Samþykkt: Mannréttinda- og velferðarstefna Pírata í Kópavogi
Leiðarljós:
-Virða skal mannréttindi í hvívetna og tryggja að í allri þjónustu sveitafélagsins sé komið fram við fólk af virðingu og vinsemd.
-Við eigum öll rétt á sjálfstæðu lífi með reisn óháð fötlun, færni, aldri eða stöðu að öðru leyti.
-Stöndum vörð um réttindi fólks af erlendum uppruna.
-Velferðarþjónusta sé aðgengileg og veitt á forsendum notenda.
-Stoppa skal í kerfisgötin svo fólk falli ekki milli kerfa.
-Fræðsla er betri en hræðsla. Notumst við hugmyndafræði skaðaminnkunar með fordómaleysi og umburðarlyndi að leiðarljósi í allri velferðarþjónustu.
-Útrýmum fátækt.
-Eflum samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og annarra aðila í velferðarþjónustu.
-Í allri starfsemi skal huga að jafnréttissjónarmiðum í víðum skilningi.
-Ofbeldi, einelti og áreitni skal aldrei líðast.
-Vinnum gegn fordómum og stuðlum að fjölbreytni innan samfélagsins.
Markmið:
- Stöndum vörð um lýðræði og samráð: Ekkert um okkur án okkar -
- Notendur fái tækifæri til að móta velferðarþjónustu með notendaprófunum og merkingarbæru samráði á öllum stigum þjónustuhönnunar.
- Til að samráð sé raunverulegt þarf það að fara fram nógu snemma í stefnumótun til að hafa áhrif á forsendur og nálgun.
- Notendaráðum starfandi á vegum bæjarins sé gert hátt undir höfði og markvisst leitað eftir samráði við þau á mismunandi stigum málsmeðferðar.
- Nútímavæðum þjónustu á forsendum notandans frekar en kerfisins, afstofnanavæðum og tryggjum sjálfsákvörðunarrétt -
- Þjónusta á að vera persónumiðuð og sveigjanleg. Hana skal veita af virðingu fyrir aðstæðum þeirra sem nota hana og skulu þau að ráða för í vegferð sinni.
- Sköpum kerfi sem efla einstaklinga til sjálfshjálpar og aðstoða það við að taka stjórn á eigin lífi.
- Fjölgum NPA samningum í takt við þörf og vinnum að því að ríkið standi við sinn hluta fjármögnunarinnar til lengri tíma.
- Veitum fólki heimili frekar en vistun. Fólk á að ráða yfir sínu heimili og hafa aðgengi að félagslegu rými.
- Verjum sjálfstæða búsetu í einkarými. Þjónusta skal miðuð að þörfum einstaklingsins og pörum skal gefinn kostur á að búa saman.
- Tryggjum samþætta þjónustu milli stofnana og kerfa hvort sem þau eru á vegum ríkis, sveitarfélaga eða annarra, svo fólk sé ekki skilið eftir í óvissu.
- Göngum til samninga við ríkið um þjónustu við eldra fólk og tryggt að ekki sé uppi óvissa um fyrirkomulag, fjármögnun, rekstur eða ábyrgð á henni til að tryggja samfellu í þjónustu við eldra fólk.
- Skoðum áhrif þess á gæði þjónustu og kostnað að flytja verkefni heilsugæslu til sveitarfélaga. Tryggjum að tekjustofnar fylgi verkefnum sem flytjast til sveitarfélaga.
- Nútímavæðum þjónustu, uppfærum starfsaðferðir og nýtum tæknina þegar hún á við með netöryggi íbúans að leiðarljósi, til að auðvelda líf fólks og draga úr sóun og mengun. Pössum jafnframt að aðgengi að þjónustu skerðist ekki.
- Gerum kerfi sem veita velferðarþjónustu gagnsærri og skiljanlegri og aukum yfirlit yfir þjónustuveitingu. Notendur eigi rétt á ráðgjöf um réttindi sín og þá þjónustu sem er í boði.
- Stuðlum að öflugum forvörnum og skaðaminnkun -
- Stuðlum að forvörnum til að bæta lýðheilsu og lífsgæði fólks, vinna gegn jaðarsetningu og einangrun, sporna gegn hrörnun og auka geðheilbrigði og vellíðan.
- Fíkniröskun er heilbrigðis- og félagslegur vandi, ekki glæpsamlegt athæfi.
Komum upp,,Húsnæði fyrst” úrræðum, tryggjum að sólarhringsþjónusta sé í boði og fjölgum fjölbreyttum búsetuúrræðum. - Tryggjum aðgengi fólks af öllum kynjum að viðunandi neyðarathvarfi án kröfu um vímuefnaleysi. Mikilvægt er að neyðarþjónusta sé í boði allan sólarhringinn.
- Þróum áfram neyslurými í samstarfi við ríkið og Reykjavíkurborg.
- Það er mikilvægt að allt sem við gerum miðist að því að draga úr skaða, angist og kostnaði, hvort heldur sem er fjárhagslegum eða samfélagslegum.
- Aukum forvarnir gegn heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum, bæði líkamlegu og andlegu, sem og stuðning við þolendur. Hugum sérstaklega að auknum stuðningi fyrir þolendur sem eru hafa hingað til orðið útundan. Einnig þarf að bjóða upp á fræðslu og úrræði fyrir gerendur.
- Tryggjum algilda hönnun og aðgengi allra að þjónustu sveitarfélagsins-
- Samþykkjum og innleiðum aðgengisstefnu.
- Tryggjum að réttindi séu ekki falin á bak við aðgengishindranir og mismuni þannig notendum eftir getu, baklandi, menningarlegum bakgrunni eða tungumálakunnáttu.
- Tökum mið af stöðlum um algilda hönnun og aðgengi í víðum skilningi, sem hentar öllum og útilokar engin, í öllum störfum bæjarins,
- Ráðum aðgengissérfræðinga sem yfirfara áætlanir og veita ráðgjöf um nauðsynlegar úrbætur í starfsemi bæjarins.
- Ávallt skal litið til þess við hönnun nýbygginga eða endurgerð húsnæðis að búningsklefar, salerni og önnur rými taki mið af algildri hönnun og fjölbreyttum þörfum óháð kynjum, fötlun og færni.
- Viðburðir og útfærsla rýma á vegum sveitarfélaga taki mið af mismunandi aðgengisþörfum hvort sem það er líkamlegt, geðrænt eða skynrænt aðgengi.
- Fjölgum sérfræðingum í hinsegin málefnum sem starfa hjá bænum.
- Kópavogsbær virði öll fjölskyldumynstur til jafns, óháð kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, kynvitund eða annars kyngervis.
- Tryggjum gott aðgengi að túlkaþjónustu til þess að tryggja að öll sem þurfa geti nýtt þjónustu bæjarins.
- Nýtum auðlesið og einfalt mál í texta og tali.
-Tryggjum jafnt aðgengi ólíkra hópa að samfélaginu -
- Innleiðum Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Þrýstum á uppfærslu reglugerða er varða mannvirkjamál í takt við lög um kynrænt sjálfræði.
- Stuðlum að almennri vitundarvakningu um gæði fjölbreytileikasamfélagsins.
- Styðjum við inngildingu (e. inclusion) og jafnt aðgengi fjölbreyttra hópa og menningarheima að samfélaginu og tækifærum.
- Vinnum gegn margþættri mismunun og styrkjum stöðu jaðarhópa. Stuðlum að valdeflingu þeirra með betra aðgengi að upplýsingum um réttindi og úrræði sem eru í boði á viðeigandi tungumáli.
- Aukum sýnileika félagsmiðstöðva og eflum þær sem samfélagshús fyrir alla aldurshópa.
- Vinnum gegn fordómum með frekari blöndun mismunandi hópa í starfsemi sveitarfélagsins.
- Nýtum félagsstarf fullorðinna sem vettvang til umfjöllunar um fjölbreytileika og virðingu fyrir mismunandi skoðunum. Tryggjum að félagsstarf á vegum Kópavogsfagni fjölbreytileikanum.
-Stuðlum að jöfnu aðgengi og jafnrétti í skóla-, frístunda- og tómstundastarfi-
- Íþrótta- og tómstundafélög sem fá styrki frá Kópavogsbæ fylgi virkri jafnréttisstefnu bæjarins.
- Íþróttahreyfingin skal vera aðgengileg öllum óháð kyni, kynhneigð, uppruna, færni, efnahag eða annarri stöðu.
- Veitum góðar upplýsingar um íþróttir og tómstundir á öðrum tungumálum en íslensku.
- Veitum börnum og ungmennum nægan stuðning til íþrótta- og tómstundaiðkunar óháð færni með þeim hætti sem hentar hverjum einstaklingi.
- Tryggjum að starfsfólk íþrótta- og tómstundafélaga fái virka og endurtekna jafnréttis-, kynja- og hinseginfræðslu.
- Gerum móðurmálskennslu barna með annað móðurmál en íslensku gjaldfrjálsa.
- Aukum jafnréttis-, hinsegin-, kynja- og kynfræðslu í skólum og tryggjum að öll börn hljóti slíka fræðslu á mismunandi stigum skólakerfisins.
- Þrýstum á að háskólanemar í kennslu- og uppeldisfræði og kennarar í símenntun hljóti fullnægjandi fræðslu í kynja-, kyn- hinsegin- og jafnréttismálum.
- Þrýstum á framleiðslu góðra námsgagna fyrir jafnréttis-, hinsegin-, kynja- og kynfræðslu.
- Styðjum við að félagsmiðstöðvar verði almennt hinseginvænni.
- Vinna skal gegn ofbeldi, einelti og öllu misrétti í skólaumhverfinu, sérstaklega skal huga að stafrænu ofbeldi og auka fræðslu um það.
-Styrkjum stöðu innflytjenda og fólks af erlendum uppruna, fjölgum tækifærum og stöndum vörð um réttindi þeirra-
- Sýnum frumkvæði í að bjóða innflytjendum og umsækjendum um alþjóðlega vernd upp á mannsæmandi aðstæður og aðbúnað þar sem unnið er gegn félagslegri einangrun.
- Sveitarfélög skulu veita innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð við að þekkja sín réttindi. Neyðarúrræði skulu ávallt vera í boði óháð lögheimili eða stöðu fólks, svo sem skorti á kennitölu. Engin skulu þurfa að sofa á götunni.
- Öll þau sem eiga lögheimili í Kópavogi og hafa náð kosningaaldri ættu að hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum óháð uppruna.
- Ávallt skal leitast við að draga úr fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna með viðeigandi fræðslu.
- Styðjum við grasrótarstarfsemi sem ýtir undir samfélagsþátttöku og virkni fólks af erlendum uppruna á öllum aldri.
- Styrkjum tengsl og samvinnu við mismunandi hópa innflytjenda, stuðlum að trausti milli þeirra og þjónustustofnanna.
- Helsta forsenda virkrar þátttöku er aðgengi að upplýsingum. Stóreflum viðleitni sveitarfélaga til að koma upplýsingum til innflytjenda í samstarfi við ríkið.
-Styðjum við að Kópavogur sem vinnustaður endurspegli fjölbreytileika samfélagsins og sé til fyrirmyndar varðandi jafnrétti á starfsstað-
- Stuðlum að fjölbreytni í mannauð bæjarins og vinnum gegn óútskýrðum og útskýrðum launamun. Fjarlægjum óþarfar hindranir úr vegi framgöngu í starfi.
- Kópavogsbær sé til fyrirmyndar í að bjóða upp á gott starfsumhverfi fyrir fólk með skerta starfsgetu.
- Eflum nám sem styður samfélags- og íslenskufærni innflytjenda. Slíkt nám skal vera aðgengilegt án tillits til efnahagsstöðu.
- Innkaupastefna skal gera kröfu um að verktakar sem samið er við skrifi undir ábyrgð á því að allir starfsmenn þeirra, undirverktaka og starfsmannaleiga fái laun, tryggingar og önnur kjör í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga.
- Nám, menntun og reynslu erlendis frá þarf að meta af sanngirni og þrýsta þarf á að ríkið bjóði upp á skilvirkt mat á því.
Tilheyrandi mál: | Mannréttinda- og velferðarstefna Pírata í Kópavogi |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Gormur | Allar stefnur vegna kosninga 2022: Fundargerð félagsfundar: |