæli fólk frá því að þiggja mat eða leita sér aðstoðar. Einnig skulu mötuneyti og eldhús borgarinnar gefa afganga eins og kostur er á, frekar en að henda þeim. Jafnframt mætti skoða að rýmka reglur heilbrigðiseftirlitsins sem gilda um sölu á mat beint frá býli til að auka við slíkt.
c. Margar aðkeyptar vörur innihalda efni sem framleidd eru með aðferðum sem eru mjög skaðlegar umhverfinu, til dæmis pálmaolía. Við innkaup ætti borgin að setja sér stefnu um ásættanleg innihaldsefni og gæta þess í hvívetna að velja þann kost sem umhverfisvænni er, alls staðar þar sem þess er kostur.
Verslanir og veitingastaðir verði hvattir til að draga úr plastnotkun. Almenningur hvattur með fræðsluátaki.
a. Örplast má finna í ýmsum snyrtivörum og fatnaði úr flís. Mörg ríki heims hafa þegar bannað notkun örplasts í snyrtivörum og með aukinni fræðslu má sporna við notkun flísfatnaðar.
b. Það er nú þegar í bígerð að fjölga drykkjarbrunnum í borginni og munum við styðja það átak og að auki viljum við með aukinni fræðslu hvetja til að fólk hætti að versla einnota plastflöskur.
Rannsóknir sýna að heimilis- og snyrtivörur á borð við hreinsiefni, ilmkerti, úðabrúsa og málningu stuðla töluvert að aukinni loftmengun í þéttbýli. Mælingar á loftmengun í Los Angeles sýndu að mengun vegna þessara efna væri á pari við loftmengun af útblæstri frá bílum. Þetta er raunverulegt vandamál bæði hvað varðar loftmengun og mengun í hafi. Það ber að takast á við með aukinni vitundarvakningu og hvatningu til að notkunar umhverfisvænna efna. Auka þarf vöruúrval og efla fræðslu á því hvaða áhrif þetta hefur á umhverfið, hafið og okkur sjálf.
Greinin þarfnast ekki skýringa.
Borgarbúskapur er aðferð til að minnka kolefnisspor og stuðlar bættri heilsu, þessi liður þarfnast því ekki frekari skýringa..
Líffræðilegur fjölbreytileiki er breytileikinn meðal lífvera. Hann nær yfir breytileika innan tegundar, milli tegunda og breytileika vistkerfa og búsvæðagerða. Hann snýst því um að alls konar lílfverur fái aukið svigrúm til að þrífast í borginni á eigin forsendum. Það er gert meðal annars með því að fjölga grænum flötum á byggingum og öðrum mannvirkjum. En einnig með því að bæta búsvæði og aðgengi fyrir fugla og önnur dýr í borgarrýminu.
Skógrækt fegrar umhverfið, bætir kolefnisbindingu og veitir skjól gegn vindum.
Verndun stranda og eyja er mikilvæg upp á lífríkið og umhverfisgæði, þessi liður þarfnast ekki frekari skýringar.
“I think calling it climate change is rather limiting. I would rather call it the everything change because when people think climate change, they think maybe it’s going to rain more or something like that. It’s much more extensive a change than that because when you change patterns of where it rains and how much and where it doesn’t rain, you’re also affecting just about everything. You’re affecting what you can grow in those places. You’re affecting whether you can live there.“
-Margaret Atwood
Tilheyrandi mál: | Umhverfisstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | XandraBriem |