Samþykkt: Efnahagsstefna
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
2. Borgararéttindi
4. Gagnsæi og ábyrgð
6. Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
Með tilvísun í stefnu Pírata:
4. gr. stefnu Pírata um "Gerð hagkerfisins": "Stefna þarf að því að efnahagurinn þjóni þörfum samfélagins.
1. gr. stefnu almennrar umhverfisstefnu Pírata: "Framfylgja skal megin gildum sjálfbærrar þróunar. Sjálfbær þróun mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar."
1. - 3. gr.stefnu Pírata um samkeppnismál.
Stefnu Pírata "Ríkissjóður og skattheimta"
Álykta Píratar:
- Til að vinna að hagsmunum almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið vera skýr í öllum efnahagsmálum.
- Jafnræði, frjáls samkeppni og nýsköpun eru mikilvægir eiginleikar heilbrigðs hagkerfis og skulu hafðir sem viðmið í lagasetningu um efnahagsmál og í opinberum rekstri.
- Tryggja skal að löggjöf um hvers konar starfsemi; opinbera, einkarekna eða annars konar rekstrarform, innihaldi vernd hinna valdminni gegn misbeitingu hinna valdmeiri.
- Helsta efnahagslega ábyrgð hins opinbera er að tryggja rekstur grunnstoða samfélagins og eftirlit með hagkerfinu.
- Hið opinbera skal alla jafna ekki safna afgangi eða skuldum nema í samræmi við langtímaáætlanir.
- Afurðir sem tengjast verkefnum fjármögnuðum af opinberu fé skulu almennt vera í almannaeigu og þar með opin og aðgengileg öllum.
- Fjármál hins opinbera skulu vera opin, tölvutæk, gagnsæ og sundurliðuð.
- Efla þarf fleiri rekstrartegundir í lögum. Vinna þarf markvisst að þvi að staðla og styðja mismundandi rekstrartegundir með því að leggja sérstaka áherslu á hvar ábyrgð liggur.
- Tryggja þarf aðkomu sveitarfélaga í allri ákvarðanatöku í efnahagsmálum sem þau varða.
- Eignarhald lögaðila skal vera opið og rekjanlegt.
Greinargerð
Hið opinbera eru allir opinberir aðilar svo sem ríki, sveitarfélög og stofnanir.
Stefnan mælir ekki fyrir um hvort grunnþjónusta skuli almennt vera í opinberum rekstri eða einkarekstri. Stefnan gerir ráð fyrir því að frjáls samkeppni geti verið milli opinbers reksturs, einkareksturs og annarra rekstrartegunda. Ein tegund reksturs útilokar ekki að önnur tegund geti veitt sömu þjónustu, á sömu forsendum, samhliða.
Efnahagsstefna Pírata er regnhlífarstefna fyrir sértækar stefnur svo sem skattamál, fjármál ríkisins, banka, vexti, gjaldeyri, afdrif verðtryggingar og svo framvegis.
Gert er ráð fyrir því að hið opinbera ígrundi aðgerðir sínar vel með tilliti til þess hvaða mögulegu áhrif þær hafi á efnahagslífið til lengri og skemmri tíma. Gert er ráð fyrir því að langtímamarkmið sem styðja við heilbrigt efnahagsumhverfi með jöfnum tækifærum fyrir alla, núverandi kynslóð og komandi kynslóðir, sé mikilvægt til að ná velsæld til framtíðar. Jafnræði þýðir m.a. jöfn tækifæri og að hver sem er á að geta unnið sér upp aðstöðumun, sem aðrir hafa mögulega, til þess að nýta eitthvað "tækifæri". Það skal vera skýrt hverjir bera ábyrgð í hverju máli og hvernig fjármögnun er háttað til lengri og skemmri tíma. Setja þarf verkefnum áfangaviðmið og fylgja þeim á eftir með mælingum um hvort valdar lausnir séu að skila tilætluðum árangri.
Sérstaklega þarf að gæta að og koma í veg fyrir spillingu í opinberum rekstri og einokun á frjálsum markaði. Frjáls samkeppni og nýsköpun fara forgörðum í einokunarumhverfi eða opinberri spillingu. Án frjálsrar samkeppni og nýsköpunar er ekki jafnræði eða atvinnufrelsi. Þá getur hið opinbera gripið til ráðstafana til að tryggja hagsmuni almennings, ábyrgð, stöðugleika, sjálfbærni og langtímamarkmið í atvinnugreinum þar sem fákeppni ríkir.
Löggjöf má aldrei hygla þeim sem geta í krafti stærðar, aðstöðu eða tengsla komið sér í einokunarstöðu eða misnotað á annan hátt sérstöðu sína gagnvart einstaklingum og neytendum. Samkeppni lögaðila (opinberra og og einka) fellur ekki undir þessa grein.
Með grunnstoðum samfélagsins er átt við það sem ríkið tryggir að sé til staðar til að hlúa að mannréttindum og frelsi borgaranna. Til grunnstoða samfélagsins teljast meðal annars heilbrigðiskerfið, menntakerfið, almannatryggingakerfið, dómstólar, löggæsla, samgöngur, samskipti og menning. Hið opinbera á að fylgjast með og gefa út allar efnahagslegar hagtölur sem mælistikur á ýmsum þáttum grunnstoða samfélagsins. Þó efnahagsleg ábyrgð hins opinbera sé aðallega að tryggja rekstur grunnstoða samfélagsins og eftirlit með hagkerfinu þá er ekki ætlast til þess að það sé hamlandi skilyrði. Hið opinbera þarf augljóslega og nauðsynlega að virða viðmið um jafnræði og frjálsa samkeppni. Markmið stefnunnar er að grunnstoðir samfélagsins séu alltaf reknar á sem hagkvæmastan hátt þar sem gæði og jafn aðgangur allra er lykilatriði.
Löggjafavaldið þarf að gera langtímaáætlanir svo hægt sé að safna fyrir eða skipuleggja skuldsetningu og útgjöld vegna framkvæmda. Ófyrirsjáanlegir atburðir gerast en hægt er að gera ráð fyrir þeim í langtímaáætlunum til dæmis með hamfarasjóði eða sambærilegum úrræðum. Vandamál sem langtímaáætlun gerir ekki ráð fyrir, til dæmis að umfangi eða vegna örra breytinga, gerir stefnan ráð fyrir að úr verði leyst til skamms tíma og langtímaáætlanir aðlagaðar á viðeigandi hátt. Aðalatriðið er að slík áætlanagerð fari eftir ferli þar sem hægt er að beita málskotsrétti til þess að koma í veg fyrir misnotkun á almannafé; að almannafé sé ekki safnað né stofnað til skulda án sérstaklega tilgreinds markmiðs.
Ef eitthvað er keypt fyrir almannafé, þá er það öllu jöfnu almannaeign (dæmi: CC-BY-SA - https://creativecommons.org/licenses/by-sa/3.0/) Dæmi um óhjákvæmilega undantekningu er til dæmis birting vísindalegra greina í erlendum tímaritum sem fylgja eigin stöðlum um opinn aðgang. Þrátt fyrir það ættu gögn og sú þekking sem hlýst af rannsóknunum að fylgja stefnu um almannaeign.
Ytra eftirlit á fjármálum hins opinbera er mikilvægt aðhaldstæki. Allir sem stunda einhvers konar viðskipti við hið opinbera eru í raun að stunda viðskipti við almenning og því skulu allir hafa aðgang að þeim viðskiptaupplýsingum. Upplýsingar sem varða persónuvernd og friðhelgi einkalífs skulu gerðar ópersónugreinanlegar.
Huga þarf að því hvernig mismunandi rekstrartegundir skila skyldum sínum gagnvart samfélaginu í heild og hvar ábyrgð liggur en það á að vera sem einfaldast að standa skil af skyldum og sem erfiðast að forðast ábyrgð. Mismunandi rekstrartegundir eru til dæmis lýðræðislega rekin fyrirtæki, fyrirtæki þar sem allir starfsmenn eiga sjálfkrafa jafnan hlut í fyrirtækinu og fyrirtæki þar sem neytendur verða sjálfkrafa hluthafar með viðskiptum sínum.
Sveitarfélög eiga að geta forgangsraðað og haft neitunarvald varðandi framkvæmdir í sínu umdæmi. Þeim skyldum sem sveitarfélög þurfa að sinna skal fylgja full fjármögnun.
Ísland á að vera opið hagkerfi, án hafta. Til þess að ná því markmiði þarf gagnsæi í viðskiptum að vera á hærra stigi en áður. Upplýsingar um eignarhald og ábyrgð á að vera aðgengilegt öllum. Ekki á að vera hægt að fela hver ber ábyrgð á rekstri fyrirtækja og eiga ársreikningar að vera aðgengilegir öllum að kostnaðarlausu. Tryggja þarf opinn aðgang að gögnum um starfsstöðvar fyrirtækja og eignarhald þeirra.
Tilheyrandi mál: | Efnahagsstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | bjornlevi | Samþykkt í kosningakerfi á félagsfundi Pírata 12. apríl 2016 (http://kvika.piratar.is/index.php/F%C3%A9lagsfundur1204_2016) |
2 | Tillaga | jojobja | Það má halda því fram að rekjanlegt eingarhald sé nú þegar fyrir hendi, þ.e. rakið til lögaðila, en það gagnast lítið. |
3 | Tillaga | helgihg | Lagður er til nýr töluliður sem miðar að því að draga úr óeftirsóttum afleiðingum af snöggum breytingum á fjárlögum. |