Samþykkt: Nýjar leiðir í samgöngumálum
Nýjar leiðir í samgöngumálum
Í anda grunnstefnu Pírata varðandi eflingu og verndun borgararéttinda, gagnrýna hugsun og aukinn sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga.
Píratar á Suðurnesjum ætla koma á úrbótum í samgöngumálum. Í því felst meðal annars eftirfarandi:
1. Við viljum þrýsta á hröðun meðferðar við tvöföldun Reykjanesbrautar og stóraukið viðhald til að tryggja öryggi vegfarenda.
2, Við höfnum gjaldtöku og tollahliðum á Reykjanesbraut, sem er tvísköttun sem skerðir áunnin borgararéttindi og sjálfsákvörðunarrétt íbúa.
3. Við viljum að tryggð verði aðstaða fyrir innanlandsflug á Keflavíkurflugvelli og flugfélögum verði boðið að nýta tengiaðstöðu vegna innanlandsflugs.
4. Við viljum gera breytingar á flokkun og notkun hafna og hafnarsvæða með því markmiði að þær standi í auknum mæli undir kostnaði.
5. Við viljum fjölga ferðum strætisvagna á Suðurnesjum og til höfuðborgarinnar og að ferðir innanbæjar verði aftur gjaldfrjálsar.
6. Við viljum efla vistvænar samgöngur með fjölgun rafhleðslustöðva og hvetja til forgangs vistvænna bíla, t.d. í bílastæði í nágrenni við flugvöllinn.
Umræða:
Sveitarfélög á Suðurnesjum þurfa að þrýsta á aukin gæði í stjórnun á vegagerð tengdri Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi þar sem tugþúsundir Íslendinga og útlendinga keyra um daglega. Tryggja þarf öryggi íbúa sem aka um stofnbrautirnar, sem er sá hluti þjóðvegarins sem ber mestan umferðarþunga. Það þarf að gera verulegar úrbætur á Grindavíkurvegi. Fyrirbyggja þarf frekari slys án tillits til kostnaðar.
Hafa þarf í huga að ferðamannastraumurinn frá Suðurnesjum heldur áfram út á Suðurland, ýmist í gegnum höfuðborgarsvæðið eða Krísuvík og Suðurstrandaveg. Það þarf því að finna varanlega fjármögnunarleið sem tryggir pening í vegagerð og viðhald vega auk náttúruverndar við uppbyggingu áfangastaða fyrir ferðaþjónustuna. Til þess má þrýsta á að skoðað verði hóflegt komugjald þar sem ferðamenn til landsins teljast í milljónum og fer fjölgandi á næstu árum ef spár standast.
Á sama tíma þarf að stuðla að vistvænni umferð, með hvata til innviða fyrir hleðslu rafbíla og forgangsveitingu þriggja fasa rafmagns til aðila sem vilja koma upp slíkum stöðvum. Síðan má setja það sem kröfu fyrir leyfisveitingum á starfsemi meðfram aðalsamgönguæðum að koma skuli þar upp rafhleðslustöðvum og viðhalda þeim. Hvetja þarf til uppbyggingar atvinnurekstrar við Grindavíkurafleggjara sem býður upp á rafhleðslustöðvar og að þær fái forgang umfram bensínstöðvar.
Innanlandsflug við Keflavíkurflugvöll kemur landsbyggðinni allri til góða. Minnkar álag á Reykjanesbraut, stuðlar að lægri verðum í innanlandsflugi, tengir byggðir landsins betur við ferðamannastrauminn, tryggir festu í starfsemi á sjúkrahúsum á Suðurnesjum og stuðlar að bestu markaðslegu lausn í tilhögun innanlandsflugs með heilbrigðri samkeppni við Reykjavíkurflugvöll. Aðstaða fyrir innanlandsflug þarf að vera í samræmi við evrópskar reglur.
Í langtímaáætlun getur Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum komið á ramma fyrir atvinnustarfsemi og skiptingu á Suðurnesjum, m.t.t. alþjóðaflugvallar og höfuðborgarsvæðis. Við endurskoðun á skipulagi má gera ferðaþjónustu hátt undir höfði. Ívilnanir til vistvænnar framleiðslu skulu efldar og dregið úr stuðningi hverskonar við mengandi starfsemi. Kynna skal sérstaklega hugmyndir um nýtingu á álversmannvirki til “kálvers” að hugmyndum Stefáns Karls og fleiri. Einnig mætti skoða hvort húsnæðið henti til framleiðslu á iðnaðarhampi.
Það eru fimm hafnir í Reykjanesbæ og eru eldri hafnirnar illa nýttar en viðhaldskostnaður mikill. Skoða þarf leiðir til að minnka rekstrarkostnað og viðhald einstakra hafna. Einnig þarf að finna leiðir til að auka umferð þar um, t.d. ferðaþjónustu með því að bjóða skemmtiferðaskipum upp á vistvæna kosti tengdum rafmagn úr landi og skólpþjónustu.
Tilheyrandi mál: | Nýjar leiðir í samgöngumálum |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | AlbertSvan |