Samþykkt: Umhverfis-, skipulags- og samgöngustefna Pírata í Kópavogi
Leiðarljós:
-Öll ákvarðanataka Kópavogs taki mið af markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum.
-Drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda, aukum kolefnisbindingu og vinnum gegn hamfarahlýnun.
-Tryggjum jafnrétti milli núverandi og komandi kynslóða.
-Hlúum að líffræðilegum fjölbreytileika með vernd og endurheimt lífríkis, náttúru og vistkerfa. Landnotkun og nýting náttúruauðlinda sé sjálfbær.
-Sköpum samfélag þar sem ekki er nauðsynlegt að eiga bíl. Bíllaus lífsstíll verði ekki jaðarsport heldur ákjósanlegur valkostur.
-Tryggjum valfrelsi í samgöngum með aðgengi að fjölbreyttum vistvænum ferðamátum og þjónustu í nærumhverfi með blandaðri byggð.
-Tryggjum gæði byggðar: mannvænt, grænt og lifandi bæjarskipulag við alla uppbyggingu og þróun bæjarrýmis.
-Skipulagsmál séu unnin með faglegum og lýðræðislegum vinnubrögðum á opinn og gagnsæjan hátt á forsendum langtímahagsmuna almennings.
-Stuðlum að bættum loftgæðum, hljóðvist og lýðheilsu, með tækifærum til útiveru, aðgengi að heilnæmu umhverfi og náttúru í þéttbýli.
-Styðjum við uppbyggingu húsnæðis í samræmi við þarfir íbúa í samstarfi við önnur sveitarfélög og ríkið.
Markmið
- Þétting byggðar og samgönguskipulag fyrir loftslagið, fólk og framtíðina -
- Vistvænir ferðamátar, gróður og bæjarrými skulu vera í forgangi við skipulag og hönnun.
- Bætum öryggi vegfarenda á virkum ferðamátum.
Gætum þess að verktakar þrengi ekki að göngustígum, hjólreiðastígum og götum, og skapi þannig áhættu og rýri lífsgæði vegfarenda. - Tryggjum aðbúnað og aðgengi nýrra hverfa að nauðsynlegum innviðum svo sem göngustígum, hjólastígum, almenningssamgöngum og matvöruverslun.
- Samgönguinnviðir snúist um að fólk komist leiðar sinnar og séu hugsaðir út frá því að flytja fólk fyrst og fremst, ekki bara bíla.
- Sköpum raunverulegt valfrelsi í samgöngum og aukum flutningsgetu þeirra með því að fjárfesta í innviðum fyrir fjölbreytta vistvæna ferðamáta.
- Styðjum við fjölbreytt deilihagkerfi í samgöngum svo íbúar geti gengið erinda sinna án þess að þurfa að eiga farartæki eða halda úti bifreið.
- Við þróun og uppbyggingu nýrra hverfa sé gengið út frá bílleysi sem möguleika. Ekki sé sjálfkrafa gengið út frá að því götur séu bílagötur. Skipulag hverfa sé fyrst hugað að umferð gangandi, hjólandi og annarra örflæðislausna.
- Fjölgum vistgötum í íbúðahverfum og drögum markvisst úr umferðarhraða.
- Þétting byggðar haldist í hendur við góðar almenningssamgöngur og áhrifasvæði Borgarlínu.
- Efling hverfiskjarna og fjölgun íbúða haldist í hendur við gönguvænt umhverfi og tengingu við helstu samgönguæðar.
- Hröðum uppbyggingu Borgarlínu eins og kostur er.
- Tryggjum að fjöldi hjólastæða við verslun, þjónustu og stofnanir bæjarins mæti þörfum. Hjólastæði séu yfirbyggð þar sem unnt er.
- Unnið skal að sátt milli reiðfólks og annarra vegfarenda.
- Styðjum við orkuskipti í samgöngum með áherslu á góða innviði fyrir rafhjól, rafskútur, aðrar vistvænar örflæðislausnir og rafbíla auk fjárhagslegra hvata til slíkrar uppbyggingar og notkunar.
- Byggjum upp öflugt hjólreiðasamfélag og bætum í fjárfestingu á öruggum og góðum innviðum fyrir hjólreiðar. Til dæmis beina og óhindraða hjólastíga sem eru aðskildir frá göngustígum, hjólahraðbrautir milli hverfa og sveitarfélaga.
- Við vetrar- og vorþjónustu skal setja hjóla- og göngustíga framar í forgangsröðun svo að fólk komist leiðar sinnar gangandi og hjólandi allt árið.
- Tryggjum aðgengi fyrir gangandi og hjólandi á framkvæmdatíma.
- Skipulag og hraðatakmarkanir taki mið af því að fækka slysum.
- Unnið skuli að því að draga úr þörf á skutli og auka sveigjanleika í ferðatíma með fjölbreyttum leiðum, til dæmis með því að tryggja örugga samgönguinnviði í kringum skóla- og frístundastarf, nýta frístundarútur eftir þörfum og skoða skipulag þjónustu s.s. skólatíma barna og tímasetningar íþróttaæfinga.
- Vinnum að gjaldfrjálsum og aðgengilegum almenningssamgöngum fyrir börn upp að 18 ára aldri.
- Komum aftur á næturstrætó.
- Fullgert hjólanet tengi öll hverfi innbyrðis, sem og milli hverfa og sveitarfélaga.
- Húsnæði fyrir öll og gæði húsnæðis -
- Mikilvægt er að tryggja félagslega blöndun í öllum hverfum og aðgengi allra að húsnæði sem hentar á viðráðanlegu verði. Á hverju uppbyggingarsvæði verði skilgreindu lágmarki íbúða úthlutað til uppbyggingar ódýrari íbúða, til dæmis í samvinnu við óhagnaðardrifin leigufélög.
- Félagslegum íbúðum verði fjölgað og unnið í sameiningu að því að öll sveitarfélög axli sinn hluta ábyrgðarinnar á því að tryggja framboð á félagslegu húsnæði.
- Tryggjum að uppbygging fjölbreytts húsnæðis með tilliti til stærðar og búsetuforms haldist í hendur við þörf og framtíðarmöguleika. Ýtt verði undir fjölbreytt búsetuform eins og smáhýsi og hópbúsetu.
- Vinnum markvisst að jafnvægi og aukinni framleiðni á húsnæðismarkaði.
- Áætlanir um uppbyggingu húsnæðis og þróun lands séu faglega unnar með langtímahugsun að leiðarljósi.
- Styðjum við þróun stafrænnar lausnar sem samræmir alla þjónustuaðila á sviði félagslegs og leiguhúsnæðis, í samstarfi við önnur sveitarfélög og ríkið.
- Styðjum við þróun og beitingu uppbyggingar- og rekstraraðferða sem koma í veg fyrir myglu og aðra innimengun.
- Stuðlum að samræmdum aðgerðum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og annarra opinberra á sviði húsnæðismála.
-Fagleg, lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð-
- Bætum upplýsingagjöf í skipulagsmálum til íbúa og hagsmunaaðila með aðgengilegri framsetningu skipulagsgagna.
- Byggjum ákvarðanir í skipulagi á þverfaglegum sjónarmiðum þar sem mismunandi svið stjórnsýslunnar hafi tækifæri til aðkomu og umsagnar frá fyrstu stigum vinnunnar þegar nýtt skipulag er í undirbúningi.
- Við gerð skipulags séu skilgreind viðmið um umhverfisgæði, svo sem óskerta breidd gangstétta, víkjandi 90° bílastæði, næga jarðvegsþykkt á bílakjöllurum fyrir gróður og hlutfall gróðurþekju.
- Frumvinna skipulags tryggi góð lífsgæði íbúa og gæði byggðar út frá algildri hönnun og aðgengi fyrir öll, til dæmis með umhverfissálfræðilegu mati.
- Stuðlað sé að fjölbreytileika í götumynd í mannlegum mælikvarða í stað einsleits umhverfis, meðal annars með mismunandi lóðarstærðum og aðkomu ólíkra uppbyggingaraðila.
- Notum tæknina og gagnaöflun til að bæta þjónustu og nýta betur tíma og fjármagn.
- Uppbygging taki mið af eldri byggð í grónum hverfum.
- Uppbygging fyrir efnaminni hópa sé ekki á kostnað lífsgæða.
- Skipulags- og umsóknarferlar verði rýndir, endurskoðaðir og einfaldaðir með það að markmiði að bæta þjónustu, auka gagnsæi og jafnræði ásamt því að koma í veg fyrir frændsemi og spillingu.
- Lóðaúthlutanir fari eftir gagnsæjum og skýrum ferlum og miðist að því að dreifa eignarhaldi á húsnæði.
- Við þróun byggðar séu heildarhagsmunir íbúa hafðir að leiðarljósi frekar en sérhagsmunir einstaka hagsmunaaðila.
- Gengið sé lengra en lög kveða á um við kynningu umfangsmikilla breytinga innan hverfa, svo sem við undirbúning stærri bygginga sem hafa áhrif á umhverfið.
- Allt deiliskipulag og verkhönnun byggi á sjónarmiðum góðrar bæjarrhönnunar með áherslu á gæði umhverfis, almenningsrýmis og byggðar.
- Leitað verði fjölbreyttra leiða til að styðja við þátttöku íbúa í skipulagi.
- Eflum samstarf um umhverfis-, skipulags- og samgöngumál á milli sveitarfélaga svo setja megi aukinn kraft í skýra stefnu til framtíðar.
-Eflum grænan rekstur sveitarfélaga-
- Gagnsæi og upplýsingar eru forsendur aðgerða og því er mikilvægt að mæla og birta vistspor allrar starfsemi sveitarfélagsins.
- Beitum hringrásarhugsun í átt að kolefnishlutleysi í öllum innkaupum með grænni innkaupastefnu. Samfélagsábyrgð og sjálfbærnimarkmið verði hluti af forsendum útboða.
- Lágmörkum vistspor við framkvæmdir, bæði almennt og á vegum sveitarfélagsins, og nýtum jákvæða hvata til ábyrgrar umhverfishegðunar, til dæmis með vistvottunum.
- Þau borgi sem menga.
- Drögum úr sóun og mengun í starfsemi og rekstri með góðri nýtingu á orku og auðlindum, til dæmis þegar kemur að lýsingu, kyndingu og snjalltækni í rekstri og sorpmálum sem og stafrænni þróun í þjónustu.
- Stuðlum að framboði vistvænnar fæðu, þannig að grænkerafæði sé valkostur í öllum mötuneytum á vegum Kópavogsbæjar, dregið sé úr matarsóun og hlutdeild óumhverfisvænnar fæðu á matseðlum.
- Metum losun gróðurhúsalofttegunda máltíða í mötuneytum.
- Endurnýjum almenningsvagnaflotann og bílaflota bæjarins með vistvænum orkugjöfum.
-Styrkjum hringrásarhagkerfið og skilvirka nýtingu auðlinda-
- Drögum úr úrgangsmyndun og matarsóun.
- Stuðlum að skilvirkri flokkun á öllum efnisstraumum hjá einstaklingum, í almannarýmum, hjá fyrirtækjum og stofnunum.
- Aukum hlutfall endurnýtingar og endurvinnslu með fjölbreyttum leiðum og grænum hvötum eins og fræðslu, vönduðum grenndarstöðvum víða um hverfin, notendavænni þjónustu á endurvinnslustöðvum og grænum og hvetjandi verðskrám.
- Eflum eftirfylgni með og gagnsæi um vinnslu efnisstrauma.
- Stuðlum að skilvirkri orku- og auðlindanýtingu og samvinnu í orkumálum.
- Hættum að urða virkan úrgang og komum á fót sameiginlegri sorpbrennslu sveitarfélaga.
- Nýtum tæknina til að stuðla að skilvirkri sorpheimtu í almannarými.
- Stuðlum að þróun nytjamarkaðsmenningar víða um sveitarfélög og hverfi.
- Leigjum eða lánum frekar en eigum og styðjum frekar við viðgerðaþjónustu, deilihagkerfi og áhaldaleigur þar sem boðið er upp á nauðsynleg tól, tæki og leiðbeiningar fyrir notendur, til dæmis á bókasöfnum og félagsmiðstöðvum.
- Nýtum blágrænar ofanvatnslausnir sem víðast í nýrri byggð og við þróun gróinna hverfa svo hreinsa megi ofanvatn og draga úr mengun, endurhlaða grunnvatnsstöðu, minnka flóðahættu og auka líffræðilegan fjölbreytileika.
-Styrkjum stjórnsýslu sveitarfélaga í umhverfis- og loftslagsmálum-
- Vinnum að samræmingu aðgerða og stefna sveitarfélaga í umhverfismálum til að hámarka skilvirkni og slagkraft.
- Vinnum að endurheimt votlendis og styrkjum þannig vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika.
- Íbúar og heilsa þeirra skulu ætíð njóta vafans í ákvörðunum er varða staðsetningu mengandi atvinnustarfsemi.
- Skoðum kosti samræmingar heilbrigðiseftirlits á öllu höfuðborgarsvæðinu.
- Tryggjum góða bæjarhönnun, nægt pláss og gróður í öllum skipulags-, hönnunar- og öðrum verkefnum Kópavogsbæjar.
-Græn svæði, græn byggð og heilnæmt umhverfi -
- Öll hafi greiðan aðgang að grænum svæðum sem henta til útivistar í sínu nærumhverfi.
- Tryggjum grænt og manneskjuvænt umhverfi á uppbyggingarsvæðum og látum malbik og hellur markvisst víkja fyrir grænum svæðum.
- Bætum loftgæði og drögum úr svifryksmengun með því að draga úr notkun nagladekkja og tryggja góð gatnaþrif ásamt því minnka ferðaþörf með bættri stafrænni þjónustu.
- Komum upp sameiginlegu neyðarferli sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu sem nýta má þegar loftgæði stefna í að verða hættuleg (gráir dagar).
- Frítt verði í almenningssamgöngur á gráum dögum.
Tilheyrandi mál: | Umhverfis-, skipulags- og samgöngustefna Pírata í Kópavogi |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Gormur | Allar stefnur vegna kosninga 2022: Fundargerð félagsfundar: |