Lýðræðis-, menningar- og nýsköpunarstefna Pírata í Kópavogi
Allar stefnur vegna kosninga 2022:
Fundargerð félagsfundar:
Málsnúmer: | 2/2022 |
---|---|
Tillaga: | Lýðræðis-, menningar- og nýsköpunarstefna Pírata í Kópavogi |
Höfundur: | Gormur |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata í Kópavogi |
Upphafstími: | 03/04/2022 12:03:47 |
Umræðum lýkur: | 13/04/2022 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 08/04/2022 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 13/04/2022 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 7 |
Já: | 7 (100,00%) |
Nei: | 0 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Leiðarljós:
-Styrkjum lýðræðisleg vinnubrögð og aukum lýðræðisþátttöku íbúa.
-Verum öflugt aðhaldsafl gegn spillingu og bregðumst við af ábyrgð þegar mál koma upp.
-Stuðlum að framsýnni nýsköpunarmenningu í takt við samfélags-, vistkerfis- og tæknibreytingar.
-Nýtum hugvitið, tæknina og stafræna umbreytingu til að bæta líf íbúa og nútímavæða þjónustu.
-Setjum samfélagslega nýsköpun á oddinn, byggjum upp menningu, ferla og aðstöðu sem gera bæinn aðgengilegri, kvikari og sveigjanlegri.
-Stöndum vörð um aðgengi að menningu og listum sem grunnstoð lýðræðisins.
-Hagnýtum gögn og gagnavinnslu til að bæta þjónustu og taka upplýstar ákvarðanir
-Minnkum vesen.
-Styðjum við hugmyndaauðgi, fjölbreytileika, nýsköpun og listsköpun.
Markmið:
-Minnkum vesen, sóun og mengun með nútímavæddri, notendamiðaðri og stafrænni þjónustu.-
- Eflum stafræna þjónustu þar sem íbúar geta afgreitt mál sín sjálfir á einfaldan, hraðan og öruggan máta. Tryggjum að þjónustan sé aðgengileg og að öll fái aðstoð við hæfi.
- Innleiðum notendamiðaða þjónustuhugsun í samræmdri framlínuþjónustu þvert á starfsemi bæjarins. Stefnum að því að íbúanum mæti eitt viðmót í allri þjónustu.
- Tryggjum samfellu í þjónustu svo að fólk þurfi ekki alltaf að byrja upp á nýtt í hvert skipti sem það hefur samband við bæinn.
- Uppfærum þjónustu í takt við fjölbreyttar þarfir íbúa byggt á virku notendasamráði og notendaprófunum og pössum að engin sitji eftir.
- Innleiðum snjallar lausnir sem geta einfaldað störfin og bætt þjónustu. Prófum okkur í auknum mæli áfram með sjálfvirkar snjalllausnir.
-Stóreflum gagnsæi og upplýsingaaðgengi í stjórnsýslu og nýtum gögn til upplýstrar ákvarðanatöku.-
- Bætum gagnsæi og rekjanleika í ákvarðanatöku og ferlum bæjarins, verktaka á hans vegum og dótturfyrirtækjum bæjarins.
- Verum leiðandi við birtingu opinna gagna og tryggjum að þau séu aðgengileg, auðfinnanleg og auðveld í notkun. Tryggjum skýrt eignarhald bæjarins á gögnum og afurðum.
- Samþættum og bætum aðgengi að þeim gögnum sem er að finna í gagnagrunnum, svo sem heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs, mælaborði barna og opnu bókhaldi.
- Tryggjum aðgengi almennings, starfsfólks bæjarins, kjörinna fulltrúa og fjölmiðla að gögnum til að stuðla að virku aðhaldi og yfirsýn. Innleiðum skýra upplýsingastefnu sem kveður á um þetta í öllu stjórnkerfinu.
- Styðjum við frjálsan og opinn hugbúnað og innleiðum notkun véllæsilegra gagna í öllu stjórnkerfinu.
- Tryggjum örugga og vandaða meðferð gagna í samræmi við persónuverndarlög.
- Tryggjum að upplýsingar um fjármál sveitarfélagsins, dótturfyrirtækja og byggðasamlaga séu sem aðgengilegastar.
- Innleiðum nýja styrkjagátt með yfirliti yfir veitta styrki og forsendur styrkveitinga með stafrænu og aðgengilegu umsóknarferli.
- Aðgengi að fundargerðum dótturfyrirtækja verði tryggt og fundargögn birt á vefnum samhliða fundargerðum.
- Stundum nútímalega og vandaða skjalavörslu þar sem langtímavarðveisla skjala samræmist lögum og reglum.
- Viðhöfum öflugar varnir gegn tölvuárásum.
- Tryggjum gott upplýsingaaðgengi óháð tungumáli, fötlun og/eða færni þar sem auðskilið tungumál er viðmiðið. Allar mikilvægar upplýsingar, til að mynda vefsíður, umsóknareyðublöð og aðrar lykilupplýsingar, séu aðgengilegar á íslensku, ensku og pólsku.
-Eflum lýðræðislega þátttöku íbúa og lýðræðisleg vinnubrögð stjórnsýslunnar.-
- Styrkjum þátttökulýðræði og aukum aðgengi íbúa að lýðræðisverkefnum.
- Komum á fót íbúaráðum í hverju hverfi fyrir sig og aukum samráð við íbúa um mál sem þá varða.
- Tryggjum fjölbreyttar leiðir íbúa til áhrifa og pössum að innsendum hugmyndum og ábendingum sé svarað. Nýtum ábendingar markvisst til að bæta ferla og þjónustu.
- Innleiðum markviss og gagnsæ vinnubrögð við samráð innan ráða, nefnda, stjórnsýslu dótturfyrirtækja og byggðasamlaga.
- Nýtum tæknina til að bæta upplýsingamiðlun um skipulags- og stjórnsýslumál. Skoðum kosti þess að taka upp kynningar í ráðum og nefndum og gera þær aðgengilegar almenningi ásamt öðrum fundargögnum.
- Bætum aðgengi og framsetningu skipulagsgagna. Látum kynningarskjöl ávallt fylgja fundargögnum.
- Eflum lýðræðislega aðkomu kjörinna fulltrúa og íbúa að byggðasamlögum.
- Beitum okkur fyrir lækkun kosningaaldurs við sveitarstjórnarkosningar niður í 16 ár og útvíkkun kosningaréttar fyrir innflytjendur.
- Skoðum hvort fjölga þurfi kjördeildum svo efla megi lýðræðisþátttöku og greiða fyrir aðgengi íbúa að kjörstöðum.
-Tryggjum faglegheit og jafnræði í vinnubrögðum og veitum öflugt aðhald gegn spillingu.-
- Komum á fót embætti umboðsmanns bæjarbúa sem bjóði upp á öfluga og aðgengilega ráðgjafarþjónustu fyrir almenning. Styrkjum og skýrum þær leiðir sem íbúar hafa til að leita stuðnings og réttar síns innan stjórnkerfisins.
- Bjóðum upp á skilvirka uppljóstrunargátt þar sem gætt er að nafnleynd og málum fylgt markvisst eftir.
- Opin og gagnsæ ferli séu viðhöfð í kringum sölu á auðlindum bæjarins og eigna almennings, svo sem við útdeilingu lóða eða eignasölu.
- Viðhöfum gagnsæja og faglega ferla og tryggjum óháðar og ópólitískar ráðningar í störf og embætti.
- Auglýsum öll störf og þrengjum frávik frá þeirri meginreglu með því að setja strangari skorður um meðal annars skammtímaráðningar.
- Þrýstum á að sett verði lög sem geri hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa sveitarfélaga að kröfu.
-Stuðlum að aukinni nýsköpun og tryggjum jafnræði, gagnsæi og sjálfbærni í innkaupa- og útboðsferlum.-
- Stuðlum að aðgengilegri heildaryfirsýn yfir öll innkaup og útboð.
- Leggjum áherslu á aðgengi og sveigjanleika með aukinni notkun innkaupa- og útboðsferla sem ýta undir nýsköpun og þróun, meðal annars með útboðum á áskorunum og virku samtali í stað fyrirfram skilgreindra lausna.
- Prófum okkur áfram og gefum okkur svigrúm til þess að prófa lausnir áður en við læsum okkur inni í stórum innkaupum.
- Stuðlum að fjölbreytni meðal þátttakenda og sem jöfnustu aðgengi meðal mismunandi birgja í innkaupa- og útboðsferlum og hugmyndasamkeppnum, þannig að tryggt sé að opinber innkaup verði á færi minni aðila eins og sprotafyrirtækja.
- Í fjárhagsáætlun verði tilgreint að ákveðum hluti af fjárheimildum starfseininga verði varið í umbóta- og nýsköpunarverkefni.
-Sköpum umbóta- og nýsköpunarmenningu innan starfsstaða til hagsbóta fyrir íbúa.-
- Hvetjum og veitum svigrúm til nýsköpunar og tilrauna innan starfseininga með fjölbreyttum leiðum, t.d. með aðgengi að fjármagni fyrir skapandi lausnir, nýsköpunarfræðslu til að efla færni og hugarfar, skapandi samvinnurýmum og að ákveðinn tími sé tileinkaður nýsköpun.
- Vinnum gegn valdboðshugsun þannig að raddir allra heyrist og hugmyndir þeirra komist í ferli, til að kynda undir lýðræðislegri og skapandi hugsun.
- Stuðlum að virkri umbótamenningu innan stjórnsýslunnar.
-Styðjum við lifandi þekkingar- og nýsköpunarsamfélag með fjölbreyttum atvinnutækifærum innan bæjarmarkanna.-
- Leggjum áherslu á aðlaðandi nýsköpunarumhverfi fyrir frumkvöðla og gerum vistkerfi nýsköpunar í bænum sérstaklega aðgengilegt fyrir hópa sem hallar á.
- Eflum og þróum innviði fyrir klasasamvinnu þvert á atvinnulífið.
- Styðjum uppbyggingu frumkvöðlasetra og skapandi samvinnurýma fyrir m.a. starfsfólk fyrirtækja og hins opinbera, frumkvöðla og verktaka harkhagkerfisins í tengingu við þjónustukjarna sem innihalda m.a. bókasöfn, deilihagkerfissetur og aðra þjónustu.
- Verum fýsileg staðsetning fyrir búsetu þeirra sem stunda fjarvinnu.
- Eflum innlent og alþjóðlegt samstarf um nýsköpun, styrkjaumsóknir og rannsóknir.
- Aukum samstarf við hina ýmsu styrktarsjóði um framboð af sumarstörfum út frá áskorunum og lærdómstækifærum sem sveitarfélögin standa frammi fyrir.
- Eflum deili-, endurnýtingar- og hringrásarhagkerfið í víðum skilningi. Styðjum við deilihagkerfis- og nýsköpunarþróunarsetur í tengingu við skóla, félagsmiðstöðvar og bókasöfn.
- Stundum virkt og reglulegt samráð við nýsköpunarsamfélagið til að stuðla að virðissköpun.
- Eflum menntakerfið sem stökkpall frjórrar hugmyndaauðgi, sköpunar og gagnrýnnar hugsunar-
- Tryggjum samfellda fræðslu um og þátttöku í nýsköpun á öllum stigum menntakerfisins.
- Hugað verði að aukinni lýðræðis- og jafnréttisfræðslu og kennslu í gagnrýninni og skapandi hugsun í stað utanbókarlærdóms. Hlúð verði að samfélags-, hugvísinda- og skapandi greinum og vægi þeirrar menntunar fyrir fjórðu iðnbyltinguna.
- Hvetjum til símenntunar kennara og annars starfsfólks í takt við tækni- og samfélagsbreytingar.
- Aðlögum stjórnsýsluna að þörfum bæjarbúans og kennum ungu fólki á stjórnsýsluna og aukum færni eldra fólks í að nýta rafræna þjónustu.
- Kennum ábyrga notkun samfélagsmiðla.
- Eflum aðgengi eldra fólks að tæknilæsismenntun.
- Sköpum frelsi og jöfn tækifæri til að njóta og skapa menningu og lista
- Styðjum við jafnt aðgengi að fjölbreyttri menningu og list fyrir öll óháð efnahag, aldri, uppruna, stöðu eða öðrum breytum.
- Stöndum vörð um öfluga jafnréttisstefnu og inngildingu í menningarmálum.
- Eflum sýnilega sem ósýnilega innviði menningar og lista.
- Stöndum vörð um okkar menningararf og alla hringrás safnaflórunnar.
- Hlúum að grasrót í menningarstarfi.
- Stöndum með frjálsu upplýsinga-, hugmynda- og sköpunarflæði þvert á samfélög og landamæri.
- Eflum fjölmenningarstarf og hlúum að menningu innflytjenda svo hún auðgi og frjóvgi þá menningu sem fyrir er.
- Styrkjum aðgang að menningu með aðstoð tækninnar.
- Tryggjum gagnsæi í öllum styrkjaferlum á menningarsviðinu.
- Stöndum gegn allri ritskoðun á menningu.
- Stöndum vörð um rétt listafólks til að fá greitt fyrir vinnu sína.