Meirihlutasáttmáli fyrir borgarstjórn 2018-2022
Málsnúmer: | 21/2018 |
---|---|
Tillaga: | Meirihlutasáttmáli fyrir borgarstjórn 2018-2022 |
Höfundur: | dorabjort |
Í málaflokkum: | Ályktanir |
Upphafstími: | 12/06/2018 12:53:28 |
Umræðum lýkur: | 14/06/2018 12:53:28 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 13/06/2018 12:53:28 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 14/06/2018 12:53:28 (0 minutes) |
Atkvæði: | 100 (2 sitja hjá) |
Já: | 93 (93,00%) |
Nei: | 7 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Píratar í Reykjavík álykta að eftirfarandi meirihlutasáttmáli milli Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna fyrir borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018 til 2022, sé samþykktur.
MEIRIHLUTASÁTTMÁLI.
2018 - 2022
Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna fyrir borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018 til 2022.
Við eigum öll að geta fundið okkar stað í tilverunni í Reykjavík.
Reykjavík er falleg og lifandi borg í örum vexti. Við eigum öll að geta fundið okkar stað í tilverunni í Reykjavík. Til að svo megi vera þarf að hlúa að öllu því sem gerir borg og mannlíf aðlaðandi og eftirsóknarvert þar sem við höfum jöfn tækifæri til lífs og leiks, vinnu og menntunar. Það verður bæði að hlúa að því manngerða en líka náttúrunni og dýralífinu.
Við sem myndum meirihluta fjögurra flokka: Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, höfum sammælst um að gera góða borg betri. Við ætlum að leggja alúð við verkefnin framundan enda snerta þau fólk og umhverfi beint, með einum eða öðrum hætti, og hafa áhrif á líf okkar, heilsu og vellíðan.
Við ætlum að byggja öflugt og þétt borgarlíf fyrir okkur öll með nægu framboði af húsnæði, sjálfbærum hverfum, heilnæmu umhverfi, skilvirkum samgöngum, fjölbreyttu atvinnulífi og einfaldri, aðgengilegri og lýðræðislegri umsýslu. Við ætlum að auka lífsgæði fólks og búa til borg þar sem það er gott að vera og gera.
Við sem myndum meirihluta borgarstjórnar á kjörtímabilinu spönnum breitt pólitískt litróf. Við höfum fjölbreytta sýn og ólíkar áherslur en það sem sameinar okkur eru hagsmunir og lífsgæði borgarbúa og skynsamleg uppbygging Reykjavíkur til framtíðar. Að því marki stefnum við í þessum sáttmála.
Kafli 01: UMHVERFIS-, SKIPULAGS- OG SAMGÖNGUMÁL
Við ætlum að fylgja eftir þeirri stefnu sem mótuð hefur verið í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur og leggja áherslu á blandaða þétta byggð. Við ætlum að klára hverfaskipulag fyrir sem flest hverfi borgarinnar.
Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni. Við endurhönnun gatna og annars borgarrýmis verða gangandi og hjólandi vegfarendur settir í forgang og sérstök áhersla verður lögð á fjölbreyttan trjágróður.
Við ætlum að hlúa að grænum svæðum, fjölga matjurtagörðum og vernda líffræðilegan fjölbreytileika í borgarlandinu. Staðinn verður vörður um vatnsverndarsvæði og aðgengi aukið að hreinu vatni í borgarlandinu.
Áfram verður unnið að Borgarlínu, skipulagsvinnu vegna fyrsta áfanga hennar lokið og framkvæmdir hafnar. Samningum verði náð við ríkið um Borgarlínu og aðrar nauðsynlegar fjárfestingar til að létta á umferðinni og breyta ferðavenjum.
Við ætlum að bæta strætó. Við viljum að börn 12 ára og yngri fái frítt í strætó í fylgd með fullorðnum. Tíðni á helstu stofnleiðum verður aukin í 7,5 mín á háannatímum í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Samþykkt verður ný bílastæðastefna. Gjaldskyld svæði verða stækkuð og gjaldskyldutími lengdur.
Uppbyggingu hjólastíga verður hraðað og skoðað verður að leggja sérstakar hjólahraðbrautir. Við viljum að lykilhjólastígar fái nöfn. Liðkað verði fyrir notkun rafmagnsreiðhjóla, meðal annars með uppsetningu hleðslustöðva.
Við viljum að Reykjavík verði leiðandi í loftslagsmálum og loftgæðum. Unnið verði gegn svifryki. Við viljum setja metnaðarfyllri markmið um hlutdeild vistvænna ferðamáta og styðja við orkuskipti í samgöngum m.a. í grónum hverfum og við fjölbýlishús.
Innkaup Reykjavíkur skulu vera vistvæn og árangurinn af þeim sýnilegur og taki mið af loftslagsmarkmiðum borgarinnar. Dregið verður úr notkun plasts og einnota umbúða í Reykjavík.
Við viljum auka sorphirðu á álagstímum, bæta þjónustu og efla grenndarstöðvar til að gera fólki kleift að flokka sorp án þess að þurfa að eiga bíl.
Rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verður tryggt meðan unnið er að undirbúningi nýs flugvallar í nágrenni borgarinnar. Aðalskipulagi Vatnsmýrar verði breytt og lokun flugvallarins seinkað þegar samningar hafa náðst við ríkið um Borgarlínu sem styður við nauðsynlega uppbyggingu á Ártúnshöfða, í Elliðaárvogi, á Keldum og í Keldnaholti.
Við ætlum að einfalda og uppfæra þjónustu við dýraeigendur með því að sameina dýraþjónustu Reykjavíkur. Dýraþjónustan ber ábyrgð á þjónustu og samskiptum við gæludýraeigendur, leyfisveitingum og framfylgd samþykkta borgarinnar um gæludýrahald.
Kafli 02: HÚSNÆÐISMÁL
Markvissar aðgerðir í húsnæðismálum og hraðari uppbygging íbúðarhúsnæðis er eitt stærsta verkefni kjörtímabilsins. Við ætlum að halda áfram samvinnu við húsnæðissamvinnufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og fjölga stúdentaíbúðum, íbúðum eldra fólks og leiguíbúðum verkalýðsfélaga og skoða fjölbreyttar leiðir til uppbyggingar öruggs húsnæðismarkaðar og fjölbreytts leigumarkaðar í samstarfi við ríkið og verkalýðshreyfinguna.
Við ætlum að leggja sérstaka áherslu á hagkvæmar og nútímalegar lausnir í húsnæðisuppbyggingu og setja aukinn kraft í lausnir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, meðal annars í tengslum við Borgarlínu.
Lykilsvæði í húsnæðisuppbyggingu verði fjölbreyttir þéttingarreitir, meðal annars meðfram þróunarásum aðalskipulags ásamt nýrri, blandaðri byggð í Gufunesi, Bryggjuhverfi, Úlfarsárdal, Elliðaárvogi, Höfðum, Skeifu og Skerjafirði.
Við ætlum að einfalda skipulags- og byggingarferla hjá borginni og þrýsta á ríkið að einfalda laga- og regluumhverfi þess.
Við ætlum að halda áfram að fjölga félagslegum íbúðum í eigu borgarinnar og fjölga þeim um 500 á kjörtímabilinu og endurskoða reglur um húsnæðisstuðning.
Við ætlum að halda áfram uppbyggingu sértækra búsetuúrræða með því að fjölga íbúðum um að minnsta kosti 100 á kjörtímabilinu.
Kafli 03: VELFERÐ OG LÝÐHEILSA
Við ætlum að fara í heildarendurskoðun á þjónustu velferðarsviðs og á þjónustumiðstöðvum með þarfir notenda að leiðarljósi. Við viljum rafvæða og einfalda umsóknarferla og endurskoða þjónustusvæði svo að þjónusta borgarinnar taki mið af þörfum notandans og sé valdeflandi.
Eitt meginverkefnið á kjörtímabilinu verður að gera Reykjavík að aldursvænni borg í fremstu röð.
Unnið verði markvisst gegn öllu ofbeldi og margþættri mismunun og einelti í borginni. Við viljum vinna gegn einangrun fólks. Við ætlum að vinna gegn sárri fátækt með markvissum og valdeflandi hætti. Ný aðgerðaáætlun verður unnin og sett í forgang.
Við ætlum að fjölga hjúkrunarrýmum með samningum við ríkið, móta heildstæða stefnu um félagsstarf og félagsmiðstöðvar velferðarsviðs, stórauka notkun á velferðartækni við veitingu velferðarþjónustu, efla enn frekar samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu, innleiða matarstefnu Reykjavíkurborgar og innleiða endurhæfingu í heimahúsi.
Við ætlum að setja NPA í forgang, semja um fullfjármögnun við ríkið, innleiða Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og uppfæra þjónustuna í takti við hann. Samráð skal haft við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess við stefnumótun og eftirfylgni stefnunnar á öllum stigum þeirrar vinnu.
Aðgengi fyrir alla á að vera aðalsmerki borgarinnar. Við ætlum að fara í samstarf við fyrirtæki og stofnanir til að tryggja aðgengi fatlaðs fólks, endurskoða og bæta ferðaþjónustu fatlaðs fólks og bæta aðgengi að almenningssamgöngum.
Við ætlum að fara í markvissar aðgerðir til að draga úr kvíða barna á grunnskólaaldri, með heilsueflingu og með því að tryggja nauðsynlega sálfræðiþjónustu, til dæmis með endurskipulagningu þjónustunnar og í samstarfi við heilsugæslu.
Ferli umsókna um fjárhagsaðstoð verður endurskoðað samhliða endurskoðun reglna um þjónustu við notendur fjárhagsaðstoðar. Rýmka þarf reglur varðandi námsstyrki og endurskoða aldurshámarkið.
Aðstoð við viðkvæma og jaðarsetta einstaklinga skal ávallt ganga út frá valdeflingu og skaðaminnkun. Styðja skal við og styrkja verkefni á borð við „Húsnæði fyrst“ og Frú Ragnheiði. Sett verði á fót búsetuúrræði fyrir konur með geð- og fíknivanda og skoðað að koma upp neyslurýmum í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.
Efla þarf þjónustu við nemendur með fjölþættar þarfir og fjölskyldur þeirra og tryggja forvarnarstarf og snemmtæka íhlutun óháð greiningum.
Meginreglan verður sú að borgin sinni velferðarþjónustu við íbúa en haldi einnig áfram samvinnu við félög og hagsmunasamtök sem veita mikilvæga velferðarþjónustu samkvæmt samningum við borgina.
Heilsa og líðan íbúa verði höfð að leiðarljósi við hvers kyns stefnumótun á vegum borgarinnar. Reykjavík sem heilsueflandi borg leggi áherslu á lýðheilsu og almenningsíþróttir fyrir öll æviskeið.
Kafli 04: SKÓLA- OG FRÍSTUNDAMÁL
Við ætlum að bæta starfsumhverfi í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum með því að bæta kjör starfsfólks, stytta vinnuvikuna, minnka álag, draga úr skriffinnsku og auka faglegt frelsi fólks.
Ný menntastefna verði samþykkt að loknu samráði við fagfólk, foreldra, nemendur og skólasamfélagið.
Við viljum brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölgun ungbarnadeilda og byggingu nýrra leikskóla, auk þess að skoða aðgerðir til að fjölga dagforeldrum.
Í grunn- og leikskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum á starfsfólk að hafa faglegt frelsi í störfum sínum og næg tækifæri til starfsþróunar og símenntunar. Megináhersla verður lögð á borgarreknar menntastofnanir og áfram verður stutt við sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla.
Samþætta og sameina þarf betur skóla- og frístundastarf í því skyni að bæta dag barna og ungmenna og hafa hann samfelldan, auka sveigjanleika og nýta fjármagn betur.
Í tilraunskyni verði einn leikskóli í hverju hverfi opinn yfir sumartímann til tryggja að fjölskyldur hafi meiri sveigjanleika um hvenær þær fara í frí.
Stutt verði við börn sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli, meðal annars með stuðningi við grasrótarsamtök sem annast móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna og stuðlað að aukinni þátttöku þeirra í frístunda- og félagsstarfi.
Frá og með áramótum 2019 skulu barnafjölskyldur einungis borga námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Frá og með áramótum 2021 skulu barnafjölskyldur mest greiða fæðisgjöld fyrir tvö börn, þvert á skólastig.
Kafli 05: ATVINNUMÁL OG ÞJÓNUSTA
Reykjavík á að vera eftirsótt og aðlaðandi borg. Fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun, skapandi greinar og sprotafyrirtæki eiga að blómstra í Reykjavík. Til þess þarf fjölbreytt framboð atvinnuhúsnæðis og atvinnusvæða. Þekkingarsvæði í Vatnsmýri og skapandi hverfi í Gufunesi og á Granda eru meðal vaxtarbrodda en huga þarf að fjölbreyttu atvinnulífi í öllum hverfum borgarinnar.
Reykjavík er stærsti ferðamannastaður landsins. Borgin mun áfram beita sér í markaðssetningu borgarinnar sem áfangastaðar fyrir ferðamenn á forsendum íbúa og leitast við að stýra álaginu eins og gert hefur verið með staðsetningu hótela, markvissara eftirliti með skammtímaleigu til ferðamanna og stýringu á rútuumferð á viðkvæmum svæðum.
Við viljum að þjónusta borgarinnar við fólk sem er að opna ný fyrirtæki verði framúrskarandi, að útgáfa leyfa sé sneggri og einfaldari og að Reykjavík hvetji til atvinnu- og verðmætasköpunar.
Til að auka fjölbreytta atvinnustarfsemi og endurlífga hverfiskjarna verður stofnaður frumkvöðlasjóður sem fyrirtæki og einstaklingar geta sótt í.
Atvinnustefna borgarinnar verður endurskoðuð með áherslu á fjölbreytileika, sjálfbærni og samkeppnishæfni.
Við viljum þróa hugmyndir um sveigjanleg starfslok og vinna að virkri þátttöku þeirra sem hafa verið utan vinnumarkaðar. Við ætlum að auka atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu.
Unnið verði að innleiðingu þjónustustefnu Reykjavíkurborgar í allri starfsemi hennar með sérstakri áherslu á notendamiðaða hönnun og samráð í þjónustu. Við ætlum að bæta þjónustu borgarinnar með snjöllum, rafrænum lausnum, og sjálfvirkum ferlum.
Kafli 06: FJÁRMÁL OG REKSTUR
Borgin skal rekin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Skuldir skulu greiddar niður meðan efnahagsástandið er gott. Tryggja skal svigrúm til fjárfestinga í Borgarlínu og félagslegu húsnæði.
Reykjavíkurborg hefji samtal við ríkið um tekjustofna sveitarfélaga, að gistináttagjald renni til sveitarfélaga og um endurskoðun jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Leita skal eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um kostnaðarþátttöku varðandi rekstur sem íbúar svæðisins nýta í sameiningu.
Útsvar skal haldast óbreytt. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir úr 1,65% í 1,60% fyrir lok kjörtímabilsins.
Ljúka þarf opnun bókhalds á kjörtímabilinu og stuðla að því að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar og byggðasamlaga séu eins gagnsæ og opin og kostur er og upplýsingar um ráðstöfun styrkja sem borgin veitir séu aðgengilegar. Uppfærsla upplýsinganna skal gerast eins nálægt rauntíma og hægt er.
Við ætlum að leggja malbikunarstöðinni Höfða til nýja lóð og kanna í kjölfarið kosti og galla þess að selja fyrirtækið.
Innri endurskoðun ljúki greiningu á misferlisáhættu innan borgarkerfisins og hún verði notuð sem grunnur að aðgerðum og vörnum gegn misferli og spillingu.
Innkaupareglur Reykjavíkurborgar verða endurskoðaðar, meðal annars til að skerpa á ákvæðum um vistvæn innkaup, undirboð, keðjuábyrgð og mannréttindasjónarmið.
Kafli 07: KYNJAJAFNRÉTTI OG KJARAMÁL
Við ætlum að eyða launamun kynjanna hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar, móta kjarastefnu og halda áfram tilraunaverkefninu um styttingu vinnuvikunnar. Við ætlum að leiðrétta laun kvennastétta.
Við ætlum að þróa áfram kynjaðar fjárhags- og starfsáætlanir til að stuðla að auknu jafnrétti og réttlátari nýtingu fjármuna.
Við munum vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni í borginni í samræmi við nýsamþykkta aðgerðaáætlun gegn ofbeldi. Við viljum efla Bjarkarhlíð, ofbeldisvarnarnefnd og jafnréttisskólann og auka kynjafræði og kynfræðslu fyrir ungt fólk. Kynfræðsla taki til félagslegra þátta, upplýsts samþykkis og mannhelgi.
Sérstaklega þarf að vinna gegn launamun byggðum á uppruna eða ríkisfangi. Styrkja þarf stöðu kvenna og hinsegin fólks af erlendum uppruna og stuðla að valdeflingu þeirra með meiri upplýsingum um réttindi og úrræði sem eru í boði á viðeigandi tungumáli.
Tryggja skal aðgengi allra kynja að þjónustu borgarinnar og uppfæra skal eyðublöð svo að þau geri ráð fyrir öllum kynjum.
Gera skal úttekt á klefa- og salernisaðstæðum og tillögur til úrbóta þar sem við á til að gefa öllum rými í opinberum byggingum eins og skólum, sundlaugum og íþróttahúsum. Þetta skal gert með aðkomu hagsmunasamtaka er málið varðar.
Styrkja skal og styðja við starfsemi grasrótar- og félagasamtaka sem vinna að jafnrétti í víðum skilningi.
Huga skal að ólíkum þörfum kynja í námi svo eitthvert kyn verði ekki kerfislega útundan.
Kafli 08: MANNRÉTTINDA OG LÝÐRÆÐISMÁL
Tryggja skal möguleika allra til þátttöku og aðgengis að lýðræðissamfélaginu. Mannréttindaborgin Reykjavík haldi áfram að valdefla hópa sem njóta ekki jafnra tækifæra og réttinda á við aðra í samfélaginu. Reykjavík á að vera fjölmenningarborg þar sem allir eiga að geta blómstrað óháð uppruna eða stöðu.
Samþykkja á og innleiða lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar sem tekur á skyldum hennar, kjörinna fulltrúa og starfsfólks. Lögð verði áhersla á samráð við hagsmunaaðila og einstaklinga við alla stefnumótun og eftirfylgni stefnu í öllum málaflokkum. Veigamikil stefnumótun fari fram í opnu samráðsferli á þar til gerðri samræmdri gátt á vef borgarinnar.
Við viljum auka enn frekar gagnsæi í stjórnsýslunni sem nær til allra ferla við ákvarðanatökur. Mælaborð borgarinnar verði klárað. Fundargerðir og önnur opinber skjöl verði gerð aðgengileg á netinu og rekjanleg eftir innihaldi.
Skilgreint verður hlutverk gagnastjóra hjá Reykjavíkurborg.
Embætti umboðsmanns borgarbúa verður eflt í því skyni að gera því kleift að sinna fræðslu og frumkvæðisathugunum.
Hverfisráð verða endurskoðuð með skilvirkni, eflingu lýðræðis og bætt samstarf við íbúa að leiðarljósi.
„Betri Reykjavík“ verði gerð enn betri með því að auka áhrif borgarbúa á ráðstöfun skattfjár og stefnumótun. Útvíkka skal verkefnið „Hverfið mitt“ þannig að hægt verði að hafa bein áhrif á fleira en framkvæmdir og viðhald í hverfinu.
Við ætlum að meta reynslu og menntun innflytjenda, efla túlkaþjónustu, bæta miðlun og aðgengi að upplýsingum í samráði við hagsmunasamtök. Við ætlum að styðja að lög verði sett sem banni mismunun á grundvelli þjóðernis, innan vinnumarkaðar og utan.
Skoðum bestu leiðir til að miðla upplýsingum til innflytjenda, hælisleitenda og flóttafólks í samvinnu við ríkið og önnur sveitarfélög.
Kafli 09: MENNINGAR-, ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDAMÁL
Blómlegt menningarlíf er snar þáttur í lífsgæðum borgarbúa og samkeppnishæfni borgarinnar og kappsmál borgarinnar er að menning sé aðgengileg öllum.
Við ætlum að opna safn Nínu Tryggvadóttur og útfæra viðbyggingu við Borgarbókasafnið í Grófarhúsi. Auka á menningarframboð í hverfum, fjölga æfingahúsnæði fyrir ungt tónlistarfólk og vinnurýmum listafólks í hverfunum.
Við ætlum að gera konur sýnilegar í menningarsögu borgarinnar, efla bókasöfnin, auka list í opinberu rými og gera ráð fyrir henni þegar á skipulagsstigi. Við ætlum að styðja grasrótarstarf í lista- og menningarmálum og treysta stuðning við sjálfstætt starfandi listamenn í gegnum samkeppnissjóði.
Við ætlum að tryggja jafnara aðgengi að menningu, íþróttum og tómstundum óháð efnahag og stöðu.
Við viljum að öll börn og ungmenni njóti jafngóðrar þjálfunar, athygli og forgangs í öllum greinum sem eru í boði innan borgarinnar. Jafnræði skal aukið og unnið gegn aðstöðumun. Allar forvarnir gegn ofbeldi og viðbrögð við því verða að vera í lagi.
Aðstaða til íþróttaiðkunar og heilsueflingar á að vera góð. Þess vegna ætlum við að klára boltahús í Grafarvogi, sundlaug í Úlfarsárdal og undirbúa íþróttamannvirki fyrir Grafarholt og Úlfarsárdal, ljúka við velli í Árbænum og Víkinni, fjölnota knatthús og boltahús í Mjódd og undirbúa fimleikahús í Breiðholti, skoða hugmyndir um fjölnota knatthús að Hlíðarenda og þróun svæðis KR í Vesturbæ í samráði við íbúa.
Greina þarf þörf fyrir aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal og semja um framtíðarþjónustu í Safamýri í samráði við íbúa.
Teknar verði upp viðræður við Kópavog um Fossvogslaug og þróaðar verði hugmyndir um ylstrandir á fleiri stöðum.
Við ætlum að efla skólahljómsveitirnar, stofna hverfakóra og finna tómstundir við hæfi þar sem notkun frístundakortsins er minni en annars staðar í borginni.
Kafli 10: STJÓRNKERFI
Fagráðum og nefndum borgarinnar verður fækkað.
Mannréttindaráð og stjórnkerfis- og lýðræðisráð verða sameinuð í nýtt Mannréttinda- og lýðræðisráð.
Menningar- og ferðamálaráð og Íþrótta- og tómstundaráð verða sameinuð í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. Ferðamálin munu heyra undir borgarráð, líkt og atvinnuþróun og atvinnumál. Sérstaklega verður hugað að góðum tengingum, samráði og samstarfi við atvinnulíf borgarinnar og þeim málefnum fundinn skýr farvegur á kjörtímabilinu.
Loftslagsmál, loftgæði, úrgangsmál, sorphirða, málefni grænna svæða og umhirða, ásamt málefnum heilbrigðisnefndar munu heyra undir Umhverfis- og heilbrigðisráð, en Umhverfis- og skipulagsráð fær heitið Skipulags- og samgönguráð.
Kosningu í hverfisráð verður frestað til áramóta þar til niðurstaða um hlutverk þeirra og framtíð liggur fyrir.
BREIÐHOLT 12. JÚNÍ 2018