Drög stjórnarskrárnefndar að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur
Með tilvísun til eftirfarandi greina í grunnstefnu Pírata
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.2 Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.
6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
6.2 Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gegnsærrar stjórnsýslu.
6.3 Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.
Álykta Píratar
Píratar styðja að drög að frumvarpi stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslur, fái þinglega meðferð.
Greinargerð
Ályktun þessi lýtur að tillögu að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem stjórnarskrárnefnd birti til kynningar og umsagna, föstudaginn 19. febrúar síðastliðinn. Tillagan er svohljóðandi:
> Fimmtán af hundraði kosningarbærra manna geta krafist þess að nýstaðfest lög frá Alþingi verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu. Kröfuna ber að leggja fyrir ráðherra innan fjögurra vikna frá birtingu laganna og skal atkvæðagreiðslan fara fram í fyrsta lagi sex vikum og í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að staðfest krafa liggur fyrir. Fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum verða ekki borin undir þjóðina samkvæmt þessari málsgrein.
Fimmtán af hundraði kosningarbærra manna geta enn fremur krafist þess að ályktun Alþingis skv. 21. gr. verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu. Heimilt er með lögum, sem samþykkt eru með 2 /3 hlutum atkvæða á Alþingi, að ákveða að sama gildi um ályktanir sem hafa réttar- áhrif eða fela í sér mikilvæga stefnumörkun. Krafan þarf að berast ráðherra innan fjögurra vikna frá samþykkt Alþingis og skal atkvæðagreiðslan fara fram í fyrsta lagi sex vikum og í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að staðfest krafa liggur fyrir.
Alþingi getur ákveðið að fella úr gildi lög eða afturkalla ályktun áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur og fer hún þá ekki fram.
Til þess að hnekkja lögum eða ályktunum samkvæmt þessari grein þarf meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur kosningarbærra manna, að synja þeim samþykkis.
Með lögum, sem samþykkt eru með 2 /3 hlutum atkvæða á Alþingi, skal mælt nánar fyrir um upphafstíma og fyrirsvar undirskriftasöfnunar, form og söfnun undirskrifta, miðlun upplýsinga, framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og lausn ágreiningsmála fyrir dómstólum.
Þrátt fyrir að stjórnarskrárnefnd hafi skilað tillögum til umsagna er yfirstandandi ferli hvergi nærri lokið. Næsta skref, ef nefndin skilar endanlegum tillögum, er meðferð á Alþingi og að lokum þjóðaratkvæðagreiðsla, yrði málið samþykkt á Alþingi.
Með þessari tillögu er lagt til að Píratar styðji að frumvarp þetta fái þinglega meðferð og þá í framhaldinu mögulega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því felst ekki flokksmenn gefi þingmönnum Pírata fyrirmæli um að greiða atkvæði á einn eða annan veg, enda yrðu þeir ekki bundnir af slíku sbr. ákvæði stjórnarskrárinnar.
Um þessa ályktun geta flokksmenn kosið á hvaða forsendum sem er og við undirbúning tillögunnar var lögð áhersla á að binda stuðning eða höfnun ekki við neinar tilteknar forsendur. Hver og einn flokksmaður getur greitt atkvæði og stutt eða hafnað tillögunni á sínum eigin forsendum.
Tilheyrandi mál: | Drög stjórnarskrárnefndar að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Hafnað | bjornlevi |